18. Egyptaland – Aswan – Abu Simbel

Borgarrölt
Abu Simbel, Aswan 2

Risastyttur af Ramesses II framan við Abu Simbel

Abu Simbel

Hof Ramsesses II og Nefertari eru syðst í Egyptalandi, 230 km fyrir sunnan Aswan. Þau voru upphaflega höggvin í klett á 13. öld f.Kr. Þegar Aswan-stíflan var reist, voru hofin færð á þann stað, sem þau eru nú. Klettarnir voru sagaðir sundur, fluttir á nýja staðinn og settir þar saman.

Ramesses II lét reisa þessi hof til að frægja orrustu hans við Hittíta í Kadesh, sem raunar lauk ekki með sigri hans, heldur hálfgerðum ósigri eða pattstöðu.

Framan við hofin eru fjórar heimsfrægar risastyttur af Ramesses II, 20 metra háar. Framan við hof Nefertari eru líka fjórar styttur, 10 metra háar, af Ramesses og Nefertari.

Bak við stytturnar eru hofin höggvin í berg.

Abu Simbel, Aswan

Inni í Abu Simbel

Við hverfum aftur til Aswan og tökum flugið til baka til Cairó. Notalegt er að taka fljótabát þessa leið niður Níl og teyga í sig landslagið beggja vegna fljótsins, sem gefur landinu líf.

Abu Simbel, Aswan 3

Forhlið Abu Simbel hofsins