Tillögur Steingríms Hermannssonar um auknar takmarkanir á þorskveiði síðustu fimm mánuði ársins eru skynsamlegar, úr því sem komið er. Þær munu leiða til minni veiða þessa mánuði en á sama tíma í fyrra.
Slysið varð á síðustu vetrarvertíð, þegar veitt var langt umfram ráðlegt og hagkvæmt magn. Á hávertíðinni varð strax ljóst, að þorskafli ársins færi langt umfram þau 300.000 tonn, sem skynsamlegt var að veiða.
Ákvörðun stjórnvalda um 350.000 tonna markmið var málamiðlun. Andspænis framtíðarsjónarmiðum fiskifræðinga stóðu stundarhagsmunir útgerðarmanna og sjómanna, svo og atvinnuhagsmunir sumra sjávarplássa.
Í sjálfu sér dugar lítið að gráta 10-15% meiri afla en stefnt var að. Slík frávik hljóta að teljast nægilega nálægt settu marki. Ef aflinn nær ekki 400.000 tonnum, hefur hin markaða stefna staðizt í stórum dráttum.
Veiðitakmarkanir hafa þegar leitt til minni afla í júlí en var í sama mánuði í fyrra. Fjölgun banndaga síðustu fimm mánuði ársins upp í 49 mun vafalaust leiða til minni þorskveiði síðari hluta þessa árs en á sama tíma í fyrra.
Í þorskfriðun er nú mikilvægast að læra af reynslu síðustu vetrarvertíðar og hindra í tæka tíð, að ofveiðin endurtaki sig í næsta skipti. Ljóst er, að takmarkanir verða þá að vera mun strangari en þær voru í ár.
Hinn gífurlega afkastamikli floti bar allt of mikinn þorsk að landi á stuttum tíma á vetrarvertíð þessa árs. Víða höfðu frystihús og aðrar vinnslustöðvar ekki við, enda fór óeðlilega mikill fiskur í annan og þriðja flokk.
Minnkandi gæði spilltu án efa fyrir freðfiskmarkaðinum vestra, þótt sölutregðan stafaði einnig af versnandi kaupgetu Bandaríkjamanna. Kvartanir hrönnuðust upp og álit hinnar íslenzku framleiðslu beið nokkurn hnekki.
Þar á ofan leiddi sölutregða til söfnunar birgða af fiski, sem varð eldri með degi hverjum og þar af leiðandi verri söluvara. Ekki má heldur gleyma hinum gífurlega kostnaði, sem fylgir slíku birgðahaldi.
Frystihúsin fóru að vinna verðminni afurðir, sem hreyfðust betur á markaðnum. Þá fóru skip að sigla meira með afla en heppilegt getur talizt á heitasta árstíma. Einnig tóku menn offramleiðsluáhættu í skreið og saltfiski.
Í neyð var farið að beina veiðinni yfir í karfa, grálúðu og ufsa. Það reyndust vera taprekstrarveiðar, þrátt fyrir uppbótaútgerð. Auðvitað er gaman að geta notað nýja stofna, en einhver fjárhagsleg skynsemi verður þó að vera til.
Af öllu þessu má ljóst vera, að á næstu vertíð verður að tryggja tiltölulega jafna veiði, er sé í samræmi við afkastagetu vinnslustöðvanna, nýtingu aflans í fyrsta flokks hráefni og sölumöguleika á erlendum markaði.
Þar að auki verður þá tímabært að fara að taka mark á tillögum fiskifræðinga um hámarksafla. Við höfum í ár séð, að þær fara saman við afkastagetuna, fyrsta flokks kröfuna og markaðinn. Þær hafa því skammtímagildi.
Mestu máli skiptir þó, að með hóflegri veiði færumst við nær því marki, að þorskstofninn komist i upprunalegt magn. Þegar því framtíðarmarki er náð, getum við stóraukið veiðina, – ef einhver vill kaupa fiskinn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið