Author Archive

Áfram með Helguvík

Greinar

Menn mega ekki missa móðinn í Helguvíkurmáhnu, þótt Alþýðubandalagið reyni að gera það tortryggilegt. Hinir fyrirhuguðu eldsneytisgeymar hersins á Keflavíkurvelli eru sjálfsagðir og nauðsynlegir.

Upphlaup Alþýðubandalagsins er aðeins til friðþægingar. Því er ætlað að bæta herliðsandstæðingum mótlætið, sem bandalagið hefur valdið þeim á síðustu árum með endurtekinni ríkisstjórnarábyrgð á hernum.

Eldsneytisgeymar hersins eru orðnir gamlir og þreyttir. Þeir standa rétt ofan við byggðina í Ytri-Njarðvík og í nágrenni vatnsbóla bæjarbúa. Af þeim stafar veruleg mengunarhætta, sem ekki má lengur við una.

Þessi hætta liggur að baki krafna sveitarstjórna Njarðvíkur og Keflavíkur um flutning geymanna. Frá þessum aðilum kemur frumkvæðið í málinu, enda er flutningurinn í samræmi við yfirgnæfandi óskir íbúanna.

Þar að auki eru gömlu geymarnir í vegi fyrir eðlilegu bæjaskipulagi Keflavíkur og Njarðvíkur. Hið sama gildir um leiðslurnar, sem liggja frá sjó til geymanna. Byggðafélögin þurfa á þessu landi að halda.

Fundizt hefur álitlegt svæði fyrir nýja geyma í Helguvík, norðan Keflavíkur. Það land má láta herinn hafa í skiptum fyrir landið, sem hann hefur nú til umráða fyrir geyma og leiðslur á gamla svæðinu.

Í Helguvík er hentugt að reisa geyma og olíuhöfn, fjarri fiskvinnslu og mannabústöðum. Enda hefur sérstök nefnd ráðuneytis, bæjastjórna og hers mælt með flutningi eldsneytisgeymakerfisins til Helguvíkur.

Endurnýjun kerfisins fylgir töluverð stækkun, sem ekki er síður sjálfsögð en flutningurinn. Íslendingar hafa hag af sem mestum eldsneytisbirgðum í landinu. Slíkar birgðir eru nauðsynlegur öryggisventill.

Ætlunin er, að Íslendingar geti fengið aðgang að birgðunum á neyðarstund. Við höfum reynslu af, að siglingar með eldsneyti geta riðlazt. Og enginn veit, hvenær við þurfum slíkar birgðir vegna almannavarna.

Utanríkisráðherra hefur sagt, að hann sé ekki búinn að samþykkja alla framkvæmdina. Það er sjálfsagt sagt til að friða Alþýðubandalagið. En það friðar ekki hina, sem vilja birgðastöðina sem fullkomnasta.

Smíði hins nýja kerfis er mikið verk. Talið er, að það taki sjö til tíu ár. Ætlunin er, að þetta gerist í áföngum og að hvern áfanga megi taka í notkun að honum loknum. Þetm virðist skynsamleg stefna.

Æskilegt væri að hafa atvinnumál Suðurnesja í huga við skipulag verksins. Það má gjarnan auka atvinnu svæðisins og auka fjölbreytni hennar, en án þess að raska atvinnuþróun svæðisins, þegar til langs tíma er litið.

Engin ástæða er til að taka mark á Alþýðubandalaginu í máli þessu. Bandalagið getur engan veginn rökstutt samræmi í andstöðu þess við Helguvíkurmálið og ábyrgð þess sjálfs á framhaldi dvalar hersins.

Fallist menn á að hafa her í landinu, verða þeir líka að sjá um, að hann valdi ekki mengun og trufli ekki skipulag byggða. Þeir þurfa líka að sjá um, að herinn gegni hlutverki sínu í almannavörnum. Því þarf miklar birgðir í Helguvík.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Dularfullt kjöthvarf.

Greinar

Kjöthvarfið mikla er sjálfsagt tilefni húsleitar hjá þeim aðilum, sem fá afurðalán og birgðagreiðslur fyrir að geyma kjöt frá því í fyrrahaust. Einföld lögreglurannsókn ætti að leiða hið sanna í ljós.

Samkvæmt skýrslum eiga að vera til í landinu 2000-3000 tonn af dilkakjöti eða um þriggja mánaða birgðir. Enda hefðu ekki verið seld fyrir slikk úr landi 5000 tonn af 1. og 2. flokks kjöti, ef hætta væri á kjötskorti.

Svo ber það allt í einu við, þegar niðurgreiðslur hækka, að dilkakjöt verður allt að því ófáanlegt. Samt ætti að vera mjög erfitt að losna við skráðar birgðir fram að næstu sláturtíð.

Þeir, sem kjötið skammta á Reykjavíkursvæðinu, bera því við, að hinar miklu birgðir hljóti að vera í einhverjum frystihúsum útí á landi. Samt hafa þessar birgðir ekki fundizt og auðvitað ekki fengizt á markað.

Þetta hneykslismál hefur vakið grunsemdir um, að ekki sé allt með felldu. Annaðhvort sé umtalsverður hluti þessa kjöts seldur fyrir löngu eða eigi að bíða eftir hærra verði á nýslátruðu í haust.

Þeir, sem dilkakjötið geyma, þurfa á meðan ekki að endurgreiða afurðalán, sem þeir hafa fengið á lágum vöxtum. Þar á ofan fá þeir greiðslur fyrir kostnað við birgðahald. Þetta kerfi freistar og spillir.

Það er leikur einn að stela peningum með því að tilkynna sölur of seint. Þannig er hægt að liggja á afurðaláni í næstum heilt ár. Og þannig er í næstum heilt ár hægt að fá birgðagreiðslur út á ekki neitt.

Tilefni lögreglurannsóknar er fengið. Stjórnvöld hafa í hundraðasta skipti reynt að falsa vísitöluna með því að hækka niðurgreiðslur á dilkakjöti. Almenningur vill notfæra sér þessa búbót, en grípur í tómt.

Þeir, sem lána afurðalán, og þeir, sem greiða birgðafé, hljóta að vita, hverjum þeir greiða og hversu mikið. Það hlýtur því að vera hægt að finna þriggja mánaða birgðirnar og koma einhverju af þeim í lóg fyrir sláturtíð.

Auðvitað þarf að hafa hraðar hendur í málinu, því að fljótlega verður búið að koma sölu- og birgðatölum í eðlilegt horf. En hér er því miður um forréttindaaðila að ræða, svo að rannsóknin verður víst engin.

Ef svo ólíklega vildi til, að birgðirnar miklu mundu finnast, situr enn eftir grunurinn um, að ætlunin hafi verið að nota þær í kjötvinnslu, þegar nýja verðið er komið á haustslátruðu dilkunum eftir rúman mánuð. Öllum má ljóst vera, að óþarfi er að skammta þriggja mánaða birgðir til rúmlega eins mánaðar neyzlu.

Og öllum má ljóst vera, að 5000 tonn eru ekki gefin til útlanda á kostnað skattgreiðenda til að búa til kjötskort.

Engan veginn dugir að segja, að birgðirnar séu einhvers staðar úti á landi. Ef þær eru til, þá þarf að finna þær og koma þeim til neytenda. Framhald skömmtunar er bara staðfesting á, að um geigvænlegt svindl sé að ræða.

Höfðingjarnir, sem ætluðu að lagfæra vísitöluna með því að leggja fé skattgreiðenda í auknar niðurgreiðslur, eiga nú leikinn. Kjöthvarfið hefur gert þá að fíflum. Þeir geta aðeins rétt hlut sinn með því að finna blessað kjötið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Verndartollur er vögguljóð.

Greinar

Hættuleg er ákvörðun viðskiptaráðherra um 40% verndartoll á innflutt sælgæti og 35% á innflutt kex næstu 18 mánuði. Til eru mun skynsamlegri leiðir til hjálpar innlendum iðnaði í tímabundnum þrengingum.

Sælgætisiðnaðurinn hefur lifað í gróðurhúsi eins og landbúnaður. Fram til 1972 var 100% tollur á sælgæti og jafngilti hann innflutningsbanni. Eftir aðildina að Fríverzlunarsamtökunum fór tollurinn að lækka, unz hann hvarf í ár.

Jafnframt var sett upp kvótakerfi, sem leiddi til 10-20% markaðshlutdeildar hins erlenda sælgætis. Kerfi þetta var mjög spillt. Innflutningsleyfi gengu kaupum og sölum. Nöfnum heildsala og magni hvers var haldið leyndu.

Nú hefur frelsi ríkt í þessari grein í nokkra mánuði. Spillingartengsl embættismanna og vasaheildsala eru horfin. Aukin samkeppni hefur bætt hag neytenda. Fjölbreytni og vöruúrval er meira en áður var.

Um leið hefur erlenda varan tekið markað af hinni innlendu. Mest stafar það af nýjabruminu. Á sínum tíma áttu innlendir framleiðendur í Danmörku í hliðstæðum erfiðleikum um tíma. Þeir sigruðust á þeim og náðu 70% markaðshlutdeild.

Auðvitað eru íslenzk sælgætisfyrirtæki vanbúin að mæta samkeppni eftir óeðlilega mikla vernd um langt skeið. Framleiðni þeirra er tiltölulega lítil, þrátt fyrir góða afkomu árum saman. Framleiðnina þarf að bæta.

Við innreið hinnar erlendu vöru hefur líka komið í ljós, að innlenda framleiðslan er minni máttar í útliti, umbúðum og markaðsmálum. Í gæðum stenzt innlenda varan hins vegar samanburð í flestum tilvikum.

Skynsamlegt væri að veita opinberu fé til að hrinda í framkvæmd sérstökum þróunarverkefnum í kex- og sælgætisgerð, svo sem gert er með góðum árangri í fataiðnaði. Gera þarf innlendu framleiðsluna samkeppnishæfa.

Hinu má ekki heldur gleyma, að hluti vandans er sameiginlegur öðrum iðnaði hér á landi. Það er hin ranga gengisskráning, sem hossar innfluttum vörum á kostnað innlendra. Gengi krónunnar er of hátt skráð.

Mestu máli skiptir, að vandamál atvinnugreina má ekki leysa með því að gera þær að kvígildi á borð við landbúnaðinn. Íslendingar sligast undan honum einum og hafa ekki ráð á fleiri slíkum, allra sízt sælgætisgerð.

Athyglisvert er, að einn angi sælgætisvandans snertir landbúnaðinn. Frá því í byrjun þessa árs hefur sælgætisiðnaðurinn fengið innlent mjólkur- og undanrennuduft á heimsmarkaðsverði til að mæta erlendri samkeppni.

Ríkið borgar þetta eins og aðrar útflutningsbætur. Það sér dálítið eftir peningunum og vill ná þeim inn með tolli. Stjórnvöldum væri þó nær að sjá, að verulegur samdráttur í landbúnaði mundi gera okkur kleift að fá duftið frá útlöndum fyrir slikk.

Tæplega 300 manns hafa atvinnu af framleiðslu sælgætis hér á landi. Við þurfum að stuðla að góðri atvinnu í þessari grein, sem og í kexgerð, en ekki með því að stinga þeim inn í gróðurhús og halda þeim þar.

Viðskiptaráðherra hefur með verndartollinum tekið ranga ákvörðun og skammsýna. Hann þykist hafa verndað hinn innlenda iðnað. Í rauninni er hann að grafa undan honum með því að búa honum gerviloftslag, kveða honum vögguljóð.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Við nálgumst heimsmetið.

Greinar

Nú hefur fjármálaráðherra tækifæri til að efna loforð sitt frá í vetur. Þá lofaði hann leiðréttingu, ef skattar ársins mundu reynast fara fram úr áætlun. Og þeir fara sennilega 4-5 milljarða fram úr.

Ofáætlunin kemur engum á óvart. Löngum hefur það verið plagsiður stjórnvalda að nota skattkerfisbreytingar til að næla sér í aukakrónur. Ekki er raunar laust við, að menn gruni, að sá sé helzti tilgangur sífelldra skattkerfisbreytinga.

Hins vegar er óþarfi að gera ráð fyrir, að fjármálaráðherra efni loforð sitt. Þjóðmálaskúmar leggja ekki í vana sinn að efna loforð. Enda mundi slíkt bara rugla fólk í ríminu. Það gæti þá ekki lengur treyst þeim til ills.

Fyrirætlanir ráðherrans sjást bezt af málgagni hans. Þjóðviljinn hamast við að sýna fram á, að skattar hafi lítið sem ekkert hækkað og séu raunar lægri en víða annars staðar. Blaðið er að venja fólk við.

Í þessu skyni fetar Þjóðviljinn gamlar fölsunarleiðir frá upphafsárum hins pólitíska prósentureiknings. Aðferð blaðsins felst í að nota prósentur af prósentum og segja útkomuna vera prósentur.

Beinir skattar af tekjum greiðsluársins eru sagðir hafa hækkað úr 13,2% í 1 3,9%. Það er hækkun um 0,7 prósentustig, en ekki um 0,7%. Prósentustig eru ekki sama og prósent. Hækkunin er fimm af hundraði eða 5%.

Þar á ofan segja beinir skattar ekki alla söguna um skattbyrðina. Hér á landi eru óbeinir skattar notaðir í vaxandi mæli. Þjóðviljanum dugir því ekki að nota beinu skattana eina til að segja skatta lága á Íslandi.

Samkvæmt tölum OECD, hagþróunarstofnunarinnar, var Ísland árið 1977 í miðjum hópi þróaðra ríkja í þessu efni. Skattbyrðin var þá 40% hér á landi eða nokkru lægri en á Norðurlöndum og nokkrum öðrum ríkjum.

Síðan 1977 hafa nokkrir íslenzkir fjármálaráðherrar bætt um betur. Þeir hafa komið skattbyrðinni upp í 45% af þjóðartekjum. Þar með er hún orðin svipuð og í Finnlandi, Frakklandi, Vestur-Þýzkalandi og Belgíu.

Fyrir ofan eru aðeins Danmörk með 49%, Holland með 52%, Noregur með 55% og Svíþjóð með 61% skattbyrði af þjóðartekjum. Íslenzkir fjármálaráðherrar stefna óðfluga í þessa fríðu sveit heimsmeistara í skattheimtu.

Sumir halda, að mikil skattheimta sé til marks um háþróun. Þeir mættu minnast þess, að í Sviss er skattheimtan ekki nema 33%, í Bandaríkjunum 33% og í Japan 24%, svo að dæmi séu tekin af nokkrum velgengnisríkjum.

Við höfum í nokkur ár búið við stöðnun í þjóðartekjum. Við megum vera fegnir, ef við mætum ekki samdrætti á næstu árum. Vaxandi skattheimta hefur miklu verri afleiðingar við slíkar aðstæður en á uppgangstímum.

Hver ný prósenta í skattheimtu jafngildir minni kaupmætti almennings og hægari uppbyggingu atvinnulífsins. Þessi tvö atriði skipta Íslendinga miklu máli, annars vegar lífskjör líðandi stundar og hins vegar framtíðarinnar.

Ráðamenn okkar taka samneyzlu fram yfir aðra neyzlu og opinbera fjárfestingu fram yfir aðra fjárfestingu. Á þessu ári staðnaðra þjóðartekna eru þeir að auka opinberan rekstur um 2% og opinbera fjárfestingu um 21%.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Lærdómsríkt þorskár

Greinar

Tillögur Steingríms Hermannssonar um auknar takmarkanir á þorskveiði síðustu fimm mánuði ársins eru skynsamlegar, úr því sem komið er. Þær munu leiða til minni veiða þessa mánuði en á sama tíma í fyrra.

Slysið varð á síðustu vetrarvertíð, þegar veitt var langt umfram ráðlegt og hagkvæmt magn. Á hávertíðinni varð strax ljóst, að þorskafli ársins færi langt umfram þau 300.000 tonn, sem skynsamlegt var að veiða.

Ákvörðun stjórnvalda um 350.000 tonna markmið var málamiðlun. Andspænis framtíðarsjónarmiðum fiskifræðinga stóðu stundarhagsmunir útgerðarmanna og sjómanna, svo og atvinnuhagsmunir sumra sjávarplássa.

Í sjálfu sér dugar lítið að gráta 10-15% meiri afla en stefnt var að. Slík frávik hljóta að teljast nægilega nálægt settu marki. Ef aflinn nær ekki 400.000 tonnum, hefur hin markaða stefna staðizt í stórum dráttum.

Veiðitakmarkanir hafa þegar leitt til minni afla í júlí en var í sama mánuði í fyrra. Fjölgun banndaga síðustu fimm mánuði ársins upp í 49 mun vafalaust leiða til minni þorskveiði síðari hluta þessa árs en á sama tíma í fyrra.

Í þorskfriðun er nú mikilvægast að læra af reynslu síðustu vetrarvertíðar og hindra í tæka tíð, að ofveiðin endurtaki sig í næsta skipti. Ljóst er, að takmarkanir verða þá að vera mun strangari en þær voru í ár.

Hinn gífurlega afkastamikli floti bar allt of mikinn þorsk að landi á stuttum tíma á vetrarvertíð þessa árs. Víða höfðu frystihús og aðrar vinnslustöðvar ekki við, enda fór óeðlilega mikill fiskur í annan og þriðja flokk.

Minnkandi gæði spilltu án efa fyrir freðfiskmarkaðinum vestra, þótt sölutregðan stafaði einnig af versnandi kaupgetu Bandaríkjamanna. Kvartanir hrönnuðust upp og álit hinnar íslenzku framleiðslu beið nokkurn hnekki.

Þar á ofan leiddi sölutregða til söfnunar birgða af fiski, sem varð eldri með degi hverjum og þar af leiðandi verri söluvara. Ekki má heldur gleyma hinum gífurlega kostnaði, sem fylgir slíku birgðahaldi.

Frystihúsin fóru að vinna verðminni afurðir, sem hreyfðust betur á markaðnum. Þá fóru skip að sigla meira með afla en heppilegt getur talizt á heitasta árstíma. Einnig tóku menn offramleiðsluáhættu í skreið og saltfiski.

Í neyð var farið að beina veiðinni yfir í karfa, grálúðu og ufsa. Það reyndust vera taprekstrarveiðar, þrátt fyrir uppbótaútgerð. Auðvitað er gaman að geta notað nýja stofna, en einhver fjárhagsleg skynsemi verður þó að vera til.

Af öllu þessu má ljóst vera, að á næstu vertíð verður að tryggja tiltölulega jafna veiði, er sé í samræmi við afkastagetu vinnslustöðvanna, nýtingu aflans í fyrsta flokks hráefni og sölumöguleika á erlendum markaði.

Þar að auki verður þá tímabært að fara að taka mark á tillögum fiskifræðinga um hámarksafla. Við höfum í ár séð, að þær fara saman við afkastagetuna, fyrsta flokks kröfuna og markaðinn. Þær hafa því skammtímagildi.

Mestu máli skiptir þó, að með hóflegri veiði færumst við nær því marki, að þorskstofninn komist i upprunalegt magn. Þegar því framtíðarmarki er náð, getum við stóraukið veiðina, – ef einhver vill kaupa fiskinn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Viðkynningar virði

Greinar

Við horfum allt of lítið til nágranna okkar í vestri, Grænlendinga. Við notfærum okkur ekki einu sinni tveggja stunda og tiltölulega ódýrt flug til Eiríksfjarðar fimm sinnum i viku að sumarlagi og greiðar samgöngur þaðan um Eystribyggð.

Grænlendingar eru þægilegir í viðmóti við Íslendinga. Þeir vita margir, að Íslendingar fengu heimastjórn hjá dönsku krúnunni á sínum tíma, síðan fullveldi og loks aðskilnað. Og þeir eru sjálfir nýbúnir að fá heimastjórn.

Af þessum ástæðum og ýmsum öðrum telja margir Grænlendingar, að sumt megi læra af Íslendingum. Við getum áreiðanlega veitt þeim þróunaraðstoð, án þess að hafa nein afskipti af vaxandi spennu milli Danmerkur og Grænlands.

Engin leið er að komast hjá því að sjá, að Danahatur fer vaxandi í Grænlandi, einkum hjá ungu fólki. Það kýs jafnvel fremur að gera sig skiljanlegt við Íslendinga á lélegri ensku en sæmilegri dönsku.

Grænlenzka þjóðfélagið er rekið með miklu tapi, sem danska ríkið greiðir. Danir telja sig hafa kostnað og óþægindi af því að hjálpa Grænlendingum að þróast í átt til menntaðs velferðarþjóðfélags.

Grænlendingar telja aftur á móti, að Danir séu að reyna að hagnýta sér Grænland og auðlindir þess, olíu, ótal málma og fisk. Enn mun vera óljóst, hvort og að hve miklu leyti er hægt að nýta olíu og málma.

Ljóst er, að Grænlendingar mynda undirþjóð í eigin landi. Þeir eru að vísu nýlega búnir að fá sömu laun fyrir sömu vinnu. En Danir skipa flestar beztu stöðurnar. Og sárafáir Grænlendingar stunda háskólanám.

Og það er kannski einmitt háskólanám, sem við getum boðið Grænlendingum upp á sem þróunaraðstoð af okkar hálfu. Við getum ekki frætt þá um vinnslu olíu og málma, en á ýmsum öðrum sviðum getum við veitt gagnlega menntun.

Fyrir Grænlendinga er styttra að fara til Íslands í skóla en til Danmerkur. Þar að auki eru viðbrigðin minni hér. Reykjavík er smærri í sniðum en Kaupmannahöfn og hefur minna að segja af ýmsum vandamálum nútímans.

Búast má við, að spennutímar séu framundan í stjórnmálum Grænlands. Unga fólkið mun nota heimastjórnina til að krefjast aukins sjálfstæðis. Að baki liggur vonin um, að olía og málmar muni færa björg í bú.

Á slíkum tímum er við grænlenzkar aðstæður nauðsyn á hraðvaxandi menntun. Við getum veitt hluta hennar og það án þess að verða sakaðir um annarlegan áhuga, tíl dæmis á olíu og málmum. Við getum veitt fræðslu, án spennu.

Svo getur farið, að næsta skref Grænlendinga verði að losna úr Efnahagsbandalaginu, sem er að misþyrma fiskimiðum þeirra. Slíkt skref kallar á samstarf bandalagslausu þjóða svæðisins, Færeyinga, Grænlendinga, Íslendinga og Norðmanna.

Þannig geta fiskimál og fræðslumál fært Íslendinga og Grænlendinga nær hvor öðrum. Sviðin kunna vel að vera fleiri. Aðalatriðið er, að nágrannar eiga að kynnast hver öðrum og móta með sér spennulaust samstarf.

Þegar menn þiggja kaffi og kökur á snyrtilegu heimili grænlenzks fjárbónda í óravega einangrun við skriðjökla hins forna Ísafjarðar, átta menn sig á, að Grænlendingar eru fólk, sem er viðkynningar virði.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hvernig stendur á þessu?

Greinar

Þeir, sem starfs síns vegna ættu að hafa áhuga á vísindum skoðanakannana, eru komnir að krossgötum. Tími er til kominn, að þeir hætti að hafa aðferð Dagblaðsins á hornum sér og fari að hugleiða, hvernig standi á árangri hennar.

Skoðanakannanir Dagblaðsins fyrir kosningar hafa nú sannað hagnýtt gildi sitt fjórum sinnum í röð á rúmlega tveimur árum. Þær hafa alltaf reynzt nokkurn veginn réttar. Og sú síðasta var svo nákvæm að jaðra hlýtur við heimsmet.

Það væri verðugt viðfangsefni að kanna, hvers vegna símakannanir, sem víða erlendis gefast illa, gefast svona vel hér á landi. Þar með gæti fundizt ódýr leið til víðtækari félagsfræðiathugana en hingað til hafa verið stundaðar hér.

Þegar hringt er eftir ákveðnu kerfi úr símaskránni endilangri, unz náðst hefur tiltekinn fjöldi, sem svarar í símann og er á kosningaaldri, hefur náðst 100% úrtak. Fróðlegt væri að bera þetta saman við 65-80% árangur úr þjóðskrá.

Búsetuskekkju símakannana Dagblaðsins er bægt frá með því að hringja misþétt í þrjá hluta skrárinnar, Reykjavíkursvæðið, sjálfvirka svæðið og strjálbýlið. Með þessum einfalda hætti næst jöfn dreifing um landið í heild.

Skekkju milli kynja er bægt frá með því að spyrja jafnmarga af hvoru. Einnig með því að hringja um kvöld og helgar. Á þennan hátt er komið í veg fyrir, að mismikil heimavera kynja hafi áhrif á niðurstöðutölurnar.

Skekkju milli aldurshópa væri hægt að bægja frá með því að gefa þeim svipaðan kvóta og gert er milli kynja. Þetta hafa Dagblaðsmenn oft hugleitt, en aldrei lagt í að framkvæma. Hér væri um hugsanlega endurbót að ræða.

Trúin á mikilvægi nálægðar við hina hreinu tilviljun hefur hingað til komið í veg fyrir, að Dagblaðið tæki upp tiltölulega margliða kvótaskiptingu aldurshópa til viðbótar einfaldri kvótaskiptingu kynja og búsetu.

Stærsta rannsóknarefnið felst þó í tveimur spurningum: Hverjir eru ekki nálægt skráðum heimilissíma eða ekki fyrstir til að svara í slíka síma? Að hvaða leyti hafa þeir aðrar skoðanir en hinir, sem könnunin nær í?

Líklegt er, að símakönnun nái tiltölulega illa til sjómanna, farmanna og farandverkafólks. Einnig kvöld-, helgar- og vaktavinnufólks. Ennfremur fólks á stofnunum á borð við elliheimili og sjúkrahús. Og loks fólks í útlöndum, svo sem námsmanna, kaupsýslumanna og sólarstrandafólks.

Að hvaða leyti hafa þessir hópar samanlagðir aðrar skoðanir en hinir hóparnir samanlagðir? Reynzla skoðanakannana Dagblaðsins bendir til lítils eða einskis munar. Aftur á móti eru hinar vísindalegu orsakir þess ekki kunnar.

Á þessu sviði er verk að vinna fyrir íslenzka félagsfræðinga. En fyrst þurfa þeir að sigrast á þeim fordómi, að íslenzk símaskrá sé sami hlutur og erlend símaskrá eða hljóti að vera það.

Ennfremur þurfa þeir að hætta að útskrifa svokallaða sérfræðinga, sem telja vísindalegt að skipta litlu úrtaki í svo ótal margar skúffur, að mjög fáir menn lendi í sumum skúffunum. Slíkt böl hefur tröllriðið skoðanakönnunum Vísis.

Auðvitað er hart aðgöngu, að skoðanakönnun lánist því aðeins, að sérfræðingum sé þar hvergi hleypt nærri. En vilji reynslan ekki laga sig að vísindunum, verða vísindin að laga sig að reynslunni. Hún ein veit, hvað eru vísindi og hvað er þoka.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Fremur Carter en Reagan.

Greinar

Stjórnmál í Bandaríkjunum skipta Íslendinga máli eins og aðra Vestur-Evrópumenn. Bandaríkin eru fjölmennasta ríki vestræns samstarfs. Þar á ofan hafa þau lengi annazt forustu öryggismála í þessu samstarfi.

Okkur varða einnig stjórnmál í öðrum nálægum ríkjum, einkum á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu . Við leggjum þjóða mest upp úr utanríkisverzlun. Sú staðreynd ein veldur því, að ákvarðanir í öðrum ríkjum hafa áhrif á okkar hag.

Ekkert eitt ríki vegur þyngra á metunum en einmitt Bandaríkin. Það er því eðlilegt, að við fylgjumst vel með mikilvægasta þætti bandarískra stjórnmála, vali forseta á fjögurra ára fresti. Og það val stendur nú fyrir dyrum.

Núverandi Bandaríkjaforseti hefur sætt harðri gagnrýni, meðal annars af hálfu leiðtoga í Vestur-Evrópu. Til dæmis hefur kanzlari Vestur-Þýzkalands jafnan átt erfitt með að dylja vantrú sína á Jimmy Carter.

Forsetinn er sagður reikull í ráði, ekki sízt í utanríkismálum. Enda hefur hann hvað eftir annað mátt sæta því, að leiðtogar í Vestur-Evrópu hafa fetað aðrar brautir en þær, sem hann hefur viljað marka.

Gagnrýni þessi er bæði ýkt og ósanngjörn. Carter er heiðarlegur utangarðsmaður og hefur sem slíkur orðið vestrænu samstarfi til góðs. Þegar upp er staðið, er ekki víst, að Helmut Schmidt fái betri eftirmæli.

Vestur-Þýzkaland hefur til dæmis byggt upp stórfellda viðskiptahagsmuni í Sovétríkjunum. Þessum hagsmunum fylgja fjötrar, sem meðal annars hafa komið fram í afstöðunni til Afganistan. Á þetta hefur of lítið verið bent.

Vonandi opnast augu bandarískra kjósenda fyrir kostum Carters, þegar þeir fara í alvöru að bera hann saman við keppinautinn, Ronald Reagan. Þótt Reagan sé ekki eins einstrengingslegur og af er látið, fylgja honum vandamál.

Með forseta úr flokki repúblikana fylgir hætta á endurnýjuðum völdum vandræðamannsins Kissingers, sem ímyndar sér, að hægt sé að múta Sovétstjórninni með viðskiptum til að haga sér sæmilega á alþjóðavettvangi.

Þar á ofan er líklegt, að Reagan, með eða án Kissingers, mundi leggja niður þá siðavendni gagnvart glæpamönnum í þriðja heiminum, sem fylgt hefur Carter. Reagan mundi til dæmis styðja hægri sinnaða herforingja í Bólivíu.

Það er dæmigert fyrir ástandið í bandaríska repúblikanaflokknum, að á landsfundinum fékk Kissinger mikið klapp þegar hann flutti ræðu, þar sem hann meðal annars lýsti ráðamönnum Nicaragua sem andamerískum róttæklingum.

Staðreyndin er sú, að Carter hefur fylgt siðræn reisn, sem hefur eflt innri styrk vestrænna manna í samanburðinum við Sovétríkin og fylgiríki þeirra. Carter hefur stuðlað að vissu okkar um réttmæti hins vestræna málstaðar.

Þessu gæti Reagan hæglega spillt með beinum og óbeinum stuðningi við hægri sinnuð fól í þriðja heiminum, einkum í Mið- og Suður-Ameríku. Svo virðist sem harðlínumenn repúblikana telji sig eiga þann heimshluta.

Mestu máli skiptir þó, að forseti á síðara kjörtímabili er betri en á hinu fyrra. Hann þarf ekki að hafa vinsældir sínar í huga, þegar hann tekur ákvarðanir. Þess vegna er Jimmy Carter betri kostur en Ronald Reagan.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Næstum rétt er ekki nóg.

Greinar

Kjósendur verða að geta treyst því, að kjörstjórnir og yfirkjörstjórnir vinni störf sín af fyllsta drengskap og nákvæmni. Það er einfaldlega einn hornsteina lýðræðisins, að rétt séu talin atkvæði í kosningum.

Áhorfendur að talningu atkvæða í Reykjavík hafa stundum dáðst að nákvæmninni, sem þar ríkir. Klukkustundum saman er reynt að ná samræmi í skrám og seðlum og ekki gefizt upp fyrr en öll kurl eru komin til grafar.

Atkvæðin 200, sem fóru forgörðum í Reykjaneskjördæmi í forsetakosningunum, valda hins vegar áhyggjum. Það er ljóst, að yfirkjörstjórnin þar þarf að breyta vinnubrögðum til að hindra, að slíkt komi fyrir aftur.

Sem betur fer réðu þessi atkvæði ekki úrslitum. Í alþingiskosningum og enn frekar í sveitarstjórnarkosningum er hins vegar algengt, að svona fá atkvæði og enn færri ráði úrslitum. Því má engan skugga bera á talningu.

Yfirkjörstjórnarmenn á Reykjanesi neita því, að í stjórninni hafi komið fram hugmynd um að halda slysinu leyndu. Sumir umboðsmenn frambjóðenda telja þó, að svo hafi verið. Málið væri þá mun alvarlegra en ella.

Þetta tilefni gefur tækifæri til endurskoðunar á starfi kjörstjórna og yfirkjörstjórna um land allt og hugsanlega einhverra mannaskipta í þessum stjórnum. Um þau mál mega þeir einir véla, sem taka þau í fullri alvöru.

Í næstu kosningum verður hver einasti kjósandi að geta treyst því, að atkvæði hans komist til skila á eðlilegan hátt. Og þjóðin þarf að geta treyst því, að niðurstöður kosninganæturinnar séu hárnákvæmar.

Einokun varð uppiskroppa.

Hvítkál og rófur eru um þessar mundir að koma aftur í búðir eftir nokkurt hlé. Hluti síðustu sendingar skemmdist og Grænmetisverzlun landbúnaðarins fannst ekki taka því að brúa bilið, unz íslenzka varan væri tilbúin.

Engum dettur í hug, að epli og appelsínur geti horfið úr verzlunum á þennan hátt. Það væri þá aðeins í verkföllum eða öðrum slíkum uppákomum utan valdsviðs þeirra, sem hafa tekið að sér að flytja ávexti til Íslands.

Munurinn felst auðvitað í, að verzlun með ávexti er frjáls, en verzlun með grænmeti ófrjáls. Grænmetisverzlun landbúnaðarins hefur einokun á innflutningi og sölu grænmetis og getur hagað sér eins og henni sýnist.

Þessi einkasala er sífellt að minna neytendur á, að þeir séu réttlausir aumingjar. Enda er hvergi á Vesturlöndum eins lítið og lélegt framboð á grænmeti og einmitt hér á landi. Erlendis er þessi verzlun auðvitað frjáls.

Þeir, sem starfa í skjóli einokunar, verða værukærir og nenna ekki að sinna viðskiptamönnum sínum. Þeir hafa ekki aðhaldið, sem frjálsi markaðurinn veitir. Og þá skortir virðingu frjálsa markaðarins fyrir neytendum.

Illræmdust eru kartöfluviðskipti Grænmetisverzlunar landbúnaðarins. Oft hefur hún verið staðin að því að kaupa lélegar kartöflur, þegar góðar hafa fengizt. Einnig að því að kaupa dýrar kartöflur, þegar ódýrar hafa fengizt.

Vegna einokunarinnar hafa Íslendingar í meira mæli en nágrannaþjóðirnar farið á mis við hollustu grænmetis. Ekkert mælir gegn því, að þessi verzlun verði gefin frjáls, eins og verzlun með ávexti.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Markleysa í Höfn.

Greinar

Kvennaráðstefnan í Kaupmannahöfn er eitt dæmi af mörgum um, að samstarf þjóða innan Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra er meira eða minna að fara í hundana. Því valda annarleg sjónarmið meirihluta ráðamanna heimsins.

Tæpast er svo haldin ráðstefna á vegum þessara samtaka, að umræður snúist ekki einkum um Ísrael og Suður-Afríku. Af kvennaráðstefnunni má ætla, að Egyptaland sé komið í hóp þessara óvinsælu ríkja, sem kjafta skal í hel.

Athyglisvert er, að á ráðstefnunni varð ekkert hliðstætt uppistand út af Íran, þar sem kvenréttindi hafa markvisst verið skert á valdaskeiði erkiklerksins Khomeini. Þar í landi blasir nú miðaldamyrkur við konum.

Stjórnarfari og stjórnarstefnu er án efa að ýmsu leyti ábótavant í Egyptalandi, Ísrael og Suður-Afríku. Það er þó hátíð í samanburði við hliðstæð vandamál í ríkjum þeirra sendinefnda, sem mest gaspra á ráðstefnum.

Þar á ofan er sérdeilis lítil ástæða til að taka lönd sem þessi í gegn á kvennaráðstefnu. Til dæmis má nefna, að staða kvenna er betri í Egyptalandi en í öðrum ríkjum múhameðstrúar, líka þeim sem klerkar ráða ekki.

Staðreyndin er sú, að meirihluti ráðamanna heimsins hefur ekki áhuga á hinum vestrænu leikreglum, sem upphaflega áttu að vera hornsteinn Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra. Stofnskrár eru því marklaus pappírsgögn.

Í einum flokki eru Sovétríkin og fylgiríki þeirra. Þar er eingöngu litið á starfið í alþjóðlegum samtökum sem lið í valdatafli heimsmálanna. Í því skyni er játazt undir ýmis hugtök, sem reynast svo túlkuð þveröfugt.

Í öðrum hópi eru flest ríki múhameðstrúar, þar sem ráðamenn hafa ekki fremur en sovézkir áhuga á mannréttindum og mannfrelsi, þar á meðal kvenréttindum og kvenfrelsi, og nenna síður að breiða yfir það.

Í þriðja hópnum eru svo mörg ríki þriðja heimsins, þar sem ráðamenn líta á fólk sitt sem þræla til að standa undir gífurlegum yfirstéttarlúxus og svissneskum bankareikningum. Þetta er fjölmennasti þrýstihópurinn.

Þessi þriðji hópur hefur með nokkurri aðstoð hinna tveggja tekið völdin í UNESCO, menntastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þar stefnir hann að útilokun vestrænna fréttastofa og skrásetningu vestrænna fréttamanna í þriðja heiminum.

Markmiðið er að útiloka vondu fréttirnar af græðgi og grimmd valdhafa þriðja heimsins og koma á framfæri áróðri um guðdómlega vizku og gæzku þeirra valdhafa, sem reynzt hafa fólki sínu mun verr en nýlenduherrarnir gömlu.

Greinilegt er á ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna, að þar er aldrei snert á neinu, sem einhverjum hinna þriggja þrýstihópa er viðkvæmt. Um það ríkir þegjandi samkomulag austurs, Íslams og þriðja heimsins.

Þrýstihóparnir þrír eiga mjög erfitt með að nota alþjóðasamstarfið til að fjalla um ávirðingar hins vestræna heims. Þær eru nefnilega svo litlar, að ekki er hægt að gaspra lengi um þær, án þess að til samanburðar komi.

Sameiningartákn þrýstihópanna eru Ísrael og Suður-Afríka og nú síðast Egyptaland. Kvennaráðstefnan í Kaupmannahöfn er bara eitt dæmi af mörgum um, að málefni verða að víkja fyrir valdastreitu.

En hvenær snúast Vesturlönd til varnar?

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Niðurgreiðslur valda verðbólgu

Greinar

Efnahagsfræðingar ríkisstjórnarinnar eru heldur betur á villigötum, ef þeir telja auknar niðurgreiðslur vera nytsama aðferð í baráttunni gegn verðbólgu. Þá setja þeir einföld og marklaus reikningsdæmi ofar raunveruleikanum.

Þeim lízt auðvitað ekki á, að verðbólgan hækki kaupið um rúm 9% 1. september. Þeir telja sig geta lækkað töluna niður í rúm 7% með því að auka niðurgreiðslur landbúnaðarvöru síðari hluta ársins um rúma tvo milljarða króna.

Millifærslur af þessu tagi hafa verið helzta úrræði allra ríkisstjórna landsins síðustu áratugi. Fullorðnir menn, sumir hverjir lærðir, hafa ímyndað sér, að tilfærsla á tölum milli vasa sé þjóðráð gegn verðbólgu.

Niðurgreiðslur eru gott dæmi um millifærslur, sem í rauninni er beint gegn afleiðingum verðbólgu, en ekki orsökum verðbólgu. Þær geta linað þjáningar sjúklingsins í bili, en fela ekki í sér neina lækningu til frambúðar.

Árlegar niðurgreiðslur eru þegar komnar í rúma 25 milljarða króna. Hin nýju úrræði, sem efnahagssérfræðingar ríkisstjórnarinnar eru að velta fyrir sér, munu koma niðurgreiðslunum upp í rúma 27 milljarða á þessu ári.

Þessar hrikalegu millifærslur hafa skekkt verðlagið í landinu og falið fyrir mönnum offramleiðsluna í landbúnaði. Þannig eru þær ein af rótum ófarnaðar okkar í efnahagsmálum og þá um leið hinnar séríslenzku verðbólgu.

Ef engar hefðu verið niðurgreiðslur hér á landi, væri neyzla kindakjöts og mjólkurvöru í eðlilegu jafnvægi. Þá stæðum við ekki andspænis tilbúnum markaði, sem getur hrunið hvenær sem er, og sem fer raunar senn að hrynja.

Þá hefðu ekki verið markaðsaðstæður til að hvetja til gegndarlausrar fjárfestingar í landbúnaði. Þá hefðu landsfeður farið varlegar í sjálfvirka styrki og sjálfvirk lán og notað þetta fé til nytsamlegri þarfa.

Síðustu áratugi hafa gífurleg verðmæti farið forgörðum í vitlausri fjárfestingu í landbúnaði. Þar á ofan hefur þessi sóun leitt til gífurlegs kostnaðar við að koma í lóg afleiðingunum, offramleiðslu landbúnaðarafurða.

Þessi stefna er ekki einasta orsök hinnar séríslenzku verðbólgu. En hún er ein af mikilvægustu orsökunum. Þetta mættu efnahagssérfræðingar nú hafa í huga, þegar þeir vilja enn auka niðurgreiðslur landbúnaðarafuröa.

Kílóið af smjöri kostar kaupandann 3.666 krónur sem neytanda og 2.180 krónur sem skattgreiðanda. Samtals kostar kílóið 5.846 krónur, sem er sjö sinnum hærra en heimsmarkaðsverð á einu kílói af smjöri, 865 krónur.

Smjörfjall Efnahagsbandalagsins vex stöðugt og mun vaxa stöðugt, þrátt fyrir gífurlegar sölur þess á smjöri fyrir 865 krónur kilóið. Við gætum notfært okkur þetta, ef við hefðum ekki landbúnaðinn á bakinu.

Auðvitað er verð bandalagsins lægra en framleiðslukostnaðurinn, sem er 1.238 krónur kílóið. Ef við berum þá tölu saman við 5.846 krónurnar, sem kostar að framleiða smjör hér á landi, sjáum við ógöngur stefnunnar.

Ef hætt yrði að lána og gefa fé til fjárfestingar í landbúnaði, væri um leið höggvið að rótum verðbólgunnar. Ef niðurgreiðslur landbúnaðarafurða verða auknar, er hins vegar efnt til aukinnar verðbólgu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Eggin núna, fiskurinn næst?

Greinar

Forvígismenn hins hefðbundna landbúnaðar gætu auðveldlega látið sér detta í hug, að offramboð sé á fiski til neyzlu innanlands. Í þeirra augum er offramboð á öllu, sem menn geta borðað í stað kindakjöts og mjólkur.

Auðvitað er hægt að spilla fyrir því, að menn borði fisk. Í fyrsta lagi mætti setja upp ríkiseinkasölu á fiski. Og í öðru lagi mætti leggja sérstakan skatt á smásölu á fiski til neyzlu innanlands.

Spurningin er þá sú, hvort minni fiskneyzla mundi leiða til meiri notkunar á kindakjöti og mjólkurvörum. Það er einmitt draumur landbúnaðarstjóranna að leysa söluvanda þessara afurða á kostnað annarra matvæla.

Sumum kann að finnast þessar hugleiðingar um fiskinn út í hött. Við höfum þó dæmi um, að talsmaður Stéttarsambands bænda heldur því fram, að offramleiðsla sé á eggjum og svínakjöti.

Talsmaðurinn hefur eins og aðrir landbúnaðarstjórar mikla óbeit á þessari framleiðslu. Hann telur hana vera samkeppni við hina hefðbundnu framleiðslu á kindakjöti og mjólkurvörum.

Stefna þessara manna er sú, að fóðurbætisskattur hækki svo verð á eggjum, kjúklingum og svínakjöti, að neytendur snúi sér í meira mæli en áður að kindakjöti og mjólkurvörum.

Ríkisstjórnin hafði áformað, að fóðurbætisskatturinn drægi úr framleiðslu á kindakjöti og mjólkurafurðum og minnkaði þörfina á kvótakerfi í þeim greinum. Hún fól landbúnaðarstjórunum að framkvæma málið.

Það er svo önnur saga, hvernig ráðherrum gat dottið í hug, að fóðurbætisskattur mundi draga að gagni úr framleiðslu á kindakjöti. Einhverjir skemmtilegir sérfræðingar hafa staðið að baki þeim áætlunarbúskap!

Ekki var það ætlun stjórnvalda að beina fóðurbætisskattinum gegn framleiðslu eggja, kjúklinga og svínakjöts. Forvígismenn hins hefðbundna landbúnaðar hafa hins vegar ákveðið að framkvæma skattinn á þann hátt.

Óvíst er um framvindu málsins. Ráðherra landbúnaðarmála er nýkominn aftur til landsins. Líklegt má telja, að hann reyni að halda aftur af forvígismönnum hins hefðbundna landbúnaðar, ef það verður þá yfirleitt hægt.

Alténd stöndum við nú andspænis fóðurbætisskatti, sem dregur lítið úr framleiðslu styrkjavöru á borð við kindakjöt, en dregur verulega úr sölu á vörum, sem þurfa enga styrki, niðurgreiðslur né útflutningsuppbætur.

Framleiðsla eggja, kjúklinga og svínakjöts er gjaldgeng framleiðsla hér á landi. Hún fer ekki fram á kostnað skattgreiðenda. Verð afurðanna er háð framboði og eftirspurn. Það er von, að landbúnaðarstjórar séu bitrir.

Þessir menn hafa skipulagt gífurlega offramleiðslu á kindakjöti og mjólkurvörum með sjálfvirku kerfi fjárfestingarlána, styrkja, niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta. Þessi offramleiðsla er meiri en menn sjá.

Með niðurgreiðslunum hefur neyzlunni verið beint til kindakjöts og mjólkurvara og frá gjaldgengum matvælum á borð við egg, kjúklinga og svínakjöt. Neyzluvenjur Íslendinga hafa verið skekktar með þessum hætti.

Landbúnaðarstjórum þykir þetta ekki nóg. Í þeirra augum eru af hinu illa öll þau matvæli, sem menn láta inn fyrir sínar varir, önnur en kindakjöt og mjólkurvörur. Nú ráðast þeir að eggjum, kjúklingum og svínakjöti, næst að fiski.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hálfgildings hugljómun

Greinar

Skyndileg kúvending ríkisstjórnarinnar úr kvótakerfi landbúnaðar i fóðurbætisskatt felur í sér hugljómun, sem vonandi verður fordæmi víðtækari aðgerða, ekki aðeins í landbúnaði, heldur á ýmsum öðrum sviðum offramleiðslu.

Kvótakerfið var eins konar rýtingur í bak bænda. Áratugum saman höfðu þeir verið hvattir til sem mestrar framleiðslu. Til þess var beitt miklu kerfi styrkja og lána, samhliða sjálfvirkum niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum.

Að vísu var þetta offramleiðslukerfi byggt upp að kröfu samtaka landbúnaðarins. Eigi að síður er ósiðlegt að neita skyndilega að borga nema smámuni fyrir hluta af framleiðslu bænda, þegar greiðslugeta ríkissjóðs þverr.

Ríkisvaldið ber ábyrgð á offramleiðslukerfi landbúnaðarins. Allir stjórnmálaflökkar hafa staðið að vexti þess og viðgangi. Þess vegna bera þessir aðilar töluverða ábyrgð á, hvernig komið er fyrir bændum um þessar mundir.

Sumir bændur, bæði frumbýlingar og aðrir, hafa staðiö í miklum framkvæmdum í skjóli styrkja- og lánakerfisins. Ef kvótakerfi kemur síðan og minnkar framleiðslu þeirra og tekjur, er hætt við, að þeir hengist í vöxtum og afborgunum.

Auðvitað er þjóðinni lífsnauðsyn að draga sem mest úr landbúnaði og miklu meira en nokkrum stjórnmálaflokkí hefur enn dottið í hug. En það má ekki gera það með tilfinningasljóum aðferðum, sem valda persónulegum harmleikjum.

Kvótakerfið fór aftan að hlutunum. Með því var byrjað á endanum. Hinn nýi fóðurbætisskattur er hins vegar ein af mörgum leiðum, þar sem byrjað er á byrjuninni, komið framan að hlutunum. Því ber að fagna sinnaskiptunum.

Fóðurbætisskatttuinn er spor í rétta átt, þótt hann varði eingöngu mjólkurvöru. Hann veldur því, að hændur hugsa sig um tvisvar fyrr en þeir mundu hafa gert í kvótakerfi. Þeir reisa sér síður hurðarás um öxl. Samt verður hann framkvæmdabændum þungur í skauti.

Enn betra hefði verið að leita alveg til upphafsins, hinnar óhóflegu fjárfestingar í landbúnaði. Það, sem raunverulega á að skera niður, er hið fullkomlega sjálfvirka kerfi styrkja og lána til framkvæmda.

Hugljómun ríkisstjórnarinnar náði aðeins til fóðurbætisskattsins, enda er auðvelt að skilja hann og fylgja hugsuninni á leiðarenda. Hann hefur snögg áhrif og aflar fimm milljarða króna í útflutningsuppbætur.

Niðurskurður styrkja og lána til framkvæmda í landbúnaði er hins vegar aðferð, sem er hægfara i fyrstu. Til langs tíma er það þó mun öflugra tæki gegn offramleiððslunni. Og sú leið frelsar ekki síður milljarða.

Sterklega kæmi til greina að beita í senn fóðurbætisskatti og niðurskurði styrkja og lána. Með því mætti spara nægilegt fé til að gera leifar kvótakerfisins alveg óþarfar. Sú leið er í senn mannleg og hagkvæm.

Auðvitað er ekki hægt að ætlast til, að stjórnmálamenn sjái allt ljósið í einu, enda hefur því aðeins verið haldið á lofti í áratug. Og þeir virðast hafa hug á að klúðra málinu, t.d. með því að láta skattinn leiða til hækkunar verðs á eggjum, svínakjöti og kjúklingum.

Og svo væri einkar gott fyrir þjóðina, ef eitthvað af þessari hugljómun skini inn til hinna, sem ráða sjávarútvegi og eru sannfærðir um, að sem flóknast kvótakerfi sé skárra en sala veiðileyfa.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hvernig stendur á þessu?

Greinar

Þeir, sem starfs síns vegna ættu að hafa áhuga á vísindum skoðanakannana, eru komnir að krossgötum. Tími er til kominn, að þeir hætti að hafa aðferð Dagblaðsins á hornum sér og fari að hugleiða, hvernig standi á árangri hennar.

Skoðanakannanir Dagblaðsins fyrir kosningar hafa nú sannað hagnýtt gildi sitt fjórum sinnum í röð á rúmlega tveimur árum. Þær hafa alltaf reynzt nokkurn veginn réttar. Og sú síðasta var svo nákvæm, að jaðra hlýtur við heimsmet.

