Viðkynningar virði

Greinar

Við horfum allt of lítið til nágranna okkar í vestri, Grænlendinga. Við notfærum okkur ekki einu sinni tveggja stunda og tiltölulega ódýrt flug til Eiríksfjarðar fimm sinnum i viku að sumarlagi og greiðar samgöngur þaðan um Eystribyggð.

Grænlendingar eru þægilegir í viðmóti við Íslendinga. Þeir vita margir, að Íslendingar fengu heimastjórn hjá dönsku krúnunni á sínum tíma, síðan fullveldi og loks aðskilnað. Og þeir eru sjálfir nýbúnir að fá heimastjórn.

Af þessum ástæðum og ýmsum öðrum telja margir Grænlendingar, að sumt megi læra af Íslendingum. Við getum áreiðanlega veitt þeim þróunaraðstoð, án þess að hafa nein afskipti af vaxandi spennu milli Danmerkur og Grænlands.

Engin leið er að komast hjá því að sjá, að Danahatur fer vaxandi í Grænlandi, einkum hjá ungu fólki. Það kýs jafnvel fremur að gera sig skiljanlegt við Íslendinga á lélegri ensku en sæmilegri dönsku.

Grænlenzka þjóðfélagið er rekið með miklu tapi, sem danska ríkið greiðir. Danir telja sig hafa kostnað og óþægindi af því að hjálpa Grænlendingum að þróast í átt til menntaðs velferðarþjóðfélags.

Grænlendingar telja aftur á móti, að Danir séu að reyna að hagnýta sér Grænland og auðlindir þess, olíu, ótal málma og fisk. Enn mun vera óljóst, hvort og að hve miklu leyti er hægt að nýta olíu og málma.

Ljóst er, að Grænlendingar mynda undirþjóð í eigin landi. Þeir eru að vísu nýlega búnir að fá sömu laun fyrir sömu vinnu. En Danir skipa flestar beztu stöðurnar. Og sárafáir Grænlendingar stunda háskólanám.

Og það er kannski einmitt háskólanám, sem við getum boðið Grænlendingum upp á sem þróunaraðstoð af okkar hálfu. Við getum ekki frætt þá um vinnslu olíu og málma, en á ýmsum öðrum sviðum getum við veitt gagnlega menntun.

Fyrir Grænlendinga er styttra að fara til Íslands í skóla en til Danmerkur. Þar að auki eru viðbrigðin minni hér. Reykjavík er smærri í sniðum en Kaupmannahöfn og hefur minna að segja af ýmsum vandamálum nútímans.

Búast má við, að spennutímar séu framundan í stjórnmálum Grænlands. Unga fólkið mun nota heimastjórnina til að krefjast aukins sjálfstæðis. Að baki liggur vonin um, að olía og málmar muni færa björg í bú.

Á slíkum tímum er við grænlenzkar aðstæður nauðsyn á hraðvaxandi menntun. Við getum veitt hluta hennar og það án þess að verða sakaðir um annarlegan áhuga, tíl dæmis á olíu og málmum. Við getum veitt fræðslu, án spennu.

Svo getur farið, að næsta skref Grænlendinga verði að losna úr Efnahagsbandalaginu, sem er að misþyrma fiskimiðum þeirra. Slíkt skref kallar á samstarf bandalagslausu þjóða svæðisins, Færeyinga, Grænlendinga, Íslendinga og Norðmanna.

Þannig geta fiskimál og fræðslumál fært Íslendinga og Grænlendinga nær hvor öðrum. Sviðin kunna vel að vera fleiri. Aðalatriðið er, að nágrannar eiga að kynnast hver öðrum og móta með sér spennulaust samstarf.

Þegar menn þiggja kaffi og kökur á snyrtilegu heimili grænlenzks fjárbónda í óravega einangrun við skriðjökla hins forna Ísafjarðar, átta menn sig á, að Grænlendingar eru fólk, sem er viðkynningar virði.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið