Mígandagil

Frá Landsenda á Héraði um Hellisheiði, Fagradal og Mígandagil til Böðvarsdals í Vopnafirði.

Að hluta er þetta sama leið og bílvegurinn um Hellisheiði, sem fer úr Fönn vestur um Heiðarskarð og niður með Þýfislæk að Dallandi og Eyvindarstöðum í Vopnafirði. Sá vegur er með hæstu þjóðvegum landsins, 700 metra hár, en reiðleiðin um Fagradal er ekki nema 420 metra há, að vísu á tveimur stöðum. Hún var aldrei mikið farin, aðalleiðin var, þar sem bílvegurinn er núna. Einkum er hrikalegt að fara utan í fjallinu Búri.

Byrjum við þjóðveg 917 við Landsenda undir Landsendafjalli við Héraðsflóa. Þaðan liggur fjallvegurinn yfir Hellisheiði upp með Hellisá og upp á Fönn í 420 metra hæð. Þar liggur bílvegurinn til vesturs. Við förum af honum til norðurs með vesturjaðri Hellisheiðar niður í Fagradal, austan við Skinnagilshnjúk og Búr og vestan við Dýjafjall. Höldum okkur vestan við Fagradalsá og förum ekki alveg niður að sjó. Beygjum þvert til vesturs og förum hátt upp í illræmt einstigi um Búr upp í 420 metra hæð, yfir Mígandagil og niður að Böðvarsdal.

10,5 km
Austfirðir

Mjög bratt

Nálægar leiðir: Blautamýri.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort