Oddsstaðir

Frá Leirhöfn til Blikalóns á Melrakkasléttu.

Einnig er hægt að fara frá Hávarðsvatni eftir afleggjaranum til Grjótness og síðan sunnan túngarðs austur yfir á þá slóð, sem hér er lýst. Það er gamla þjóðleiðin, en húsráðanda í Grjótnesi er ekki vel við þann kost.

Við förum um strendur sléttunnar og nálægt þeim, um sjávarlón og sjávarfitjar. Fuglalíf er fjölbreytt, mest votlendisfuglar og sjófuglar. Mikið er af svartfugli í björgum og þarna er nyrsta súlubyggð landsins. Mikið útsýni er af Rauðanúpi milli Grjótness og Núpskötlu. Flestir bæir á ströndinni eru komnir í eyði. Áður lifði fólk hér af sjósókn og veiðum í vötnum og sjávarlónum. Hér er mikill reki og í Grjótnesi er stórhýsi byggt úr rekavið. Þar býr húsfreyja, sem ekki er vel við, að riðið sé um Grjótnes. Hér er lýst leið, sem er fjær bænum, en einnig er hægt að fara við túngarðinn í Grjótnesi.

Byrjum á Nýhafnartorfunni vestan Leirhafnarvatns. Förum sjávarmegin þjóðvegar 84 til norðurs að Grjótnesvegi. Fylgjum ströndinni til norðurs vestan við Brunavatn og Hávarðsvatn. Þegar komið er að norðurenda síðara vatnsins beygjum við þvert í austur eftir reiðslóð yfir Stóraás. Þegar við komum að brekkunum undir Núpskötluvegi förum við til norðurs undir þeim, um Vætubrekku og austan við Seltjarnir að suðurenda Kötluvatns, þar sem við beygjum upp brekkuna að veginum til Núpskötlu. Síðan förum við áfram norður veginn að túngirðingu í Núpskötlu, beygjum með henni til austurs og förum yfir Nónás beint í Oddsstaði. Þaðan förum við suður afleggjarann og síðan út af honum til suðvesturs við miðja vesturhlið Suðurvatns. Förum þar um smávötn suður fyrir Vatnsenda og loks austur á heimreiðina að bænum, fylgjum henni til suðausturs að þjóðvegi 85, sem við förum til norðausturs. Förum veginn um rifið norðan við Sigurðarstaðavatn að eyðibýlinu Blikalóni.

28,7 km
Þingeyjarsýslur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson