Suðurá

Frá Víðikeri í Bárðardal til Stóru-Flesju í Suðurárbotnum.

Farið er með vegi til Svartárkots og síðan eftir moldarslóð í mjög þýfðu landi til Suðurárbotna. Farið er um vel gróið kvistaland alla leiðina. Svartárkot er með afskekktari jörðum landsins, í 400 metra hæð. Þar er einn af upphafsstöðum silungsræktar í landinu. Mikið útsýni er frá bænum til fjarlægra fjalla. Suðurá er lygn bergvatnsá með grónum bökkum og hólmum. Í Suðurárbotnum eru vel grónar flesjur. Þetta er blómlegasta vinin í útjaðri Ódáðahrauns. Við erum þarna komin á Biskupaleið. Hér er eyðibýlið Hrauntunga, þar sem mannabein hafa fundizt, en býlisins er ekki getið í heimildum. Er þar þó túngarður utanum 4 hektara flöt. Í nágrenninu fundust sverð og laskaðar beinagrindur fallinna. Þegar Biskupaleið lá hér um garða, hefur þetta verið mikil vin og viðkomustaður.

Förum frá rétt við Víðiker með bílvegi beint suður í Svartárkot, síðan um hlaðið á bænum og áfram til suðurs. Tökum síðan syðri slóðina, því að sú nyrðri liggur að Kráká. Syðri slóðin fylgir Suðurá alla leið í Suðurárbotna, en við nemum staðar við fjallaskála í Stóru-Flesju. Þar erum við komin á Biskupaleið yfir Ódáðahraun.

16,9 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Stóra-Flesja: N65 18.407 W17 08.804.

Nálægir ferlar: Víðiker, Engidalur, Krákárbotnar, Suðurárbotnar.
Nálægar leiðir: Hrafnabjargavað, Kráká, Biskupaleið, Suðurárhraun, Íshólsvatn, Dyngjufjalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson