Fremur Carter en Reagan.

Greinar

Stjórnmál í Bandaríkjunum skipta Íslendinga máli eins og aðra Vestur-Evrópumenn. Bandaríkin eru fjölmennasta ríki vestræns samstarfs. Þar á ofan hafa þau lengi annazt forustu öryggismála í þessu samstarfi.

Okkur varða einnig stjórnmál í öðrum nálægum ríkjum, einkum á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu . Við leggjum þjóða mest upp úr utanríkisverzlun. Sú staðreynd ein veldur því, að ákvarðanir í öðrum ríkjum hafa áhrif á okkar hag.

Ekkert eitt ríki vegur þyngra á metunum en einmitt Bandaríkin. Það er því eðlilegt, að við fylgjumst vel með mikilvægasta þætti bandarískra stjórnmála, vali forseta á fjögurra ára fresti. Og það val stendur nú fyrir dyrum.

Núverandi Bandaríkjaforseti hefur sætt harðri gagnrýni, meðal annars af hálfu leiðtoga í Vestur-Evrópu. Til dæmis hefur kanzlari Vestur-Þýzkalands jafnan átt erfitt með að dylja vantrú sína á Jimmy Carter.

Forsetinn er sagður reikull í ráði, ekki sízt í utanríkismálum. Enda hefur hann hvað eftir annað mátt sæta því, að leiðtogar í Vestur-Evrópu hafa fetað aðrar brautir en þær, sem hann hefur viljað marka.

Gagnrýni þessi er bæði ýkt og ósanngjörn. Carter er heiðarlegur utangarðsmaður og hefur sem slíkur orðið vestrænu samstarfi til góðs. Þegar upp er staðið, er ekki víst, að Helmut Schmidt fái betri eftirmæli.

Vestur-Þýzkaland hefur til dæmis byggt upp stórfellda viðskiptahagsmuni í Sovétríkjunum. Þessum hagsmunum fylgja fjötrar, sem meðal annars hafa komið fram í afstöðunni til Afganistan. Á þetta hefur of lítið verið bent.

Vonandi opnast augu bandarískra kjósenda fyrir kostum Carters, þegar þeir fara í alvöru að bera hann saman við keppinautinn, Ronald Reagan. Þótt Reagan sé ekki eins einstrengingslegur og af er látið, fylgja honum vandamál.

Með forseta úr flokki repúblikana fylgir hætta á endurnýjuðum völdum vandræðamannsins Kissingers, sem ímyndar sér, að hægt sé að múta Sovétstjórninni með viðskiptum til að haga sér sæmilega á alþjóðavettvangi.

Þar á ofan er líklegt, að Reagan, með eða án Kissingers, mundi leggja niður þá siðavendni gagnvart glæpamönnum í þriðja heiminum, sem fylgt hefur Carter. Reagan mundi til dæmis styðja hægri sinnaða herforingja í Bólivíu.

Það er dæmigert fyrir ástandið í bandaríska repúblikanaflokknum, að á landsfundinum fékk Kissinger mikið klapp þegar hann flutti ræðu, þar sem hann meðal annars lýsti ráðamönnum Nicaragua sem andamerískum róttæklingum.

Staðreyndin er sú, að Carter hefur fylgt siðræn reisn, sem hefur eflt innri styrk vestrænna manna í samanburðinum við Sovétríkin og fylgiríki þeirra. Carter hefur stuðlað að vissu okkar um réttmæti hins vestræna málstaðar.

Þessu gæti Reagan hæglega spillt með beinum og óbeinum stuðningi við hægri sinnuð fól í þriðja heiminum, einkum í Mið- og Suður-Ameríku. Svo virðist sem harðlínumenn repúblikana telji sig eiga þann heimshluta.

Mestu máli skiptir þó, að forseti á síðara kjörtímabili er betri en á hinu fyrra. Hann þarf ekki að hafa vinsældir sínar í huga, þegar hann tekur ákvarðanir. Þess vegna er Jimmy Carter betri kostur en Ronald Reagan.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið