Við nálgumst heimsmetið.

Greinar

Nú hefur fjármálaráðherra tækifæri til að efna loforð sitt frá í vetur. Þá lofaði hann leiðréttingu, ef skattar ársins mundu reynast fara fram úr áætlun. Og þeir fara sennilega 4-5 milljarða fram úr.

Ofáætlunin kemur engum á óvart. Löngum hefur það verið plagsiður stjórnvalda að nota skattkerfisbreytingar til að næla sér í aukakrónur. Ekki er raunar laust við, að menn gruni, að sá sé helzti tilgangur sífelldra skattkerfisbreytinga.

Hins vegar er óþarfi að gera ráð fyrir, að fjármálaráðherra efni loforð sitt. Þjóðmálaskúmar leggja ekki í vana sinn að efna loforð. Enda mundi slíkt bara rugla fólk í ríminu. Það gæti þá ekki lengur treyst þeim til ills.

Fyrirætlanir ráðherrans sjást bezt af málgagni hans. Þjóðviljinn hamast við að sýna fram á, að skattar hafi lítið sem ekkert hækkað og séu raunar lægri en víða annars staðar. Blaðið er að venja fólk við.

Í þessu skyni fetar Þjóðviljinn gamlar fölsunarleiðir frá upphafsárum hins pólitíska prósentureiknings. Aðferð blaðsins felst í að nota prósentur af prósentum og segja útkomuna vera prósentur.

Beinir skattar af tekjum greiðsluársins eru sagðir hafa hækkað úr 13,2% í 1 3,9%. Það er hækkun um 0,7 prósentustig, en ekki um 0,7%. Prósentustig eru ekki sama og prósent. Hækkunin er fimm af hundraði eða 5%.

Þar á ofan segja beinir skattar ekki alla söguna um skattbyrðina. Hér á landi eru óbeinir skattar notaðir í vaxandi mæli. Þjóðviljanum dugir því ekki að nota beinu skattana eina til að segja skatta lága á Íslandi.

Samkvæmt tölum OECD, hagþróunarstofnunarinnar, var Ísland árið 1977 í miðjum hópi þróaðra ríkja í þessu efni. Skattbyrðin var þá 40% hér á landi eða nokkru lægri en á Norðurlöndum og nokkrum öðrum ríkjum.

Síðan 1977 hafa nokkrir íslenzkir fjármálaráðherrar bætt um betur. Þeir hafa komið skattbyrðinni upp í 45% af þjóðartekjum. Þar með er hún orðin svipuð og í Finnlandi, Frakklandi, Vestur-Þýzkalandi og Belgíu.

Fyrir ofan eru aðeins Danmörk með 49%, Holland með 52%, Noregur með 55% og Svíþjóð með 61% skattbyrði af þjóðartekjum. Íslenzkir fjármálaráðherrar stefna óðfluga í þessa fríðu sveit heimsmeistara í skattheimtu.

Sumir halda, að mikil skattheimta sé til marks um háþróun. Þeir mættu minnast þess, að í Sviss er skattheimtan ekki nema 33%, í Bandaríkjunum 33% og í Japan 24%, svo að dæmi séu tekin af nokkrum velgengnisríkjum.

Við höfum í nokkur ár búið við stöðnun í þjóðartekjum. Við megum vera fegnir, ef við mætum ekki samdrætti á næstu árum. Vaxandi skattheimta hefur miklu verri afleiðingar við slíkar aðstæður en á uppgangstímum.

Hver ný prósenta í skattheimtu jafngildir minni kaupmætti almennings og hægari uppbyggingu atvinnulífsins. Þessi tvö atriði skipta Íslendinga miklu máli, annars vegar lífskjör líðandi stundar og hins vegar framtíðarinnar.

Ráðamenn okkar taka samneyzlu fram yfir aðra neyzlu og opinbera fjárfestingu fram yfir aðra fjárfestingu. Á þessu ári staðnaðra þjóðartekna eru þeir að auka opinberan rekstur um 2% og opinbera fjárfestingu um 21%.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið