Verndartollur er vögguljóð.

Greinar

Hættuleg er ákvörðun viðskiptaráðherra um 40% verndartoll á innflutt sælgæti og 35% á innflutt kex næstu 18 mánuði. Til eru mun skynsamlegri leiðir til hjálpar innlendum iðnaði í tímabundnum þrengingum.

Sælgætisiðnaðurinn hefur lifað í gróðurhúsi eins og landbúnaður. Fram til 1972 var 100% tollur á sælgæti og jafngilti hann innflutningsbanni. Eftir aðildina að Fríverzlunarsamtökunum fór tollurinn að lækka, unz hann hvarf í ár.

Jafnframt var sett upp kvótakerfi, sem leiddi til 10-20% markaðshlutdeildar hins erlenda sælgætis. Kerfi þetta var mjög spillt. Innflutningsleyfi gengu kaupum og sölum. Nöfnum heildsala og magni hvers var haldið leyndu.

Nú hefur frelsi ríkt í þessari grein í nokkra mánuði. Spillingartengsl embættismanna og vasaheildsala eru horfin. Aukin samkeppni hefur bætt hag neytenda. Fjölbreytni og vöruúrval er meira en áður var.

Um leið hefur erlenda varan tekið markað af hinni innlendu. Mest stafar það af nýjabruminu. Á sínum tíma áttu innlendir framleiðendur í Danmörku í hliðstæðum erfiðleikum um tíma. Þeir sigruðust á þeim og náðu 70% markaðshlutdeild.

Auðvitað eru íslenzk sælgætisfyrirtæki vanbúin að mæta samkeppni eftir óeðlilega mikla vernd um langt skeið. Framleiðni þeirra er tiltölulega lítil, þrátt fyrir góða afkomu árum saman. Framleiðnina þarf að bæta.

Við innreið hinnar erlendu vöru hefur líka komið í ljós, að innlenda framleiðslan er minni máttar í útliti, umbúðum og markaðsmálum. Í gæðum stenzt innlenda varan hins vegar samanburð í flestum tilvikum.

Skynsamlegt væri að veita opinberu fé til að hrinda í framkvæmd sérstökum þróunarverkefnum í kex- og sælgætisgerð, svo sem gert er með góðum árangri í fataiðnaði. Gera þarf innlendu framleiðsluna samkeppnishæfa.

Hinu má ekki heldur gleyma, að hluti vandans er sameiginlegur öðrum iðnaði hér á landi. Það er hin ranga gengisskráning, sem hossar innfluttum vörum á kostnað innlendra. Gengi krónunnar er of hátt skráð.

Mestu máli skiptir, að vandamál atvinnugreina má ekki leysa með því að gera þær að kvígildi á borð við landbúnaðinn. Íslendingar sligast undan honum einum og hafa ekki ráð á fleiri slíkum, allra sízt sælgætisgerð.

Athyglisvert er, að einn angi sælgætisvandans snertir landbúnaðinn. Frá því í byrjun þessa árs hefur sælgætisiðnaðurinn fengið innlent mjólkur- og undanrennuduft á heimsmarkaðsverði til að mæta erlendri samkeppni.

Ríkið borgar þetta eins og aðrar útflutningsbætur. Það sér dálítið eftir peningunum og vill ná þeim inn með tolli. Stjórnvöldum væri þó nær að sjá, að verulegur samdráttur í landbúnaði mundi gera okkur kleift að fá duftið frá útlöndum fyrir slikk.

Tæplega 300 manns hafa atvinnu af framleiðslu sælgætis hér á landi. Við þurfum að stuðla að góðri atvinnu í þessari grein, sem og í kexgerð, en ekki með því að stinga þeim inn í gróðurhús og halda þeim þar.

Viðskiptaráðherra hefur með verndartollinum tekið ranga ákvörðun og skammsýna. Hann þykist hafa verndað hinn innlenda iðnað. Í rauninni er hann að grafa undan honum með því að búa honum gerviloftslag, kveða honum vögguljóð.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið