Þjóðleiðir

Þingmannaheiði

Frá Vattarfirði til Vatnsfjarðar.

Áður hluti af þjóðvegi 60 um Barðastrandarsýslu, grýtt leið á aflögðum bílvegi, sem er nokkurn veginn á vegarstæði fornu þjóðleiðarinnar um heiðina. Þar sem Þingmannakleif er orðin torfær, er oftast farið sunnar á heiðina, frá Eiði í Vattarfirði og farið upp Krossbrekkuholt. Friðlýst er forn smiðjutóft norðan Þingmanaár rétt við veginn. Vatnsfjörður og Hörgsnes eru friðland. Arnarsetur eru á svæðinu og þarf að gæta varúðar í umgengni um varptíma.

Byrjum við veg 60 hjá Þingmannakleif í Vattarfirði. Förum bratt norðnorðvestur og upp Þingmannakleif og svo norðvestur um Djúpavatn. Síðan beint vestur á gamla bílveginn um Þingmannaheiði, upp í 420 metra hæð. Við Kjálkafjarðará beinist leiðin meira til suðvesturs. Þar er sæluhús á heiðinni. Síðan förum við suðvestur Þingmannadal og um Smiðjukleifar, að vegi 60 við Þingmannaá í Vatnsfirði.

20,9 km
Vestfirðir

Skálar:
Þingmannaheiði: N65 38.240 W22 58.020.

Nálægar leiðir: Mjólká, Skálmarnes, Breiðaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Þeistareykjabunga

Frá Vesturdal við Jökulsá á Fjöllum að Þeistareykjum.

Farið er vestur yfir norðurenda Gjástykkis. Það er landsig með grónu hrauni og ótal gjám, sem snúa suður og norður. Víða þarf að fara varlega, því að göt eru í dráttarvélaslóðinni. Hér liggja slíkar slóðir upp frá hverjum bæ norðan hraunsins, en leiðin liggur að mestu um þverslóðir milli þessara slóða. Erfitt getur verið að rata, nema menn hafi ferilinn í GPS-tæki. Síðasti hluti leiðarinnar liggur yfir gróna Þeistareykjabungu. Á bungunni liggur slóðin um Stóra og Litla-Víti, gígana tvo, þaðan sem hraunin eru runnin. Á Þeistareykjum er eyðibýli, sem sagt er, að bjarndýr hafi eytt. Þar hefst líka við draugurinn Þeistareykjamóri, hundur sem þar drapst. Á Þeistareykjum er mikill jarðhiti, sem til stendur að virkja. Áður var þar unninn brennisteinn.

Byrjum á melnum við veginn fyrir ofan Vesturdal við Hljóðakletta. Við förum beint vestur á Dettifossveg og tæpan kílómetra suður með honum. Beygjum síðan aftur í vestur eftir hliðarslóð tæpa tvo kílómetra. Síðan aftur til suðurs tvo-þrjá kílómetra um Skuggaklett. Þar á eftir beygjum við til vesturs langan veg um Keldunesheiði, fyrst í vestur og síðan í norður. Þá beygjum við til vesturs rúman kílómetra og förum svo enn til suðurs af beinu slóðinni. Sú slóð liggur til Þeistareykja norðan Þeistareykjabungu. Við ætlum hins vegar að fara yfir Þeistareykjabungu og förum langa leið til suðurs áður en við komum að þverleið til vesturs. Sú leið liggur upp á Þeistareykjabungu, framhjá Litla-Víti og Stóra-Víti í 530 metra hæð. Förum síðan beint vestur í skarðið norðan við Bæjarfjall og sunnan við Ketilfjall, og loks niður brekkurnar að skálanum á Þeistareykjum í 350 metra hæð.

34,3 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Svínadalur: N65 55.000 W16 32.000. Hestahólf
Þeistareykir : N65 52.565 W16 57.340.

Nálægir ferlar: Þeistareykir, Hamrahlíð, Sund.
Nálægar leiðir: Randir, Sandabrot, Hrútafjöll, Dettifossvegur, Jörundur & Eilífur, Hólmatungur, Dettifoss.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þeistareykir

Frá Kelduhverfi um Þeistareyki á Hólasand.

Á Þeistareykjum er eyðibýli, sem sagt er, að bjarndýr hafi eytt. Þar hefst líka við draugurinn Þeistareykjamóri, hundur sem þar drapst. Á Þeistareykjum er mikill jarðhiti, sem til stendur að virkja. Áður var þar unninn brennisteinn.

Byrjum við þjóðveg 85 í Kelduhverfi, sunnan við Lónslón, hálfum kílómetra vestan við Lón. Þar liggur gamli Reykjaheiðarvegurinn suður með Framfjöllum, fyrst með Hólmafjalli og Stallfjalli, um bæinn Fjöll, síðan meðfram Nafarfjalli og Háskálafjalli. Þá um Áfanga og upp Varnarbrekkur vestan Þríhyrnings. Við suðurenda fjallgarðsins komum við að Sæluhúsmúla, þar sem er fjallakofi í 290 metra hæð. Þar beygjum við af Reykjaheiðarveginum austur Bláskógaveg og komum eftir tæpa tvo kílómetra að jeppafærri þverslóð suður um Rauðhól og Þeistareykjahraun að sæluhúsinu í Þeistareykjum í 360 metra hæð. Förum síðan jeppagötu suður með Bæjarfjalli vestanverðu og Kvíhólafjöllum. Þar erum við í 400 metra hæð. Síðan liggur leiðin suður um Borgarhraun og svo til suðvesturs um Hólasand að þjóðvegi 87 milli Húsavíkur og Mývatns. Þar er sæluhúsið Hólasandur í 360 metra hæð.

31,7 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sæluhúsmúli: N65 57.686 W17 02.070.
Þeistareykir : N65 52.565 W16 57.340.
Hólasandur: N65 44.167 W17 06.397.

Nálægir ferlar: Keldunesheiði, Hamrahlíð, Þeistareykjabunga.
Nálægar leiðir: Spóagil, Bláskógavegur, Sæluhúsmúli, Sandabrot, Randir, Draugagrund.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þegjandadalur

Frá Hvoli í Aðaldal um Þegjandadal að Þverá í Laxárdal.

Byrjum hjá vegi 856 við Hvol í Aðaldal. Förum suður Þegjandadal og suðaustur um Halldórsstaðaskarð að Þverá.

11,2 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Nafarvað, Hvammsheiði, Vatnshlíð.
Nálægar leiðir: Máskot, Ljótsstaðir, Hrossanúpar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Þaralátursnes

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá botni Þaralátursfjarðar um Þaralátursnes að gistihúsinu í Reykjarfirði.

Byrjum við ósinn fyrir botni Þaralátursfjarðar. Förum fyrst suðaustur fyrir ósinn og síðan norðvestur að Reykjarfjarðarhálsi og áfram norðaustur með strönd Þaralátursnes, að mestu um stórgrýttar fjörur. Við förum svo til baka suður eftir austurströndinni og komum að gistihúsinu í Reykjarfirði.

11,3 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta

Skálar:
Reykjarfjörður: N66 15.425 W22 05.372.

Nálægar leiðir: Reykjafjarðarháls, Svartaskarð, Furufjarðarnúpur, Skjaldabjarnarvík, Fossadalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Ytrafell

Frá Hjallanesi á Fellsströnd að Kjallaksstöðum á Fellsströnd.

Við Hjallanes er talið gott hafnarstæði og voru um tíma áætlanir um hafnargerð. Á Kjallaksstöðum bjuggu Kjalleklingar, sem deildu við Ljótólfssyni á Ljótólfsstöðum, sem voru milli Staðarfells og Skóga. Um þau vígaferli er fjallað í Landnámu.

Byrjum við þjóðveg 590 við Harastaði milli Hjallaness og Sótaness á Fellsströnd. Förum rudda slóð norður hlíðina. Förum norðnorðvestur um Ytrafell og komum að Flekkudalsá. Förum norðvestur með henni með veiðivegi að vaði yfir Kjallaksstaðaá norðan brúar á þjóðvegi 590 sunnan Kjallaksstaða.

5,9 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Fellsströnd, Galtardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Vörðufell

Frá Iðubrú á Hvítá um Vörðufell að Húsatóftum á Skeiðum.

Förum frá Iðubrú sunnanverðri vestur fyrir Vörðufell og suður með Hvítá í Fjall á Skeiðum. Síðan suður fyrir Vörðufell, um Vorsabæ, að þjóðvegi 30 við Húsatóftir.

13,0 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Iðubrú, Eskidalsvað, Þjórsárbakkar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Vopnafjörður

Frá Hlíð í Vesturárdal í Vopnafirði upp á hringveg 1 við Langadalsvörðu á Möðrudalsheiði.

Örnefnið Biskupsáfangi minnir á, að þetta var hluti Biskupaleiðar, sem lá vestur um Möðrudal og forna ferju á Jökulsá á Fjöllum við Ferjufjall og síðan vestur yfir Ódáðahraun norðan Kerlingardyngju og síðan um Suðurárbotna vestur í Kiðagil og á Sprengisand. Leiðin liggur norðan við núverandi bílveg til Vopnafjarðar og er ófær jeppum. Á leiðinni er farið hjá ýmsum eyðibýlum, sem fóru úr byggð á 19. og 20. öld. Gunnar Gunnarsson skáld átti Arnarvatn og bjó þar í eitt ár í 400 metra hæð, áður en hann fluttist að Skriðuklaustri. Þar er nú fjallaskálinn Arnarvatnsheiði.

Förum frá Hlíð norðvestur upp á Rjúpnafell og síðan vestsuðvestur á Búrfell. Þaðan til suðvesturs vestan Þverfells og áfram suðvestur fyrir suðaustan Álftavatn. Áfram um Desjamýri suðvestur að skálanum við Arnarvatn. Þaðan suður Möðrudalskvos og vestur með Möðrudalskvísl. Síðan til suðurs vestan við Brunahvammsháls að Banatorfum. Suður fyrir endann á Súlendum og þaðan til suðvesturs austan við Þjóðfell um Biskupsáfanga, á þjóðveg 1 við Langadalsvörðu.

40,3 km
Austfirðir

Skálar:
Arnarvatnsheiði: N65 35.479 W15 24.126.

Nálægar leiðir: Haugsleið, Dimmifjallgarður, Hofsárdalur, Skjöldólfur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Vonarskarð

Frá vegamótum Gæsavatnaleiðar um Vonarskarð að Auröldu við Vatnajökul.

Þessi leið er bönnuð hestum.

Bárðargötu er hér lýst í fimm dagleiðum. Nyrsta leiðin er hér kölluð Réttartorfa. Næst koma Öxnadalsdrög. Síðan Vonarskarð. Þá kemur Hamarskriki. Og loks Fljótsoddi. Réttartorfuleiðin hefst við Svartárkot á Mývatnsheiðum og Fljótsoddaleiðin endar við Miklafell á Síðumannaafrétti. Í þessari útgáfu er ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt. Hverfisfljót var þá lítið vatn, kallað Raftalækur. Þannig hefði hann komið suður í Fljótshverfi eins og sagan segir, en ekki suður á Síðu.

Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.

Byrjum á vegamótum Gæsavatnaleiðar og leiðar upp með Skjálfandafljóti að austanverðu, í 800 metra hæð. Við fylgjum ógreinilegri jeppaslóð um Vonarskarð. Förum fyrst suðvestur og síðan beint suður milli Fljótsborgar og Langháls að vestan og Dvergöldu að austan. Norðan við Hnúð og Tindafell beygir leiðin suðvestur milli Stakfells að norðan og Valafells að sunnan. Þar erum við í 1060 metra hæð. Síðan niður Gjóstuklif og krók vestur í Snapadal. Þaðan til suðurs austan við Deili og Svarthöfða. Þar á milli er Vonarskarð í 940 metra hæð. Tæpir þrír kílómetrar eru í beina línu milli Svarthöfða og Vatnajökuls. Við förum áfram suður skarðið um Köldukvíslarbotna nálægt jöklinum, austan við Auröldu. Þar endar þessi leið í 900 metra hæð og við tekur leiðin um Hamarskrika suður í Jökulheima. Héðan eru fimm kílómetrar að fjallaskálanum Hágöngur við Hágöngulón.

42,9 km
Þingeyjarsýsla, Rangárvallasýsla

Ekki fyrir hesta

Skálar:
Hágöngur: N64 34.353 W18 04.238.

Nálægir ferlar: Öxnadalsdrög, Hamarskriki.
Nálægar leiðir: Gæsavötn, Kambsfell, Hágöngulón.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Vítisbrekkur

Frá Hornafirði um Laxárdal í Vítisbrekkur. Byrjum á þjóðvegi 1 við heimreið norðaustur að Meðalfelli. Förum norður að fjöllunum á jeppaslóð norður Laxárdal að Aðgerðará og Vítisbrekkum norðan Árnanesmúla.

9,5 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Endalausidalur, Skógey, Hornafjarðarfljót.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Víkurheiði

Frá Vík í Fáskrúðsfirði um Hvammsvötn til Bakkagerðis í Stöðvarfirði.

Förum frá Vík í Fáskrúðsfirði skáhallt suður á fjallið og austur fyrir Lambafell. Síðan suður um Hvammsvötn vestanverð, austan við Steðja og suðaustan við Hellufjall. Mest í 420 metra hæð á Vegahrygg á Víkurheiði. Þaðan suðvestur í Klifbotna og að þorpinu Kirkjubóli í Stöðvarfirði.

8,1 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Stöðvarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Víkingslækur

Frá Steinkrossi á Heklubraut um Víkingslæk að Þingskálum við Ytri-Rangá.

Víkingslækur er landnámsjörð. Bæjarhús voru þar færð undan sandfoki af Hekluhrauni. Þegar núverandi Víkingslækur, sem hér er getið, fór í eyði, fluttist fólkið að Þingskálum við Ytri-Laxá.

Förum frá Steinkrossi vestnorðvestur um Botnahraun og síðan norðnorðvestur að eyðibýlinu Víkingslæk. Þaðan vestnorðvestur yfir þjóðveg 268 og áfram að Þingskálavaði á Ytri-Rangá.

6,8 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Heklubraut, Knafahólar.
Nálægar leiðir: Kirkjustígur, Réttarnes, Stóruvallaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Víðiker

Frá Stóru-Völlum í Bárðardal til Víðikera.

Leið meðfram vegi.

Förum frá Stóru-Völlum austur yfir brúna á Skjálfandafljóti og síðan suður þjóðveg 843 í Víðiker. Fyrst meðfram Skjálfandafljóti og síðan upp í Fljótsheiði norðan Svartár og endum við rétt hjá Víðikeri.

13,8 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Kiðagil: N65 30.117 W17 27.375.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hellugnúpsskarð, Engidalur, Suðurá.
Nálægar leiðir: Hörgsdalur, Kleifarsund, Hrafnabjargavað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Víðidalstunguheiði

Frá Dæli í Víðidal í Húnaþingi um Víðidalstunguheiði að vegamótum Víðidalstunguheiðar og Haukagilsheiðar við Hraungarða.

Aðrir heiðavegir á svæðinu eru: Norðlingafljót, Arnarvatnsheiði, Tvídægra, Núpdælagötur 1 og 2, Aðalbólsheiði, Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell, Grímstunguheiði, Öldumóða, Stórisandur, Skagfirðingavegur, Sandkúlufell, Bláfell, Fljótsdrög. Sjáið texta með þeim slóðum.

Förum frá Dæli suður með þjóðvegi um Víðidalstungu að Kolugili. Þaðan áfram jeppaslóð suður dalinn. Sunnan Hrappstaða förum við á ská upp austurhlíðina og austur með Gaflsá. Síðan suður með fjallinu og frá fjallinu vestan við Gaflstjörn. Framhjá fjallaskála við Fosshól og síðan suður með Öxná. Þaðan suðaustur um Stóra-Skálshæð og vestan við Þrístiklu að mótum Haukagilsheiðarvegar.

29,7 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Fosshóll: N65 15.718 W20 29.946.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Húnaþing, Borgarvirki, Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell.
Nálægar leiðir: Hraungarðar, Aðabólsháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Vindheimar

Frá Lýtingsstöðum meðfram Héraðsvötnum að brúnni á Héraðsvötnum.

Hestamenn hafa gert greiða götu meðfram Héraðsvötnum á þessari leið. Kaflinn milli Vindheima og Stokkhólma hefur enn ekki verið ákveðinn og ekki vitað, hvernig hann mun liggja. Spyrjist fyrir á staðnum.

Förum frá Lýtingsstöðum norðnorðvestur undir Eggjum um Þorsteinsstðakot og Brúnastaði. Þar förum við norður yfir hálsinn og áfram norðnorðaustur undir Hellisási að Stapa við Héraðsvötn. Áfram norður með Héraðsvötnum á móts við Vindheima. Síðan norður að Stokkhólma og eftir þjóðvegi 753 norður Vellina að þjóðvegi 1 vestan brúar á Héraðsvötnum.

18,9 km
Skagafjörður

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Ingimar Ingimarsson