1973-1975 Uppgjör

Starfssaga

Arftaki Sigfúsar í Heklu, Ingimundur Sigfússon, var ósáttur við breytingar  á leiðurum, þótt hann bæri fyrst harm sinn í hljóði. Löngu seinna sagði hann mér, að hann hafi litið svo á, að ég væri kommúnisti. Hann var líka ósáttur við skrif mín um landbúnað og við menningarrýni Ólafs Jónssonar. Hann fékk til liðs við sig tvo aðra stjórnarmenn, Guðmund Guðmundsson í Víði og Þóri Jónsson í Ford. Saman mynduðu þeir meirihluta í fimm manna stjórn Vísis. Breytingar okkar Sveins voru hins vegar studdar af Birni Þórhallssyni og Pétri Péturssyni. Meirihlutinn náði engu fram að sinni, en beið færis.

Eitt lítið dæmi um pirringinn var leiðari, sem ég birti 9. júlí 1973. Þá hafði höfundurinn Jóhanna Kristjónsdóttir birt grein í Mogganum. Þar stóð, að Grikkir væru svo barnalegir, að þeir þyrftu herforingjastjórn. Lýðræði hentaði þeim ekki. Jóhanna var á þeim árum mjög höll undir herforingja. Mér ofbuðu fordómar hennar. Benti á, að Grikkir voru orðnir hámenningarþjóð heimsins þúsundum ára fyrir fund Íslands. Þetta pirraði Ingimund Sigfússon, sem taldi andstöðu við herstjóra vera eina útgáfu af kommúnisma. Af þessu mátti ráða, að hann var alls ekki viðræðuhæfur um útgáfu dagblaða.

Guðmundur Guðmundsson í trésmiðjunni Víði var merkilegur afreksmaður, rak umsvifamikinn húsgagnaiðnað, þótt blindur væri. Á stjórnarfundum blaðsins hafði hann sig lítið í frammi, hafði mestan áhuga á að þreifa á húsbúnaði. En hann var greinilega mjög hægri sinnaður í pólitík. Þórir Jónsson í Ford-umboðinu kom undarlega fyrir, gamall skíðakappi. Hann sagði líka fátt, en flissaði stundum. Ég hélt satt að segja, að hann væri þroskaheftur. Enginn í meirihlutanum bar neitt skynbragð á dagblöð, dagblaðaútgáfu eða prentun. Enginn gerði tilraun til að skilja innri og ytri aðstæður blaðaútgáfu.

Einhvern tímann á þessu tímabili gerði Ingimundur tilraun til að komast að raun um, hvort ég væri húsum hæfur. Hann bauð mér í lax í Víðidalsá. Sendi eftir mér flugvél í bæinn og sótti mig á jeppa upp á einhverja mela. Á leiðinni ók hann yfir hund í Víðihlíð. Þar voru nokkrir stórbændur á ferð. Ég seig niður í sætinu og Ingimundur stundaði diplómatíu í vegkantinum. Hann kom dasaður til baka og náði sér síðan ekki í túrnum. Í veiðinni lagðist ég í mosann og svaf, bleytti aldrei línu. Ingimundur komst fljótlega að raun um, að ég væri ekki húsum hæfur í fínum kreðsum, sem snerust um laxveiði.

Vísir var í ársbyrjun 1975 orðinn vinsælt dagblað með traustan fjárhag. Í stað þess að treysta mig í sessi sem ritstjóra varð það til að grafa undan mér. Ingimundur Sigfússon og aðrir andstæðingar mínir í stjórn blaðsins höfðu ekki treyst sér til átaka meðan fjárhagurinn var erfiður. Þegar það breyttist, töldu þeir sér alla vegi færa. “Nú get ég”, hugsaði Ingimundur. Smám saman kólnaði kringum mig í stól ritstjórans. Allt hneig í átt til uppgjörs, sem varð 6. ágúst 1975, þegar ég var rekinn. Um uppgjörið hefur áður verið fjallað í bókunum Nýjustu fréttir og Fjölmiðlar nútímans.

Ég hef fáu við það að bæta, sem þar er sagt. Meginorsök uppgjörsins var, að Ingimundur Sigfússon í Heklu, síðar sendiherra, var ósáttur við mig, taldi mig meðal annars vera kommúnista. Valdamenn landbúnaðarkerfisins kvörtuðu líka við hann yfir skrifum mínum um landbúnað. Skrif mín um útlenda herforingja í pólitík og um stríðið í Vietnam pirruðu hann líka. Loks var Ólafur Jónsson gagnrýnandi eilífur ásteytingarsteinn. Í engu af þessu var ég tilkippilegur til að slá af leið. Ég vissi snemma árs að dagar mínir voru taldir á Vísi. Gerði ekkert til að draga úr líkum á uppgjöri um starfið.

Andstæðingar mínir töldu sig vita, að ég væri ekki fráhverfur því að hætta störfum. Í júlíbyrjun hringdi Sveinn Eyjólfsson í mig norður í land og sagðist styðja mig eindregið. Í versta tilviki myndum við báðir ganga út og efna til nýs dagblaðs, sem væri frjálst og óháð. Ég hraðaði mér suður og fór þegar að undirbúa nýtt dagblað með Sveini. Velja þurfti allan búnað og útvega hann, jafnvel prentvél. Ráða þurfti starfsmenn, finna hús og svo framvegis. Upprunalega reiknuðum við með að fá inni í Blaðaprenti. Það reyndist flóknara og háð annmörkum, sem gerðu það lítt fýsilegan kost.

Andstæðingar okkar Sveins voru í meirihluta í Reykjaprenti, útgáfufélagi Vísis. En stuðningsmenn okkar voru í meirihluta í hlutafélagi um eignina í Blaðaprenti, Járnsíðu. Við Sveinn áttum því aðgang að fjórðungi hlutafjár Blaðaprents. Töldum við, að það mundi auðvelda okkur samkomulag um prentun í því ágæta fyrirtæki. Það varð raunar niðurstaðan, en Blaðaprent taldi sig samt vera ábyrgt fyrir óbreyttum prentunartíma Vísis. Dagblaðið varð því að fara í götusölu tveimur klukkustundum á eftir Vísi, sem að okkar mati var ótækt. Leiddi það fljótt til samnings við Árvakur um prentun Dagblaðsins.

Uppgjörið á Vísi endaði á fyndnum stjórnarfundi 22. júlí 1975 að Bárugötu 11. Fyrst var samþykkt tillaga Alberts Guðmundssonar um að hvetja mig til að starfa áfram. Samþykkt gegn hlutleysi meirihlutans. Svo samþykkti meirihluti fundarins að losa sig við mig. Fundurinn varð því tvísaga um fundarefnið. Minnihlutinn kom svo saman heima hjá mér í framhaldi af aðalfundinum. Þar var ákveðið að stofna nýtt dagblað. Að stofnuninni stóðum við Sveinn og helztu samstarfsmenn okkar í fyrirtækinu, svo og helzti stuðningsmaður okkar úr gömlu stjórninni, Björn Þórhallsson, sem var fulltrúi Kassagerðarinnar.

Björn Þórhallsson varð ótrauður baráttumaður Dagblaðsins. Stjórnarformaður þess og ævinlega einn af helztu forvígismönnum. Kunni aldrei betur við sig en einmitt í miðjum bardaganum. Átti árum saman eftir að eiga náið samstarf við okkur Svein. Alls staðar var hann hrókur alls fagnaðar, þegar menn hittust til að ræða málefni Dagblaðsins. Hann hafði fín áhrif á andann á skrifstofum blaðsins. Menn urðu kátir við að sjá hann, vinna lagðist niður meðan hann sagði sögur. Mér fannst Björn alltaf koma eins og hvirfilvindur inn á ritstjórn beint út úr Íslendingasögunum sem einn af köppum þeirra.

Pétur Pétursson í Lýsi hafði verið eindreginn stuðningsmaður okkar Sveins í gömlu stjórninni. Nú vildi hann ekki vera með lengur. Sagðist hafa stutt okkur Svein allt á leiðarenda, en mundi hvorki taka þátt í nýja dagblaðinu né hinu gamla. Pétur Pétursson var einstakt ljúfmenni og kunni aldrei við sig í átökunum innan Vísis. Hann var fyrst og fremst friðsemdarmaður, sem þjáðist í ófriði milli manna. Var sammála þeirri stefnu okkar Sveins að gera blaðið að frjálsu og óháðu dagblaði. Að slíta leifarnar af tengslum þess við gamla flokkinn. Vildi samt ekki fara yfir skilgreind strik.

Uppgjörið tengdist átökum innan Sjálfstæðisflokksins, en stýrðist ekki af þeim. Andófsmenn innan flokks löðuðust að Vísi og síðan að Dagblaðinu, því að Mogginn frysti þá úti. Albert Guðmundsson hvatti okkur Svein til dáða, en Gunnar Thoroddsen hitti ég hvorki né heyrði. Þeir, sem lesa Vísi síðustu misseri tíma míns og Dagblaðið fyrstu misseri þess, geta ekki fundið hlutdræga afstöðu í garð hópa í Sjálfstæðisflokknum. Hvorki í fréttum né í leiðurum. Við vildum reka frjálst og óháð dagblað. En að okkur drógust óhjákvæmilega þeir, sem halloka fóru í manngreinaráliti Moggans.

Albert Guðmundsson bauð sig síðar fram til forseta. Í aðdraganda þess bað hann um fund með okkur Sveini Eyjólfssyni. Þar spurði hann okkur álits á hugsanlegu forsetaframboði. Við hvöttum hann eindregið til að falla frá framboði. Hæfileikar hans væru aðeins vel metnir af hluta samfélagsins. Vinsældir hans væru takmarkaðar við þann hóp. Í þjóðaratkvæðagreiðslu mundi hann fara halloka fyrir óumdeildu fólki. Síðan bauð Albert sig fram “eins og þið mæltuð með” og kolféll auðvitað. Hann heyrði bara það, sem hann vildi heyra. Slíkt hlýtur að teljast galli. DV studdi hann ekki í baráttunni.

Næsti kafli