1953-1961 Unglingurinn

Starfssaga

Unglingurinn

Foreldrar mínir fluttust til Bandaríkjanna, er ég var nýfæddur. Faðir minn var þar í læknisnámi. Ég vissi lítið af þeim fyrr en að stríðinu loknu, þegar ég var orðinn fimm ára. Ég bjó samt áfram hjá móðurbróður mínum. Vegna slysfara varð móðir mín, Anna Pétursdóttir, ekkja fljótlega eftir komuna til landsins. Ég var orðinn unglingur, þegar ég fluttist til hennar. Þar var sama góðborgaralega andrúmsloftið. Hjá henni lærði ég, að heimurinn væri opinn og víður. Þar væri nóg pláss fyrir fólk að sinna því, sem það vildi sinna. Hún var bjartsýn, sagði börnum sínum, að þeim væru allir vegir færir.

Ég veit ekki, hvort föðurleysið angraði mig. Í minningunni er svo ekki. Þótt ég væri feiminn og barnalegur, var ég upplitsdjarfur. Í Gagnfræðaskóla Austurbæjar tók ég þátt í málfundum og var framsögumaður um abstrakt list og atómvopn. Lét yfirleitt ekki neitt raska ró minni. Ég á til dæmis enn mjög erfitt með að verða sár, þegar einhver er ósáttur við mig. Mér líkar einnig vel við að vera einn á báti. Læt mér ekki bregða, þótt ég sé aleinn um skoðun. Ég fann aldrei til þess, að ég þyrfti föður til að líta upp til. Ég var frá barnæsku vanur að standa á eigin fótum og standa fyrir máli mínu.

Framsaga í málfundum í gagnfræðaskólanum hafði áhrif á mig. Ég kynnti mér bækur um kjarnorkuvopn og um abstrakt og atóm í menningu. En framsagan festi ekki fyrstu hugmyndir mínar í sessi. Ég hélt fram, að Bandaríkin hefðu ekki átt annan kost en að varpa atómsprengjum á Nagasaki og Hiroshima. Ég efaðist þó þá þegar um það og efast raunar enn. Þá talaði ég í annarri framsögu harðlega gegn abstrakti og atómi í list og ljóði. Fljótlega síðan snerist mér hugur. Átti þá þegar auðvelt með að skipta um skoðun og hef það raunar enn. Ég hef aldrei skilið andúð manna á að skipta um skoðun í nýju ljósi.

Í gagnfræðaskólanum varð ég fyrir handarslysi. Var að sveifla mér milli ráa í fatahengi. Missti takið og skall út í glugga. Fékk stóran skurð á hægri úlnlið, sem tók Snorra lækni átta tíma að sauma á Landspítalanum. Var lengi handlama út af þessu, en lagaðist með árunum. Frænkur mínar í föðurætt voru skelfingu lostnar. Hörmuðu, að ég gæti ekki orðið skurðlæknir, en gæti þó líklega orðið venjulegur læknir. Í huga þeirra kom aðeins til greina, að ég yrði læknir, þar sem faðir minn og afi voru læknar. Ég tók þetta óstinnt upp og ákvað, að hvert sem yrði ævistarfið, yrði ég örugglega ekki læknir.

Samt heimsótti ég oft afa minn og alnafna, sem var þekktur læknir. Einhvern veginn man ég eftir að hafa fallið í vök á Tjörninni, skriðið upp úr henni af sjálfsdáðum og gengið heim til hans. Jónas læknir bjó þá á Gunnarsbraut 28 og hafði þar stofur, þar sem fólk lá í heitum böðum og svaf síðan vafið inn í lök. Síðan stofnaði hann heilsuhæli í Hveragerði, þar sem fólk lá í leirböðum. Þangað kom ég oft með rútunni, sat inni á skrifstofu afa míns og skoðaði útlendar læknisfræðibækur. Ekki man ég samt eftir miklu spjalli við afa minn. Hann var orðfár. En heilsuhæli hans er orðið að stórri stofnun.

Eini kennarinn í gagnfræðaskóla, sem ég man eftir, var Guðrún P. Helgadóttir íslenzkukennari. Hún bar sig sem drottning, er dáleiddi lítilmótlega þegna sína. Kenndi einkum í formi undirbúnings fyrir landspróf. Lét okkur taka hvert gamla landsprófið á fætur öðru. Hamraði inn varnir gegn algengustu villum. Ég lærði rosalega vel hjá henni, hlustaði opinmynntur á allt, sem hún sagði. Útkoman var, að nemendur hennar fengu flestir háar einkunnir á samræmdu landsprófi í íslenzku. Í menntaskóla tók hún aftur á móti mér og sagði í fyrsta tímanum: “Nú loksins er hægt að fara að tala við yður.”

Menntaskólaárin 1955-1959 bjó ég hjá móður minni að Hólmgarði 1. Ég tók þátt í opinberu lífi skólans. Talaði á málfundum og bauð mig fram sem ritstjóra Skólablaðsins 1957. Keypti stundum Tímann í frímínútum á Skalla, dáðist að nútímalegri fréttastefnu Hauks Snorrasonar ritstjóra, sem höfðaði til mín. Af pólitískt meðvituðum nemendum var ég talinn með Framsókn. Sem ritstjóri þurfti ég að ganga milli andstæðra fylkinga, þegar hægri menn kvörtuðu undan yfirgangi vinstri manna í málfundafélaginu Framtíðinni. Ég birti sjónarmið beggja í Skólablaðinu og hélt góðum kunningsskap við alla málsaðila.

Snemma á menntaskólaárunum fór ég í stjórnmálaskóla hjá Félagi ungra framsóknarmanna. Það var fyrir misskilning. Hélt, að þar væri fjallað um samvinnuhreyfinguna og Framsóknarflokkinn. Svo var ekki. Þetta var kennsla í ræðumennsku, nánar tiltekið kennsla í að ljúga fyrir flokkinn. Ég var ekki tilkippilegur sem vonarpeningur í þingmann. Hrökklaðist því af námskeiðinu reynslunni ríkari. Alla tíð síðan hef ég tekið málstað þess, sem ég réttast vissi. Þetta var fyrsti árekstur minn við veruleikann. Var alinn upp við, að rétt skyldi rétt vera, en þarna kynntist ég fyrst hreinni tækifærismennsku.

Á Skólablaðinu vann ég meðal annarra með Sigurjóni Jóhannssyni, síðar leiksviðshönnuði, sem teiknaði skopmyndir af fólki. Og Ómari Ragnarssyni, síðar fréttamanni, sem teiknaði fyrirsagnir. Skólablaðið var pólitískt hlutlaust, birti mikið af ljóðum nemenda og smásögur þeirra. Athygli vakti smásagnasamkeppni, þar sem Ragnar Arnalds vann með sögunni: “Ég, faðir minn og fjórða ríkið.” Skólablaðið var hjá mér snyrtilegt tímarit í hefðbundnum stíl íhaldssömum, sýndi enga framúrstefnu í blaðamennsku. Ég samdi sjálfur lítið af texta, var bara ritstjóri eins og ég hafði verið ellefu ára.

Ritgerðir, sem ég skrifaði í menntaskóla, voru ekki bókmenntalegar. Ég skrifaði þó ritdóm um íslenzkar þýðingar á Rubaiyat eftir Omar Khayyam. Bar þær saman við ensku útgáfuna. Fékk bágt fyrir hjá Þórhalli Vilmundarsyni kennara, sem vildi ekki sjá texta á ensku. Þórhallur var einn séríslenzkra þöngulhausa, sem spilltu fyrir áhuga ungs fólks á námsefninu. Með Halldóri Guðjónssyni skrifaði ég líka langa ritgerð með tillögu um bylt námsefni skólans. Hún komst í umræðu á kennarastofunni. Þar kom Ólafur Hansson okkur til varnar. Nakin röksemdafærsla var sameiginlegt einkenni ritgerða minna.

Kennsla menntaskólans í ritgerðum var mér framandi. Okkur var kennt að skipta ritgerðum í þrennt, upphaf, meginefni og niðurlag. Meginefninu átti svo líka að skipta í þrennt. Hér og þar átti að strá inn tilvitnunum í ljóð höfuðskáldanna. Mér fannst hlægilegt að byrja á að segja, hvað maður ætlaði að segja og enda á því að segja, hvað maður hafði sagt. Mér fannst réttara að byrja í miðju kafi og spinna út frá því. Ég minnist þess ekki að hafa fengið háar einkunnir fyrir ritgerðir, en ég treysti sjálfum mér. Ég var góður í íslenzku og hafði tilfinningu fyrir málsögu. Kunni að skrifa zetu.

Mér leiddist flest kennsla í skólanum. Undantekningar voru Ólafur Hansson, sem kenndi sagnfræði, og Sigurður Þórarinsson, sem kenndi jarðfræði. Ég stóð mig líka vel í þeim greinum á stúdentsprófi, varð efstur í árganginum og fékk verðlaun. Í öðru var ég í meðallagi. Ólafur og Sigurður voru lifandi kennarar, stunduðu ekki hinar hvimleiðu yfirheyrslur í tímum. Ólafur lagði mikla áherzlu á fjölfræði, kenndi okkur helztu hugtök í upplýstri umræðu um samfélagsmál. Hann var yfirvegaður og fordómalaus, tók málstað nemenda, þegar lærifeður voru ósáttir á kennarastofunni. Ég naut góðs af því.

Fékk hastarlega skákfíkn í menntaskóla. Tók þátt í taflmótum og eignaðist smám saman einn lengdarmetra af skákbókum. Adrenalínflæði skákmóta heltók mig. Undir lok næstsíðasta bekkjar áttaði ég mig á, að ég var á rangri hillu. Seldi taflborðið, skákklukkuna og bækurnar á einu bretti og snerti ekki á skák í aldarfjórðung. Lét þá plata mig í innanhússmót á DV og lenti í 1.-2. sæti. Úrslitum réði æsiskák í síðustu umferð, þar sem klukkan féll á báða og annar varð mát. Hringja varð í Guðmund Arnlaugsson skákmeistara til að úrskurða sigur. Adrenalínið flæddi um mig, ákvað þá að láta gott heita.

Ég held, að framtíð mín hafi verið ráðin á þessum árum, þótt ég gerði mér ekki grein fyrir því. Hélt ég yrði rólegur embættismaður, en undir niðri lá leið mín til ritstjórnar. Ég vildi pakka efni saman í fjölmiðil og gefa út. Síðasta árið í menntaskóla hafði ég þó hug á að pakka arkitektúr saman í borgarskipulag. Kynnti mér menntunarmöguleika á því sviði. Mér fannst ekki koma annað til greina en að fara til útlanda. Mér fannst menntaskólinn vera langstaðnaður og úreltur. Ég bar heldur enga virðingu fyrir Háskóla Íslands sem menntastofnun. Vildi heldur komast beint í erlendar uppsprettulindir.

Menntaskólaárin var ég undir áhrifum frá Birtingi, tímariti um listir og menntir þess tíma. Ég á enn öll tölublöð tímaritsins allt aftur til 1952. Það var boðberi nýrra tíma. Ég leit ekki á mig sem listaspíru, en var með á nótunum í abstrakti þess tíma. Í tímaritinu voru greinar um arkitektúr og þar á meðal um borgarskipulag. Þaðan held ég að hafi risið tímabundinn áhugi minn á því fagi. Þegar til kastanna kom, fældist ég tæknilega og listræna þætti borgarskipulags sem háskólafags. Hefði samt tekið borgarskipulag sem sérgrein í félagsfræði, ef ég hefði lent í að gera hana að ævistarfi mínu.

Að lokum varð félagsfræðin ofan á. Fór til Vestur-Berlínar 1959 að læra hana við Freie Universität. Var þar í þrjú misseri, lauk 1961 forprófum fyrir lokapróf. Tók próf í tölfræði og skoðanakönnunum, sem kom sér síðar vel í starfi. Vestur-Berlín var góður kostur. Þar voru námsgjöld engin, húsnæði fáanlegt, skólahald frjálslegt, verð lágt, krár opnar allan sólarhringinn. Ég sá þar fyrst alvöru vinstri stúdenta, sem kveiktu í húsum og slógust við lögguna. Einnig alvöru hægri stúdenta, sem skylmuðust á leynifundum. Að koma til Berlínar var eins og að hefja nýtt líf eftir verndað íslenzkt umhverfi.

Æ síðan hef ég haft fordóma í garð þess hluta yfirstéttarinnar, sem fór úr menntaskóla í embættisnám við Háskóla Íslands. Ég leit á þá sem heimalninga, sem ekki höfðu andað að sér ilminum af hinum víða umheimi. Viðbrigðin hjá mér voru eins og svart og hvítt. Mér fannst ég endurfæðast erlendis. Æ síðan hef ég haft efasemdir um ýkta þjóðernishyggju, sem kom fram í andstöðu við viðreisn. Andstöðu við breytingar á kjördæmaskipun. Andstöðu við afnám stuðnings við landbúnað. Andstöðu við aðild að fjölþjóðasamtökum á borð við Evrópusambandið. Ég efaðist um hinar séríslenzku lausnir heimalninganna.

Næsti kafli