1967-1972 Hægfara byrjun

Starfssaga

Smám saman varð starf mitt flokkspólitískara. Jóhann Hafstein varð ráðherra og hætti að skrifa leiðara. Víglundur Möller dró sín skrif saman um helming. Ég varð að taka yfir pólitísk verkefni í leiðaraskrifum. Á þessum tíma sat ritstjóri Vísis á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins. Það tengdi mig nánar við flokkinn og stefnu hans. Um leið varð þetta kveikjan að síðari ágreiningi. Þegar pólitísk skrif mín fóru að vafra út fyrir það, sem sumir töldu vera kórrétt. Ég skrifaði miður vel um herforingjastjórnir í Chile og Grikklandi. Einkum skrifaði ég þó óviðurkvæmilega um hernaðinn í Víetnam.

Ég sat þingflokksfundi Sjálfstæðis sem ritstjóri Vísis undir lok sjöunda áratugarins. Tími Viðreisnar með Bjarna Benediktsson sem forsætis. Mér kom Bjarni fyrir sjónir sem harðstjóri. Þingmenn hoppuðu kringum hann eins og hræddir þrælar kringum húsbónda. Hann stjórnaði með harðri hendi, lét vita, ef þeir brugðust væntingum. Suma lagði hann í einelti, svo sem Þorvald Garðar Kristjánsson. Sá kveinkaði sér, gat aldrei setið né staðið eins og Bjarni vildi. Mér sýndust fundirnir andlýðræðislegt gerræði þrælahaldara. Ég fílaði aldrei Bjarna. Sjálfstætt hugsandi fólk hefði aldrei þolað hann.

Vísir batnaði ekkert fyrstu tvö árin undir minni stjórn. Fyrst var ég við það eitt upptekinn að koma blaðinu út á degi hverjum með mun minni kostnaði en áður. Ég var ritstjóri niðurskurðar, heltekinn af sparnaði. Smám saman batnaði þó hagur blaðsins. Til starfa komu menn, sem áttu eftir að hafa mikil áhrif í blaðamennsku. Ólafur Jónsson gagnrýnandi, af sumum kallaður vitsmunavera, kom 1969 og Haukur Helgason hagfræðingur kom 1970. Fjórum árum eftir upphaf ritstjóraferilsins var ég kominn með mannskap til að lyfta blaðinu úr fyrri stöðu. Velgengni þess var síðan mikil 1970-1975.

Ólafur Jónsson gagnrýnandi var sérstæð persóna, hataður af mörgum. Skrifaði greinar, sem gerðu menn brjálaða. Ég hef hvorki fyrr né síðar haft eins mikið fyrir nokkrum starfsmanni. Stóð alltaf þétt við bakið á Ólafi, neitaði öllum tillögum um brottrekstur. Ég vissi nefnilega, að Ólafur hafði oftast rétt fyrir sér í skrifum um leiklist og bókmenntir. Hann var bara óvæginn, meðan aðrir gagnrýnendur þjónustuðu meira eða minna þá, sem þeir skrifuðu um. Enda varð Ólafur auglýsing fyrir þá staðreynd, að Vísir var að þróast í frjálst og óháð dagblað. Ólafur varð einskonar vörumerki óháða blaðsins.

Samfélagið þarf ekki jámenn í fjölmiðlun. Þarf ekki leikhúsrýni, sem þjónar leikhúsfólki. Samfélagið þarf óvægin skrif. Samfélagið sefur yfirleitt og lætur allt yfir sig ganga. Hrista þarf upp í því. Til þess eru rýnar og kjallarahöfundar. Til þess eru leiðarar og blogg. Ráðast þarf gegn bannhelgi á orðum og hugsunum. Ef einhver lýgur, þá á að segja það, ekki læðast eins og köttur kringum heitan graut. Samfélag á að vera gegnsætt, ekki lokað og leyndó. Fjölmiðlar eiga ekki að þjónusta sérhagsmunahópa, svo sem leikhús. Þeir eru fyrir almenning og eiga að opna honum glugga að umheiminum.

Haukur Helgason var einstæður snillingur, viðskipta- og hagfræðingur, sem ekki blómstraði við blýantsnag í opinberum stofnunum. Hann kom af tilviljun til okkar og varð strax að hornsteini blaðsins. Varð fyrstur blaðamanna til að skrifa þéttar og óháðar fréttir af pólitík og efnahagsmálum. Öll vinna var honum undravert létt í hendi. Tvö símtöl plús kortér og uppsláttur dagsins var kominn. Um allan bæ tóku valdamenn mark á honum. Hann gaf líka góða nærveru á ritstjórn, var hinn ljúfasti við alla. Hann átti eftir að verða aðstoðarritstjóri minn og hægri hönd mín um nokkra áratugi.

Ég vakti litla athygli í samfélaginu. Leiðarar mínir voru illa skrifaðir og nafnlausir, bezt gleymdir. Jónas Jónsson frá Hriflu hringdi þó stundum í mig. Þegar Kristín tók símann, sagði Jónas: “Er nafni minn þarna, við erum gamlir vinir.” Síðan ávarpaði hann mig ekki, sagði ekki blessaður, heldur fór á kaf í pólitíkina. Hélt fyrirlestur yfir mér í símanum meðan hann hafði ræðuþol og lagði síðan á án þess að kveðja. Var ekki að drepa tímann með aukaatriðum. Ég sagði ekki orð í þessum samtölum. Hann var þá hættur að gefa út stjórnmálaritin Ófeig og Landvörn. Þurfti að fá útrás fyrir skoðanirnar.

Breytingar á Vísi voru hægfara. Fyrst og fremst var lögð áherzla á að gera fréttir léttari og læsilegri en áður. Vísir varð betra lesefni en önnur dagblöð þess tíma. Skopmyndafígúran Boggi blaðamaður eftir Ragnar Lárusson teiknara kom strax til sögunnar og varð táknmynd ritstjórnarinnar. Framhöld frétta á innri síðum voru afnumin 1969 á Vísi, fyrstum íslenzkra dagblaða. Farið var í febrúar 1970 að merkja fréttir upphafsstöfum höfundar. Ég tel þá breytingu hafa snarbætt allan texta blaðsins. Kvennasíða var lögð niður í marz sama ár, leyst af hólmi af fjölskyldusíðu, sem hafði víðari skírskotun.

Vísir var illa prentaður í gamalli og lélegri prentvél þessi árin. Bættum okkur það upp með því að gefa út Vísi í vikulokin, glansandi tízkumagasín á glæsipappír. Þar var litadýrðin allsráðandi í mótsögn við svartan drunga meginblaðsins. Við gáfum líka út sérhannaðar möppur til að safna í þessu fylgiriti. Dreifingin á möppunum var ótrúlega mikil. Vísir í vikulokin var nýjung í bransanum eins og aðrar breytingar okkar á þessum árum. Engin nýjung okkar á þessum árum var þó eins afgerandi fyrir velgengni blaðsins og birting skoðanakannana. Þær voru þá alger nýjung í fjölmiðlum landsins.

Skoðanakannanir blaðsins hófust í ársbyrjun 1969. Við það naut ég lærdóms míns í könnunum í Vestur-Berlín. Í stað þess að nota þjóðskrá, sem hefði leitt til mikillar rýrnunar úrtaks, notuðum við símaskrá. Í trausti þess, að sími var þá orðinn almenningseign á Íslandi. Kannanir okkar komu eins og sprenging í pólitíska samfélagið. Áður höfðu kommissarar sagt trúuðum frá almenningsálitinu, en nú kom það beint af skepnunni. Fyrst var sagt, að við skálduðum kannanir frá grunni. En samanburður við úrslit kosninga slátraði slíkri gagnrýni fljótlega. Loksins vissi þjóðin, hvað hún sjálf hugsaði.

Næsti kafli