Þjóðleiðir

Mosfell

Frá Þóroddsstöðum í Grímsnesi að Mosfelli.

Framhald Biskupavegar yfir Lyngdalsheiði.

Förum frá þjóðvegi 37milli Neðra-Apavatns og Þóroddsstaða austur um sumarhúsahverfi og síðan austsuðaustur í átt að suðuröxl Mosfells og loks um kirkjustaðinn Mosfell að þjóðvegi 35 í Biskupstungum. Þaðan er stutt að brúnni á Brúará hjá Spóastöðum.

7,0 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Biskupavegur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Mosfellsheiði

Frá Skeggjastöðum í Mosfellssveit um Mosfellsheiði í Jórukleif í Grafningi við Þingvallavatn.

Förum frá Skeggjastöðum eftir jeppaslóð suðsuðvestur að vestanverðu við Skyggni og Leirtjörn að þjóðvegi 36. Förum hundrað metra niður með þeim þjóðvegi og síðan inn á aðra jeppaslóð neðan við Seljabrekku í Mosfellssveit. Fylgjum jeppaslóðinni suðaustur að eyðibýlinu Bringum. Þaðan austur um Suðurmýrar og áfram austur Mosfellsheiði og tökum svo stefnu beint austur á norðurenda Sköflungs. Förum fyrir horn Sköflungs og þaðan austur á brún Jórukleifar. Förum niður Jórukleif að þjóðvegi 360 um Grafning.

17,9 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Nálægir ferlar: Jórukleif.
Nálægar leiðir: Stardalsleið, Svínaskarð, Mosfellssveit, Selkotsleið, Geldingatjörn, Illaklif, Kóngsvegur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Mosdalur

Frá Tungu í Örlygshöfn að Mosdal í Patreksfirði.

Förum frá Tungu þvert austsuðaustur dalinn og suður Kálfadal og síðan norðaustur að baki Hafnarmúla og niður í Mosdal.

4,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Tunguheiði, Hafnarfjall, Hnjótsheiði, Miklidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Mosar

Frá Kaldaklofskvísl við Hvanngil um Mosa í Bólstað við Einhyrning.

Jeppaleið milli Hvanngils og Einhyrnings. Hestamenn og göngumenn fara frekar um Krók og síðan vestan Einhyrnings í Bólstað.

Byrjum við vaðið á Kaldaklofskvísl sunnan við Hvanngil. Förum vestsuðvestur fyrir sunnan Stórusúlu og Súluhryggi og fyrir norðan Smáfjallarana og Stórkonufell. Áfram vestsuðvestur fyrir norðurenda Útigönguhöfða og Hattafell. Framhjá fjallaskálanum í Hattafelli að fjallaskálanum í Mosum við Markarfljót. Þaðan suður yfir Markarfljótsbrú og áfram eftir jeppavegi suður á milli Einhyrnings að vestan og Einhyrningsaxlar að austan. Suður og niður brekkurnar í Stóraland og síðan suðvestur að fjallaskálanum Bólstað sunnan við Einhyrning.

20,3 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hvanngil: N63 49.920 W19 12.290.
Hvanngil eldri: N63 49.988 W19 12.578.
Hattafellsgil: N63 47.581 W19 22.597.
Mosar: N63 47.040 W19 25.530.
Bólstaður: N63 43.831 W19 28.697.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Laufafell, Krókur, Mælifellssandur, Reiðskarð, Fljótshlíð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Molduxi

Frá Patreksfirði út fyrir Molduxa að Suðureyri við Tálknafjörð.

Ófært hestum.
Víða þarf að klöngrast í grjóti og sæta sjávarföllum í fjöru.

Á Suðureyri sjást ummerki um gamla hvalveiðistöð.

Förum frá Patreksfirði norðvestur eftir ströndinni. Fyrst um Háuhlíð og síðan um Vatneyrarhlíðar, þar sem þarf að fara um brattar skriður og stórgrýttar fjörur. Síðan undir Tálkna út á Tálknatá við Molduxa. Leiðin sveigir til austurs. Við förum í miklum bratta og sætum sjávarföllum á fjöru frá Tálknatá í Hvannadal. Síðan þægilega leið áfram austur í Fáskrúðardal. Að lokum austur á Suðureyri, þar sem við komum á bílveg.

13,2 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta

Nálægar leiðir: Smælingjadalur, Lambeyrarháls, Tálknafjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Mjósund

Frá Krossi í Hagavaðli á Barðaströnd um Mjósund að Fossi í Fossfirði í Arnarfirði.

Nafnið Sjömannabani stafar af slysi, þegar sjö menn villtust með bát frá Arnarfirði og og hröpuðu.

Förum frá Krossi norðnorðvestur Mörudal vestan undir Krossfjalli og austan við klettinn Sjömannabana. Síðan norðnorðvestur um Geldingadal að Vegamótum í 480 metra hæð og þaðan um Útnorðurlautir í Mjósund. Á Vegamótum mætum við leið sunnan af Fossheiði. Frá Mjósundi förum við vestur og niður brattar Hróaldsbrekkur og um efri og neðri Víðilæki norður í Fossdal, niður að Fossi í Fossfirði í Arnarfirði. Frá Hamrahjallaá er bezt að halda niður með Fossá, því að gamla gatan er horfin í skóg.

12,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Fossheiði, Lækjarskarð, Miðvörðuheiði, Hagavaðall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Mjólká

Frá Rauðstöðum í Borgarfirði í Arnarfirði um Mjólkárvirkjun suður á Þingmannaheiði í Barðastrandarsýslu.

Farið er eftir seinfarinni jeppaslóð.

Mjólká á upptök sín á Glámuhálendinu og rennur til Borgarfjarðar í botni Arnarfjarðar. Mjólkárfossar voru virkjaðir á árunum 1955-58 og virkjunin framleiðir 24 MW.

Förum frá Rauðstöðum austur dalinn með Hofsá og síðan suður um Norðurhvilft upp á Borgarboga og suðvestur að Mjólká. Þaðan suður fjallið ofan við Afreksdal að vestanverðu, austan við Eyjarvatn og vestan við Stóra-Eyjarvatn. Þaðan til suðurs fyrir austan Öskjuvatn og til suðausturs fyrir sunnan Hólmavatn. Síðan suður á leiðina um Þingmannaheiði rétt vestan sæluhússins á heiðinni.

28,0 km
Vestfirðir

Skálar:
Þingmannaheiði: N65 38.240 W22 58.020.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Glámuheiði, Afréttardalur, Þingmannaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Mígandagil

Frá Landsenda á Héraði um Hellisheiði, Fagradal og Mígandagil til Böðvarsdals í Vopnafirði.

Að hluta er þetta sama leið og bílvegurinn um Hellisheiði, sem fer úr Fönn vestur um Heiðarskarð og niður með Þýfislæk að Dallandi og Eyvindarstöðum í Vopnafirði. Sá vegur er með hæstu þjóðvegum landsins, 700 metra hár, en reiðleiðin um Fagradal er ekki nema 420 metra há, að vísu á tveimur stöðum. Hún var aldrei mikið farin, aðalleiðin var, þar sem bílvegurinn er núna. Einkum er hrikalegt að fara utan í fjallinu Búri.

Byrjum við þjóðveg 917 við Landsenda undir Landsendafjalli við Héraðsflóa. Þaðan liggur fjallvegurinn yfir Hellisheiði upp með Hellisá og upp á Fönn í 420 metra hæð. Þar liggur bílvegurinn til vesturs. Við förum af honum til norðurs með vesturjaðri Hellisheiðar niður í Fagradal, austan við Skinnagilshnjúk og Búr og vestan við Dýjafjall. Höldum okkur vestan við Fagradalsá og förum ekki alveg niður að sjó. Beygjum þvert til vesturs og förum hátt upp í illræmt einstigi um Búr upp í 420 metra hæð, yfir Mígandagil og niður að Böðvarsdal.

10,5 km
Austfirðir

Mjög bratt

Nálægar leiðir: Blautamýri.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Miklumýrar

Frá brúnni á Jökulfalli að Leppistungum á Hrunamannaafrétt.

Greið leið um eyðimerkurnar vestan og sunnan Kerlingarfjalla. Á síðari hluta leiðarinnar er stuttur afleggjari til Fosslækjar, þar sem er fjallaskáli í gróðurvin, þar sem sagður er hafa verið heiðarbær fyrr öldum. Engar menjar finnast samt um slíkan bæ. En gott er að gista í Fosslækjarveri sem og í Leppistungum eftir ferð ofan úr eyðimörkinni við Kerlingarfjöll. Síðan brúin kom yfir Jökulkvísl á veginum af Kili til Kerlingarfjalla, hefur þetta verið algeng ferðaleið hestamanna. Úr sveitum austan Hvítár hafa menn farið þessa leið í flokkum á landsmót í Skagafirði. Gamla leiðin lá miklu vestar og sunnar, yfir Grjótá í Hrafntóftaveri, síðan um Grjótártungu og yfir Jökulkvísl á vaði við Hvítárbrú norðan Bláfells.

Byrjum í 660 metra hæð á veginum frá Kili til Kerlingarfjalla, þar sem komið er austur yfir brúna á Jökulfalli. Við brúna er jeppaslóð suður með fjöllunum í Leppistungur og áfram til byggða austan Hvítár. Frá brúnni förum við þá slóð suður að Kerlingarfjöllum og síðan meðfram þeim, suður með vesturjaðri Skeljafells og síðan milli Mosfells að vestanverðu og Kúpu að austanverðu. Þar förum við hæst í 700 metra hæð. Síðan hallar slóðinni niður til suðurs og síðan til vesturs að Búðarhálsi. Við höldum áfram frá vegamótunum til suðausturs yfir norðurenda Miklumýra og komum að vesturhlið Kerlingaröldu. Við förum suður með henni að fjallaskálanum Leppistungum, sem er í 500 metra hæð undir Stóra-Leppi.

24,3 km
Árnessýsla

Skálar:
Kerlingarfjöll: N64 41.074 W19 18.119.
Leppistungur: N64 31.933 W19 29.046.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Illahraun, Jökulfall.
Nálægar leiðir: Sandá, Leirá, Rjúpnafell, Klakkur, Grjótá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Miklidalur

Frá Keflavík um Mikladal til Örlygshafnar.

Förum frá Keflavík norður fyrir vestan Svarthamragil að slóð um Hafnarlautir í Mikladal. Þar erum við í 340 metra hæð. Við förum áfram norðaustur og niður í Mikladal og þaðan áfram norðaustur í Örlygshöfn.

6,3 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Hyrnur, Dalverpisvegur, Brúðgumaskarð, Stæðavegur, Bjargtangar, Látraháls, Hafnarfjall, Hnjótsheiði, Mosdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Miklafell

Frá Miklafelli að Orrustuhóli.

Tengileið frá byggðum áleiðis að Blæng og Laka. Frá Blæng er stutt að fara vestur að Laka, þaðan sem eru tvær leiðir að Blágili og síðan suður að Hunkubökkum.

Förum frá fjallaskálanum suðaustan undir Miklafelli í 410 metra hæð og eftir jeppavegi suður til byggða um Eldhraun, milli Dalsfjalls að austan og Hests og Kaldbaks að vestan. Hverfisfljót rennur austast í dalnum. Förum vestan við Grænháls og síðan nálægt vesturfjöllunum um Digranes og Þverárnes að þjóðvegi 1, í 50 metra hæð rétt austan við Orrustuhól.

19,5 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Miklafell: N63 58.782 W18 00.524.

Nálægir ferlar: Fljótsoddi.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Brunasandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Miðvörðuheiði

Frá Haga í Hagavaðli á Barðaströnd um Miðvörðuheiði til Norðurbotns í Tálknafirði.

Leiðin er stórgrýtt og erfið hestum á háheiðinni og villugjörn, ef eitthvað er að veðri.

Sagt er, að hin harðdræga sýslumannsfrú á 18. öld, Halldóra Teitsdóttir í Haga, hafi glatað silfursjóði sínum sínu ofan í Botnsgljúfur, þegar klyfjahestur fældist. Hagi er eitt af helztu höfðingjasetrum landsins. Þar bjó á söguöld hinn djúpvitri Gestur Oddleifsson. Þar sátu sýslumenn og þar sat Guðmundur Scheving, sem var amtmaður Jörundar hundadagakonungs. Jón Thoroddsen sýslumaður skrifaði þar Pilt og stúlku. Synir hans voru Þorvaldur Thoroddsen, Skúli Thoroddsen og Sigurður Thoroddsen, faðir Gunnars Thoroddsen. Hákon Kristófersson alþingismaður bjó í Haga um miðja síðustu öld, bróðir Eiríks Kristóferssonar skipherra.

Förum frá Hagavaðli norðvestur og upp með Hagaá norðanverðri, upp Eflisholt, framhjá Hákonarstekk og neðan við Skjólhamra, sunnan og vestan í Hagamúla. Upp Seljabrekkur og norðvestur hjá Miðvörðu. Upp með og yfir Goluskarð, fyrir Fellisfót. Síðan norðvestur yfir Hagavatnadal, um Miðvörðuheiði í 560 metra hæð. Norðvestur hjá Sjónarhól, fyrir norðaustan Botnsgljúfur og gljúfur Þverár og Reykjagil á Dufansdalsheiði. Þaðan beint norðvestur og niður í Norðurbotn í Tálknafirði. Höldum áfram ofan gilja norðanvert við gljúfrið og komum að Hjallatúni við norðanverðan botn Tálknafjarðar.

18,8 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Fossaheiði, Mjósund, Botnaheiði, Tálknafjörður, Hagavaðall, Dufansdalur, Gýgjarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Miðstrandir

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Krákutúni í Meyjardal að Húsá í botni Ófeigsfjarðar.

Í Húsavík er heit lind og setlaug upp með Húsá og þar er göngubrú yfir ána. Drangaskörð eru ein stórbrotnasta náttúrusmíð landsins.

Förum frá Krákutúni suðaustur með ströndinni, fyrst í Húsavík. Síðan til austurs út fyrir Bæjarfjall að Drangahlíð. Þaðan skýra götu suður og upp í slakkann Kattardal og áfram suðaustur um vel varðaðan Drangaháls í 300 metra hæð innan við Skarðafjall. Góðir göngumenn geta líka farið dramatískari leið um Drangaskörð utan við Skarðafjall. En við komum suðaustur og um sneiðinga niður í Drangavík. Förum þaðan fyrir Skerjasundsmúla og undir Engineshlíðinni inn í Eyvindarfjörð. Þar er göngubrú yfir Eyvindarfjarðará. Næst förum við austur um Básana og suður fyrir skriðurunninn Hrúteyjarnesmúla. Áfram suður með ströndinni um víkina Látur, um Borgarháls ofan við Borg, fyrir mynni Dagverðardals, ofan við Strandatún og Háareka að Hvalá, mesta vatnsfall Vestfjarða. Þar er brú og þar komum við á jeppaslóð. Að lokum förum við áfram suður með ströndinni að Húsá.

25,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Skjaldabjarnarvík, Drangajökull, Ófeigsfjarðarheiði, Brekkuskarð, Seljanesmúli, Þúfur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Miðstrandarskarð

Frá Reykjum í Mjóafirði um Miðstrandarskarð til Neskaupstaðar.

Að Reykjum er illfær slóði með suðurströnd Mjóafjarðar. Hægt er að fá sig fluttan á bát frá Brekku yfir fjörðinn til Reykja. Stikuð gönguleið.

Förum frá Reykjum austur yfir brú á Reykjaá og að Gilsárdal. Síðan suður með Gilsá inn í dalbotn og austur á fjallið. Þar komum við á brún Ljósárdals og förum til suðurs undir brúninni í Miðstrandarskarð í 690 metra hæð. Að lokum suður mjög brattar brekkur niður í Neskaupstað.

5,8 km
Austfirðir

Erfitt fyrir hesta

Nálægar leiðir: Drangaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Miðskálaheiði

Frá mótum þjóðvegar 249 og námuvegar um Miðskálaheiði að Skálakoti undir Eyjafjöllum.

Varð ófær sumarið 2010 vegna eldgoss í Eyjafjallajökli.

Byrjum við mót þjóðvegar 249 og námuvegar norðan við Seljalandsfoss. Förum námuveginn austur á Hamragarðaheiði og síðan austsuðaustur um Bláfell og inn á Miðskálaheiði. Þaðan suður Ásólfsskálaheiði að Skálakoti.

19,6 km
Rangárvallasýsla

Nálægar leiðir: Holtsós, Eyjafjöll.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort