Suðurárhraun

Frá Kiðagilsdrögum í Krákárbotna.

Einn af þjóðvegum landsins fram á sautjándu öld. Framhald Sprengisandsleiðar og upphaf Biskupaleiðar yfir Ódáðahraun að Jökulsá á Fjöllum. Hér við Skjálfandafljót beið Barna-Þórður eftir biskupi og orti: “Biskups hef ég beðið af raun / og bitið lítinn kost / áður ég lagði á Ódáðahraun / át ég þurran ost”. Leiðin liggur fyrst um melöldur, síðan um litlar gróðurvinjar við kvíslar Sandár og svo um úfið hraun milli Sandár og Suðurár. Þann hluta þarf að fara gætilega á hestum um einstigi. Við Suðurá mætir okkur einstæð og víðáttumikil gróðurvin í eyðimörk Ódáðahrauns. Loks liggur leið okkar eftir jeppaslóð í örfoka landi sunnan og austan undir gróðurtorfum í áttina að vegamótum sunnan við Sellandafjall. Við taka leiðirnar Kerlingardyngja og síðan Veggjafell.

Byrjum við Skjálfandafljót við Þingmannavað í Kvíahrauni, rétt norðan við ármót Öxnadalsár. Förum til norðausturs upp undirhlíðar Bálabrekku á slóð um Ytri-Lambármosa. Fylgjum þeirri slóð af norðurenda fellsins niður í Krossárgil og að eyðibýlinu Hafursstöðum við Sandmúladalsá. Við förum norðaustur og á ská upp Hafursstaðahlíð, þar sem sjá má ferlegan uppblástur. Áfram eftir varðaðri Biskupaleið um melöldur að kvíslum Sandár. Þar sem Sandá beygir þvert til vesturs sunnan undir Móflárhnausum leggjum við í Suðurárhraun norðaustur í Suðurárbotna. Beygjum þar suður og austur fyrir kvíslar Suðurár eða förum yfir Suðurá hjá eyðibýlinu Hrauntanga og síðan norðvestur með ánni í Botnaflesjur. Fylgjum þaðan þverslóð til norðausturs frá ánni í átt að Sellandafjalli. Þegar við komum að þverbeygju til austurs á landgræðslugirðingu í Krákárbotnum, liggur jeppaslóðin áfram norður með Sellandafjalli vestanverðu, en framhald Biskupaleiðar liggur beint áfram sunnan við Sellandafjall.

35,7 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Kvíakofi: N65 06.739 W17 31.179.
Botni : N65 16.164 W17 04.061.
Stóra-Flesja: N65 18.407 W17 08.804.

Nálægir ferlar: Fjórðungsalda, Réttartorfa, Suðurá, Suðurárbotnar, Krákárbotnar.
Nálægar leiðir: Kiðagil, Dyngjufjalladalur, Íshólsvatn, Biskupaleið, Kerlingardyngja.

Skrásetjari: Ingvar Teitsson
Heimild: Ingvar Teitsson