1961-1962 Tíminn

Starfssaga

1961-1964: Tíminn (33)

Árlegar kvikmyndahátíðir Berlínar vöktu athygli á þessum árum, þegar nýja, franska línan lék á als oddi. Mig langaði til að sjá bíómyndirnar. Sendi bréf til Ólafs Gauks tónlistarmanns, sem þá stjórnaði síðu með léttu efni í Tímanum. Spurði, hvort hann vildi ekki fá fréttir af Berlínarhátíðinni. Hann vildi það. Ég skrifaði nokkrar fréttir af kvikmyndum og hátíðinni. Þær birtust í Tímanum. Nokkru síðar skrifaði ég Ólafi aftur og spurði, hvort Tíminn vildi ekki fá mig í sumarvinnu. Hann taldi það líklegt. Sumarvinnan reyndist verða lengri en til var stofnað, varð að ævistarfi mínu.

Á endanum var það Andrés Kristjánsson ritstjóri, sem réð mig sumarblaðamann við Tímann. Hann og Jón Helgason ritstjóri tóku vel á móti mér, líklega 1. febrúar 1961. Jón var fréttaritstjóri, yfirmaður minn. Andrúmsloftið á Tímanum var notalegt fyrir mig sem byrjanda. Menn voru þægilegir og vildu allt fyrir mig gera. Ég skrifaði stirt og hægt, en kom samhengi fréttanna til skila. Fyrst var ég lögreglufréttaritari. Haukur Hauksson blaðamaður arfleiddi mig að því hlutverki og setti mig vel inn í það. Hann fór með mig í hringferð milli deildarstjóra í löggunni og kynnti mig fyrir þeim.

Hjá ritstjórunum lærði ég strax að hafa rétt fyrir mér og afla heimilda úr ýmsum áttum. Að þessu leyti fékkst blaðamennskan við sömu markmið og hún gerir enn þann dag í dag. Að svo miklu leyti sem Tíminn var skrifaður af blaðamönnum studdist hann við helztu lögmál siðfræðinnar í blaðamennsku. Að öðru leyti skiptu Jón og Andrés sér lítið af starfsmönnum. Leyfðu þeim að þroskast á eigin hraða. Þeir voru ekki ákafir lærifeður og starfsmennirnir ólu hver annan upp að mestu. Hins vegar voru þeir hinir mestu sögumenn og áttu sviðið í kaffitímunum. Einkum var Jón Helgason mikill sagnaþulur.

Ég varð fljótlega afar stoltur af starfi mínu á Tímanum. Ég hafði fundið minn rétta vettvang í fyrstu atrennu. Feimni á háu stigi rann af mér og ég gat horft framan í stórbokka af einurð í fyrsta sinn. Þetta var endurfæðing í svipuðum mæli og gerðist, þegar ég kom til náms í útlöndum. Ég varð raunar fullorðinn fljótlega eftir komuna á Tímann. Tvö ár voru liðin frá því að ég tók stúdentspróf og ég var orðinn gerbreyttur maður, tilbúinn að takast á við lífið. Ég var töluvert úti á galeiðunni, en það vakti litla athygli. Samstarfsmenn mínir sumir hverjir voru enn harðari púlsmenn Bakkusar.

Á Tímanum var ég innan um tóma snillinga, rithöfunda og ljóðskáld og menningarpostula. Þeir skrifuðu fínan texta, miklu betri en minn. En þeir voru lausir í rásinni, skiluðu verki á ýmsum tímum og voru stundum fjarri dögum saman. Þarna voru menn eins og Jökull Jakobsson, Baldur Óskarsson og Ólafur Jónsson, sem kallaður var vitsmunavera. Einnig menn, sem síðar urðu rithöfundar, svo sem Birgir Sigurðsson. Með svona menn umhverfis mig varð ég fljótlega hornsteinn á fréttastofunni. Ég nennti að sitja frameftir og loka síðum, fara með þær niður í prentsmiðju og standa yfir umbrotsmönnum.

Stundum urðu menningarvitarnir skrautlegir á Tímanum, en aldrei leiðinlegir. Einu sinni kom Jökull Jakobsson á kvöldvaktina hjá mér. Hann var með eitthvað, sem líktist riffli. Með ógnarhraða barst sú frétt í prentsmiðjuna, að Jökull væri á leiðinni og ætlaði að skjóta Tedda prentara. Hvers vegna vissi ég ekki og veit ekki enn. Jökull kom hávær inn í prentsmiðjuna og spurði: “Hvar er Teddi”. Prentarinn sá sér þann kost vænstan að skríða undir prentvélina og fela sig þar. Þegar Jökull áttaði sig á, hvers kyns var, kallaði hann: “Komdu Teddi, ég ætla bara að skjóta þig pínulítið í fótinn.”

Jökull var greinilega upprennandi skáld og rithöfundur á þeim tíma, prins í augum ungra menningarvita.  Leit niður á mig, taldi mig lélegan til drykkju. Hann var eins og dr. Jekyll og mr. Hyde. Stundum frábær textasmiður og stundum alger róni. Tvíeðlið kemur fram í bókum um ævi hans. Samstarfsmenn Jökuls fóru eitt sinn með hann illa fyrir kallaðan á tröppur föðurgarðs hans í Hlíðunum. Þeir skildu hann þar eftir í hrúgu við dyrnar, hringdu bjöllunni og földu sig í næsta garði. Innan skamms kom séra Jakob Jónsson til dyra og sagði: “Æ, æ, Jökull minn, voru strákarnir að láta þig reykja”.

Ég tók strax eftir, að ég hafði önnur viðhorf til frétta en rithöfundar hafa. Einu sinni kom snillingur með myndskreytt baksíðuviðtal við erlendar ferðakonur. Birtingardaginn játaði hann fyrir mér að hafa skáldað viðtölin. “Þetta er miklu betra svona,” sagði hann, “það er stíll yfir þessu. Þetta er bókmenntaverk, sem er sannara en veruleikinn.” Mér varð orðfall. Ég skildi þetta ekki þá og skil ekki enn. Fyrir mér hefur alltaf verið alfa og ómega, að fréttir í dagblöðum væru dagsannar, en ekki skáldaðar. Hef raunar aldrei tekið snillinginn í sátt, svo hneykslaður var ég. Sannleikurinn blífur.

Mér fannst notaleg blýlykt af prentsmiðjunni. Blýið var þá einkenni allra prentsmiðja. Textalínur voru framleiddar í blýsetningarvélum, sem voru afar flókin og dýr tæki. Umbrotsmenn tóku þessar línur í kippum og lögðu niður í mót af síðum. Nauðsynlegt var, að einhver af ritstjórninni væri á vakt í prentsmiðjunni til að leiðrétta villur og vera til taks, ef eitthvað fór úrskeiðis. Ég sá ekki eftir mér að taka þessar prentsmiðjuvaktir. Gerði það, sem aðrir nenntu ekki að gera. Áhugi minn á hönnun og umbroti endaði með, að ég var gerður að fréttastjóra eftir rúmlega tveggja ára starf.

Fréttastofan var góður og heiðarlegur vinnustaður án pólitískra afskipta. Ég geri ráð fyrir, að ég hafi verið ráðinn út á framsóknarstimpil. Sama held ég að hafi gilt um samstarfsfólkið. Menn voru taldir frekar hliðhollir Framsókn og það var látið nægja. Þegar leið að kosningum, fengum við ekki pólitískar byrðar. Í staðinn tóku kommissarar yfir forsíðuna og við fréttamennirnir héldum áfram að skrifa óhlutdrægar fréttir á aðrar síður. Tíminn var búinn að koma upp algerum aðskilnaði milli frétta og áróðurs. Þórarinn Þórarinsson datt í hús til að skrifa leiðara, en sinnti alls engri verkstjórn.

Þórarinn var eins og þjóðsagnapersóna á Tímanum, en ekki starfsmaður. Hann leit stundum inn á morgnana og skrifaði þá venjulega leiðara næsta blaðs. Síðan kom hann aftur fyrir eða eftir fimmbíó og las prófarkir af leiðara. Herbergið hans var fremst á ritstjórnarganginum og ég man ekki eftir því, að hann hafi stigið fæti lengra. Hann bauð engan velkominn til starfa og kvaddi engan. Hann var alveg lokaður inni með leiðara sínum og öðrum skrifum um flokkspólitík. Ég kom nokkrum sinnum inn til hans og var hann þá hinn alúðlegasti. En aldrei vildi hann tala um nein fagleg málefni blaðsins.

Tíminn var auðvitað flokksblað og því varð ekki breytt. Ýmsar fréttir, sem nú þykja sjálfsagðar, voru þá alveg óþekktar. Rannsóknarblaðamennska var engin. Það tíðkaðist ekki að grafa upp viðkvæmar upplýsingar um viðkvæm mál í efnahagslífi eða stjórnmálum. Meðan ég var fréttastjóri á Tímanum var ég hluti af þessu gamla kerfi. Ég var ekki sáttur við nærveru flokksins, en sá enga leið frá því. Þegar Framsókn vann eitt sinn kosningasigur á þessum tíma, ráðguðust menn um fyrirsögn. “Ferlegur sigur Framsóknarflokksins” sagði ég. Pólitíska deildin starði á mig, taldi mig líklega vanþroskaðan.

Smám saman náði ég tökum á hönnun dagblaðs. Ég átti þátt í að gera útlit blaðsins nútímalegra. Beitti andstæðum stórra og lítilla fyrirsagna á þann hátt, að lesendur voru sáttir. Gamlir lesendur mótmæltu ekki og nýir lesendur komu til skjalanna. Ég mældi líka nákvæmlega allar lengdir, svo að prentsmiðjan gat notað hönnunarblöðin áreynslulaust. Segja má, að útlit og umbrot hafi verið það fyrsta, sem ég náði tökum á í starfinu. Skipulag á fréttaöflun lá ekki eins vel fyrir mér og framfarir mínar voru mun hægari á því sviði. Tíminn stóðst ekki samanburð við Moggann í almennum fréttum.

Ég var samt enginn framúrstefnumaður í hönnun. Gísli Ástþórsson gerði á þessum tíma nútímalegri hluti á Alþýðublaðinu, sem var í uppsveiflu þessi árin. Mínar endurbætur voru hversdagslegri, hentuðu betur lesendum blaðsins og Framsóknarflokknum. Voru sumpart sniðnar eftir erlendum götusölublöðum. Ég held, að flokkurinn hafi verið ánægður með breytingarnar. Hafi talið þær auðvelda flokknum að ná til unga fólksins. Það var þá í tízku. Flokkurinn var líka sáttur við skemmtilegri fréttir, sem hann taldi hafa sama tilgang. Breytingar útlits urðu örlítið hraðari eftir komu Indriða G. Þorsteinssonar.

Tíminn var þá næststærsta blað landsins, háði samkeppni við Morgunblaðið, sem var gamaldags á þessum árum. Frá síðari hluta árs 1961 til ársloka 1964 urðu hægfara útlitsbreytingar. Indriði G. Þorsteinsson varð fréttaritstjóri 7. janúar 1962. Hann tók um tíma sumt af þessari vinnu, hafði svipuð viðhorf og ég. Af Indriða lærði ég margt. Hann hafði djúpan skilning á almenningi og hvernig framsetning hentaði honum. Engar stórar útlitsbreytingar urðu samt við komu hans, hægfara lagfæringar héldu áfram. Formlega var ég svo gerður að fréttastjóra 19. júní 1963, en var þá raunar búinn að vera það um skeið.

Næsti kafli