Kvennaráðstefnan í Kaupmannahöfn er eitt dæmi af mörgum um, að samstarf þjóða innan Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra er meira eða minna að fara í hundana. Því valda annarleg sjónarmið meirihluta ráðamanna heimsins.
Tæpast er svo haldin ráðstefna á vegum þessara samtaka, að umræður snúist ekki einkum um Ísrael og Suður-Afríku. Af kvennaráðstefnunni má ætla, að Egyptaland sé komið í hóp þessara óvinsælu ríkja, sem kjafta skal í hel.
Athyglisvert er, að á ráðstefnunni varð ekkert hliðstætt uppistand út af Íran, þar sem kvenréttindi hafa markvisst verið skert á valdaskeiði erkiklerksins Khomeini. Þar í landi blasir nú miðaldamyrkur við konum.
Stjórnarfari og stjórnarstefnu er án efa að ýmsu leyti ábótavant í Egyptalandi, Ísrael og Suður-Afríku. Það er þó hátíð í samanburði við hliðstæð vandamál í ríkjum þeirra sendinefnda, sem mest gaspra á ráðstefnum.
Þar á ofan er sérdeilis lítil ástæða til að taka lönd sem þessi í gegn á kvennaráðstefnu. Til dæmis má nefna, að staða kvenna er betri í Egyptalandi en í öðrum ríkjum múhameðstrúar, líka þeim sem klerkar ráða ekki.
Staðreyndin er sú, að meirihluti ráðamanna heimsins hefur ekki áhuga á hinum vestrænu leikreglum, sem upphaflega áttu að vera hornsteinn Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra. Stofnskrár eru því marklaus pappírsgögn.
Í einum flokki eru Sovétríkin og fylgiríki þeirra. Þar er eingöngu litið á starfið í alþjóðlegum samtökum sem lið í valdatafli heimsmálanna. Í því skyni er játazt undir ýmis hugtök, sem reynast svo túlkuð þveröfugt.
Í öðrum hópi eru flest ríki múhameðstrúar, þar sem ráðamenn hafa ekki fremur en sovézkir áhuga á mannréttindum og mannfrelsi, þar á meðal kvenréttindum og kvenfrelsi, og nenna síður að breiða yfir það.
Í þriðja hópnum eru svo mörg ríki þriðja heimsins, þar sem ráðamenn líta á fólk sitt sem þræla til að standa undir gífurlegum yfirstéttarlúxus og svissneskum bankareikningum. Þetta er fjölmennasti þrýstihópurinn.
Þessi þriðji hópur hefur með nokkurri aðstoð hinna tveggja tekið völdin í UNESCO, menntastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þar stefnir hann að útilokun vestrænna fréttastofa og skrásetningu vestrænna fréttamanna í þriðja heiminum.
Markmiðið er að útiloka vondu fréttirnar af græðgi og grimmd valdhafa þriðja heimsins og koma á framfæri áróðri um guðdómlega vizku og gæzku þeirra valdhafa, sem reynzt hafa fólki sínu mun verr en nýlenduherrarnir gömlu.
Greinilegt er á ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna, að þar er aldrei snert á neinu, sem einhverjum hinna þriggja þrýstihópa er viðkvæmt. Um það ríkir þegjandi samkomulag austurs, Íslams og þriðja heimsins.
Þrýstihóparnir þrír eiga mjög erfitt með að nota alþjóðasamstarfið til að fjalla um ávirðingar hins vestræna heims. Þær eru nefnilega svo litlar, að ekki er hægt að gaspra lengi um þær, án þess að til samanburðar komi.
Sameiningartákn þrýstihópanna eru Ísrael og Suður-Afríka og nú síðast Egyptaland. Kvennaráðstefnan í Kaupmannahöfn er bara eitt dæmi af mörgum um, að málefni verða að víkja fyrir valdastreitu.
En hvenær snúast Vesturlönd til varnar?
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið