Þeistareykjabunga

Frá Vesturdal við Jökulsá á Fjöllum að Þeistareykjum.

Farið er vestur yfir norðurenda Gjástykkis. Það er landsig með grónu hrauni og ótal gjám, sem snúa suður og norður. Víða þarf að fara varlega, því að göt eru í dráttarvélaslóðinni. Hér liggja slíkar slóðir upp frá hverjum bæ norðan hraunsins, en leiðin liggur að mestu um þverslóðir milli þessara slóða. Erfitt getur verið að rata, nema menn hafi ferilinn í GPS-tæki. Síðasti hluti leiðarinnar liggur yfir gróna Þeistareykjabungu. Á bungunni liggur slóðin um Stóra og Litla-Víti, gígana tvo, þaðan sem hraunin eru runnin. Á Þeistareykjum er eyðibýli, sem sagt er, að bjarndýr hafi eytt. Þar hefst líka við draugurinn Þeistareykjamóri, hundur sem þar drapst. Á Þeistareykjum er mikill jarðhiti, sem til stendur að virkja. Áður var þar unninn brennisteinn.

Byrjum á melnum við veginn fyrir ofan Vesturdal við Hljóðakletta. Við förum beint vestur á Dettifossveg og tæpan kílómetra suður með honum. Beygjum síðan aftur í vestur eftir hliðarslóð tæpa tvo kílómetra. Síðan aftur til suðurs tvo-þrjá kílómetra um Skuggaklett. Þar á eftir beygjum við til vesturs langan veg um Keldunesheiði, fyrst í vestur og síðan í norður. Þá beygjum við til vesturs rúman kílómetra og förum svo enn til suðurs af beinu slóðinni. Sú slóð liggur til Þeistareykja norðan Þeistareykjabungu. Við ætlum hins vegar að fara yfir Þeistareykjabungu og förum langa leið til suðurs áður en við komum að þverleið til vesturs. Sú leið liggur upp á Þeistareykjabungu, framhjá Litla-Víti og Stóra-Víti í 530 metra hæð. Förum síðan beint vestur í skarðið norðan við Bæjarfjall og sunnan við Ketilfjall, og loks niður brekkurnar að skálanum á Þeistareykjum í 350 metra hæð.

34,3 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Svínadalur: N65 55.000 W16 32.000. Hestahólf
Þeistareykir : N65 52.565 W16 57.340.

Nálægir ferlar: Þeistareykir, Hamrahlíð, Sund.
Nálægar leiðir: Randir, Sandabrot, Hrútafjöll, Dettifossvegur, Jörundur & Eilífur, Hólmatungur, Dettifoss.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson