1975 Stofnun Dagblaðsins

Starfssaga

1975-1979: Ritstjóri Dagblaðsins  (22)

Heimili mínu að Fornuströnd 2 var breytt í skrifstofu. Þar söfnuðust menn til að undirbúa nýja dagblaðið. Einkum voru það blaðamenn. Eftir vinnu á Vísi komu þeir, sem þaðan ætluðu að koma: Aðalsteinn Ingólfsson, Ásgeir Tómasson, Ásgrímur Pálsson, Atli Steinarsson, Bjarnleifur Bjarnleifsson, Björgvin Pálsson, Bolli Héðinsson, Erna V. Ingólfsdóttir, Hallur Hallsson, Hallur Símonarson, Haukur Helgason, Helgi Pétursson, Jóhannes Reykdal, Jón Sævar Baldvinsson, Jónas Kristjánsson, Ómar Valdimarsson. Þó ekki Jón Birgir Pétursson og Ólafur Jónsson, þeir komu að málinu við upphafið nokkru síðar.

Aðalsteinn Ingólfsson var nýlega tekinn við menningarrýni á Vísi og varð frá upphafi hornsteinn hjá hinu nýja blaði. Hann var sjálfur verkmaður og átti líka auðvelt með að fá lausapenna í hliðargreinar menningar. Frá honum var komin hugmyndin að Menningarverðlaunum Dagblaðsins, sem áratugum saman voru árlegur lykilatburður í menningarlífinu. Aðalsteinn var hámenntaður maður í sinni grein. Hann hélt svo vel utan um sín mál, að ég þurfti ekki að hafa nein afskipti af þeim. Ég vissi, að Aðalsteinn var einfær og að hans mál væru í lagi. Aðalsteinn starfaði svo með mér nánast alla mína ritstjóratíð.

Þremenningarnir Ásgeir Tómasson, Helgi Pétursson og Ómar Valdimarsson voru hinir ungu popparar Dagblaðsins. Þeir héldu svo vel uppi merkjum ungs fólks, að Dagblaðið náði frá upphafi hjörtum þess. Þeir efndu til Stjörnumessu, hressilegrar uppákomu, sem árlega var hliðstæð menningarverðlaunum blaðsins. Þeir þrír komu saman á minn fund einhvern tíma árs 1979 og hvöttu mig til að skipta um fréttastjóra af gildri ástæðu. Ég spurði þá, hver þeirra vildi taka við. Ásgeir og Helgi bentu á Ómar, sem varð svo fréttastjóri blaðsins upp úr þessu. Ómar var ungur og greindur, hafði verið aðstoðarfréttastjóri.

Ásgrímur Pálsson sá um prófarkalestur Dagblaðsins og síðan DV. Hann réð starfsfólk í þeirri deild. Kom oft á vikulega gæðafundi ritstjórnar og rakti villur, sem rekið hafði á fjörur hans. Oft þurfti hann að ítreka sig. Ég man ekki, að annar fjölmiðill hafi þá verið betur lesinn en Dagblaðið. Svo var Ásgrími fyrir að þakka. Umvandanir hans höfðu þó ekki eins mikil áhrif á blaðamenn og æskilegt hefði verið. Lengi hafa íslenzkir blaðamenn þráast við að taka mark á aðfinnslum um málfar og stíl. Áhugaleysi þeirra á sjálfu atvinnutæki sínu er einhver illskiljanlegasta þverstæða í sögu fjölmiðlunar.

Hallur Símonarson hafði verið í reiðileysi á Tímanum, en flutt sig yfir á Vísi, þegar ég var búinn að vera þar skamma hríð. Undir hans stjórn urðu íþróttafréttir Vísis að stórveldi í bransanum. Hann var á ritstjórninni einn eindregnasti stuðningsmaður nýs dagblaðs. Þar gerði hann síðar enn betri hluti, enda urðu íþróttir að flaggskipi hjá Dagblaðinu. Hallur var sérstakur meðal blaðamanna að því leyti, að hann safnaði hlutabréfum í fyrirtækinu. Átti væna gommu, þegar hann löngu síðar seldi þau Sveini Eyjólfssyni. Þegar á reyndi, stuðlaði Hallur ævinlega að friði og spekt á ritstjórn blaðsins.

Hönnuður blaðsins var Jóhannes Reykdal. Milli okkar var mjög gott samband og skilningur á meginlínum hönnunar. Við vorum nákvæmlega sammála um, hvernig útlit ætti að vera á blaðinu. Frá fyrsta degi var það eins og við ætluðumst til. Það var hreint og klárt, hugsað í boxum, með áherzlu á fjórdálka og eindálka. Í samanburði við þá hönnun, sem var á fyrri blöðum, sem ég hafði starfað við, bar hönnun okkar Jóhannesar á Dagblaðinu af eins og gull af eiri. Þetta var hvorki hönnun erlends fréttablaðs hefðbundins né nýstárleg hönnun erlends götublaðs. Þetta var millistig, bara hönnun Dagblaðsins.

Jóhannes Reykdal varð einn af helztu lykilmönnum Dagblaðsins. Hann varð tæknistjóri þess, jafnan í miklu samstarfi við mig, því að tæknimál voru á herðum ritstjórans. Var fljótur að átta sig á nýrri tækni. Var ódeigari en ég að ferðast um heiminn að kynna sér nýja tækni. Var beztur, þegar mest var um að vera, til dæmis þegar við stofnuðum óháða útvarpsstöð 1983 í löngu verkfalli. Jóhannes lét aldrei neitt koma sér á óvart. Það var stolt hans að vera alltaf með á nótunum. Þegar ég sagði honum, að ljós væru á bílnum hans fyrir utan húsið, svaraði hann að bragði án umhugsunar: “Ég veit það.”

Ekki bara blaðamenn komu á fundi á Fornuströnd. Þar var líka Benedikt Jónsson, kallaður Benni í Shell. Hann var gamall vinur Sveins og varð hans hægri hönd á Dagblaðinu. Ásgeir Hannes Eiríksson var auglýsingastjóri. Hann átti eftir að standa frábærlega að smáauglýsingum, sem slógu met hvað eftir annað. Hann var mikill stemmningsmaður og var mönnum til góðrar hvatningar. Ég átti góð samskipti við hann alla tíð og einnig við Má E.M. Halldórsson dreifingarstjóra. Meðal starfsliðs Dagblaðsins var gott samband, þvert á deildir fyrirtækisins. Þetta var eins og vel þjálfað keppnislið í fótbolta.

Fyrsta tölublað Dagblaðsins kom út 8. september 1975, aðeins sex vikum eftir brottreksturinn af Vísi. Fæddist fullskapað í smáatriðum eins og við vildum hafa það. Það hélzt í föstum skorðum alla þess tíð, eins að innihaldi og útliti á síðasta degi sem á fyrsta degi. Við bjuggum hvorki til hefðbundið götusölublað né hefðbundinn Mogga. Heldur eins konar norrænt milliblað að innihaldi og útliti. Áherzlan var ekki á persónufréttum, heldur á fjörugri og hressilegri útgáfu frétta af málefnum. Þessi tegund af dagblaði hélt síðar áfram í sameinuðu blaði, DV, sem tók við af Dagblaðinu sex árum síðar.

Við lögðum áherzlu á sambúðina við lesendur. Strax á fyrstu opnu blaðsins voru lesendabréfin. Þau náðu yfir heila opnu. Hvorki fyrr né síðar var annar eins kraftur í útgerð lesendabréfa. Sama hugsun var að baki kjallaragreina, sem áttu virðingarsæti í leiðaraopnu blaðsins. Þar fékk litróf þjóðarinnar birtar greinar sínar. Það var nýjung í blaðaútgáfu. Kjallararnir urðu að einu af einkennistáknum Dagblaðsins, táknmynd af stöðu blaðsins í æðaslætti þjóðarinnar. Þetta var frjálst og óháð dagblað og reyndi að vera það á hverjum degi. Lesendabréf og kjallaragreinar voru alfa og ómega Dagblaðsins.

Við lögðum einnig áherzlu á smáauglýsingar, ekki bara af því að við vildum tekjurnar. Þær eru auglýsingar litla mannsins, sem vill kaupa eða selja hús eða bíl, húsbúnað eða gæludýr. Fyrstu dagana reyndu allir starfsmenn að fá vini og ættingja til að kanna háaloftið hjá sér. Til að finna hluti, sem þeir gátu verið án og vildu selja. Þegar til kastanna kom, reyndist þetta óþörf fyrirhyggja. Sprenging varð í smáauglýsingum á fyrstu dögum blaðsins. Síðan minnist ég alltaf smáauglýsinga um leið og ég minnist lesendabréfa og kjallaragreina. Þetta voru þrír þættir sambandsins við fólkið í landinu.

Upphaflega átti DV að vera eðlilegt framhald Vísis, hinn sanni og rétti Vísir. Þegar til átti að taka, vorum við búnir að hanna alveg nýtt blað, frjálst af gamla Vísi. Það réði úrslitum um velgengni blaðsins. Það sló í gegn frá fyrsta degi. Þjóðin tók þessu nýja blaði fagnandi. Lesendabréf, kjallaragreinar og smáauglýsingar voru hornsteinninn. Þjóðin taldi sig með þeim efnisþáttum hafa fengið aðgang að eigin fjölmiðli. Þetta var sameinað afrek allra þeirra, sem tóku þátt í undirbúningsfundunum á Fornuströnd. Ég átti auðvitað drjúgan þátt í útkomunni, en ég átti hana langt í frá einn.

Næsti kafli