Það væri verðugt viðfangsefni að kanna, hvers vegna símakannanir, sem víða erlendis gefast illa, gefast svona vel hér á landi. Þar með gæti fundizt ódýr leið til víðtækari félagsfræðiathugana en hingað til hafa verið stundaðar hér.

Þegar hringt er eftir ákveðnu kerfi úr símaskránni endilangri, unz náðst hefur tiltekinn fjöldi, sem svarar í símann og er á kosningaaldri, hefur náðst 100% úrtak. Fróðlegt væri að bera þetta saman við 65-80% árangur úr þjóðskrá.

Búsetuskekkju símakannana Dagblaðsins er bægt frá með því að hringja misþétt í þrjá hluta skrárinnar, Reykjavíkursvæðið, sjálfvirka svæðið og strjálbýlið. Með þessum einfalda hætti næst jöfn dreifing um landið i heild.

Skekkju milli kynja er bægt frá með því að spyrja jafnmarga af hvoru. Einnig með því að hringja um kvöld og helgar. Á þennan hátt er komið í veg fyrir, að mismikil heimavera kynja hafi áhrif á niðurstöðutölurnar.

Skekkju milli aldurshópa væri hægt að bægja frá með því að gefa þeim svipaðan kvóta og gert er milli kynja. Þetta hafa Dagblaðsmenn oft hugleitt, en aldrei lagt í að framkvæma. Hér væri um hugsanlega endurbót að ræða.

Trúin á mikilvægi nálægðar við hina hreinu tilviljun hefur hingað til komið í veg fyrir, að Dagblaðið tæki upp tiltölulega margliða kvótaskiptingu aldurshópa til viðbótar einfaldri kvótaskiptingu kynja og búsetu.

Stærsta rannsóknarefnið felst þó í tveimur spurningum: Hverjir eru ekki nálægt skráðum heimilissíma eða ekki fyrstir til að svara í slíka síma? Að hvaða leyti hafa þeir aðrar skoðanir en hinir, sem könnunin nær í?

Líklegt er, að símakönnun nái tiltölulega illa til sjómanna, farmanna og farandverkafólks. Einnig kvöld-, helgar- og vaktavinnufólks. Ennfremur fólks á stofnunum á borð við elliheimili og sjúkrahús. Og loks fólks í útlöndum, svo sem námsmanna, kaupsýslumanna og sólarstrandafólks.

Að hvaða leyti hafa þessir hópar samanlagðir aðrar skoðanir en hinir hóparnir samanlagðir? Reynsla skoð- anakannana Dagblaðsins bendir til lítils eða einskis munar. Aftur á móti eru hinar vísindalegu orsakir þess ekki kunnar.

Á þessu sviði er verk að vinna fyrir íslenzka félagsfræðinga. En fyrst þurfa þeir að sigrast á þeim fordómi, að íslenzk símaskrá sé sami hlutur og erlend símaskrá eða hljóti að vera það.

Ennfremur þurfa þeir að hætta að útskrifa svokallaða sérfræðinga, sem telja vísindalegt að skipta litlu úrtaki í svo ótal margar skúffur, að mjög fáir menn lendi í sumum skúffunum. Slíkt böl hefur tröllriðið skoðanakönnunum Vísis.

Auðvitað er hart aðgöngu, að skoðanakönnun lánist því aðeins, að sérfræðingum sé þar hvergi hleypt nærri. En vilji reynslan ekki laga sig að vísindunum, verða vísindin að laga sig að reynslunni. Hún ein veit, hvað eru vísindi og hvað er þoka.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Fjórfalt “glópalán”?

Greinar

Margumtöluð áhrif skoðanakannana gætu meðal annars falizt í, að þær efldu fylgi þeirra frambjóðenda, sem hæstir eru hverju sinni. Til dæmis var haldið fram, að þær mundu draga fylgi frá Pétri til Guðlaugs í forsetakosningunum.

Engin slík sveifla kom í ljós frá birtingu skoðanakönnunar Dagblaðsins til úrslita sjálfra kosninganna. Fylgi forsetaefnanna var í kosningunum nokkurn veginn nákvæmlega hið sama og það hafði verið í skoðanakönnuninni.

Kjósendur höfðu ekki skipt um frambjóðendur til að veðja á sigurvegara. Þegar til kastanna kom, deildust meira að segja hinir óákveðnu í skoðanakönnuninni í sömu hlutföllum milli frambjóðenda og hinir ákveðnu.

Það kom í ljós, að fólk notar ekki skoðanakannanir til að hlaupa sjálft í sömu átt og þær. Fólk notar þær bara eins og hverjar aðrar fréttir, upplýsingar um stöðu mála. Kjósendur nota skoðanakannanirnar á réttan hátt.

Þar á ofan koma skoðanakannanir sem upplýsingar í veg fyrir, að óprúttnir kosningastjórar geti með verulegum sannfæringarkrafti logið til um fylgi og framgang frambjóðenda sinna. Þannig þjóna þær sannleikanum.

Í kosningabaráttunni kom ekki í ljós neitt vandamál skoðanakannana, er réttlæti sérstakar aðgerðir til takmörkunar á þeim. Þær hófust til dæmis ekki of snemma og hættu ekki of seint, þótt slíku hafi verið haldið fram.

Þeir, sem hafa gífurlega ást á boðum og bönnum, ættu fremur að hugleiða lagasetningu um starfsemi kosningastjóra, fullyrðingar slíkra út í loftið um falsanir í skoðanakönnunum, sem síðan reynast hafa verið hárnákvæmar.

Skoðanakannanir eiga að hefjast um leið og frambjóðendur koma í ljós. Þær eiga að taka púlsinn frá upphafi allt til síðustu daga kosningabaráttunnar. Þannig eiga þær stöðugt að veita kjósendum upplýsingar um stöðu og strauma.

Ekki kom heldur í ljós nein bilun í aðferðafræði skoðanakannananna. Skekkjan hjá Vísi reyndist vera 2,3 prósentustig, sem er góður árangur. Hjá Dagblaðinu reyndist hún vera tæp 0,4 prósentustig, sem er aldeilis frábær árangur.

Lektorar við félagsfræðideild háðskólans hafa æst upp hjá kosningastjórum broslegar fullyrðingar um gallaða aðferðafræði. Svo bæta þeir um betur og þakka árangurinn svonefndu “glópaláni”. Slík vísindi eru vissulega í stíl.

Dagblaðið hefur frá upphafi beitt sömu árangursríku aðferðafræðinni. Hún hefur í fjórum kosningum í röð staðizt dóm reynslunnar. Gaman væri, ef lektorar gætu reiknað út hinar tölfræðilegu líkur á fjórföldu glópaláni. Þær eru aðeins 6%.

Hin umdeilda aðferð Dagblaðsins hefur fjórum sinnum í röð reynzt rétt. Hún hefur fjórum sinnum í röð reynzt betur en aðferðir Vísis. Og reynslan er óneitanlega skarpari dómari en lektorar með takmarkaðan skilning á stærðfræði.

Hið opinbera þarf því ekki að koma á fót neinu eftirliti með aðferðafræði skoðanakannana. Allra sízt væri við hæfi að fela lektorum félagsfræðideildar slíkt aðhald eða veita þeim forgang að framkvæmd slíkra kannana.

Meðan skekkjan í skoðanakönnunum er reglubundið innan við þrjú prósentustig, mega málin teljast í mjög góðum höndum. Og þegar skekkjan kemst niður fyrir 0,4 prósentustig, eins og hjá Dagblaðinu, getur sjálfur George Gallup tekið ofan.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið