Heimsins höfuðprýði

Ferðir

Þegar ég skrifaði leiðsögubækur fyrir ferðamenn í erlendum stórborgum, setti ég neðri mörkin við einnar viku borgir. Það voru borgir á borð við Kaupmannahöfn og Amsterdam, sem hægt var að kynnast á viku. Ofar komu tveggja vikna borgir, sem mátti kynnast á tveimur vikum, London og New York. Aðeins ein borg taldist mér þriggja vikna borg. Magnaðasta túristaborg heimsins er auðvitað París. Þvermál miðjunnar er fimm kílómetrar. Hlaðnir glæsibrautum og minnisvörðum ýmissa tíma í borgarsögunni. Gat rölt um þessa miðborg á þremur vikum með því að búa á 20 hótelum hér og þar. París er svo sannarlega heimsins höfuðprýði.

Trúarbrögð sjónvarps

Fjölmiðlun

Fákænar trúarjátningar í sjónvarpsrekstri eru skýrðar með, að sjónvarp þurfi að höfða til ungs fólks. Það skrítna er samt, að eltingaleikur sjónvarps við meint áhugamál ungs fólks og unglinga skilar síminnkandi áhorfi allra ungra kynslóða. Meðalaldur áhorfenda hjá FOX er kominn upp í 68 ár. Eins nálægt grafarbakkanum og hægt er að komast í Bandaríkjunum. CNN eldist aðeins skár, meðalaldurinn þar er 59 ár. Ungt fólk horfir ekki á sjónvarp. Ekki einu sinni þótt áherzlan þar færist frá viðmælendum og viðfangsefnum yfir á sögumanninn sjálfan. Sjónvarpi hefur frá aldamótum verið stjórnað með síbylju innantómra trúarjátninga.

A. Istanbul

Borgarrölt, Istanbul
Misir Karsisi - Istanbul

Stóri markaðurinn í Istanbul, Kapalı Çarşı

Istanbul

Brúin mikla - Istanbul

Brúin mikla, sem tengir austur og vestur, Asíu og Evrópu, íslam og kristni

Austrið og vestrið mætast í Miklagarði. Þar var gríska Byzántion, rómverska Konstantinopel og loks íslamska Istanbul. Hvert heimsveldið á fætur öðru setti sitt mark á borgina við Sæviðarsund. Hún var öldum saman miðja hins þekkta heims og langstærsta borg veraldar. Þangað lágu allir gagnvegir og þar eru hlið austurs og vesturs, brýrnar miklu milli Evrópu og Asíu.

Lífið í Istanbul hefur breyzt síðasta aldarfjórðung. Þegar ég kom þar fyrst, var borgin nærri því vestræn og fáar konur báru slæður. Síðan hefur verið mikill flótti úr sveitum til borga. Istanbul nútímans hýsir tíu milljónir manns og er orðin að hálfu leyti borg svartklæddra kvenna með slæður. Með auknum íslamisma Erdoğan færist drungi miðalda yfir borgina. Hann hefur í tvo áratugi verið valdamaður, fyrst borgarstjóri, síðan forsætisráðherra og síðast forseti.

Næstu skref

3. Kappadokia – Göreme

Borgarrölt
Hellakirkja - Göreme 2

Hellamálverk í neðanjarðarkirkju í Göreme-þjóðgarðinum

Göreme

Steindrangar - Göreme 4

Reistir limir í Göreme-þjóðgarðinum

Frá Konya er þriggja tíma bílferð til Kayseri og Göreme í Kappadókíu, sem er nákvæmlega í miðju Tyrklandi. Þetta er svæði afar undarlegra steindranga og hýbýla, sem höggvin eru í kletta og dranga. Kappadókía þýðir land hinna fögru hesta.

Bergið í svæðinu er myndað af öskufalli. Það er hart á yfirborðinu og gljúpt hið innra. Þegar grafið er í það, er aðeins skelin hörð. Þegar komið er inn úr henni, er auðvelt að höggva bergið, sé það gert, áður en bergið gengur í samband við súrefni og harðnar. Úr þessu má grafa út hýbýli.

Þarna eru drangar, kallaðir álfastrompar, í líki reistra lima með hettu, sumir grafnir að innan. Veður og vindar grófu út landið, en hrauntoppar hlífa dröngunum, sem stóðu af sér landeyðinguna.

Kirkjudalur - Göreme 2

Hellar í kirkjudalnum í Göreme-þjóðgarðinum

Kristið fólk leitaði þarna hælis undan sigurgöngu múslima á 9. öld. Þarna eru átta hæða fjölbýlishús neðanjarðar, klaustur og 30 kirkjur með austrómverskum freskum á veggjum.

Svæðið er friðað og hefur verið gert að þjóðgarði. Margir túristar fara í ferðir með loftbelgjum yfir svæðið, en aðrir taka sér rútuferðir um það og bogra um vistarverurnar.

Næstu skref

5. Eyjahafsströndin – Meryemana

Borgarrölt
Meryemana - Efesos 2

Hús Maríu meyjar

Meryemana - Efesos

Altarið í Meryemana

Meryemana

Sagan segir, að María mey hafi lifað síðustu ár sín í Ephesus, enda hafi Jesús falið Jóhannesi guðspjallamanni að sjá um hana eftir sinn dag. Hús Maríu meyjar, Meryemana, er í nágrenni borgarinnar, mikill helgistaður kaþólikka, sem hafa mikið dálæti á guðsmóður. Þarna hafa ýmsir páfar beðizt fyrir á síðustu áratugum.

Við látum hér staðar numið að sinni. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru. Margt fleira er merkilegt að sjá í Istanbul og víðs vegar um Tyrkland.

Góða ferð.

 

4. Eyjahafsströndin – Ephesus

Borgarrölt
Bókasafnið - Efesos

Bókasafnið í Ephesus

Ephesus

Kamrar - Efesos

Almenningskamrar í Ephesus

Ephesus er annar forngrískur bær, sem tók við af Pergamum, sem höfuðborg Asíu á síðrómverskum tíma. Á tíma býzönsku keisaranna var Ephesus merkasta borg ríkisins á eftir sjálfum Miklagarði.

Bærinn fór illa í jarðskjálftum og fljótið Küçükmenderes hætti að vera skipgengt.

Borgin skiptir máli í kirkjusögunni. Þar bjó Páll postuli í mörg ár og skrifaði Fyrsta Kórintubréfið, þar var guðspjall Jóhannesar sennilega skrifað og þar voru haldin mörg kirkjuþing að fornu.

Enn þann dag í dag er hægt að ganga götuna um endilanga borgarinnar frá böðum Variusar og musteri Domitianusar niður að borgarmarkaðinum og 24.000 sæta leikhúsinu, stærsta leikhúsi fornaldar. Á leiðinni förum við um hlið Herkúlesar og sjáum til dæmis legstað Jóhannesar og súlu úr kirkju hans, einnig musteri Hadrianusar, hóruhúsið, almenningsklósettin og bókasafn Celsusar.

Ein súla er eftir af musteri Artemis, sem var talið eitt af sjö undrum veraldar.

Næstu skref
Leikhúsið - Efesos

Stærsta leikhús fornaldar er í Ephesus

3. Eyjahafsströndin – Asclepeion

Borgarrölt
Asklepieion - Pergamon 3

Hin helga braut að heilsulindinni í Asclepeion

Asclepeion

Asklepieion - Pergamon 4

Leikhúsið í Asclepeion

Rústir heilsuhælis Galenusar eru þremur kílómetrum sunnan við Akropolis í Pergamum. Galenus var frægasti læknir heims á annarri öld e.Kr. og einkalæknir Markúsar Árelíusar keisara. Þarna er rómverskt leikhús, musteri Asclepiusar og súlnarið við Hina helgu braut að heilsulindinni.

Næstu skref

2. Eyjahafsströndin – Pergamum

Borgarrölt
Bókasafn - Pergamon

Trajanusar-musterið í Pergamum

Pergamum

Leikhús - Pergamon

Leikhúsið í Pergamum

Rústirnar af forngríska bænum Pergamum eru á hæð norðvestan við tyrkneska bæinn Bergamo. Þar ríkti grísk konungsætt Attalída, sem voru miklir fylgismenn Rómaveldis. Bærinn varð voldugur á tíma Hadrianusar keisara og komst upp í 200.000 íbúa. Þar stofnaði Galenus læknir heilsuhælið Asclepeion, sem frægt var í fornöld. Þar var líka mikið lærdómssetur og heimsfrægt bókasafn, það næststærsta í heimi.

Uppi á hæðinni Akropolis var altarið mikla, sem nú er til sýnis í Pergamon-safninu í Berlín. Þar eru rústir 10.000 manna leikhúss, helgidóms Aþenu, musteri Trajanusar keisara, bókasafnsins fræga, konungshallar og virkisveggja.

Næstu skref

4. Kappadokia – SultanHani Caravanserai

Borgarrölt

Sultanhasi Kervanserai - Agizikara Hani

SultanHani Caravanserai

Á svæðinu er líka Ihlara-gljúfur, dýpsta klettagljúfur landsins.

SultanHani, nálægt Aksaray, er bezt varðveitta Caravanserai í Tyrklandi, byggt 1226. Caravanserai voru víða um miðausturlönd, eins konar hótel fyrir ferðamenn, einkum kaupmenn, sem fóru um með klyfjaðar úlfaldalestir. Einkum var mikið af þessum hótelum á Silkileiðinni frá Kína um Persíu til Istanbul.

Næstu skref
Gljúfur - Ihlava

Ihlara-gljúfur

2. Kappadokia – Konya

Borgarrölt

Konya

Mevleni Tekkesi - Konya

Mevlânâ-safnið í Konya

Frá Ankara förum við landleiðina til Konya, borgar hinna dansandi Sufi-munka. Sufi eru munkar í dultrúarsöfnuði múslima, sem stunda hugleiðslu með því að snúast hratt í hringi eins og skopparkringlur. Þetta var lengi bannað í Tyrklandi, en hefur verið leyft að nýju.

Konya er miðstöð Sufi. Þar bjó stofnandinn, Mevlânâ Rumi, sem taldi tónlist og dans frelsa fólk frá daglegu amstri og þjáningu og leiða til himneskrar sælu. Ást og friður voru einkunnarorð hans. Munkarnir dansa í síðum, hvítum og víðum pilsum og bera háa heiluhatta á höfði.

Mevlânâ-safnið er miðstöð þessarar sértrúar. Þar er hátíðarsalur, þar sem haldnar eru danssýningar fyrir ferðamenn

Karatay medrese - Konya

Karatay medrese í Konya

Karatay Madrese

Á sama stað er Ince Minaret Medrese, moska frá 13. öld, sem hefur verið breytt í trélista- og steinlistasafn. Moskan er fræg fyrir íburðarmiklar veggskreytingar.

Utan við Konya er Karatay Madrese, moska frá 1251, sem hefur verið breytt í safn Seljuk postulínsflísa. Þar eru líka íburðarmiklar veggskreytingar.

Næstu skref

15. Istanbul – Múr Þeódósíusar

Borgarrölt

IMG_0102

Múr Þeódósíusar

Við skiljum við Istanbul með skutli í taxa út að borgarmúr Þeódósíusar og meðfram honum. Hann var reistur 412-422 og varði borgina fyrir innrásum í þúsund ár. Þetta er risavaxið og flókið mannvirki með tveimur múrveggjum með stríðsvagnavegi á milli. Á múrnum eru 11 borgarhlið og 192 turnar.

Múrinn stóðst atlögur Araba, Búlgara, Rússa og Tyrkja. Þegar Feneyingar og krossfarar unnu borgina 1202, komu þeir beint af hafi og klifu ekki landmúrinn. Tyrkir unnu borgina 1452 og klifu ekki heldur múrinn, heldur komust inn um eitt borgarhlið með brögðum.

Múrinn hefur verið lagfærður á köflum í sitt gamla form og ögrar enn öllum aðkomuherjum, sem kynnu að hafa illt í hyggju.

Nú víkur sögunni að landsbyggðinni í Tyrklandi. Við tökum flug til höfuðborgarinnar Ankara og síðan bíl um Kappadókíu í miðju landi og endum síðan á fornum Grikkjaslóðum við vesturströndina. Við förum frá Evrópu til Asíu.

Næstu skref

14. Istanbul – Süleymaniye Camii

Borgarrölt

Süleymaniye Camii

Süleyman moska - Istanbul

Süleymaniye moskan

Í nágrenni bazarsins eru háskóli borgarinnar og Süleymaniye Camii moskan, sem oft er talin fegursta moska borgarinnar. Hún er raunar Medressa, það er trúarskóli og velferðarstofnun. Umhverfis moskuna eru vistarverur, eldhús, veitingastaðir og spítali fyrir fátæka förumenn.

Þetta er aðalmoska heimsborgarinnar, hönnuð af arkitektinum Sinan fyrir soldáninn Süleyman mikla, reist 1550-1557 og stendur á hæsta stað í gamla bænum.

Næstu skref

13. Istanbul – Stóri bazarinn

Borgarrölt
Misir Karsisi - Istanbul

Kapalı Çarşı, stóri bazarinn

Stóri bazarinn

Nú víkur sögunni aftur upp að torginu Sultanahmet Meydanı. Þaðan er 20 mínútna ganga eftir Divanyolu Caddesi að Çemberlitaş böðum og þaðan svo til hægri eftir Vezirhan Caddesi að einum af höfuðinngöngum stóra bazarsins, Kapalı Çarşı.

Kapali Carsi - Istanbul

Kapalı Çarşı, stóri markaðurinn

Kapalı Çarşı er sjálft hjarta borgarinnar, einn stærsti og elzti bazar heims, byggður upphaflega 1456. Raunar er hann risavaxið borgarhverfi með mörgum borgarhliðum. Búðirnar 3000 eru yfirleitt litlar og þröngar og standa saman eftir vöruflokkum í 60 strætum. Teppi eru í einu hverfi, leður á öðru, gull og silfur á því þriðja og svo framvegis.

Þar sem við komum inn á bazarinn um Nuruosmaniye hliðið komum við beint inn í gull- og silfurhverfið. Hér og þar eru kaffihús til að hvílast, meira að segja tyrknesk böð líka. Mikil þrengsli eru víða, straumþung fljót af ferðafólki og heimafólki.

Árið 2014 var þetta fjölsóttasti ferðamannastaður heims. Hér er að villast og týnast að vild. Þetta er heill heimur, fullur af lit og ilmi.

Næstu skref

12. Istanbul – Sublime Porte

Borgarrölt

IMG_0143

Sublime Porte

Á leiðinni niður brekkuna frá inngangi fornminjasafnsis komum við að hliði Sublime Porte, stjórnarráðs Tyrklands á tíma soldánanna. Þar réð ríkjum Grand Vizier, það er stórvesír, sem var eins konar forsætisráðherra soldáns.

Ráðuneytið var jafnan kennt við virðulegt aðalhliðið við götuna, sem enn stendur. Þar fóru erlendir sendiherrar um til að afhenda skilríki sín. Á tungumáli diplómata var tyrkneska ríkið oftast kallað Sublime Porte eftir hliðinu.

Egypzki bazarinn

Kryddmarkaður borgarinnar, Mısır Çarşısı, er niðri við Galata-brúna yfir Gullna hornið, einn stærsti markaður borgarinnar, glæsileg og yfirbyggð húsakynni frá 1660.

Þar er einkum verzlað með krydd, en passið ykkur á kaupum á saffran. Dýrast er stimplað saffran frá Persíu, en það er hið eina ekta saffran á markaðinum. Þarna er líka selt tyrkneskt sælgæti, hnetur og þurrkaðir ávextir.

Austurlandahraðlestin

Austan við enda Galata-brúar er líka járnbrautarstöðin Sirkecsi, sem var endastöð hinnar glæsilegu Austurlandahraðlestar frá París, sem löngum var vettvangur reyfara og kvikmynda. Þar á meðal bóka eftir Agatha Christie og Graham Greene. Ferðir lestarinnar hófust 1889 og liðu undir lok 1977.

Næstu skref

11. Istanbul – Fornminjasafnið

Borgarrölt
IMG_0138

Hluti keðjunnar miklu, sem dregin var upp til að loka höfninni í Gullna horninu

Fornminjasafnið

Frá Topkapi höllinni er hægt að fara niður göngustíg að Fornminjasafninu. Einnig er hægt að koma þangað frá brekkunni niður frá Ægisif, Soğukçeşme Sokağı. Þar í götunni eru enn gömul borgarhús í Tyrkjastíl frá fyrri öldum. Eitt þeirra er Ayasofya Hotel, þar sem hægt er að fá notalega gistingu.

Safnið er ekki umfangsmikið, en hefur að geyma ýmsa heimskunna gripi. Mestur fengur er þar í minjum frá grískum tíma. Þarna er steinkista Alexanders með lágmyndum af bardögum hans. Raunar var hún ekki kista hans sjálfs, heldur kista Abdalonymosar frá Sídon.

Þar er líka steinhöggvinn friðarsamningur Egypta og Hittíta frá 1269 f.Kr. Ennfremur hluti af keðjunni miklu, sem dregin var upp til að loka innsiglingunni í höfnina í Gullna horninu, þegar óvini bar að garði. Keðjan var, þar sem Galata-brúin yfir fjörðinn er núna.

IMG_0137

Steinkista Alexanders með lágmyndum úr Persastríðinu

Næstu skref