Óskotsleið

Reykjanes, Þjóðleiðir

Hringleið um Mosfellsbæ og Reynisvatnsheiði.

Rétt þar hjá, sem hringvöllurinn er á Varmárbökkum, var Hestaþingshóll, sem bendir til að þar hafi verið háð hestaöt.

Síðasti bóndinn í Óskoti var Janus Eiríksson, sem hætti búskap 1970. Hann sagði gríðarlega umferð hafa verið hjá Óskoti um Gamla veginn svonefnda, sem lá austur á Þingvöll. Á leiðinni skammt frá Hafravatni stóð bærinn Búrfell. Í Jarðabók Árna Magnússonar frá 1703 segir bæinn hafa þá verið í eyði í átta ár og var þetta hjáleiga frá Miðdal. Í Jarðabókinni segir: “Lagðist þetta kot mest í eyði fyrir óbærilegum átroðningi þjóðgötu, sem þar liggur í gegnum túnið, og er þetta kot ekki þess erfiðis vert, sem kosta vildi að gjöra þar bygð að nýju, sá er ágangi ferðamanna gæti af hrundið, og þykir því ei aftur byggjandi.”

Förum frá Ferðamannavaði á Korpu/Úlfarsá um fjöruna hjá Leiruvogi yfir Dýjakrókslæk norðan golfvallar í hesthúsahverfið á Varmárbökkum. Þaðan yfir brú á Köldukvísl og síðan upp með ánni að norðanverðu inn í Mosfellsdal. Þar förum við suður yfir þjóðveg á veg suðaustur með Helgafelli og upp Skammaskarð í Skammadal og að Suður-Reykjum. Þar liggja götur út með hlíðinni að Hafravatni. Óskot er suðvestan vatnsins sunnan við afrennslið úr Úlfarsá til vesturs. Þaðan liggja troðningar um Óskotsheiði suður á Langavatnsheiði og Reynisvatnsheiði. Þar komum við á veg að Reynisvatni. Þaðan liggja góðar götur um Reynisvatnsheiði að Rauðavatni og aðrar götur um Hólmsheiði. Ein þeirra liggur niður Almannadal. Um hann voru ýmsar leiðir áður fyrr, til dæmis leið skreiðarlesta austan úr sýslum til Suðurnesja. Einnig til norðurs að verstöðvunum við Kollafjörð. Niðurgrafnar götur eru víðs vegar um heiðarnar á þessu svæði. Frá Reynisvatnsheiði förum við með vegi framhjá eyðibýlinu Engi niður að Vesturlandsvegi og undir brúna á Korpu. Þaðan förum við loks eftir nýjum reiðgötum yfir vað á Korpu og stuttan spöl eftir árfarveginum að Ferðamannavaði á Blikastöðum. Hringnum er lokað.

23,3 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Kóngsvegur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Örn H. Bjarnason