Þjóðleiðir

Pennaflötur

Frá Grímsstöðum við Mývatn um Pennaflöt að Árhólum í Laxáral.

Þetta er gamla póstleiðin milli Mývatns og Reykjadals. Förum frá Grímsstöðum vestnorðvestur til norðurenda Sandvatns. Síðan norðvestur um Pennaflöt niður í Árhóla.

9,9 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Sandvatn. Nafarvað.
Nálægar leiðir: Hrossanúpar, Ljótsstaðir Máskot.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Óskotsleið

Reykjanes, Þjóðleiðir

Hringleið um Mosfellsbæ og Reynisvatnsheiði.

Rétt þar hjá, sem hringvöllurinn er á Varmárbökkum, var Hestaþingshóll, sem bendir til að þar hafi verið háð hestaöt.

Síðasti bóndinn í Óskoti var Janus Eiríksson, sem hætti búskap 1970. Hann sagði gríðarlega umferð hafa verið hjá Óskoti um Gamla veginn svonefnda, sem lá austur á Þingvöll. Á leiðinni skammt frá Hafravatni stóð bærinn Búrfell. Í Jarðabók Árna Magnússonar frá 1703 segir bæinn hafa þá verið í eyði í átta ár og var þetta hjáleiga frá Miðdal. Í Jarðabókinni segir: “Lagðist þetta kot mest í eyði fyrir óbærilegum átroðningi þjóðgötu, sem þar liggur í gegnum túnið, og er þetta kot ekki þess erfiðis vert, sem kosta vildi að gjöra þar bygð að nýju, sá er ágangi ferðamanna gæti af hrundið, og þykir því ei aftur byggjandi.”

Förum frá Ferðamannavaði á Korpu/Úlfarsá um fjöruna hjá Leiruvogi yfir Dýjakrókslæk norðan golfvallar í hesthúsahverfið á Varmárbökkum. Þaðan yfir brú á Köldukvísl og síðan upp með ánni að norðanverðu inn í Mosfellsdal. Þar förum við suður yfir þjóðveg á veg suðaustur með Helgafelli og upp Skammaskarð í Skammadal og að Suður-Reykjum. Þar liggja götur út með hlíðinni að Hafravatni. Óskot er suðvestan vatnsins sunnan við afrennslið úr Úlfarsá til vesturs. Þaðan liggja troðningar um Óskotsheiði suður á Langavatnsheiði og Reynisvatnsheiði. Þar komum við á veg að Reynisvatni. Þaðan liggja góðar götur um Reynisvatnsheiði að Rauðavatni og aðrar götur um Hólmsheiði. Ein þeirra liggur niður Almannadal. Um hann voru ýmsar leiðir áður fyrr, til dæmis leið skreiðarlesta austan úr sýslum til Suðurnesja. Einnig til norðurs að verstöðvunum við Kollafjörð. Niðurgrafnar götur eru víðs vegar um heiðarnar á þessu svæði. Frá Reynisvatnsheiði förum við með vegi framhjá eyðibýlinu Engi niður að Vesturlandsvegi og undir brúna á Korpu. Þaðan förum við loks eftir nýjum reiðgötum yfir vað á Korpu og stuttan spöl eftir árfarveginum að Ferðamannavaði á Blikastöðum. Hringnum er lokað.

23,3 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Kóngsvegur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Örn H. Bjarnason

Ósaleið

Frá Hrauni í Ölfusi um ósa Ölfusár að Egilsstöðum í Ölfusi.

Förum frá Hrauni eftir vegarslóða suðaustur að Ölfusá. Síðan út í ána og norðaustur eftir leirum að Nauteyri. Síðan norðaustur eftir eyrinni og svo vestan við Álftarhólma og Lambey. Beygjum til austurs fyrir norðan Lambey. Fylgjum ströndinni austur að þjóðvegi 375 við Egilsstaði og Auðsholt.

8,8 km
Árnessýsla

Erfitt fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Skóghlíð, Trölladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Ólafsvíkurenni

Frá Rifi að Ólafsvík á Snæfellsnesi.

Sumir týndu lífi við Ólafsvíkurenni. Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir frá Hettu tröllkonu, sem bjó í Ennisfjalli. Hún var úfin í viðskiptum sínum við Ingjald bónda á Ingjaldshóli og við ferðalanga, sem áttu leið um Ólafsvíkurenni. Jónas Hallgrímsson fór þarna: “Riðum við fram um flæði / flúðar á milli’ og gráðs, / fyrir Ólafsvíkurenni, / utan við kjálka láðs. / Fjörðurinn bjartur og breiður / blikar á aðra hlið, / tólf vikur fullar að tölu, / tvær álnir hina við. / Hvurt á nú heldur að halda / í hamarinn svartan inn, / ellegar út betur til þín? / Eggert, kunningi minn!”. Um Ennisdal var stundum farið þegar flóð var undir Ólafsvíkurenni en í fjörunni þar lá annars leiðin. Seinfarið er um Ennisdal vegna mikils grjóts víða. Nú er kominn breiður vegur fyrir ennið og stutt að fara milli Hellissands/Rifs og Ólafsvíkur.

Förum frá Hellissandi eða Rifi eftir þjóðvegi um Ólafsvíkurenni austur í Ólafsvík.

5,6 km
Snæfellsnes-Dalir

Bílvegur

Nálægir ferlar: Beruvík.
Nálægar leiðir: Ennisdalur, Fróðárheiði, Búlandshöfði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Ólafsskarð

Frá Litlu kaffistofunni að Híðarenda í Ölfusi.

Ólafsskarð er styzta leiðin frá Reykjavík austur í Ölfus og býður bezta útsýnið yfir fjöllin sunnan Hellisheiðar. Er hins vegar ógreiðfær og var aldrei fjölfarin. Í þoku og myrkri er hún hins vegar villugjörn, enda ekki vörðuð. Hún hentar þeim, sem eru á leið til Þorlákshafnar eða um neðstu Ölfusárbrú yfir í Flóann. Um Jósepsdal orti Grímur Thomsen: “Engin börn í berjaheiði / ber þar tína glöð og rjóð, / sjálf hjá dalnum sauðkind sneiðir, svo er han gjörsamlega í eyði / aldrei þangað stökkur stóð.”

Förum frá Litlu kaffistofunni til suðurs undir hrauninu, förum um Þórishamar og síðan suðvestur í Ólafsskarð milli Vífilfells að vestan og Sauðadalshnjúka að austan. Beygjum síðan til suðurs upp slakkann milli Sauðadalshnjúka að norðan og Ólafsskarðshnjúka að sunnan, erum þar í 400 metra hæð. Þegar við komum niður úr slakkanum höldum við áfram suður meðfram austurhlíðum Bláfjalla, við jaðar Lambafellshrauns. Við förum norðan og austan við Fjallið eina og tökum stefnu á norðurenda Geitafells. Förum þar um Þúfnavelli og síðan áfram beina stefnu sunnan við Krossfjöll og loks niður Fagradal í Ölfus hjá eyðibýlinu Litlalandi vestan við Hlíðarenda.

21,1 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur, Rauðavatnshringur, Rauðhólahringur, Jórukleif.
Nálægar leiðir: Elliðavatn, Mosfellssveit, Þrengsli, Dyravegur, Lágaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ólafsfjarðarskarð

Frá Þverá í Ólafsfirði um Ólafsfjarðarskarð til Holtsdals í Fljótum.

Ein af aðalleiðum landpóstanna frá Akureyri um Ólafsfjörð til Siglufjarðar. Úr skarðinu má fara norður í Sandskarð og Hólsskarð til Siglufjarðar.

Byrjum við þjóðveg 82 hjá Skarðsá í Ólafsfirði. Förum vestur Kvíabrekkudal og síðan norðvestur Skarðsdal og loks norður í Ólafsfjarðarskarð í 740 metra hæð. Svo förum við norðvestur í Ólafsfjarðardal og vestur dalinn niður í Holtsdal í Fljótum.

10,2 km
Eyjafjörður, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Heiðarmýrar, Grímubrekkur, Húngilsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Ófæra

Frá Keflavík til Skálavíkur.

Stórgrýtt og ill yfirferðar. Ófæra er klettanef, sem ekki verður farið fyrir, heldur verður að klöngrast í klettunum. Hillan var lagfærð, en hefur lengi ekki verið farin.

Förum frá Keflavík fjöruna undir Öskubak um Skálavíkurfjörur, upp úr fjörunni við Ófæru og niður í hana aftur. Önnur leið milli þessara staða er um Bakkaskarð.

5,4 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Ásgerðarbúð: N66 10.887 W23 28.530.

Nálægar leiðir: Bakkaskarð, Skálavíkurheiði, Norðureyrargil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ófeigsfjarðarheiði

Frá Skjaldfönn á Langadalsströnd til Ófeigsfjarðar á Ströndum.

Heiðin var vel vörðuð, en margar eru fallnar.

Förum frá Skjaldfönn suðaustur Skjaldfannardal hjá eyðibýlunum Laugalandi og Hraundal, síðan austur Hraundal, sunnan megin Hraundalsár. Síðan í norðurhlíð Rauðanúps. Þar beygjum við aðeins til norðurs um Rjóður og upp á Borg í 480 metra hæð. Síðan austur yfir holtahryggi og melöldur á Ófeigsfjarðarheiði. Þar förum við norðan við vatnið Röng, förum yfir Hvalá. Síðan milli Vatnalautavatna, sunnan við stærra vatnið. Skömmu síðar komum við að Rjúkanda. Förum sunnan árgljúfranna yfir ána og norðaustur yfir ása og hjalla yfir í Húsadal og til Ófeigsfjarðar.

32,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Hraundalsháls, Drangajökull, Miðstrandir, Brekkuskarð, Seljanesmúli.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ódáðavötn

Frá Sturluflöt í Suðurdal í Fljótsdal um Hornbrynju og Ódáðavötn að fjallveginum yfir Öxi við Þrívörðuháls.

Jeppaslóðin liggur norðan Ódáðavatna, en gamla reiðslóðin var eftir mjóu eiði milli vatnanna og yfir kíl, sem tengir vötnin. Enn sjást leifar af veghleðslu yfir kílinn.

Förum frá Bessastöðum í Fljótsdal suður að brúnni austur yfir Jökulsá. Síðan með þjóðvegi 935 suður að Sturluflöt. Þar förum við yfir drög Gilsárdals suðaustur í Hornbrynjuslakka og þaðan suðsuðaustur að fjallaskálanum Bjarnarhíði. Við förum eftir jeppaslóð austur á þjóðveg 939 um Öxi og komum að veginum við Þrívörðuháls.

23,4 km
Austfirðir

Skálar:
Bjarnarhíði: N64 50.853 W14 51.507.

Nálægar leiðir: Kelduá, Sauðárvatn, Flosaleið, Hornbrynja.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Ódáðahraun

Frá Kattbekingi á Dyngjufjalladalsleið að Öxnadalsá á Bárðargötu.

Tengileið milli þekktra fjallvega norðan Vatnajökuls.

Byrjum á Dyngjufjalladalsleið sunnan við Kattbekking. Förum norðvestur og síðan vestur jeppaslóðina F910 fyrir norðan Þríhyrning og Trölladyngju, mest í 800 metra hæð. Komum að Bárðargötu við Öxnadalsá.

29,0 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Dyngjufjalladalsleið, Bárðargata

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Okvegur

Frá Hallbjarnarvörðum á Bláskógaheiði að Rauðsgili eða Giljum í Hálsasveit í Borgarfirði.

Engar vörður eru á veginum, en hann er smávegis farinn á hverju sumri og sést vel.

Okvegur var þekktur að fornu, sjaldan farinn, enda grýttur og langur. Vermenn fóru oft þessa leið. Sauðir voru stundun reknir hana suður til Reykjavíkur. Í Harðar sögu er sagt frá för Grímkels goða er hann ríður úr Þingvallasveit um Ok: “Hann stefndi öllum bændum á sinn fund til Miðfells, þeim sem þá hafði hann hitt, á tveggja nátta fresti, því að Grímkell hafði goðorð yfir þessum sveitum öllum. Til Miðfells komu sex tugir þingmanna hans. Grímkell segir þeim nauðsynjamál sitt við Torfa og kveðst ætla að fara stefnuför til Torfa. Öllum þótti það vorkunn. Þeir riðu um Gjábakka svo um Kluftir og um Ok; svo neðri leið ofan hjá Augastöðum og svo á Breiðabólsstað. Torfi var eigi heima og var farinn upp í Hvítársíðu.”

Förum frá Hallbjarnarvörðum fyrst norður Kaldadal í Brunna. Þar greinist Okvegur frá Kaldadal og liggur til norðurs um undirhlíðar Oks að vestanverðu. Allur er sá vegur illur yfirferðar og sáralítið farinn. Oft fara menn fyrst norður eftir Kaldadalsvegi í Leirárdrög og fara þaðan þvert vestur á Okveg. Við förum vestan við Fanntófell, mitt á milli þess og Skotmannafells. Síðan um Þvermel og norður yfir Flókudrög á Tjaldhól. Þar skiptast leiðir, önnur liggur niður í Giljar og hin vestari í Rauðsgil. Tökum eystri leiðina fyrst. Hún liggur beint norður um Rauðsgilsdrög og um Smjörtjörn að vestanverðu, síðan austan við Hádegishnjúk og niður að Giljum í Hálsasveit. Vestari leiðin liggur frá Tjaldhól, fyrst í vestur og síðan fljótlega í norður, yfir Rauðsgil og vestur fyrir Sléttafell og í Skammárdal. Við fylgjum þar Skammá til vesturs og förum aftur yfir Rauðsgil. Síðan niður með Rauðsgili að vestanverðu að bænum á Rauðsgili. Þessi vestari leið er nokkru lengri en hin eystri.

29,3 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Kaldidalur: N64 26.840 W20 57.711.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Kaldidalur, Norðlingafljót, Hvítársíða.
Nálægar leiðir: Skjaldbreiður, Reyðarvatn, Rauðsgil, Húsafell.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Oddsstaðir

Frá Leirhöfn til Blikalóns á Melrakkasléttu.

Einnig er hægt að fara frá Hávarðsvatni eftir afleggjaranum til Grjótness og síðan sunnan túngarðs austur yfir á þá slóð, sem hér er lýst. Það er gamla þjóðleiðin, en húsráðanda í Grjótnesi er ekki vel við þann kost.

Við förum um strendur sléttunnar og nálægt þeim, um sjávarlón og sjávarfitjar. Fuglalíf er fjölbreytt, mest votlendisfuglar og sjófuglar. Mikið er af svartfugli í björgum og þarna er nyrsta súlubyggð landsins. Mikið útsýni er af Rauðanúpi milli Grjótness og Núpskötlu. Flestir bæir á ströndinni eru komnir í eyði. Áður lifði fólk hér af sjósókn og veiðum í vötnum og sjávarlónum. Hér er mikill reki og í Grjótnesi er stórhýsi byggt úr rekavið. Þar býr húsfreyja, sem ekki er vel við, að riðið sé um Grjótnes. Hér er lýst leið, sem er fjær bænum, en einnig er hægt að fara við túngarðinn í Grjótnesi.

Byrjum á Nýhafnartorfunni vestan Leirhafnarvatns. Förum sjávarmegin þjóðvegar 84 til norðurs að Grjótnesvegi. Fylgjum ströndinni til norðurs vestan við Brunavatn og Hávarðsvatn. Þegar komið er að norðurenda síðara vatnsins beygjum við þvert í austur eftir reiðslóð yfir Stóraás. Þegar við komum að brekkunum undir Núpskötluvegi förum við til norðurs undir þeim, um Vætubrekku og austan við Seltjarnir að suðurenda Kötluvatns, þar sem við beygjum upp brekkuna að veginum til Núpskötlu. Síðan förum við áfram norður veginn að túngirðingu í Núpskötlu, beygjum með henni til austurs og förum yfir Nónás beint í Oddsstaði. Þaðan förum við suður afleggjarann og síðan út af honum til suðvesturs við miðja vesturhlið Suðurvatns. Förum þar um smávötn suður fyrir Vatnsenda og loks austur á heimreiðina að bænum, fylgjum henni til suðausturs að þjóðvegi 85, sem við förum til norðausturs. Förum veginn um rifið norðan við Sigurðarstaðavatn að eyðibýlinu Blikalóni.

28,7 km
Þingeyjarsýslur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Oddeyrar

Frá Grímsstöðum í Landeyjum að Varmadal við þjóðveg 1.

Um Odda segir svo í Wikipedia: “Bærinn stendur á oddanum sem myndast á milli Ytri- og Eystri-Rangánna og Þverár, þar sem hún rennur saman við Ytri-Rangá og ber því nafn með rentu. Þar hefur verið kirkja síðan í öndverðri kristni. Þar bjó Sæmundur fróði Sigfússon og afkomendur hans eftir hann í tvær aldir og nefndust þeir Oddaverjar. Í Odda hafa verið margir frægir prestar, þeirra frægastur er Sæmundur fróði Sigfússon. Aðrir þekktir prestar voru til dæmis Matthías Jochumsson um tíma á 19. öld og Arngrímur Jónsson um tíma á 20. öld.”

Byrjum á þjóðvegi 252 í Landeyjum hjá afleggjara að Grímsstöðum. Förum norðvestur afleggjarann um Grímsstaði að Hólsá. Síðan norðnorðaustur með ánni að Ártúnum, þar sem við förum austur með Þverá. Síðan austnorðaustur yfir Þverá á Bökkum og norður yfir þjóðveg 266 vestan Odda. Síðan norðaustur að þjóðvegi 266 og frá veginum norður að þjóðvegi 1 við Varmadal.

21,0 km
Rangárvallasýsla

Nálægar leiðir: Fíflholt.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Nýjabæjarfjall

Frá Ábæ í Austurdal til Torfufells í Eyjafirði.

Við Ábæ í Austurdal var eina þrautavaðið á Jökulsá eystri í Skagafirði. Austdælingar bjuggu til vetrarbrýr á Jökulsá. Vaður úr hrosshári var strengdur þvert yfir ár neðan til á hyljum, þannig að hann rétt snerti vatnsborðið, Krapaburður staðnæmdist við strenginn, fraus saman og varð að manngengum ís. Nýjabæjarfjall er langur og hár fjallvegur um nakið grjót, grófur undir hóf og sjaldan farinn. Nýjabæjarfjalls er getið í Sturlungu og það var farið allar aldir síðan. Austdælingar fóru hér sínar kaupstaðarferðir. Lestarferðir um Nýjabæjarfjall lögðust ekki niður fyrr en 1908. Nú á dögum er þessi leið nánast aldrei farin. Hún er leiðinlega grýtt og seinfarin á fjallinu og verst austast. Við Ábæ er kennd Ábæjar-Skotta, einn frægasti draugur landsins, oft í för með öðrum draugi, Þorgeirsbola.

Förum frá Ábæ suður Austurdal, norðaustan við Eystri-Jökulsá, framhjá eyðibýlunum Tinnárseli og Nýjabæ. Þar sem Hvítá rennur að austan í Jökulsá förum við til austurs upp brattan og þunnan Hvítármúla milli Ytri- og Fremri-Hvítár. Erum þá komin upp á Nýjabæjarfjall, sem er afar breitt fjall á mörkum þess að vera jökull. Leiðin liggur norður af austri, hæst í 1020 metrum norðan fjallaskálans Litlakots. Síðan sunnan við Galtárhnjúk og niður Galtártungur milli Galtár og draga Torfufellsár, austur yfir Torfufellsá og niður með henni allan Torfufellsdal að Villingadal eða Torfufelli.

36,0 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Skálar:
Hildarsel: N65 15.344 W18 44.131.
Litlakot: N65 15.410 W18 30.415.

Nálægar leiðir: Vatnahjalli, Laugafell, Elliði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort og Árbækur Ferðafélagsins

Núpstúnskista

Frá Hrepphólum meðfram Stóru-Laxá að Sólheimum.

Förum frá Hrepphólum austur veg að stuðlabergsnámu í hólunum og síðan áfram norður að Núpstúnskistu og austan með henni og Galtafelli, vestan við Stóru-Laxá að Sólheimum í Hrunamannahreppi.

7,6 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH