Suður-Þingeyjarsýsla

Sprengisandur

Frá Suðurlandi til Norðurlands milli Hofsjökuls og Tungnafellsjökuls.

Allar aldir hafa verið tvær leiðir um Sprengisand fyrir utan Bárðargötu. Önnur leiðin lá úr byggð vestan Þjórsár og hin austan Þjórsár. Vestari leiðin hefur einkum verið notuð af hestafólki, því að hún er grónari. Hér er vestari leiðinni lýst frá suðri til norðurs undir heitunum Þjórsárdalur, Skúmstungur, Kóngsás, Tjarnarver, Fjórðungssandur, Arnarfell, Þjórsárkvíslar, Háumýrar, Háöldur og Kiðagil. Austurleiðinni er lýst undir heitunum Nýidalur og Fjórðungsalda. Sjáið leiðarlýsingar Sprengisands á viðkomandi stöðum. Sprengisandur var kallaður Gásasandur og Sandur í Sturlungu. Á fyrsta nákvæma Íslandskortinu frá 1849 eru vestari og eystri leiðirnar tengdar saman um Sóleyjarhöfðavað.

Sjá að öðru leyti texta um einstakar leiðir á Sprengisandi. Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti. Á Sturlungaöld var oft farinn Sandur, sem kallað var. Leiðin yfir Sprengisand er forn, þótt þar hafi ætíð verið færri á ferð en yfir Kjöl og Kaldadal. Það er vegna þess að mun lengra er á milli áfangastaða. Vegalengdin milli byggða á Norður- og Suðurlandi er líka lengri á Sprengisandi. Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, útilegumenn, drauga eða álfa.

? km
Þingeyjarsýslur, Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Háöldur, Háumýrar, Nýidalur, Fjórðungsalda.
Nálægar leiðir: Þjórsárdalur, Skúmstungur, Kóngsás, Tjarnarver, Fjórðungssandur, Arnarfell, Þjórsárkvíslar,Kiðagil, Gásasandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skuggabjörg

Frá Þverárrétt í Fnjóskadal um Skuggabjargaskóg að Laufási við Eyjafjörð.

Mela- og Skuggabjargaskógur er meðal stærstu og mestu birkiskóga landsins. Þar er birkið síst lakara en í Hallormsstaðaskógi, Vaglaskógi og Bæjarstaðaskógi. Skógrækt ríkisins eignaðist jörðina Skuggabjörg og hluta jarðarinnar Mela árið 1948, en þær voru þá báðar komnar í eyði. Skógurinn var svo friðaður fyrir beit. Að sama skapi er langt liðið síðan skógurinn var nýttur og því hefur hann þróast sem náttúruskógur. Hægt er að ímynda sér að svona hafi landið litið út við landnám. Þetta er fyrst og fremst birkiskógur, lítið er um furu og greni. Í skóginum er mjög gott berjaland. Fylgt er dráttarvélaslóð skógræktarinnar alla leið. Fnjóská liðast um fyrir neðan skóginn.

Förum frá Þverárrétt um 400 metra suður áreyrarnar og yfir Fnjóská, síðan aðeins norður með landinu handan árinnar, þar sem er einstigi niður í ána, sem við förum upp. Þar komum við á dráttarvélaslóð um Skuggabjargaskóg að Laufási. Við förum framhjá eyðibýlinu Skuggabjörgum og förum neðan við Gæsagil og Nóngil. Að lokum komum við að þjóðvegi 83 um Eyjafjörð og förum yfir veginn að Laufási.

10,4 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Gönguskarð.
Nálægar leiðir: Uxaskarð, Flateyjardalsheiði, Draflastaðafjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Skógarmannafjöll

Frá þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum suður í Skógarmannafjöll.

Slóðin liggur að Almannavegi, sem er forn þjóðleið frá Ferjuási við Jökulsá á Fjöllum um Þrengsli og Olíufjall til Mývatnssveitar.

Förum af þjóðvegi 1 við Amtmannsás og Klaustur og höldum eftir jeppaslóð suður að Skógarmannafjöllum. Förum fyrst austan við fjöllin og síðan um skarð yfir að vesturhlið þeirra og áfram til suðurs með vesturhliðinni. Slóðin endar sunnan við Kollóttafjall nálægt Almannavegi.

14,7 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Garðar Snæland

Skógarholt

Frá þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum um Skógarholt og aftur inn á þjóðveg 1.

Förum frá þjóðvegi 1 í Hverarönd við Námaskarð til suðurs eftir jeppaslóð um Heiðasporðarönd og síðan austur um Búrfellshraun og Flatabjarg að Skógarholti. Áfram austur að jeppaslóða til Skógarmannafjalla. Förum þá slóð norður að þjóðvegi 1 við Klaustur og Amtmannsás.

20,7 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Garðar Snæland

Skjálfandi

Frá Björgum í Köldukinn til Bjargakróks við Skjálfandaflóa.

Ú r Bjargakrók má fara fjöruna áfram til Náttfaravíkur og er þá farið um gat í berginu aðeins 100 metrum frá Bjargakróki. Heitir þar Ágúlshellir og var sprengt tíu metra haft í hellinum árið 1973 til að komast í gegn. Gæta verður sjávarfalla á þessari leið. Baldvin Sigurðsson í Naustavík þurfti að eyða jólanótt í hellinum seint á nítjándu öld, tepptur af brimi og stórhríð. Þessi leið er ekki fær hestum.

Förum frá Björgum til norðurs austan við Ógöngufjall í Bjargakrók.

4,9 km
Þingeyjarsýslur

Nálægar leiðir: Naustavík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sílalækur

Frá Sílalæk um Laxá og Aðaldalshraun.

Byrjum á þjóðvegi 852 við afleggjara að Sílalæk. Förum norðvestur afleggjarann og áfram austur að þjóðvegi 85 í Aðaldal við Laxá. Yfir þjóðveginn og síðan suður með Laxá að mótum þjóðvega 85 og 852 í Aðaldal.

10,7 km
þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hvammsheiði.
Nálægar leiðir: Sandsbæir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sandvatn

Frá Stöng í Mývatnssveit um Sandvatn til Reykjahlíðar við Mývatn.

Leiðin liggur fyrst um ofanverðan Laxárdal, eftir moldarslóð um þurrt kvistaland að Brettingsstöðum. Á leiðinni miðja vega er farið yfir tvo löggarða. Það eru 3-7 metra breiðir garðar, sem voru reistir úr torfi sem landamerki víða um Suður-Þingeyjarsýslu á söguöld og fram á Sturlungaöld, samtals 150 km langir. Þeir hafa sigið og standa nú aðeins um 20 sm upp úr landinu. Við Sandvatn er land vel gróið, en norðan þess er Hólasandur. Frá því er Laxárdal sleppir eiga engir jeppar að geta verið á ferð á þessari leið.

Byrjum á þjóðvegi 1 rétt austan við afleggjara að Stöng í Mývatnssveit. Norðan vegar er girðing með hliði að veiðivegi. Við förum þennan moldarveg norður Laxárdal, vestan eyðibýlanna Brennistaða og Brettingsstaðasels. Þegar við komum að girðingu við tún eyðibýlisins Brettingsstaða, beygjum við þvert í austur, yfir Laxá á brú og hjá eyðibýlinu Hólkoti upp Hólkotsgil. Áfram höldum við austur að Austurgili við Sandvatn. Förum þar norður með vatninu og norðan við Seltanga, um Óttarshaga, sunnan við Heiðarnúpa og Hrossanúpa. Förum fyrir norðurenda Sandvatns og þaðan austur að þjóðvegi 848 norðan Mývatns, yfir hann og yfir þjóðveg 87, sem liggur um Hólasand. Við förum norðan þjóðvegar 87 um Fagraneshóla að flugvellinum norðan við byggðina í Reykjahlíð við Mývatn.

19,0 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Gullvegurinn, Engidalur, Péturskirkja.
Nálægar leiðir: Heiðarsel, Hrossanúpar, Pennaflötur.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sandsbæir

Frá Laxamýri um Sandsbæi að Torfunesi í Köldukinn.

Förum frá Laxamýri vestur með þjóðvegi 85 yfir brú á Laxá. Um hlið á girðingu og vestur að Sílalæk. Síðan suðvestur á þjóðveg 852 og eftir honum suður í Hraunkot. Þaðan suður með Skjálfandafljóti, að Húsabakka. Meðfram þjóðvegi 85 yfir brú á Markarfljóti, upp að Torfunesi.

24,8 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hvammsheiði.
Nálægar leiðir: Sílalækur, Reykjakvísl, Hellur, Hafralækjarskarð, Kinnarfell, Fossel, Fosselsskógur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Réttartorfa

Frá Svartárkoti á Mývatnsheiðum að Blómsturvöllum við Skjálfandafljót.

Bárðargötu er hér lýst í sex dagleiðum. Þær eru, talið frá norðri: Réttartorfa, Öxnadalsdrög, Vonarskarð. Hamarskriki, Fljótsoddi og Bárðargata. Hér er þó ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt. Í þá daga hét Hverfisfljót Raftalækur og var ekki eins ógurlegt og núna. Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.

Förum frá Svartárkoti í 400 metra hæð eftir slóð suður frá bænum og síðan til suðvesturs framhjá afleggjara til suðausturs í Suðurárbotna og yfir Suðurá og síðan suðvestur að Skjálfandafljóti andspænis Hrafnabjargahlíð handan árinnar. Við förum meðfram ánni að fjallaskálanum í Réttartorfu. Við höldum áfram suður með fljótinu að eyðibýlinu Hafursstöðum. Á þessum slóðum er mikil jarðvegseyðing. Þaðan liggur Biskupavegur norðaustur Hafursstaðahlíð og síðan áfram um Suðurárbotna að Jökulsá á Fjöllum. Við förum áfram til suðurs og síðan upp múlann vestan við Sandmúla. Fljótlega mætum við slóð, sem kemur upp af vaði á Skjálfandafljóti við Kvíahraun. Við förum áfram suður á útsýnisstaðinn Víðskyggni í 740 metra hæð og síðan áfram beint í suður. Við Litladal komum við að afleggjara til vesturs niður að skálanum Blómsturvöllum í Öxnadal.

37,0 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Réttartorfa: N65 15.524 W17 18.612.
Botni : N65 16.164 W17 04.061.
Stóra-Flesja: N65 18.407 W17 08.804.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Svartárkot, Suðurá, Öxnadalsdrög.
Nálægar leiðir: Kráká, Suðurá, Dyngjufjalladalur, Biskupaleið, Suðurárhraun.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Reykjakvísl

Frá Laxamýri um Reykjakvísl að Brúnahlíð í Reykjahverfi.

Förum frá Laxamýri suðaustur með Mýrarkvísl um Reykjahverfi vestan þjóðvegarins. Við Helgá förum við suðvestur meðfram Reykjakvísl upp á Reykjaheiði eftir veiðivegi. Aðeins vestar er önnur slóð norður-suður Reykjaheiði. Síðan förum við til suðurs fyrir vestan Hrakholt og áfram suður heiðina. Suðaustur og niður að þjóðvegi 87 andspænis Brúnahlíð og Klambaseli.

16,5 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hvammsheiði, Keldunesheiði.
Nálægar leiðir: Höskuldsvatn, Sandsbæir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Rauðuborgir

Frá þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum að Rauðuborgum.

Förum eftir dráttarvélaslóð frá þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum beint suður í átt að Rauðuborgm. Förum vestan við borgirnar og suður fyrir þær til austurs að fjallaskálunum Rauðuborg og Fjallaborg.

11,3 km
Þingeyjarsýslur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Garðar Snæland

Péturskirkja

Frá Reykjahlíð við Mývatn til Grímsstaða á Fjöllum.

Eldri þjóðleið er Almannavegur frá Ferjufjalli við Jökulsá á Fjöllum.

Þetta er hin gamla þjóðleið milli Norðurlands og Austurlands, oftast kölluð Mývatnsöræfi. Fyrst liggur leiðin um Námaskarð og síðan um lyngvaxið gróðurflæði á Austaraselsheiði. Loks um sandorpið helluhraun með útsýni suður til Herðubreiðar. Péturskirkja er þekktur áningarstaður á þessari leið, kennd við Pétur Jónsson í Reynihlíð. Sunnan leiðarinnar breiðir úr sér Búrfellshraun, mikið flæmi með ótal gjótum, hellum og hraukum og birkikjarri í skjóli. Á þessum slóðum var Fjalla-Bensi í fjárleitum, svo sem lýst er í Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson. Reiðleiðin liggur mestan part langt utan þjóðvegarins, lengst af norðan hans. Leiðin er vel vörðuð og hefur Birkir Fanndal endurreist margar af vörðunum.

Förum frá flugvellinum í Reykjahlíð við Mývatn í 300 metra hæð og förum suður með Melum undir fjallsrótum ofan byggðar í Reykjahlíðarhverfi og áfram beint austur. Upp á þjóðveg 1 við afleggjara að Jarðbaðshólum og förum með þjóðveginum um Námaskarð, í 420 metra hæð. Þegar við komum niður handan skarðsins beygjum við eftir þjóðvegi 863 til norðurs um 500 metra og síðan eftir reiðslóð til austurs um Sandfell og Nautarandir. Förum yfir gamla slóð til Kelduhverfis í 460 metra hæð norðan eyðibýlisins Austarasels. Þaðan förum við austur um Austaraselsheiði og Amtmannsás niður að þjóðvegi 1. Meðfram honum um Skeiðflöt, yfir gamla jeppaveginn að Dettifossi og síðan áfram austur með þjóðvegi 1, stundum sunnan hans og stundum norðan. Leiðin er að mestu leyti enn vörðuð. Komum við í fjallakofanum Péturskirkju og förum síðan áfram framhjá afleggjara að Herðubreið og síðan yfir Jökulsá á Fjöllum um brú hjá Grímsstöðum á Fjöllum. Handan brúar förum við nyrðri þjóðveginn, númer 864, að Grímstungu, í 400 metra hæð.

44,6 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Péturskirkja : N65 38.495 W16 21.949.
Grímsstaðir: N65 38.615 W16 07.050.

Nálægir ferlar: Sandvatn, Hólsfjöll, Öskjuleið.
Nálægar leiðir: Pennaflötur, Hrossanúpar, Draugagrund, Jörundur & Eilífur, Dettifoss, Dettifossvegur, Dimmifjallgarður, Heljardalur.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Sæmundur Eiríksson

Pennaflötur

Frá Grímsstöðum við Mývatn um Pennaflöt að Árhólum í Laxáral.

Þetta er gamla póstleiðin milli Mývatns og Reykjadals. Förum frá Grímsstöðum vestnorðvestur til norðurenda Sandvatns. Síðan norðvestur um Pennaflöt niður í Árhóla.

9,9 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Sandvatn. Nafarvað.
Nálægar leiðir: Hrossanúpar, Ljótsstaðir Máskot.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ódáðahraun

Frá Kattbekingi á Dyngjufjalladalsleið að Öxnadalsá á Bárðargötu.

Tengileið milli þekktra fjallvega norðan Vatnajökuls.

Byrjum á Dyngjufjalladalsleið sunnan við Kattbekking. Förum norðvestur og síðan vestur jeppaslóðina F910 fyrir norðan Þríhyrning og Trölladyngju, mest í 800 metra hæð. Komum að Bárðargötu við Öxnadalsá.

29,0 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Dyngjufjalladalsleið, Bárðargata

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Núpskatla

Frá Oddsstöðum á Melrakkasléttu um Núpskötlu að Kópaskeri.

Rauðinúpur er 75 metra hátt bjarg.  Viti stendur á núpnum og í honum er ógrynni af bjargfugli, sem er lítið nytjaður, enda er bjargið sprungið og hættulegt. Guðmundur Magnússon rithöfundur, öðru nafni Jón Trausti, ólst upp í Núpskötlu.

Förum frá Oddsstöðum vestur í Núpskötlu austan við Rauðanúp, suður með Kötluvatni austanverðu, vestur fyrir suðurbotn þess, vestur í Grjótnes. Síðan suður með ströndinni í Leirhöfn. Að lokum suður með þjóðvegi 85 um Hafnarskörð, að Kópaskeri.

29,4 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Grjótnes

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson