1964-1966 Fréttastjóri Vísis

Starfssaga

1964-1966: Fréttastjóri Vísis (22)

Þannig liðu nokkur ár í velsæld. Ég festi ráð mitt, eignaðist konu og börn og fór að hafa áhyggjur af fjármálum. Vildi fá hærra kaup, en útgáfuráðið stóð fast fyrir. Er hvorki rak né gekk, sagði ég upp, gekk út 12. nóvember 1964. Ég skildi í góðu við alla þar á bæ, hafði ekki brotið neinar brýr að baki mér. Labbaði inn á Vísi til Gunnars G. Schram ritstjóra, sem réð mig samstundis sem fréttastjóra. Formlega titlaður frá 2. marz 1965. Sem slíkur var ég undirmaður Þorsteins Thorarensen, “senior” fréttastjóra blaðsins. Þeir voru fínir blaðamenn. Loksins hófst þáttur minn í nútíma blaðamennsku.

Gunnar G. Schram kom bratt að Vísi sem dauðvona blaði. Hann tók með sér valinkunna fréttahauka af Mogganum. Var búinn að gera Vísi að útbreiddu nútímablaði, þegar ég varð þar innanbúðarmaður. Gunnar var höfðingi í framkomu og bar litla virðingu fyrir fjármálamönnum. Þeir áttu að útvega honum fé til að reka gott blað og hafa mikla þolinmæði. Rekstur blaðsins varð mjög dýr og tekjurnar uxu hægar. Það leiddi til ágreinings milli hans og stjórnarinnar. Gunnar hélt áfram sínu striki og bætti Vísi í sífellu. En hann kenndi blaðamönnum fátt, vildi, að þeir sæju um sinn þroska sjálfir.

Þorsteinn Thorarensen var hamhleypa, skrifaði margar fréttir sjálfur. Því miður höfðu þær tilhneigingu til að vera langar, jafnvel lengri en heil síða. Hann mundi orðrétt allt, sem hann las og heyrði. Síðar varð hann sagnfræðingur, sat í Árnasafni og skrifaði langa kafla upp úr bókum eftir minni. Þorsteinn varð kennari minn, afar þægilegur maður í viðkynningu, heiðarlegur fram í fingurgóma. Síðar átti hann eftir að verða útgefandi bóka minna um framandi heimsborgir. Þegar ég var búinn að skrifa um átta borgir, sendi hann mér lista með 21 borg, sem hann vildi fá skrifað um. Helzt strax.

Þótt þessir tveir væru snillingar á sínum sviðum, höfðu þeir ekki tímaskyn og skildu ekki tækni og tíma í blaðaútgáfu. Mitt hlutverk varð að finna þá þræði og gera úr þeim haldreipi. Gunnar var einkum stjóri og Þorsteinn var einkum rithöfundur. Ég tók að mér að hafa daglegt samband við blaðamenn og prentsmiðju. Þannig féll ég fljótt í sama hlutverk á Vísi og ég hafði haft á Tímanum. Var eins konar “night editor”, sem sá um, að blaðið kæmist út. Starfshættir voru hinir sömu og á Tímanum, sönn blaðamennska í heiðri höfð. En svigrúm hennar var miklu víðara á Vísi. Þar var enginn flokks-kommissar.

Séra Emil Björnsson var stjörnublaðamaður Vísis. Var mikill skúbbari og hafði ríkar tilfinningar til vinnunnar. Kallaði og hrópaði, þegar vel gekk að draga inn fréttanetið. Einu sinni gladdist hann svo við árangur í einu símtali, að hann fór á handahlaupum um ritstjórnarganginn og stakk sér kollhnísa með siguröskrum. Var hann þó þungavigtarmaður í bókstaflegum skilningi. Hann var þá í hálfu starfi sem blaðamaður og í hálfu sem prestur óháða safnaðarins í Reykjavík. Skömmu síðar var ríkissjónvarpið stofnað og séra Emil varð þar fréttastjóri. Þar var réttur maður á réttum stað.

Þorsteinn Jósepsson var lögreglufréttaritari Vísis. Var eini maðurinn, sem handskrifaði fréttirnar. Ég hafði aldrei séð það áður og átti aldrei eftir að sjá það. Samtal við Þorstein Thorarensen leiddi í ljós, að ekki mundi þýða að bjóða Þorsteini Jósepssyni að skrifa um neitt annað efni. Hann ynni bara sitt fasta starf og snerti ekki á öðru. En biðja mætti hann með lagi um ljósmyndir frá ýmsum stöðum á Íslandi. Ég veit ekki, hvernig Þorsteinn varð blaðamaður, en hann var greinilega of sérhæfður og sérvitur fyrir nútíma blaðamennsku. Var minnisvarði aftan úr fyrri áratugum aldarinnar.

Axel Thorsteinsson skipti deginum milli útvarps og Vísis. Skrifaði og las erlendar fréttir á morgnana í útvarpið. Kom síðan með þær inn á Vísi til endurbirtingar. Sérkennileg skipan, var vafalaust ein gamalla hefða, sem blaðið burðaðist með. Þægilegur maður í viðkynningu, en ekki vandvirkur í blaðamennsku. Skrifaði bók í tilefni 75 ára afmælis Vísis. Hún var hroðvirknisleg, þótt hún fengi vandaðasta prófarkalestur sem hugsast gat. Axel var kominn yfir sjötugt og leyndi á sér. Sem ungur maður lenti hann í ýmsum ævintýrum, var meðal annars kanadískur hermaður í fyrra heimsstríðinu.

Meðan ég var fréttastjóri hafði ég lítil áhrif á útlit blaðsins. Þorsteinn var ekki gefinn fyrir uppslætti. Hugsun hans og Gunnars snerist eingöngu um dagblað sem form fyrir texta og myndir. Þeir höfðu ekki áhuga á nýjungum í útliti og myndskurði, sem höfðu þá komið fram á Alþýðublaðinu og Tímanum. Enn síður höfðu þeir áhuga á stríðsfréttasíðum dagblaðsins Myndar, sem átti skamma ævi 1962. Voru sumpart menn gamla tímans og sumpart menn nýs tíma. Þessi ár, frá 1961-1966, fyrstu fimm blaðamennskuár mín, voru ár mikillar undiröldu í blaðaútgáfu landsins. Dagblöð stunduðu tilraunir á ýmsan hátt.

Mynd var misheppnað dagblað, sem kom út nokkrar vikur árið 1962. Það var í stóru broti, stæling á Bild Zeitung í Þýzkalandi. Þaðan kom formið, sem var ágætt út af fyrir sig. En innihald götusölublaðs vantaði. Fyrsta fyrirsögnin með stríðsletri var: “Flugið til Eyja stopult næstu áratugina”. Innihaldið og ljósmyndirnar voru engu líflegri en á öðrum dagblöðum þess tíma. Margt fleira stuðlaði að skjótum ævilokum þess, en skortur á innihaldi var nægileg ástæða. Þar á ofan bættist ónýt prentvél og eitt af þessum löngu verkföllum prentara. Afdrif Myndar voru ekki hvetjandi fyrir nýjungar í blaðamennsku.

Guðmundur Benediktsson prentsmiðjustjóri var í stríði við ritstjórn Vísis. Bölsótaðist yfir seinum og lélegum skilum ritstjórnar, lét staðreyndir sig engu varða. Ég greip til þess að tímastimpla allar fréttir í stimpilklukku prentsmiðjunnar. Þannig gat ég með einu höggi slegið vopnin úr höndum Guðmundar. Sýndi fram á, að öll skil voru í lagi. Valdahlutföllin snerust mér í hag og óyndi sótti að Guðmundi. Hann hvarf af vettvangi, stofnaði sína eigin prentsmiðju. Einn góður skipulagsmaður var í prentsmiðjunni, Ólafur I. Jónsson, mikill öðlingsmaður. Ég fékk hann ráðinn sem prentsmiðjustjóra.

Þrátt fyrir árekstra okkar Guðmundar áttum við góð samskipti lengi eftir þetta. Held hann hafi respekterað harðskeytta aðgerð mína til að koma á eðlilegum samskiptum milli prentsmiðju og ritstjórnar. Ólafur varð svo einn af vinum mínum, alltaf reiðubúinn til að leysa allan vanda. Er Blaðaprent var stofnað sem sameiginleg prentsmiðja margra dagblaða barðist ég fyrir því, að hann yrði þar verkstjóri. Síðan varð hann prentsmiðjustjóri Dagblaðsins. Féll því miður frá vegna veikinda löngu fyrir aldur fram. Í minningu minni er hann einn bezti maður, sem ég hef átt samskipti við.

Gunnar og Þorsteinn áttu í erfið samskipti við stjórn blaðsins. Fóru sínu fram eftir eigin höfði. Ég var sjálfur utangarðs í deilunum, talaði ekki við neinn stjórnarmann. Að lokum var ákveðið sumarið 1966 að ýta þeim út. Sigfús Bjarnason í Heklu bankaði upp á hjá mér klukkan sex að morgni. Við fórum í morgunkaffi á Hótel Loftleiðir. Hann vildi mig sem ritstjóra. Ég sá á því öll tormerki, ég væri of ungur og óreyndur. Hefði mest lagt fyrir mig tæknileg atriði. Sigfús hló og sagði, að það væri einmitt kosturinn við mig. Morgnarnir á Hótel Loftleiðum urðu fleiri og að lokum sló ég til.

Ég hitti Gunnar og Þorstein sameiginlega og bar ritstjóramálið undir þá. Þeir löttu mig ekki að ganga að tilboði Sigfúsar. Skilnaður okkar var í friði, þeir sáu, að ég átti engan þátt í brottför þeirra. Löngu síðar varð Þorsteinn útgefandi minn, þegar ég fór að skrifa ferðabækur um erlendar stórborgir. Hann rak þá útgáfufélagið Fjölva með miklum sóma sem einyrki. Við vorum þá hinir beztu vinir. Hann vildi, að ég skrifaði margfalt fleiri bækur en ég hafði getu og tíma til að sinna. Gunnar átti líka eftir markverðan feril sem sérfræðingur í landhelgismálum og prófessor í lögum.

Næsti kafli