Ólafsskarð

Frá Litlu kaffistofunni að Híðarenda í Ölfusi.

Ólafsskarð er styzta leiðin frá Reykjavík austur í Ölfus og býður bezta útsýnið yfir fjöllin sunnan Hellisheiðar. Er hins vegar ógreiðfær og var aldrei fjölfarin. Í þoku og myrkri er hún hins vegar villugjörn, enda ekki vörðuð. Hún hentar þeim, sem eru á leið til Þorlákshafnar eða um neðstu Ölfusárbrú yfir í Flóann. Um Jósepsdal orti Grímur Thomsen: “Engin börn í berjaheiði / ber þar tína glöð og rjóð, / sjálf hjá dalnum sauðkind sneiðir, svo er han gjörsamlega í eyði / aldrei þangað stökkur stóð.”

Förum frá Litlu kaffistofunni til suðurs undir hrauninu, förum um Þórishamar og síðan suðvestur í Ólafsskarð milli Vífilfells að vestan og Sauðadalshnjúka að austan. Beygjum síðan til suðurs upp slakkann milli Sauðadalshnjúka að norðan og Ólafsskarðshnjúka að sunnan, erum þar í 400 metra hæð. Þegar við komum niður úr slakkanum höldum við áfram suður meðfram austurhlíðum Bláfjalla, við jaðar Lambafellshrauns. Við förum norðan og austan við Fjallið eina og tökum stefnu á norðurenda Geitafells. Förum þar um Þúfnavelli og síðan áfram beina stefnu sunnan við Krossfjöll og loks niður Fagradal í Ölfus hjá eyðibýlinu Litlalandi vestan við Hlíðarenda.

21,1 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur, Rauðavatnshringur, Rauðhólahringur, Jórukleif.
Nálægar leiðir: Elliðavatn, Mosfellssveit, Þrengsli, Dyravegur, Lágaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort