Starfssaga

1983-1990 DV stórveldi

Starfssaga

Aðalfundir Dagblaðsins og síðan Dagblaðsins sem helmings hluthafa í DV voru ekki langvinnir. Stóðu oftast tíu mínútur. Björn Þórhallsson stjórnaði af röggsemi og þoldi ekkert kjaftæði. Ég var oftast fundarritari og náði ekki að skrifa mikið niður. Eitt sinn var til umræðu lagabreyting um afnám forkaupsréttar. Ég bókaði réttilega, að hún hefði verið samþykkt. Færði samt ekki inn breytinguna, vísaði bara í fylgiskjalabók. Þar voru lögin aldrei færð inn. Þetta varð löngu síðar að dómsmáli. Í því efuðust kærendur um, að sala hlutabréfa hefði verið byggð á raunverulega samþykktum lagabreytingum.

Dómsmálið olli mér nokkru hugarangri. Kærður var Sveinn Eyjólfsson og kærendur voru bróðir hans Ólafur Eyjólfsson og fyrrum einkavinur Sveins, áðurnefndur Benni í Shell. Þarna höfðu orðið mikil vinslit milli bræðra og vina. Ég var kallaður fyrir dóm sem vitni, hafandi verið fundarritari á hinum umdeilda aðalfundi. Ég gat ekki sagt annað en það, sem satt var, að fundurinn hefði snúist um afnám forkaupsréttar. Það var Sveini auðvitað í hag og ég fékk litlar þakkir kærenda fyrir. Dómarinn úrskurðaði Sveini í vil, en ég hef æ síðan skammast mín fyrir lélegan frágang fundargerðar.

Mikil læti urðu í tengslum við frjálsa útvarpsstöð, sem DV stóð fyrir í verkfalli ljósvakamiðla, sem hófst 2. október 1984. Stöðinni var lokað með fógetavaldi tæpri viku síðar. Varð við það tækifæri uppþot í Síðumúlanum framan við ritstjórn DV. Ég varð að fara út og róa mannskapinn. Frá þessum atburðum er sagt í bók Guðjóns Friðrikssonar: Nýjustu fréttir. Þetta var fréttaútvarp, sem naut vinsælda og gerði veg DV góðan. Helzti skipuleggjandi útvarpsins var Jóhannes Reykdal. Hann var þá orðinn skrifstofustjóri DV, gamall hönnuður af Dagblaðinu. Hef ég framar í þessari bók sagt frá honum.

Fréttaskot komu til sögunnar 29. marz 1984. Þá var opnaður símsvari, sem fólk gat hringt í með hugmyndir að fréttum. Ef þær leiddu til fréttaskrifa, var greitt fyrir hugmyndina. Mánaðarlega var dregin út bezta hugmyndin. Við notuðum hugmyndirnar ekki beint sem fréttir. Heldur unnum við fréttir, þar sem hugmyndirnar voru sannreyndar samkvæmt góðri siðvenju blaðamanna. Þetta reyndist vera frábær aðferð við að þefa upp fréttir, sem ella hefðu ekki legið á lausu. Daglega komu upp atriði, sem við hefðum misst af að öðrum kosti. Fréttaskotin voru raunar árum saman hornsteinn fréttaskrifa blaðsins.

25. nóvember 1985 var DV orðið að stórveldi í fjölmiðlun. Þann dag flutti blaðið í sérhannað blaðhús að Þverholti 11. Við vorum orðin ofan á í lífinu, rákum blað, sem var eftir mínu höfði. Það var óháð og frjálst, tortryggið á yfirstéttir landsins, stutt af almenningi. Allir póstar, sem ég hafði komið upp á Dagblaðinu, blómstruðu á DV. Auk þess gátum við gert hluti miklu betur en áður, jafnvel lagzt í rannsóknarvinnu. Eiríkur Jónsson var sendur í þrjár vikur til Amsterdam. Hann kannaði stöðu borgarinnar sem miðstöðvar í innflutningi fíkniefna til Íslands. Rannsókn, sem óvíst var, að skilaði sér.

Ég skrifaði um þessar mundir þrjá leiðara í viku í stað fimm, sem ég hafði skrifað á Dagblaðinu. Hafði því betri tíma til að vanda mig. Vonandi sá þess stað í blaðinu. Pólitískar hugmyndir mínar voru orðnar mótaðar og þroskaðar um þetta leyti. Þær voru alveg lausar við að vera flokkspólitískar. Enginn þrýstingur var á mig eða aðra leiðarahöfunda um að sveigja sjónarmiðin í þágu hagsmunaaðila úti í bæ. Ellert B. Schram skrifaði ekki flokkspólitíska leiðara heldur. Þótt hann væri þá enn tengdur flokknum sem þingmannsefni og þingmaður. Þetta voru fínir tímar fyrir frjálsa fjölmiðlun í Þverholti.

Vinnuskilyrði voru frábær á nýja staðnum, skrifstofur stórar og bjartar. Efsta hæðin var mötuneyti starfsfólks. Sama dag og við fluttum var tekin í notkun tölvusetning. Hún fól í sér, að blaðamenn vélrituðu greinar sínar beint inn í tölvukerfið. Þetta er sú tækni, sem notuð er enn þann dag í dag. Í nóvember 1985 var DV þannig komið inn í nútímann í stóru blaðhúsi, fullu af tæknigöldrum og fullt af þjálfuðu starfsliði. Þetta var upphafið að tíu ára stórveldistíma. DV var orðið að eins konar risaeðlu, sem fraus síðan í notalegu ástandi og átti síðar erfitt með að mæta nýjum aðstæðum um 1995.

Guðmundur Egilsson varð tölvugúru fyrirtækisins. Tók meðal annars við þeirri vinnu, sem ég hafði unnið við dagbókarkerfi blaðamanna. Hann var nærgætinn maður. Skipti aldrei skapi, þótt tölvuhræddir blaðamenn görguðu úr ýmsum áttum. Átti einstaklega auðvelt með að umgangast fólk, aðstoðaði það af stakri ljúfmennsku. Guðmundi var að þakka, að tölvuvæðing fyrirtækisins gekk snurðulaust. Hann var ekki tölvumaður að menntun, heldur bókbindari. Þekking hans á tölvum og hugbúnaði jafnaðist þó á við beztu fagmanna. Og ekki lét hann sig heldur muna um að semja forritsbúta, þegar við þurftum á að halda.

Litlar breytingar urðu á DV áratuginn 1985-1995. Útlit blaðsins var tekið í gegn af heimsfrægum sérfræðingum og lagfært hér og þar. Litur var smám saman tekinn upp í öllu blaðinu. Við lok tímabilsins var DV orðið eins faglega unnið og dagblöð gerast bezt erlendis. Við höfðum aðgang að könnunum, sem sýndu, hvernig við gætum bezt gert lesendur okkar ánægða. Engin teikn voru um, að fljótlega mundi fara að halla undan fæti. Dagblöð voru samt komin á undanhald í Bandaríkjunum. Þar var komin til sögunnar kynslóð, sem kaus að notfæra sér ekki dagblöð í daglegu lífi. Sú breyting kom síðar til Íslands.

Mikið var rætt um að breyta útkomutíma, færa hann yfir á morgnana. Reynslan erlendis sýndi, að síðdegisblöð heltust úr lestinni. Aldrei fannst okkur samt hugmyndin nógu góð og ekki varð úr framkvæmd hennar. Ekki fyrr en með endurreisn blaðsins eftir tíma Óla Björns Kárasonar. Rætt var um að herða fréttamennsku blaðsins, færa hana nær erlendum götusölublöðum. Við töldum viðskiptavini ritstjórnar, lesendur blaðsins, samt ekki spennta fyrir slíkri breytingu. Ég tók þó löngu síðar þátt í henni, þegar Gunnar Smári og Mikael Torfason ráku blaðið. Hvorug þessara hugmynda gekk upp, þegar á reyndi.

Næsti kafli

1990-1995 Hápunktur DV

Starfssaga

1990-2002: Hápunktur DV (28)

Gallinn við götusölublöð er vanþekking þjóðarinnar, sem þekkir varla slík blöð nema af afspurn. Íslendingar eru upp til hópa fullir af hræsni og yfirdrepsskap. Þeir sætta sig með semingi við fjölmiðil, sem grefur upp hneykslismál. En þeir bera ekki traust til hans. Það er samkvæmt ítrekuðum skoðanakönnunum. Þetta er gamla formúlan: Fólk kennir sögumanni um ótíðindi. Skíturinn loðir við fjölmiðilinn. Að vísu naut DV meira trausts en Mogginn árið 1987. En þá var blaðið heldur ekki í neinum sérstökum rannsóknum. Löngu síðar átti hressara DV eftir að bíta úr nál óhóflegra uppljóstrana.

Rannsóknablaðamennska varð Washington Post heldur ekki til framdráttar. Blaðið varð frægt af Watergate-málinu. Með ótrúlegri seiglu og þolinmæði tókst blaðinu á löngum tíma að varpa ljósi á málið. Að lokum varð Richard Nixon, forseti Bandaríkjanna að segja af sér. Washington Post varð að vonum frægt af framgöngu sinni. Svo og fréttaritstjóri þess, Ben Bradlee og helztu fréttahaukar þess, Carl Bernstein og Bob Woodward. En lestur blaðsins dróst saman. Enn var að verki hin ógnþrungna gamla formúla: Fólk kennir sögumanni um ótíðindi. Skíturinn loðir við fjölmiðilinn. Uppljóstranir borga sig ekki.

Margir voru samstarfsmenn mínir á löngum ferli. Sumir eru þegar nefndir. Síðasta áratug aldarinnar störfuðu með mér tveir kjarnakarlar, er áttu eftir að marka djúp spor í fjölmiðlun. Sigurjón M. Egilsson varð fréttastjóri Fréttablaðsins, síðan ritstjóri DV og loks tímarita í rannsóknum. Reynir Traustason varð ritstjóri tímarita í rannsóknum og síðan ritstjóri DV. Þeir sinntu lykilfréttum og erfiðum rannsóknum á mínum tíma. Reynir gafst aldrei upp í andbyr, minnir Íslendinga mest á félagana Woodward og Bernstein. Var þá rannsóknablaðamaður Íslands nr. 1, vann átján tíma á dag sjö daga í viku.

Reynir Traustason skrifaði fréttaraðir um kvennamál Ólafs Skúlasonar biskups og vörustuld Árna Johnsen alþingismanns. Raðirnar voru gott dæmi um úthald Reynis, sem gafst ekki upp, þótt öll sund virtust lokuð. Hann hafði lag á að vinna þessi mál og önnur slík þannig, að fréttirnar voru ekki umdeildar. Lét umræðuna í samfélaginu snúast um fréttaefnið en ekki um fjölmiðilinn. Árnamálið vannst í andstöðu við Moggann, sem á hverjum snúningi tók upp hanzkann fyrir Árna og hirti upp lygar hans. Erfitt er að stunda rannsóknir í trássi við stofnun, sem þykist vera fjölmiðill. En Reyni tókst það vel.

Aðeins einu sinni reyndi pólitíkus að sýna mér yfirgang. Í ráðherratíð Ólafs Ragnars Grímssonar, líklega um 1990. Ég man ekki út af hverju, en hann hringdi í mig og byrjaði að hella sér yfir mig. Ég sagði: “Ég vinn ekki hjá þér, Óli minn, gerðu þig breiðan annars staðar.” Ólafi varð orðfall, svo að ég gat kvatt hann. Aldrei síðan talaði hann við mig. Það var frábært, sérstaklega eftir að hann varð forseti og ég þurfti ekki að sæta boðum í veizlur á Bessastöðum. Íslenzkir pólitíkusar voru flestir öðru vísi, reyndu að hafa sitt fram með lagi. Ólafur Ragnar einn reyndi að valta yfir menn.

Þrátt fyrir augljósa galla var Ólafur Ragnar að mörgu leyti vel hæfur sem talsmaður Alþýðubandalagsins. Blaðamenn komu aldrei að tómum kofunum hjá honum. Þeir gátu hringt heim til hans klukkan átta á morgnana. Alltaf var Ólafur með svör á reiðum höndum. Talaði eins og hann hefði undirbúið sig alla nóttina. Aldrei urðu menn varir við, að hann þreyttist á að vera vakinn af blaðamanni DV. Meðan aðrir leiðtogar jöpluðu og jömluðu flutti Ólafur Ragnar mál sitt af skörungsskap. En hann líktist Davíð Oddssyni í blöndu mikilla hæfileika og mikilla skapbresta. Hann var greifi eins og Davíð.

Upp úr 1990 varð vart við ásókn í blaðamannsstarf af hálfu ungra manna, sem ekki höfðu siðferði blaðamanna. Örfáir komust gegnum nálaraugað og voru hjá okkur skamma hríð. Þeir töldu sér heimilt að nota starfið til að hossa fólki úti í bæ. Vinum sínum og vandamönnum. Einn eða tveir höfðu pólitískan áhuga, en flestir voru í poppinu. Við losuðum okkur við þá. Og þeir fóru fljótlega í störf spunakarla, þar sem þeir áttu heima. Enginn snertiflötur er milli starfs blaðamanna og starfs spunakarla. En meðal sumra ungra manna, fæddra eftir 1965, voru dæmi um siðferðisbrenglun, sem lýstu sér í þessari ásókn.

Á sama tíma komu upp merkisberar græðgisvæðingarinnar. Hún festi rætur hjá fólki, sem fætt var eftir 1965. Þetta voru börn hippanna, alin upp við að eiga rétt, en ekki skyldur. Þau komust síðan til valda um og eftir aldamótin 2000 og framleiddu hrun þjóðarinnar 2008. Sama kynslóð tók aldrei upp lestur dagblaða eins og fyrri kynslóðir. Og fylgdist heldur aldrei með fréttum í sjónvarpi. Árið 2009 var svo komið, að tæpast nokkur áskrifandi dagblaðs var yngri en fertugur og sjónvarp var orðin afþreying ellilaunafólks. Þetta unga fólk tók hins vegar við ferðatölvum og veraldarvefnum við fyrsta tækifæri.

Ég var ósáttur við, að helztu eigendur DV tækju þátt í hlutafjárævintýrum, til dæmis í Arnarflugi og Hafskipum. Var hræddur um, að það mundi hafa óbein áhrif á fréttir, til dæmis í formi sjálfsritskoðunar. Var líka hræddur um, að peningar mundu sogast út úr fyrirtækinu. Hampiðjan var keypt 1994 og farið að byggja þar upp Ísafoldarprentsmiðju, sem síðar varð risafyrirtæki. Árið 1995 fór ég að finna fyrir, að fjármagn í daglegum rekstri DV var farið að þrengjast. Þótt sala áskrifta og auglýsinga væri í fínasta lagi. Sönnun þess, að fjármagn lak stríðum straumum úr fyrirtækinu í stórveldisdrauma.

Árið 1995 urðu ýmsar mannabreytingar í lykilstöðum. Sveinn R. Eyjólfsson keypti Hörð Einarsson út úr fyrirtækinu. Einnig keypti hann mitt hlutafé og ýmissa annarra. Hörður hætti sem framkvæmdastjóri 22. febrúar 1995, Ellert B. Schram hætti sem ritstjóri 18. september 1995. Breytingarnar náðu svo hámarki í upphafi árs 1996. Eyjólfur Sveinsson varð framkvæmdastjóri 11. janúar það ár. Var mjög afgerandi og sjálfsöruggur, hafði verið blaðamaður hjá mér á námsárum og þekkti vel til verka á ritstjórn. Hann var menntaður hagverkfræðingur og vildi gera ýmsar breytingar á rekstri fyrirtækisins.

Næsti kafli

1995-2001 Hrun DV

Starfssaga

Árið 1995 urðu ýmsar mannabreytingar í lykilstöðum. Sveinn R. Eyjólfsson keypti Hörð Einarsson út úr fyrirtækinu. Einnig keypti hann mitt hlutafé og ýmissa annarra. Hörður hætti sem framkvæmdastjóri 22. febrúar 1995, Ellert B. Schram hætti sem ritstjóri 18. september 1995. Breytingarnar náðu svo hámarki í upphafi árs 1996. Eyjólfur Sveinsson varð framkvæmdastjóri 11. janúar það ár. Var mjög afgerandi og sjálfsöruggur, hafði verið blaðamaður hjá mér á námsárum og þekkti vel til verka á ritstjórn. Hann var menntaður hagverkfræðingur og vildi gera ýmsar breytingar á rekstri fyrirtækisins.

Sumt af því var af hinu góða, en annað miður. Vandamál stöfuðu einkum af tilraunum til að líta á ritstjórn sem hverja aðra deild í fyrirtæki. Hún hlyti að lúta sömu lögmálum og aðrar deildir. Sem hún gerir raunar ekki. Þetta var þá orðið þekkt vandamál í Bandaríkjunum, þar sem nýir forstjórar fokkuðu upp ritstjórnum. Þannig var Los Angeles Times rústað á skömmum tíma. Ritstjórnir lúta nefnilega allt öðrum lögmálum en aðrar deildir fyrirtækja. Lítið þýddi að benda á þetta, en ég þæfðist þó gegn ýmsum af breytingunum. Til dæmis minnist ég broslegs hópeflisfundar á Leirubakka í Landssveit.

Hópefli milli ritstjórnar og annarra deilda endar með, að ritstjórnin fer að taka tillit til hagsmuna auglýsingadeildar. Slíkt getur endað með skelfingu. Einnig geta kröfur um aukin afköst haft hættuleg áhrif á ritstjórn. Þar er unnið skapandi starf, sem seint verður tímamælt af skynsemi. Ég held, að slík mál hafi truflað ritstjórnina og gert hana minna hæfa til að gegna hlutverki sínu. Þetta var ekki ætlun Eyjólfs, en var óbein afleiðing þess að beita kennslubókinni á ritstjórnir. Ég held, að mér hafi samt að mestu tekizt að bægja vandræðum frá ritstjórn DV. En bakaði mér ekki vinsældir.

Annar vandi DV var innkoma alls konar sérfræðinga á sviðum, þar sem enginn starfaði áður. Að málum komu markaðsfræðingar, almannatenglar, spunakarlar, atburðastjórar. Allir slíkir voru á háu kaupi og slöfruðu grimmt af tekjum blaðsins. Þetta varð síðar almennt að enn stærra vandamáli fjölmiðla. Í stað fólks, sem framleiddi efni, kom fólk, sem skipulagði ýmiss konar rugl. Ég sá þetta síðar á alvarlegra stigi hjá 365 miðlum. Þar sem áður var forstjóri og auglýsingastjóri voru risnar fjölmennar deildir með allri þeirri sérfræði, sem ímyndunaraflið rúmar. Að mestu voru þetta alls óþarfir starfskraftar.

Alltaf þrengdist daglegur fjárhagur. Að mínu viti stafaðí það af brýnni þörf fyrir peninga í ýmis ævintýri líðandi stundar. Sum voru dýr, til dæmis kaup á litlu dagblöðunum. Dagur, Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið voru keypt og sameinuð 1995 í endurbættum Degi, sem ekki gekk upp. Þetta voru draumar um fjölmiðlaveldi, sem rákust á við veruleikann. Elías Snæland Jónsson var fenginn til að stýra ritstjórninni. Þar missti DV einn sinn bezta mann. Össur Skarphéðinsson varð meðritstjóri minn 4. nóvember 1997 og var svo í eitt ár. Ég held, að hæfileikar hans hafi nýtzt betur á öðrum vettvangi.

Erfiðleikar DV fyrir og um aldamótin stöfuðu af ýmsum ástæðum. Sumpart var hafinn sá tími, að nýjar kynslóðir keyptu ekki dagblöð. Sumpart var DV staðnað sem stórveldi. Sumpart voru mannaskipti of mikil í lykilstöðum. Einkum var DV þó mjólkað af fjármunum til að borga fyrir stórveldisævintýri. Þetta endaði með, að fyrirtækið varð mjög skuldsett og átti í erfiðleikum með að fá Landsbankann til að lána peninga. Lánabannið var eitt áhugamála Davíðs Oddssonar, sem var andsnúinn blaðinu. Til að friða þann róttæka pólitíska kant var Óli Björn Kárason gerður að meðritstjóra 1. janúar 1999.

Sveinn R. Eyjólfsson fékk ekki fé til að halda áfram rekstri, sem var þó í jákvæðum tölum. Fyrir milligöngu Landsbankans og Björgólfsfeðga seldi hann mjólkurkúna Óla Birni Kárasyni og félögum hans. Verðið var einn milljarður króna, dálagleg upphæð í þá daga. Blaðið var selt í tveimur áföngum. Að loknum síðari áfanganum var mér sagt upp og hætti ég 1. janúar 2002. Tæpum tveimur árum síðar, 5. nóvember 2003, varð það gjaldþrota. Helzta ástæða gjaldþrotsins var, að lesendur kærðu sig ekki um að fá aftur flokkspólitík inn í blaðið. Vildu að minnsta kosti ekki kaupa pólitíkina fyrir eigið fé.

Það kom í hlut Ágústs Einarssonar prófessors að reka mig eftir jól. Kennari í viðskiptafræði og stjórnarmaður í nýju DV. Átti sem slíkur þátt í að kaupa blaðið fyrir tæpan milljarð og setja það á hausinn á tæplega tveimur árum. Dálaglegur viðskiptaprófessor. Nokkru síðar ásældist hann embætti rektors, en fékk ekki. Ágúst hafði ekki vit á að velja hlutlausan fundarstað, heldur boðaði komu sína á skrifstofu mína. Þangað kom hann sveittur og baðaður í svitalykt. Mér skildist hann væri að bjóða mér að segja upp sjálfur. Ég neitaði auðvitað. Síðar um daginn varð hann að senda mér ábyrgðarbréf.

Ég var næstum 62 ára og mér leið eins og frjálsum manni. Allra síðustu árin á DV höfðu verið erfið vegna innrásar undirmálsmanna með stuðningi banka. Hafði komið mér sæmilega fyrir fjárhagslega og hefði getað sezt í helgan stein við þetta tækifæri. Raunin varð þó sú, að ég hélt áfram að atast í blaðamennsku næstu árin. Fyrst á Fréttablaðinu, síðan á hestablaðinu Eiðfaxa og loks aftur á DV. Eftir þann síðasta snúning í faginu sneri ég mér að háskólakennslu 2006. Kenndi blaðamennsku í símennt Háskólans í Reykjavík í tvö ár, unz ég hætti endanlega að vinna fyrir kaupi 68 ára gamall 2008.

Þeir, sem áfram störfuðu á DV þjáðust af pólitískri ritskoðun Óla Björns og hirðar hans. Hún sat inni hjá honum og las fréttir úr pólitíkinni. Þar var rætt, hvort þær væru andsnúnar hagsmunum flokksins eða valinkunnra hópa í flokknum. Hvort hægt væri að breyta þeim eða hvort þyrfti að salta þær. Slík ritstjórn drepur hvaða dagblað sem er. Slík vinnubrögð voru orðin úrelt tveimur áratugum áður. Flokkspólitísk ritstjórn lamar ritstjórnarskrifstofur og fælir lesendur, sem fatta stöðuna. Salan á DV húrraði niður skalann og reksturinn varð fljótt vonlaus. Blaðið fór svo í gjaldþrot haustið 2003.

Fleiri ástæður stuðluðu að hruni DV. Ekki bara, að Óli Björn Kárason reyndi að reka blað, sem hafði pólitíska kantlykt að mati lesenda. Ytri skilyrði versnuðu einnig. Fyrsti áratugur hinnar nýju aldar hefur markað mikinn og varanlegan samdrátt í blaðalestri á Vesturlöndum. Vandamálið hefur ekki síður leikið Morgunblaðið grátt. Það fór á hausinn í ársbyrjun 2009 með milljarðatjóni fyrir Landsbankann. Og okkur öll. Nýjar kynslóðir voru því marki brenndar að hafna dagblöðum sem fréttamiðlum. Líka sjónvarpi. Fólk undir fertugu fær fréttir sínar af netinu, ef það hefur þá áhuga á fréttum.

Sveinn sagði mér síðar, að hann hafi í ársbyrjun 2001 ekki gert sér grein fyrir, hversu slæmt ástandið var á kassastöðu fyrirtækisins. Honum virtist ekki vera kunnugt um sumt af fjármálavafstri sonarins, Eyjólfs Sveinssonar. Sveinn lenti í því sama og margir feður að oftreysta afkvæmum sínum fyrir miklum verðmætum. Líklega hefur hann reiknað með að fá meiri fyrirgreiðslu í bankanum en raun varð á. Bankinn vildi ekki lána Sveini, en tapaði síðan nærri milljarði króna á Óla Birni Kárasyni. Það sem bankinn helzt varast vann, varð þó að koma yfir hann. Ég var þá kominn út úr þessari sögu.

Raunar var sala hlutabréfa minna 1995 ærið tilefni fyrir mig að draga mig í hlé frá amstri blaðamennskunnar. Einhverra hluta vegna mannaði ég mig ekki upp í það og hengslaðist áfram til ársloka 2001. Þessi árin skrifaði ég jafnframt árbækur um hrossarækt, sem komu út á tímabilinu 1989-2002. Þau bættu úr brýnni þörf hrossaræktenda. Fram að þeim tíma, er gagnabankar í tölvum á veraldarvefnum tóku við hlutverki bókanna. Voru þungavigtarbækur í bókstaflegum skilningi, mældust tvö kíló hver bók á vog. En áreiðanlega tóku þær frá mér orku, sem kannski hefði betur átt heima á DV eða í hestamennsku.

Næsti kafli

1989-2002 Bækur um hross

Starfssaga

Raunar var sala hlutabréfa minna 1995 ærið tilefni fyrir mig að draga mig í hlé frá amstri blaðamennskunnar. Einhverra hluta vegna mannaði ég mig ekki upp í það og hengslaðist áfram til ársloka 2001. Þessi árin skrifaði ég jafnframt árbækur um hrossarækt, sem komu út á tímabilinu 1989-2002. Þau bættu úr brýnni þörf hrossaræktenda. Fram að þeim tíma, er gagnabankar í tölvum á veraldarvefnum tóku við hlutverki bókanna. Voru þungavigtarbækur í bókstaflegum skilningi, mældust tvö kíló hver bók á vog. En áreiðanlega tóku þær frá mér orku, sem kannski hefði betur átt heima á DV eða í hestamennsku.

Bækur mínar um hrossarækt höfðu yfirlitssíður um helztu stóðhesta og hryssur ársins. Þær birtu falleg ættargröf, sem náðu sex kynslóðir aftur í tímann. Einnig ljósmyndir og árangur í mótum. Hver bók hafði einnig sitt sérefni: Frægðarhross fortíðar og tengsl þeirra við nútímann. Skrá yfir 5500 eigendur ræktunarhrossa og hrossaeign þeirra. Afkvæmi þekktra stóðhesta og hryssna. 3000 hrossajarðir og hross þeirra. Ræktunarsýningar frá upphafi. Erlend ræktun íslenzkra hrossa og tengsl hennar við Ísland. Langstærsta nafnaskrá íslenzkra hrossa með skýringum 7000 hrossaheita á íslenzku og ensku.

Ég fullvann bókaflokkinn um hrossarækt sem fyrri bókaflokk um ferðaborgir heimsins. Eiríkur Jónsson hrossaljósmyndari tók myndirnar, en annað gerði ég sjálfur. Annaðist myndvinnslu, grafík, hönnun og umbrot. Grafíkin skipti miklu máli í hrossabókunum og tókst vel, að mínu auðmjúka viti. Öll þessi tæknilega vinna veitti mér vellíðan. Þótti gott að koma frá mér prentgripum, þar sem öll handtök voru mín eigin. Þessi nána snerting við fagið bætti mér upp fjarlægðina, sem er frá ritstjóra til fjölmiðils á fjölmennri ritstjórn. Aðferðin var líka nauðsynleg til að halda í skefjum kostnaði við bækurnar.

Að baki bókanna var mikill og fjölvíður gagnabanki um hross, sem ég setti á veraldarvefinn. Þar gátu notendur leitað fram og til baka. Eftir hrossum og eigendum þeirra, forfeðrum hrossa og afkomendum, ræktunarjörðum og þátttöku í mótum. Um tíma seldi ég aðgang að bankanum, fyrst einn sér. Síðan í góðri samvinnu við Bændasamtök Íslands, sem ráku hliðstæðan gagnabanka, Veraldar-Feng. Alþjóðasamtök um íslenzka hestinn fóru í samstarf við bændasamtökin um nýjan World-Feng og vildu ekki hafa einkaaðila með. Bændasamtökin stóðu með mér, helzt Jón Baldur Lorange, en fengu ekki að ráða. Ég datt úr samstarfi.

Nokkru síðar lenti ég í tæknilegum erfiðleikum með bankann og tímdi ekki að uppfæra hann. Ég hef þó alltaf haldið honum við og nota hann sjálfur. Hef fært inn nýjar upplýsingar eftir þörfum. Get samt ekki veitt öðrum aðgang að upplýsingum bankans. Væri þó gagnlegt. Þær eru sumpart töluvert ýtarlegri en samkeppnisbankans, ná sumpart lengra aftur í tímann og eru sumpart á öðrum sviðum. Aðgangur hestamanna að bankanum mínum mundi auka víddina í þekkingu þeirra á viðfangsefninu. En uppfærsla mundi kosta mig töluvert fé, sennilega nokkur hundruð þúsund krónur. Þess vegna hefur hún setið of lengi á hakanum.

Næsti kafli

2002-2005 Fréttablaðið og Eiðfaxi

Starfssaga

Snemma árs 2001 tók ég þátt í undirbúningi að stofnun Fréttablaðsins. Sveinn R. Eyjólfsson átti hugmyndina. Hann átti líka hugmyndina að burði blaðsins heim í hús. Erlend fríblöð voru þá ekki borin heim, heldur látin liggja frammi á fjölförnum stöðum. Sveinn sá, að auglýsingadæmið yrði snöggtum betra með heimburði. Þáttur minn í málinu var að mæla með Gunnari Smára Egilssyni sem ristjóra. Og fara síðan til hans að sannfæra hann um að taka nýja blaðið að sér. Ég var viss um, að hann væri eini maðurinn, sem gæti tekið svona erfitt og flókið verkefni að sér. Ég reyndist þar sannspár.

Gunnar Smári hafði áður verið blaðamaður hjá mér, mesti reikningshaus, sem ég hef kynnzt. Allar tölur léku í höndum hans. Ég man ekki eftir betri blaðamanni á sviðum viðskipta og efnahags. Auk þess hafði hann næmt auga fyrir hönnun dagblaða. Hann útfærði viðskiptahugmynd Sveins vel, hannaði sjálfur form Fréttablaðsins í smáatriðum. Það hefur æ síðan fylgt útliti Gunnars Smára. Blaðið gekk ekki nógu vel fyrsta árið, en það stafaði eingöngu af, að áætlað startfé kom aldrei frá eigendum. Blaðið lifði frá degi til dags af innkomnum peningum og átti erfitt með að standa í skilum.

2002-2006: Ritstjóri Fréttablaðsins, aftur ritstjóri DV (26)

Fyrst hafði Gunnar Smári meðritstjóra, Einar Karl Haraldsson. Hann átti að skapa blaðinu virðulegan og kristilegan svip, því að Gunnar Smári var talinn hálfgerður furðufugl. Einar átti lítið erindi og hrökklaðist brott eftir nokkra  mánuði. Eftir það var Gunnar Smári einn ritstjóri um skeið. Ég kom þarna inn sem meðritstjóri hans í hálft ár fyrri hluta ársins 2002. Ég hélt fundi með blaðamönnum, ráðlagði þeim góða blaðamennsku, skrifaði leiðara, en hafði annars lítil áhrif. Um mitt ár gafst blaðið upp, skipti um kennitölu, fékk Jón Ásgeir Jóhannesson í púkkið. Þá var ekki lengur pláss fyrir mig.

Eitt síðustu verka minna á Fréttablaðinu var að semja heildstæðar siðareglur fyrir blaðamenn. Áður voru til afmarkaðar reglur á DV, sem einkum fjölluðu um nafn- og myndbirtingar. Nýju reglurnar á Fréttablaðinu fjölluðu hins vegar um meðferð alls konar vandamála. Voru sniðnar að siðareglum erlendra fjölmiðla, einkum frá Guardian. Voru birtar í blaðinu og á vef blaðsins og eru enn í handbók blaðamanna þess. En ég tel, að þær eigi að vera öllum aðgengilegar á vefnum. Svo að lesendur blaðsins geti sjálfir metið, hvort blaðið fari eftir reglum sínum. Það er bara partur af nauðsynlegu gegnsæi.

Síðari hluta ársins 2002 sat ég í helgum steini og gerði mest lítið, taldi mig vera pensjónista. Í ársbyrjun 2003 var ég í skíðabrekku í Madonna, þegar eigendur Eiðfaxa hringdu til mín út af erfiðleikum þess. Ég gerði tillögur til úrbóta og var í framhaldi af þeim ráðinn útgáfustjóri. Eiðfaxi kom út í þrennu lagi, á ensku og þýzku fyrir utan íslenzku. Ég hafði þar sömu aðferð og á Vísi áður, skar niður kostnað þangað til hann var kominn í samræmi við tekjur. Ég var þarna í tvö ár, 2003-2005 og skilaði hallalausum rekstri bæði árin. Það var mikil breyting til batnaðar frá fyrra ástandi Eiðfaxa.

Ég skipti áhugasviðum hestamennsku í nokkra flokka, atvinnumenn, keppni, fjölskyldusport, hestaferðir, ræktun. Hver tegund áhugamála fékk sitt pláss í hverju tölublaði. Það átti að tryggja fjölbreytnina. Ég réð Jón Finn Hansson á ritstjórn, þann mann sem veit mest allra Íslendinga um hesta og þekkir flesta þeirra með nafni. Hann var Eiðfaxa sannur bústólpi. Þegar ég svo hætti eftir tveggja ára starf, var Jón Finnur vel undir það búinn að taka við af mér sem ritstjóri. Það varð úr, en því miður var hann ekki nógu lengi í starfi. Eftir það varð blaðið aftur fremur einhæft íþróttablað.

Árin 2002-2003 vann ég meðfram að smíði sögu Náttúrulækningafélags Íslands og heilsustofnunar þess í Hveragerði. Hafði lengi verið stjórnarmaður í félaginu. Mest af ræktarsemi við afa minn, sem stofnaði félagið og hælið. Náði yfir í stafrænt form öllum fundargerðum félagsins og stofnunarinnar, ýmsu öðru efni svo sem blaðaúrklippum. Í því var auðvelt að leita að nöfnum og heitum. Heilsustofnunin hugðist nota þetta sem stjórnunartæki auk útgáfu bókar. Þegar frumvinnu var lokið, slettist upp á vinskap við einræðisherra félagsins og hælisins, Gunnlaug K. Jónsson, frænda minn. Málið fór í baklás.

Gunnlaugur var duglegur og gerði margt gott fyrir félag og hæli. Um leið var hann kontról-frík, vildi sjálfur öllu ráða. Hafa jámenn kringum sig, helzt vini og framsóknarmenn. Ég lenti upp á kant við hann í félagsstjórn. Einnig losaði hann sig við gagnrýna konu mína úr hælisstjórn. Ágreiningur af minni hálfu snerist sumpart um slóðaskap mágs hans í tölvumálum, Inga Þórs Jónssonar. Gunnlaugur gerði hann síðar að almannatengli hælisins. En einkum var ósætti um, að hann hlóð framsóknarmönnum í hælisstjórn. Svo sem Hjálmari Árnasyni til að hjálpa honum í framboð á Suðurlandi gegn Guðna Ágústssyni.

Á þessum tíma var ég í hægum sessi sem útgáfustjóri Eiðfaxa-útgáfunnar. Sá fram á traustan fjárhag hestatímarita fyrirtækisins næstu árin. Aðferðin var hin sama og hafði gefizt mér svo vel hjá Vísi í gamla daga. Spara fyrst, ná síðan jafnvægi og byrja þá síðast að eyða. Öfugt við útrásarmenn, sem settu landið á hausinn. Jafnframt skrifaði ég leiðara fyrir DV tvisvar í viku. Allt var þetta í lygnum straumi eins og hæfði manni, sem var um það bil að komast á ellimannaaldur. Ég var hins vegar dálítið óþolinmóður í stöðunni. Undir niðri vildi ég stærri verkefni. Þau birtust síðan algerlega óvænt.

Næsti kafli

2005-2006 DV eftirmáli

Starfssaga

Gunnar Smári hefndi sín á mér snemma árs 2005 með því að bjóða mér starf ritstjóra DV við hlið Mikaels Torfasonar. Mikael rak blaðið sem hreint götusölublað að hætti nokkurra norrænna slíkra: Extrabladet, BT, Verdens Gang, Expressen, Aftonbladet. Hafði verið ritstjóri DV frá því að Gunnar Smári lyfti því 14. nóvember 2003 upp úr gjaldþrotinu eftir Óla Björn Kárason. Fyrst var Illugi Jökulsson ritstjóri með honum. En Mikael hafði einn verið ritstjóri um skeið, þegar hér var komið sögu. Ég velti boði Gunnars Smára ekki fyrir mér, sagði bara strax OK. Vildi komast í hasar.

Ég fékk vægt sjokk, þegar inn var komið. DV snerist eingöngu um dugnað og persónu Mikaels. Hann var einstakur dugnaðarforkur, vann myrkranna milli og lét blaðamennina gera það líka. DV var eins manns handafl. Hann skrifaði fréttir, hannaði blaðið, rak menn áfram með harðfylgi. Nánast kraftaverk var, að blaðið kom út á hverjum degi. Blaðamenn voru greindir og duglegir, en þeir voru öðru hvoru megin við stúdentspróf og höfðu enga reynslu af samfélaginu. Þeir þekktu varla valdamenn. Engin sagnfræði hafði safnast í hugum þeirra. “Gaurinn sagði, að …” sögðu þeir eftir samtal við ráðherra.

Milli okkar Mikaels tókst strax hið bezta samstarf. Hann tók að sér að lemja blaðið saman á hverju kvöldi. Ég tók að mér að vera afi á blaðinu, reyna að kenna fólki undirstöðuatriði í blaðamennsku. Ég sagði þeim, að skyldur þeirra væru við sannleikann einan. Ég varaði þá við lygum valdamanna. En mér tókst ekki að hliðra blaðinu í átt til bítandi samfélagsrýni. Blaðamennirnir höfðu ekki burði til slíkra frétta. Fyrir bragðið einkenndist það um of af fréttum af fræga fólkinu, einkum af ýmiss konar skandal. Slíkar fréttir voru einfaldari í vinnslu, náðust inn fyrir lokunartíma frekar en þyngri fréttir.

Með starfinu sinnti ég líka flæðistjórn fyrir prentmiðla 365. Það fólst í að samræma vinnslu DV, Fréttablaðsins, Ísafoldarprentsmiðju og Pósthússins. Markmiðið var að búa til færiband, sem tryggði fólki blaðið sitt á réttum tíma á hverjum morgni. Skil á síðum og prentformum voru tölvuskráð, svo og upphaf og lok prentunar, ennfremur kvartanir um dreifingu blaðanna. Árni Hauksson forritaði formin, sem notuð voru. Tímamælingarnar skrásettu frávik og staðsettu vandamál á færibandinu. Færðu vinnubrögð þar til betri vegar. Ég átti hugmyndina að þessu færibandakerfi og fylgdi því eftir á leiðarenda.

Þessi vinna var einkum mikilvæg Fréttablaðinu. Það er hvorki textadrifið né auglýsingadrifið, heldur dreifingardrifið. Dreifingin ræður úrslitum um, hvert snertiverð auglýsinga er metið vera. Það ræður síðan auglýsingafjölda og auglýsingaverði. Lesendur eru spurðir í lestrarkönnunum, en að öðru leyti eru þeir ekki frumafl í samanburði við dreifinguna. Morgunblaðið er hins vegar lestrardrifið og mörg tímarit eru auglýsingadrifin. Við minnkandi áhuga lesenda á dagblöðum má reikna með, að góð dreifing geti haldið uppi fríblöðum umfram áskrifendablöð. Framtíð Fréttablaðsins ræðst af dreifingu.

Ég samdi siðareglur DV, nánast orðrétt eins og siðareglur Fréttablaðsins. Reglur DV voru örlítið betri, því að þær voru nokkrum árum yngri. Og af því að þær voru slípaðar af reynslu DV af tilveru sinni á götublaðakantinum. Ég held, að DV noti enn þessar siðareglur, en flaggar þeim ekki frekar en Fréttablaðið. Einnig hvatti ég Gunnar Smára og Ara Edwald útgáfustjóra til að stofna embætti umboðsmanns notenda 365-miðla. Ýmsir erlendir fjölmiðlar hafa umboðsmann lesenda til að auka gegnsæi og efla aðgang almennings. Þeir féllust ekki á tillögu mína, enda hefði hún auðvitað kostað fjárútlát.

Umboðsmenn lesenda hafa gefizt misjafnlega. Þekktastir hafa þeir verið á Washington Post, þar sem þeir hafa töluverð völd. Þegar einn blaðamanna varð uppvís að upplognum fréttum af barnungum dópista, fór umboðsmaðurinn í málið. Margra síðna greinargerð hans var öll birt í blaðinu nokkrum dögum síðar. Framtak umboðsmannsins veitti lesendum gegnsæi inn í galla á rekstri ritstjórnarinnar. Það varð til þess, að traust blaðsins hélzt þrátt fyrir mistökin. Í Bandaríkjunum hafa siðareglur, umboðsmenn og símenntun á ritstjórn reynzt öflugustu aðferðirnar við að hamla gegn fækkun lesenda.

DV var í lítilli sölu og nánast engri áskrift um þessar mundir og naut ekki mikils álits. Samkvæmt bókinni átti blaðið að höfða til unga fólksins. Því miður var kominn sá tími, að ungt fólk vildi ekki kaupa fréttir. Fólk undir fertugu keypti ekki dagblöð, ekki einu sinni Moggann. Með hörðum fréttum af skandala í pólitík og viðskiptum hefðum við kannski náð í gömlu kaupendurna, sem væntanlega voru um þessar mundir komnir langt yfir fertugt. En við náðum aldrei neinu magni af slíkum fréttum. Fjárhagsdæmi blaðsins var því vitlaust frá grunni, það sóttist eftir lesendum, sem vildu ekki kaupa dagblöð.

Smám saman færðist DV samt nær því að ná jöfnu í rekstri. Það byggðist mest á ótrúlegri ósérhlífni Mikaels og dugnaði strákanna umhverfis hann. Við ritstjórarnir féllum svo í febrúar 2006 á frétt um perra á Ísafirði. Hvert orð var rétt í fréttinni, enda voru fórnardýrum perrans löngu síðar greiddar skaðabætur. Við féllum ekki á að fara á mis við sannleikann, enda hafði ég  margtuggið mikilvægi hans á fundum. Við féllum á óviðurkvæmilegri fyrirsögn og frásagnaranda að mati öflugs hluta þjóðarinnar og málsmetandi álitsgjafa. Þúsundum saman skrifuðu menn á veraldarvefnum undir gagnrýni á okkur.

Það er ekkert prívatmál, að lögreglan yfirheyri mann vegna gruns um óeðli í garð drengja. Það er ekkert prívatmál, að nokkrir drengir fái skaðabætur frá ríkinu fyrir tjón vegna þessa óeðlis. Ef gerandinn fremur sjálfsvíg, er það hans ákvörðun, sem hann ábyrgist einn. Að saka ritstjóra dagblaðs um að hafa drepið manninn er í sjálfu sér óeðli. Hver er sinnar gæfu smiður. En það hentaði nokkrum lýðskrumurum í stétt presta og alþingismanna að reyna að slá ódýrar keilur út á sjálfsvígið. Þeir mundu ekki reyna slíkt núna, eftir það sem komið er fram í málinu. Eftir alla sjáanlega galla þöggunarstefnunnar.

Ég var alveg sáttur við afsögnina. Fyrir mér var aðalatriðið, að fréttin var rétt. Tónninn í blaðinu var hinn hefðbundni tónn norrænna síðdegisblaða. Hins vegar var hræsni álitsgjafanna nógu mikil til að kynda undir óánægju í samfélaginu. Sannleikanum er hver sárreiðastur. Fólk kennir sögumanni um ótíðindi. Við vorum of opinskáir um eitt tabú í samfélaginu. Meira að segja Össur Skarphéðinsson skrifaði hjartnæma minningargrein um perrann. Við Mikael tókum þá ákvörðun að leggjast á höggstokkinn til að skapa frið um framtíð blaðsins. Sálir Íslendinga voru of krumpaðar fyrir götusölublað.

Að mínu viti snúast einkamál um það, sem fólk gerir heima hjá sér. Ekki um það, sem gerist í bílum úti á götu, í fjármálastofnunum og í fyrirtækjum. Ef Bubbi reykir í bíl, þá er tekin mynd af því. Ef Bubbi tapar fé á myntkörfu, er því slegið upp.  Fé og skuldir hafa ekkert einkalíf. Þannig held ég, að skilningur dómstóla hafi til skamms tíma verið á einkalífi. Allra síðustu árin hefur hagsmunaaðilum tekizt að víkka hugtak einkalífs. Að verki hafa verið stofnanir á borð við Persónuvernd og Úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Einnig lögmenn víkinga í bankarekstri og útrásum. Það er óheillaþróun.

Íslenzka fjármálahrunið sýndi okkur, að áherzlan á einkalíf er komin út í öfgar. Í skjóli bankaleyndar var alls konar glæfrum haldið leyndum fyrir þjóðinni. Blaðamenn voru lögsóttir fyrir að komast í og birta gögn, sem sýndu glæfra græðgisstéttanna. Lögmenn reyndu að bola hagfræðingi út úr sannleiksnefnd Alþingis fyrir að segja það, sem allir vissu. Þeir töldu það gera hagfræðinginn vanhæfan. Þá loksins áttuðu menn sig á ruglinu, sem komið var í gang. Eitthvað meira en lítið var orðið rotið í Danaveldi. DV var blað, sem hafnaði þessu einkamálarugli og var auðvitað hatað fyrir bragðið.

Mér finnst skattar mínir ekki vera einkamál, ekki fasteignir og bílaeign mín, ekki lán og lánakjör. Skattskrár, fasteignaskrár og bifreiðaskrár eiga að vera aðgengilegar á vefnum allt árið. Lán og lánskjör fólks og fyrirtækja mega ekki heldur vera einkamál, svo sem berlega kom í ljós í bankahruninu. Einkalíf peninga er rugl. Hugtökin einkalíf og bankaleynd eru varasöm, en urðu samt að hornsteinum ofsatrúar græðgisvæðingarinnar. Þetta skilur milli fylkinga í siðrofi Íslands.  Meira að segja eftir bankahrun halda margir áfram dauðahaldi í ofsatrúarhugtök á borð við einkalíf og bankaleynd.

Séríslenzka tabúið gegn nafn- og myndbirtingum nær aðeins til Íslendinga. Um útlendinga má skrifa hvaða bull sem er, þótt þar sé ekki satt orð. Þegar málið snýst um Íslendinga, segja menn hins vegar: Þurfti nú endilega að birta nafnið, hvaða tilgangi þjónar það, er nokkur bættari fyrir það. Þetta er einfaldasta birtingarmynd þöggunarstefnunnar. Fólki finnst óþægilegt, að persónur séu að baki frétta af því, sem miður fer. Eftir bankahrunið hefur samt fækkað stuðningsmönnum þöggunarstefnu. Mín skoðun er einfaldlega, að jafnan eigi að birta nöfn og myndir, nema við sérstök, upptalin skilyrði.

Fyrir efnahagshrunið fengum við að vita, að margir Íslendingar eru haldnir óeðli af ýmsu tagi. Fyrir daga DV var þagað um allt slíkt. Eftir hrunið fengum við að vita, að margir Íslendingar voru fjárglæframenn, fífl, sauðir, þjófar, lygarar, gerspilltir. Áður var þagað um allt slíkt. Allt fram á síðustu ár hefur almannarómur krafizt þöggunar. Almannarómur taldi, að hér á landi gerðist ekkert ljótt, allir væru góðir og klárir. Nú hefur seint og um síðir komið í ljós, að svo er ekki. Sem betur fer áttar fólk sig á, að margt er í skralli hér á landi. Og veit, að til eru ágæt orð, sem lýsa ástandinu.

Siðareglur DV á þessum tíma höfðu kafla um nafnbirtingar. DV birti jafnan nöfn og myndir fólks, sem var í fréttum blaðsins, ef blaðið komst yfir þessar upplýsingar. Stundum var frestað birtingu nafna um tíma, einkum fólks, sem látizt hefur óvænt. Þetta gerði blaðið í samráði við aðra aðila, sem komu að málinu. Undantekningar byggðust einkum á hagsmunum brotaþola. Slík frestun birtingar kom síður til greina, ef hún gat valdið óþægindum hjá aðstandendum fólks, sem af komst í slysum. Ekki voru birt nöfn þolenda kynferðisbrota. Ég hélt þá og held enn, að þetta séu góðar siðareglur.

Útrásarvíkingar eignuðust fjölmiðlana á fyrsta áratug nýrrar aldar. Þess vegna fór bankaránið 2008 framhjá hefðbundnum fjölmiðlum. Þeir voru of önnum kafnir við að birta sögur af snilli víkinganna. Komið var upp markaðssíðum og viðskiptasíðum í þessu skyni. Björgólfsfeðgar voru eitraðastir. Þeir ritskoðuðu bækur og reyndu að kaupa DV til að leggja það niður. Þeir voru gersamlega siðlausir og skildu eftir sviðna jörð. Á Mogganum og á Eddunni. Mogginn tapaði milljörðum króna og hefur ekki borið sitt barr síðan þá. Þegar útgáfu er blandað við annan rekstur spilltan, verður úr afleit blanda.

Ég vann eitt ár á DV, þegar það var komið í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Allan þann tíma hafði hann aldrei samband við mig. Enga tilburði hafði hann til ritskoðunar. Ekki heldur gegnum Gunnar Smára útgáfustjóra, sem aldrei flutti okkur neina ritskoðun. Einu sinni hafði ég samband við Jón Ásgeir vegna upplýsinga um kappakstur í útlöndum. Annað var það ekki. Hins vegar gerði Ásgeir Friðgeirsson blaðafulltrúi Björgólfsfeðga oft vart við sig, ef hann taldi á feðgana hallað. Ásgeir þessi hafði tekið þátt í að setja vefinn Visir.is af stað og forðaðist mig þá alltaf, þegar hann kom á ritstjórn DV.

Næsti kafli

2006-2008 Háskólakennsla

Starfssaga

Ég sneri mér að kennslu í blaðamennsku. Með hjálp Gunnars Smára, Ara Edwald útgefanda og Blaðamannafélagsins tókst samkomulag við Háskólann í Reykjavík um röð námskeiða í blaðamennsku. Þátttaka var styrkt af útgefendum og Blaðamannafélaginu. Árin 2006-2008 hélt ég nokkur vel sótt námskeið, sem fengu fína útkomu í gæðamati skólans. Þau fjölluðu um rannsóknablaðamennsku, almenna blaðamennsku, fréttaöflun, textastíl, starf ritstjóra, nýmiðlun, framtíð blaðamennsku og sögu hennar. Efni þeirra allra er aðgengilegt á heimasvæði mínu, www.jonas.is. Þar geta menn séð alla fyrirlestra mína.

Frumkvæðið að háskólakennslunni kom ekki frá mér, heldur Gunnari Smára. Ég efaðist um, að talandi starf hentaði mér. Skrifandi starf væri minn stíll. Hann kannaði stuðning við málið hjá Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, og fékk hann. Síðan tók Ari Edwald við málinu af Gunnari Smára og Svafa Grönfeldt rektor af Guðfinnu. Gerðu þau það af myndarskap. Ég hafði samband við Hjálmar Jónsson, framkvæmdastjóra Blaðamannafélagsins, sem síðan studdi málið drengilega. Tók endurmenntunarsjóður félagsins þátt í kostnaði til móts við framlag útgefenda. Námskeið mín fengu því fljúgandi start.

Ég þekkti flestar beztu kennslubækur í blaðamennsku, þegar ég hóf kennslu. Nánast allar voru þær bandarískar, enda er fagmennska lengst komin þar í landi. Tökum rannsóknablaðamennsku sem dæmi. Samtök blaðamanna á því sviði hafa safnað tíuþúsund dæmum um rannsóknablaðamennsku. Frá þeim er sagt í gagnabanka á vefsvæði þeirra. Sumar amerískar kennslubækur um textastíl eru svo góðar, að þær nýtast til kennslu í íslenzku. Reglur um frásagnarmáta ná milli tungumála. Ögrandi fannst mér að tvinna saman íslenzk og bandarísk sjónarmið í kennslu í fréttastíl. Enda kom ég nemendum þar mest á óvart.

Almenn kennsla í grundvallaratriðum blaðamennsku reyndist vera nauðsynleg, einnig kennsla í hreinni fréttamennsku. Kennsla í rannsóknablaðamennsku var líka vinsæl. Kennsla í ritstjórn höfðaði mest til ritstjóra tímarita. Lítill áhugi var á textastíl, alvarlegasta vandamáli íslenzkrar blaðamennsku, líklega af því að blaðamenn fatta ekki stíl. Kennsla í fjölmiðlasögu, framtíðarspám og nýmiðlun naut vinsælda í meðallagi. Eftir því sem ég hef komizt næst, var kennsla af flestu þessu tagi ekki veitt annars staðar á þessum tíma. Háskóli Íslands kennir fjölmiðlafræði, sem er allt annað fag.

Kennslu mína í stíl eimaði ég niður í átta reglur Jónasar um stíl: 1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn. 2. Settu sem víðast punkt og stóran staf. 3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann. 4. Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni. 5. Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag. 6. Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta. 7. Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd og viðtengingarhátt. 8. Hafðu innganginn skýran og sértækan. Auk þess kúgaði ég nemendur til að skrifa engar málsgreinar lengri en sautján orða. Það var rosalega holl lexía.

Tíu siðareglur blaðamanna eru í bók, sem ég kenndi í siðfræði. Hún er eftir Bill Kovach og Tom Rosenstiel, heitir Elements of Journalism. Hljóða svo: 1. Blaðamennska veitir fólki upplýsingar, sem gera það frjálst. 2. Skuldbinding hennar er fyrst og fremst við sannleika. 3. Hollusta hennar er við borgara. 4. Eðli hennar er leit að staðfestingum. 5. Hún er sjálfstæð gagnvart þeim, sem fjallað er um. 6. Hún er óháður vaktari valds. 7. Hún er torg gagnrýni og málamiðlana. 8. Hún reynir að gera það mikilvæga áhugavert og viðeigandi. 9. Hún er víðtæk og í réttum hlutföllum. 10. Hún má beita eigin samvisku.

Um bók og siðareglur Kovach og Rosenstiel fjalla ég í inngangsfyrirlestrum mínum í blaðamennsku. Aðgangur að þeim er á heimasvæði mínu www.jonas.is. Þar er líka hægt að sjá siðareglurnar, sem ég samdi fyrst fyrir Fréttablaðið og síðan fyrir DV. Þær eru enn í notkun í handbókum fjölmiðlanna, en ekki aðgengilegar almenningi annars staðar á vefnum. Í fyrirlestrunum fjalla ég líka um umboðsmenn lesenda fjölmiðla og um símenntun blaðamanna. Þetta er þrenna, siðareglur, umboðsmenn og símenntun. Samkvæmt rannsóknum Philip Meyer (The Vanishing Newspaper, 2004) fer hún saman við velgengni fjölmiðla.

Ekkert getur hindrað, að vefur taki við af pappír sem fréttamiðill okkar. Hefðbundin dagblöð sæta fækkandi áskrifendum, því að ungt fólk kaupir ekki fréttir. Fríblöð standa betur, en munu falla í næstu lotu, er auglýsingar hverfa af pappír yfir á vef. Enn hefur að vísu ekki orðið til frambærilegt viðskiptaumhverfi á vefnum. Fyrr mun umhverfið spillast á pappírnum og millibilsástandið verður erfitt. Fæstir útgefendur átta sig á, hversu alvarlegt málið er. Fréttamennska verður um tíma nöturlegri en áður vegna niðurskurðar útgjalda. Löngu síðar mun vonandi aftur birta. Og þá á vefnum.

Ég hef enga trú á, að Viðskiptablaðinu takist að selja aðgang að fréttum sínum á vefnum. Ég hef ekki trú á, að neinu blaði takist það. Þótt Wall Street Journal hafi náð takmörkuðum árangri á vefnum. Svo mikið framboð er af ókeypis fréttum á vefnum, að það nægir langsamlega flestum. Reynslan sýnir, að fólk grefur ekki dýpra, þótt læstar fréttir kunni að vera betri eða ítarlegri. Þetta er ekki spurning um bezta lestur, heldur skásta ókeypis lestur. Útvarp og sjónvarp kynntu ókeypis fréttir fyrir almenningi, vefurinn kláraði dæmið. Seldir fjölmiðlar á borð við vefdagblöð eiga þar engan séns.

Nánast daglega berast fréttir af samdrætti dagblaða í Bandaríkjunum. Hann er farinn að leita á hornsteina á borð við Los Angeles Times, New York Times og Washington Post. Dagblöð tapa auglýsingum, einkum smáauglýsingum. Unga fólkið les ekki dagblöð og fæst ekki til að gera það. Þetta háir ekki bara dagblöðum, heldur líka sjónvarpinu. Unga fólkið hefur lítinn áhuga á sjónvarpi og engan áhuga á sjónvarpsfréttum. Allt þetta skaðar fréttirnar. Bandaríkjamenn lesa nánast ekkert um utanríkismál og vita lítið um pólitík. Vefurinn kemur ekki í stað fjölmiðla, hann er ábyrgðarlaus og óskipulagður.

Við getum litið á vefinn sem vanda. Og við getum litið á hann sem lausn á vanda, sem við hefðum hvort sem er staðið andspænis. Félagsvefir á borð við MySpace og Facebook, YouTube og Twitter hafa ekki hefðargildi siðareglna í blaðamennsku. Vefurinn hefur magnað ótta í blaðamennsku. Átt þátt í að draga burt auglýsingar. Að magna þéttara eignarhald fjölmiðla. Að draga úr notkun ungs fólks á hefðbundnum fjölmiðlum. Og að minnka traust fólks á fjölmiðlun. En vefurinn kann að hafa komið í tæka tíð til að virkja kynslóðir, sem höfðu yfirgefið dagblöðin. En hvers vegna lesa þær ekki? Hefur ekki verið svarað.

Seattle Post-Intelligencer er dæmi um, að stökk dagblaða af pappír yfir á vefinn gengur ekki upp. Dagblað á vef kemur ekki í stað dagblaðs á pappír. Samt eru dagblöð dauðans matur á Vesturlöndum. Geta ekki keppt við vefinn, sem tók af þeim smáauglýsingar fyrir mörgum árum. Sé flótti á vefinn ekki lausn, hver er hún þá? Sérhæfð blöð eru möguleiki, samanber viðskiptablöð og íþróttablöð. Dagblöðin verða að fara út fyrir kassann, hugsa dæmið upp á nýtt, finna sér nýja hillu eða takmarka sig við þá hillu, sem þau kunna bezt. Fríblöð eru ein leið. Grapevine er hilla. Sunnlenska er önnur hilla.

Með útgáfuhillum á ég við sérhæfingu. Fríblöð eru ein tegund sérhæfingar. Grapevine er fríblað, en hefur um leið aðra sérhæfingu. Er skrifað á ensku, tungumáli framtíðarinnar. Er ætlað að höfða til erlendra ferðamanna, veita þeim upplýsingar um það, sem er að gerast á Íslandi. En um leið er það aðili að íslenzkri umræðu á mörgum sviðum, til dæmis um tónlist unga fólksins. Grapevine er tveggja hillu tímarit. Sunnlenska er dæmi um héraðsfréttablað, sem fæst ekki frítt. Seattle Post-Intelligencer er þriðja dæmið um hillu, það fæst bara á vefnum. Allir útgefendur verða að finna sína réttu hillu.

Fríblöð fara að nokkru leyti framhjá vanda áskriftar- og götusölublaða. Fréttablaðið er vel hannað blað og læsilegt, en gengi þess ræðst einkum af góðri dreifingu. Útburður til allra heimila er sérstaðan í heimi fríblaða. Hann aflar fríblöðum auglýsingatekna. Þá formúlu má vafalaust nota víðar í heiminum. Þegar átti að endurtaka hana í Kaupmannahöfn, komu annmarkar í ljós. Ruslpóstur var bannaður í mörgum fjölbýlishúsum. Aldrei var hægt að dreifa Nyhedsavisen á sama hátt og Fréttablaðinu. Kannski hefði verið hægt að fara öðru vísi í málin. Búa til blað fyrir einbýlis- og raðhúsahverfi.

Nyhedsavisen var líka þeim annmarka háður, að blaðið var hundleiðinlegt. Fullt af langhundum að hætti Politiken. Þar vantaði litlu eindálkana, sem eru aðalsmerki Fréttablaðsins. Danskir yfirmenn ritstjórnarinnar vildu gefa út snobbað dagblað, eins konar Information, og fengu það. Greinarnar náðu yfir heilar og hálfar síður. Slíkt höfðar ekki til almennings. Miklu nær hefði verið að stæla móðurskipið, Fréttablaðið. En lykilstarfsmenn tóku það ekki í mál. Ritstjórn Nyhedsavisen var misheppnuð frá grunni. En það réð ekki úrslitum um gengi blaðsins. Dreifingin var það, sem misheppnaðist.

Starf kennara í blaðamennsku var auglýst laust árið 2008 við fjölmiðlafræði Háskóla Íslands. Sótti um, enda hefði ég átt að vera sjálfkjörinn, en fékk þó ekki. Hefði viljað nota tvö síðustu árin fyrir sjötugsaldurinn til að skipuleggja slíka kennslu. Þannig að hún kæmi verðandi blaðamönnum að gagni. Hingað til hefur kennsla í fjölmiðlafræði verið fjölmiðlum gagnslaus. Fólk úr fjölmiðlafræði hefur þurft meiri stuðning í starfi en fólk af götunni. Kunnátta í stíl er lakari en hjá venjulegu fólki. Og einn umsækjandi úr Háskólanum á Akureyri kunni ekki einu sinni að tala við fólk í síma.

Næsti kafli

2008-2011 Hestaferðir og stóra bókin

Starfssaga

Við hjónin fórum 1991 í fyrstu hestaferðina. Með Reyni Aðalsteinssyni. Síðan fórum við á hverju sumri, oft tvær-þrjár á sumri. Með Einari Bollasyni. Fararstjórum Fáks. Og mörgum fleirum. Einkum þó með Bjarna E. Sigurðssyni. Sérstæðu náttúrubarni, sem las landið eins og lófann á sér, án korts og áttavita. Í fyrstu áningu horfði hann á atferli okkar hjóna og sagði: “Þið hugsið eins og hestarnir, þið verðið fín í hestaferðum.” Við urðum svo rekstrarstjórar hjá honum. Síðan varð ég leiðsögumaður og fararstjóri hjá Fáki og í eigin hestaferðum. Þessar ferðir urðu helzta áhugamál okkar.

Bjarni Eiríkur Sigurðsson var hestaferðamaður af guðs náð. Sem unglingur fór hann sem leiðsögumaður með erlenda ferðamenn um Sprengisand norður í land og suður aftur. Hafði hvorki kort né áttavita, en vissi alltaf, hvar hann var staddur, fann vöð á stórfljótum af hyggjuviti sínu. Fór yfir Héraðsvötn við skelfingu heimamanna, sem þustu á vettvang. Hann var lengi fararstjóri hjá Eldhestum og síðan í eigin ferðum, þar sem ég tók síðar við af honum sem fararstjóri. Af engum hestamanni hef ég lært meira um hestaferðir. Af nærgætni við hestahófa kaus Bjarni frekar að ríða í skurðum en uppi á vegum.

Við hjónin vorum húsbóndaholl sem rekstrarstjórar hjá Bjarna. Einu sinni dróst hestur aftur úr hópnum vestan við Geysi. Við reyndum að reka hann áfram, en ekki gekk. Hann vildi ekki heldur láta taka sig. Að lokum þjösnuðum við honum ofan í skurð, þar sem ég lagðist á hann og tróð á hann múl. Tók hann síðan í tog og Kristín rak hann áfram. Eftir tvo kílómetra komum við að ferðafélögunum í rétt. Þar sat Bjarni á vegg, reri sér og hló. “Ég á ekki þennan hest”, sagði hann. Við höfðum í atganginum gleymt að taka eftir, að þetta var járnalaus heimahestur, sem hafði flækzt út á veginn.

Af öðrum hestaferðamönnum lærði ég líka. Reynir Aðalsteinsson hugsaði eins og hestur, vissi alltaf hvert hestar vildu fara. Vissi, hvaða túnhliðum þyrfti að loka og hver mættu eiga sig. Ég lærði af Þormari Ingimarssyni, sem passaði vel upp á skeifurnar, Valdimar Jónssyni, sem jafnan var í góðu skapi. Ég lærði af Þórði Ólafssyni, sem með harðfylgi kom upp vínbanni í Fáksferðum. Það hélzt árum saman og var svo í minni fararstjóratíð. Þórður gekk hreint til verks. Eitt sinn tók Þórður einn svolann, stakk honum niður í svefnpoka og lagðist ofan á hann, þangað til hann sofnaði sínum víndauða.

Álmur var fyrsti hesturinn, sem ég eignaðist. Fyrir tilviljun. Hann var sendur sem varahestur með hesti, sem ég hafði keypt til ferðalaga. Keypti hesturinn heltist daginn fyrir ferðina og Álmur hljóp í skarðið. Í einum rykk frá Kalmanstungu upp í Álftakrók. Hann taldi sig jafnsettan mér í goggunarröðinni. Hann skyldi ráða gangtegund, sem var tölt. Hann skyldi ráða hraðanum, sem var yfirferð. Ég mátti ráða áttinni. Ekki þoldi hann, að aðrir hestar færu framúr sér. Ég hef aldrei síðar eignazt annan eins öðlingshest. Hætti næstum í hestamennskunni, þegar fótarmein kom honum á elliheimilið.

Hestaferðir eru sérstæð og forn tilvist í undirvitund hesta og sumra manna. Menn skipa sér í forreið og eftirreið og hafa lausu hrossin milli hópanna. Forfeðurnir lifðu svona, komu í nýtt vatnsból og nýjan haga á hverju kvöldi og lögðu upp aftur að morgni. Föst búseta var engin, hesturinn var heimilið.  Þannig lifðu heilu þjóðirnar á sléttum Síberíu og Rússlands. Þannig reið Gengis Kahn 7000 kílómetra frá Ulan Bator til Vínarborgar. Á aðeins þremur mánuðum. Þetta flökkulíf blundar í sálarlífi hesta, þeir magnast upp á ferðalögum. Bikkjur verða að gæðingum, teygja sig og fara að ganga fallega.

Þegar ég var útgáfustjóri Eiðfaxa fór ég að safna GPS-punktum reiðslóða. Var mikið í hestaferðum á sumrum og tók ferlana upp. Einnig tók ég reiðleiðir upp eftir kortum og öðrum heimildum. Mest notaði ég hundrað ára gömul herforingjaráðskort. Þar voru ýmsir gæðaflokkar reiðleiða samvizkusamlega skráðar. Einnig tók ég reiðleiðir eftir útivistarkortum, sem hafa mörg verið gefin út síðustu árin. Allt þetta efni setti ég á heimasvæði mitt á vefnum árið 2007. Þetta er langstærsti reiðleiðabanki landsins. Hann er sérstaklega mikilvægur fyrir þá sök, að herforingjaráðskortin voru einstaklega vönduð.

Reiðslóðabanki minn nær eftir uppfærslu yfir 764 reiðslóðir. Nánar tiltekið 666 reiðleiðir (routes) og 98 reiðferla (tracks). Nýju ferlarnir eru einkum úr Þingeyjarsýslum, sem eru feikna gott reiðland. Var þar í hestaferðum í tvö sumur. Allir hafa ókeypis aðgang að bankanum. Geta séð leiðirnar og ferlana á korti, ef þeir eru með GPS Íslandskort í tölvunni. Geta líka hlaðið þeim í Garmin-vasatæki með slíku korti. Safnið hefur siðferðilegan stuðning Landssambands hestamannafélaga og aðstoð félagsins Glaðs í Dölum. Ég er auðvitað afar stoltur af framtaki mínu, sem er sennilega einsdæmi.

Hestastússið kom mér í kynni við gáfumenn, suma sérstæða. Ég tók viðtöl við þá þekktustu um góðhesta og stóðhesta fyrri áratuga. Mest gagn hafði ég af kynnum af Brynjari Vilmundarsyni fiskverkanda og bónda á Feti. Hann reis hvað eftir annað gegn kerfinu, barði dómhús utan með staur, er dómar fóru út af kortinu. Kunningsskapur okkar gekk svo langt, að við buðum saman í jörð, en fengum ekki. Af umgengni við slíka, svo og af hestaferðum, ræktaði ég með mér skrítnar skoðanir á hrossarækt. Þær hafa stundum komið fram í blogginu. Vil fjölga gangtegundum hesta í sex og dæma með tækjum, ekki með dómurum.

Ég vil leggja niður hestadómara og taka í staðinn upp tvenns konar mæla. Fyrst og fremst lófastóran jarðskjálftamæli, festan í hnakknef. Hann sendir skilaboð í tölvu í dómhúsi. Mældur er hristingur á öllum gangi. Því minni hristingur, þeim mun hærri einkunn. Síðan þarf hljóðmæli, þegar hesturinn er látinn hlaupa á trépalli. Því réttari sem taktur hljóðsins er fyrir þá gangtegund, þeim mun hærri einkunn. Dómar úr þessum tveimur mælum verða réttlátari en dómar manna. Þeir komast nær því að veita íslenzka hestinum þá mýkt, sem á að gera hann frægan. En gerir ekki meðan hopp fær hæsta dóma.

Næsti kafli

2008-2013 Bloggari

Starfssaga

Vorið 2008 settist ég svo í helgan stein. Gaf mér þó tíma til að leggja meiri vinnu í bloggið á veraldarvefnum. Það var nógu vinsælt til að kippa mér upp í annað sæti vinsældalista bloggsins, næst á eftir meistaranum Agli Helgasyni. Ég bloggaði þrisvar á dag. Fór upp í fimm skipti á dag og stundum meira, er fjármálakerfi Íslendinga hrundi haustið 2008. Vorið 2009 settist ég svo niður við að skrifa hálfrar aldar starfssögu mína í blaðamennsku. Hún varð til meira eða minna fyrir kringumstæður og tilviljanir. En ég er sáttur við hana alla. Ég var lengi barnalegur, en þroskaðist samt hægt og sígandi.

Við hjónin spilum bridge við Þórð Harðarson yfirlækni og Sólrúnu Jensdóttur, skrifstofustjóra í menntaráðuneytinu. Þórður hvatti mig vorið 2009 til að skrifa þessa starfssögu. Taldi auðséð, að ég þyrfti að hengja saman ýmsa þætti ævinnar og setja þá fram í heillegri mynd. Ég tók því dauflega, taldi allt ævistarfið þegar liggja fyrir á prenti og á vefnum. Hann sagði hins vegar samhengið vanta. Nokkrum vikum síðar tók ég trú á kenningu Þórðar og hóf að skrifa þessa bók. Einu sinni sem oftar hafði annar maður frumkvæði að því að koma mér til verks. Þórður ber auðvitað enga ábyrgð á textanum.

Hræsnarar krossa sig, þegar skrifuð er íslenzka í bloggi. Kalla það ýkjur. Ég er ósammála. Ástandið á mörgum sviðum samfélagsins er svo furðulegt, að það skilst ekki á dulmáli. Skoðið Davíð Oddsson. Ekki er hægt að taka á honum með silkihönzkum. Ég hef sjálfur hafnað dulmálinu, sem lengi tíðkaðist í samfélagsrýni. Ef einhver fer með rangt mál, segi ég, að hann ljúgi. Nota góð og gild orð, sem fólk skilur. Allt of lengi hefur samfélagið grotnað í skjóli frændhygli og flokkshygli, hræsni og yfirdrepsskap. Hrunið á haustinu 2008 opnaði augu margra. Þá var loksins hægt að fjalla um ruglið á íslenzku.

Vegferð mín var bara að hluta markviss. Aðeins þrisvar sótti ég um vinnu. Það var fyrst á Tímanum og næst á Vísi. Aðrir menn stýrðu vegferð minni eftir það. Sigfús hringdi dyrabjöllunni, þegar ég var gerður að ritstjóra. Sveinn hringdi norður, þegar hann vildi stofna Dagblaðið. Stjórn Eiðfaxa hringdi í mig, þegar ég var þar gerður að útgáfustjóra. Gunnar Smári sendi mér símboð, þegar ég varð ritstjóri DV í annað sinn. Þannig hef ég lengst af verið leiksoppur ytri kringumstæðna. Sagði alltaf já. Oftast var ég vanbúinn að fást við ný verkefni. Reyndi að bæta mér það upp með iðjusemi.

Fremst í þessari starfssögu gat ég snemmborins áhuga míns á að pakka saman upplýsingum í skipulega aðgengilegt form fyrir notendur. Tel enda ævistarfið hafa meira eða minna snúizt um það. Ekki bara ritstjórn dagblaða. Líka ritun ferðabóka um nokkrar heimsborgir. Svo og veitingarýni margra áratuga. Einnig bókaflokkurinn um ræktunarhross. Ekki sízt útgáfa reiðleiða hestamanna. Menn þekkja mig líklega mest fyrir skoðanir í leiðurum og bloggi. Ég þekki mig hins vegar mest sem pökkunarmann, það er að segja ritstjóra efnis. Hvers sem er: Dagblöð, ferðabækur, veitingarýni, fundargerðir, hrossarækt, reiðslóðir.

Í þessum texta fjalla ég lítið um skoðanir mínar. Þær eru öllum aðgengilegar á www.jonas.is. Þessi texti er hugsaður sem skýring á mismunandi aðstæðum á ýmsum tímum á ferli mínum. Eins konar inngangur eða eftirmáli. Sem slíkur er textinn að mínu viti fullnægjandi. Hann er ekki sjálfsævisaga. Ég gæti ekki hugsað mér að skrifa slíka sögu. Ég lét hins vegar segja mér, að ég þyrfti að rekja feril minn til að útskýra sumt, sem ég hef áður sagt. Að því leyti eru fyrri skrif mín misheppnuð. Það er galli, ef búa þarf til texta til að útskýra annan texta. Og með þessum texta játa ég þann galla á fyrri skrifum.

Menn geta gengið að öllu, sem ég hef gert í aldarþriðjung. Undantekningar eru tvær. Í fyrsta lagi: Saga Náttúrulækningafélags Íslands er enn hálfköruð vegna ósættis míns við formann félagsins og heilsustofnunar þess. Hef ég þó áhuga á að ljúka henni, þótt ekki sé nema af tillitssemi við afa minn, Jónas Kristjánsson. Í öðru lagi: Endurbirtingar bíður gagnabankinn um tugþúsundir ræktunarhrossa, þúsundir hrossaræktenda, ræktunarjarða og hrossaýninga, svo og hundruð hrossalita. Falleg ættargröf. Þarf að uppfæra notendaviðmótið á vefnum, svo að aðrir öðlist aðgang að nýju. Dálítið snúið mál og dýrt.

Að öðru leyti er ég kvitt við dagsverkið. Allir leiðarar mínir 1973-2005 eru á www.jonas.is. Einnig öll veitingarýni mín. Skrif um erlendar stórborgir. Skrif um fjölmiðlun og blaðamennsku. Svo og fyrirlestrar mínir um fjölmiðlun og blaðamennsku. GPS-punktar reiðleiða. Ég hef skilað dagsverkinu, haldið öllu til haga, sem máli skiptir. Þessi starfssaga mín fer sömuleiðis á www.jonas.is eftir nokkur ár. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið hvatningu til að setja á þann hátt ramma utan um ævistarfið. Nú er kominn tími til að sinna betur reiðhestunum og kanna reiðleiðir um afréttir nær og fjær.

Takk.