Kjósendur verða að geta treyst því, að kjörstjórnir og yfirkjörstjórnir vinni störf sín af fyllsta drengskap og nákvæmni. Það er einfaldlega einn hornsteina lýðræðisins, að rétt séu talin atkvæði í kosningum.
Áhorfendur að talningu atkvæða í Reykjavík hafa stundum dáðst að nákvæmninni, sem þar ríkir. Klukkustundum saman er reynt að ná samræmi í skrám og seðlum og ekki gefizt upp fyrr en öll kurl eru komin til grafar.
Atkvæðin 200, sem fóru forgörðum í Reykjaneskjördæmi í forsetakosningunum, valda hins vegar áhyggjum. Það er ljóst, að yfirkjörstjórnin þar þarf að breyta vinnubrögðum til að hindra, að slíkt komi fyrir aftur.
Sem betur fer réðu þessi atkvæði ekki úrslitum. Í alþingiskosningum og enn frekar í sveitarstjórnarkosningum er hins vegar algengt, að svona fá atkvæði og enn færri ráði úrslitum. Því má engan skugga bera á talningu.
Yfirkjörstjórnarmenn á Reykjanesi neita því, að í stjórninni hafi komið fram hugmynd um að halda slysinu leyndu. Sumir umboðsmenn frambjóðenda telja þó, að svo hafi verið. Málið væri þá mun alvarlegra en ella.
Þetta tilefni gefur tækifæri til endurskoðunar á starfi kjörstjórna og yfirkjörstjórna um land allt og hugsanlega einhverra mannaskipta í þessum stjórnum. Um þau mál mega þeir einir véla, sem taka þau í fullri alvöru.
Í næstu kosningum verður hver einasti kjósandi að geta treyst því, að atkvæði hans komist til skila á eðlilegan hátt. Og þjóðin þarf að geta treyst því, að niðurstöður kosninganæturinnar séu hárnákvæmar.
Einokun varð uppiskroppa.
Hvítkál og rófur eru um þessar mundir að koma aftur í búðir eftir nokkurt hlé. Hluti síðustu sendingar skemmdist og Grænmetisverzlun landbúnaðarins fannst ekki taka því að brúa bilið, unz íslenzka varan væri tilbúin.
Engum dettur í hug, að epli og appelsínur geti horfið úr verzlunum á þennan hátt. Það væri þá aðeins í verkföllum eða öðrum slíkum uppákomum utan valdsviðs þeirra, sem hafa tekið að sér að flytja ávexti til Íslands.
Munurinn felst auðvitað í, að verzlun með ávexti er frjáls, en verzlun með grænmeti ófrjáls. Grænmetisverzlun landbúnaðarins hefur einokun á innflutningi og sölu grænmetis og getur hagað sér eins og henni sýnist.
Þessi einkasala er sífellt að minna neytendur á, að þeir séu réttlausir aumingjar. Enda er hvergi á Vesturlöndum eins lítið og lélegt framboð á grænmeti og einmitt hér á landi. Erlendis er þessi verzlun auðvitað frjáls.
Þeir, sem starfa í skjóli einokunar, verða værukærir og nenna ekki að sinna viðskiptamönnum sínum. Þeir hafa ekki aðhaldið, sem frjálsi markaðurinn veitir. Og þá skortir virðingu frjálsa markaðarins fyrir neytendum.
Illræmdust eru kartöfluviðskipti Grænmetisverzlunar landbúnaðarins. Oft hefur hún verið staðin að því að kaupa lélegar kartöflur, þegar góðar hafa fengizt. Einnig að því að kaupa dýrar kartöflur, þegar ódýrar hafa fengizt.
Vegna einokunarinnar hafa Íslendingar í meira mæli en nágrannaþjóðirnar farið á mis við hollustu grænmetis. Ekkert mælir gegn því, að þessi verzlun verði gefin frjáls, eins og verzlun með ávexti.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið