Kjöthvarfið mikla er sjálfsagt tilefni húsleitar hjá þeim aðilum, sem fá afurðalán og birgðagreiðslur fyrir að geyma kjöt frá því í fyrrahaust. Einföld lögreglurannsókn ætti að leiða hið sanna í ljós.
Samkvæmt skýrslum eiga að vera til í landinu 2000-3000 tonn af dilkakjöti eða um þriggja mánaða birgðir. Enda hefðu ekki verið seld fyrir slikk úr landi 5000 tonn af 1. og 2. flokks kjöti, ef hætta væri á kjötskorti.
Svo ber það allt í einu við, þegar niðurgreiðslur hækka, að dilkakjöt verður allt að því ófáanlegt. Samt ætti að vera mjög erfitt að losna við skráðar birgðir fram að næstu sláturtíð.
Þeir, sem kjötið skammta á Reykjavíkursvæðinu, bera því við, að hinar miklu birgðir hljóti að vera í einhverjum frystihúsum útí á landi. Samt hafa þessar birgðir ekki fundizt og auðvitað ekki fengizt á markað.
Þetta hneykslismál hefur vakið grunsemdir um, að ekki sé allt með felldu. Annaðhvort sé umtalsverður hluti þessa kjöts seldur fyrir löngu eða eigi að bíða eftir hærra verði á nýslátruðu í haust.
Þeir, sem dilkakjötið geyma, þurfa á meðan ekki að endurgreiða afurðalán, sem þeir hafa fengið á lágum vöxtum. Þar á ofan fá þeir greiðslur fyrir kostnað við birgðahald. Þetta kerfi freistar og spillir.
Það er leikur einn að stela peningum með því að tilkynna sölur of seint. Þannig er hægt að liggja á afurðaláni í næstum heilt ár. Og þannig er í næstum heilt ár hægt að fá birgðagreiðslur út á ekki neitt.
Tilefni lögreglurannsóknar er fengið. Stjórnvöld hafa í hundraðasta skipti reynt að falsa vísitöluna með því að hækka niðurgreiðslur á dilkakjöti. Almenningur vill notfæra sér þessa búbót, en grípur í tómt.
Þeir, sem lána afurðalán, og þeir, sem greiða birgðafé, hljóta að vita, hverjum þeir greiða og hversu mikið. Það hlýtur því að vera hægt að finna þriggja mánaða birgðirnar og koma einhverju af þeim í lóg fyrir sláturtíð.
Auðvitað þarf að hafa hraðar hendur í málinu, því að fljótlega verður búið að koma sölu- og birgðatölum í eðlilegt horf. En hér er því miður um forréttindaaðila að ræða, svo að rannsóknin verður víst engin.
Ef svo ólíklega vildi til, að birgðirnar miklu mundu finnast, situr enn eftir grunurinn um, að ætlunin hafi verið að nota þær í kjötvinnslu, þegar nýja verðið er komið á haustslátruðu dilkunum eftir rúman mánuð. Öllum má ljóst vera, að óþarfi er að skammta þriggja mánaða birgðir til rúmlega eins mánaðar neyzlu.
Og öllum má ljóst vera, að 5000 tonn eru ekki gefin til útlanda á kostnað skattgreiðenda til að búa til kjötskort.
Engan veginn dugir að segja, að birgðirnar séu einhvers staðar úti á landi. Ef þær eru til, þá þarf að finna þær og koma þeim til neytenda. Framhald skömmtunar er bara staðfesting á, að um geigvænlegt svindl sé að ræða.
Höfðingjarnir, sem ætluðu að lagfæra vísitöluna með því að leggja fé skattgreiðenda í auknar niðurgreiðslur, eiga nú leikinn. Kjöthvarfið hefur gert þá að fíflum. Þeir geta aðeins rétt hlut sinn með því að finna blessað kjötið.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið