Punktar

Orðhengill

Punktar

Ráðherrar eru oft sakaðir um siðleysi og þeir hafna slíkri lýsingu jafnóðum. Ástæðan hjá þeim öllum er hin sama og hjá Jóni. Þeir hafa gefið sér aðra túlkun á hugtakinu loforð en annað fólk hefur. Þeir telja sig hafa gefið vilyrði um viljayfirlýsingu, sem muni kannski verða efnd að hluta einhvern tíma eftir skilafrest loforðsins. Einmitt af þessari ástæðu njóta stjórnmálamenn lítils trausts. Jón ráðherra hefur magnað þá skoðun almennings, að marklausir séu stjórnmálamenn, sem hafa komizt til áhrifa. Þeir muni í tæka tíð snúa sig úr vandanum með orðhengilshætti.

Hefur reynt

Punktar

Þegar saumað er að Jóni ráðherra, skipar hann nefnd í málið. Þannig ýtir hann loforðum á undan sér. Eða þá að hann segir, að málið hafi ekki náð fram að ganga í ráðuneytinu eða hjá ríkisstjórninni. Honum finnst nóg að hafa sjálfur reynt og vísar á ráðuneyti sitt, fjármálaráðuneyti eða ríkisstjórn. Ef honum tekst að efna hluta loforðsins, til dæmis eftir tilskilinn tíma, finnst honum sinn hlutur vera góður. Hann hafi reynt og náð árangri að hluta. Hann vísar því á bug að vera sakaður um að hafa svikið umrætt loforð. Þannig tekst Jóni að lifa frá degi til dags með svikin á báða bóga.

Sýn á loforð

Punktar

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra lofar stundum hinum og þessum aðgerðum, þegar hann mætir á fundi hagsmunaaðila úti í bæ. Menn hafa hingað til orðið ósköp glaðir, þegar Jón dreifir um sig loforðum, en nú eru að renna á menn tvær grímur. Það hefur nefnilega komið í ljós, að Jón ráðherra lítur öðrum augum á loforð en almenningur í landinu. Fleiri stjórnmálamenn eru haldnir þessum misskilningi í túlkun á eigin orðum. Þeir líta á loforð sem einhverja nauðsyn í daglegum störfum, sem ekki beri að efna, svo framarlega, sem þeir geti sýnt fram á, að þeir hafi gert eitthvað í málinu.

Dagblöð eru bezt

Punktar

Bezta leiðin til að finna góð veitingahús í óþekktri borg er að fara á vefslóðir dagblaða á þeim slóðum til að leita að veitingarýni. Í þessu eins og öðru eru dagblöð heiðarlegustu fjölmiðlarnir. Ekki má taka mark á leiðsögubókum, sem eru ætlaðar ferðamönnum, þær gefa feiknarvond ráð. Politiken gefur til dæmis góð ráð um Kaupmannahöfn. Ef þú átt erfitt með að lesa erlent tungumál, til dæmis á Spáni, er Michelin oft þrautalendingin, af því að venjuleg matreiðsla á Spáni er ekki góð og því gott er að hafa stuðning af leiðsögn, sem ekki er heimafengin. Á Ítalíu kemur Michelin að minna gagni.

Michelin í lagi

Punktar

Rauðu Michelin-leiðsögubækurnar um hótel og matsali hafa reynzt mér vel um ár og áratugi í útlöndum. Að vísu verð ég að hafa í huga, að rauðu bækurnar hafa einkum dálæti á hefðbundinni matreiðslu frá Frakklandi, þeirri sem kennd er í kokkaskólanum hér á landi. Sú matreiðsla er of flókin og klassísk fyrir minn smekk. Ég hef ítalska og japanska matreiðslu og einkum ameríska í meiri metum en Michelin gerir. Þá hefur orðið frægt, að gamalfínir staðir detta ekki niður í Michelin, þótt gæðin hrapi. Með því að hafa þetta í huga má vel nota Michelin eins og hvern annan gagnrýnanda.

New York hertekin

Punktar

Rauðu Michelin-leiðsögubækurnar um hótel og matsali hafa loksins numið land í New York, þar sem tæplega 40 matsalir fengu stjörnur, svipað og í London og einn tíundi af því, sem er í París. Þessi volduga biblía hafði áður hertekið Austur-Evrópu og þar með alla Evrópu fyrir utan Ísland og Tyrkland. Hér fengi eitt hús eina stjörnu í Michelin, Grillið á Sögu. Í New York eru það einkum franskir staðir, sem fá stjörnur, en nokkur ítölsk og bandarísk hús slæðast með. Veitingafróðir Bandaríkjamenn telja, að gestir muni áfram halla sér að meðmælum hjá New York Times og Zagat.

Nýbúavandi í Frans og hér

Punktar

ÓEIRÐIR NÝBÚA geta komið til Íslands. Þær hafa nú staðið meira en viku í Frakklandi og nálgast miðborg ferðamanna í París. Við búum við svipuð vandamál og Frakkar og aðrir Evrópumenn, sem hafa frestað aðlögun nýbúa að þjóðfélaginu.

NÝBÚAR ERU EKKI bara ódýrt vinnuafl, fyrst í verktöku og fiskiðnaði og síðan í umönnunarstörfum. Nýbúar eru ekki tæki til að lina skort á fólki í illa borguðum störfum. Þeir eru fólk, sem þarf að taka afstöðu til. Ekki má einangra þá.

Í PARÍS og öðrum borgum Frakklands búa nýbúar sér í lélegum blokkahverfum, sem heimamenn forðast. Þannig er staðan líka í öðrum Evrópuríkjum. Hér hafa nýbúar ekki enn safnast saman í aðgreind hverfi, þar sem gilda sérlög og sérstakir siðir.

VIÐ ÞURFUM að laga nýbúa að þjóðfélaginu, annars verða þeir að óleysanlegu meini. Við þurfum að kenna þeim íslenzku ókeypis og hjálpa þeim að finna vinnu. Við megum ekki safna þeim á afmarkaða staði í ódýrum og illa hirtum blokkum.

AUÐVITAÐ VERÐUM við að krefjast þess á móti, að nýbúar virði íslenzk lög og íslenzka hugsun. Um frelsi einstaklinga gegn feðraveldi, um trúfrelsi og guðlast, um dómskerfið almennt. Annars verði nýbúar að flytjast aftur til fyrri heimkynna.

VIÐ ÞURFUM á nýbúum að halda til að fjölga þjóðinni og veita okkur strauma siða og menningar frá fjarlægum heimshornum. En við megum ekki gefa frá okkur þann frumburðarrétt, að hornsteinar vestræns þjóðskipulags hafi hér óskert gildi.

FRANSKA REYNSLAN sýnir, að ekki má taka vettlingatökum á þessu málum. Við þurfum á nýbúum að halda og þurfum því að hjálpa þeim til að verða gildir borgarar í þjóðfélaginu. Við höfum þessa dagana vítin að varast í nágrannalöndunum.

DV

Vilhjálmur verður borgarstjóri

Punktar

ÞAÐ FÓR Í TAUGAR mér, að kosningaskrifstofa Gísla Marteins skyldi tromma upp á ögurstund með atkvæðagreiðslu á vefnum og kalla skoðanakönnun. Þetta var svindl, sem átti að eyða áhrifum fyrri kannana, en náði sem betur fer ekki árangri.

SÁTT ER MEÐAL fræðimanna um, að það eitt sé skoðanakönnun, er hinir spurðu velja sig ekki sjálfir, heldur óhlutdrægur framkvæmdaaðili. Hitt er atkvæðagreiðsla, algengt fyrirbæri á vefnum. Við skulum halda þessu tvennu aðgreindu.

VILHJÁLMUR VERÐUR borgarstjóri í vor. Svo einfalt er það. Það stafar ekki af því, að hann sé betri en einhver annar, sem þér eða mér gæti dottið í hug. Það stafar bara af því, að arftakar Reykjavíkurlistans hafa spilað sig út.

VIÐ ERUM HÓPUM saman orðin gáttuð á Reykjavíkurlistanum, andúð hans á mislægum gatnamótum og einkabílisma, loforði hans um ókeypis leikskóla á sama tíma og hann getur ekki mannað leikskólana og einkum þó á hroka oddamanna listans.

ÞAR SEM BORGARMÁL eru að minnsta kosti 80% tæknileg og aðeins 20% pólitísk, er ágætt að fá Vilhjálm sem borgarstjóra í vor. Reykjavíkurlistinn er búinn að vera nógu lengi við völd. Nú er kominn tími til að skipta.

VILHJÁLMUR ER búinn að vera lengi í borgarstjórn og þreyja þorrann síðan Reykjavíkurlistinn komst til valda. Prófaðar hafa verið ýmsar hetjur í stað Vilhjálms, svo sem síðast Björn Bjarnason og nú Gísli Marteinn. Enginn hefur dugað.

VILHJÁLMUR ER dæmi um, að spretthlaup er ekki alltaf bezt til árangurs. Langhlauparar með úthaldi geta líka sigrað.

DV

Tími er peningur

Punktar

Í Bandaríkjunum eru lögð mislæg gatnamót á einni helgi. Það er sá hámarkstími, sem fólk sættir sig við truflanir og seinkanir á leið sinni. Hér á landi hefur tekið marga mánuði að leggja nýju Hringbrautina sunnan við Umferðarmiðstöðina. Í nóvember eru yfirvöld að leggja þökur á brekkur kringum gatnamót Hringbrautar og Snorrabrautar. Óbærilegt er að hugsa til þess, hversu langan tíma muni taka borgaryfirvöld að setja Miklubrautina niður í stokk. Verkfræðingar í umferðarmálum borgarinnar virðast ófærir um að reikna tímalíkön, þar sem fundin er skemmsta leið að hverju marki.

Norðurlandaráð

Punktar

Norðurlandaráð hefur fyrir löngu glatað tilvistarrétti sínum. Margir áratugir eru síðan það skilaði síðast árangri. Nú er það vettvangur fyrir “mikilvægar spurningar” og “áhugaverð vandamál” og auðvitað tilefni hverrar veizlunnar á fætur annarri. Dagens Nyheter hefur rétt fyrir sér, þegar það segir orðið tímabært að kveðja þetta ráð. Umræður í ráðinu snerust núna um, hvernig það geti sparað peninga. Lausnin á þeim vanda er auðveldari en ráðsmenn telja. Hún er sú að afnema ráðið. Almenningi í löndum ráðsins gæti ekki verið meira sama. Ráðið á ekki lengur sess í hjörtum fólks.

Ráðherra og forstjóra að kenna

Punktar

ÞRENGSLIN Á SÓLVANGI í Hafnarfirði eru sér á parti. Slík þrengsli eru sjaldgæf á elliheimilum hér á landi. Sem betur fer er ekki regla á elliheimilum, að 20 sentimetrar séu milli rúma og einkapláss fólks sé ein hilla. Sólvangur er til skammar.

STJÓRNENDUR SÓLVANGS fá meira fé til rekstrarins fyrir hvert gamalmenni, sem þeir troða inn. Þeir fá peninga frá ríkinu fyrir hvern einstakling, meiri peninga en aðrar stofnanir fá. Sólvangur fær fullt gjald fyrir umframfólkið, þótt það kosti ekki meira húsrými.

HEILBRIGÐISRÁÐUNEYTIÐ er samsekt Sólvangi. Þar hefur verið samþykkt að leyfa troðninginn. Ráðuneytið heimilar 85 pláss á Sólvangi, sem er langt umfram eðlilega notkun. Nær væri að setja 60 manns eða lægri tölu sem hámark notenda Sólvangs.

JÓN KRISTJÁNSSON heilbrigðisráðherra ber ábyrgð á því, að ráðuneytið hefur brotið lög og reglur með því að heimila ofnotkun Sólvangs. Hann er lögbrjóturinn. Erna Fríða Berg, forstjóri Sólvangs, ber svo ábyrgð á ofnotkuninni, sem er notuð til að þéna peninga.

ÞESS VEGNA ERU blaðamenn ekki velkomnir á Sólvang, þótt þeir séu velkomnir á Eir og aðra slíka staði. Eir er nefnilega með sitt á hreinu. Sólvangur þarf hins vegar að fela lögbrot og rangindi, sem Erna Fríða Berg forstjóri og Jón Kristjánsson ráðherra standa fyrir.

JÓN KRISTJÁNSSON hefur í tæpt ár lofað endurbótum á þessu slæma ástandi Sólvangs. Hann hefur þennan tíma ekki lyft hendi til að efna loforðin. Í hans hugarheimi endar ferlið við loforðin. Ytri aðstæður taka svo við að hans mati. Hann þykist vera peð í framvindunni.

ÞETTA ER RUGL ráðherrans. Hann ber ábyrgð á orðum sínum eins og allir menn bera ábyrgð á orðum sínum. Þótt hann sé stjórnmálamaður, hefur hann enga undanþágu. Hann ætti að lána Sólvangi heimili sitt og flytjast sjálfur á Sólvang.

DV

Söguleg sátt

Punktar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mætti á aðalfund útgerðarmanna og tjáði þeim, að Samfylkingin mundi ekki nenna lengur að amast við því, að þeim var gefinn kvótinn. Þetta mun vera liður í tilraun flokksins að sýna fram á, að hann sé ekki bara í sátt við guð, heldur alla menn yfirleitt. Í gamla daga þótti skynsamlegt af flokkum að segjast starfa fyrir alla og segjast vera vinur allra. Einhverjir fá þó sting í magann og jafnvel hjartað við að sjá einn stærsta flokk landsins gefa gæðastimpil á þá aðgerð, þegar núverandi forsætisráðherra gaf sjálfum sér og útgerðinni kvótann.

Ráðherrann dýrkar ríkið

Punktar

BJÖRN BJARNASON er dómsmálaráðherra. Ráðuneyti hans hefur ákveðið, að ríkið setji upp myndavélar hjá sýslumönnum til að búa til myndir í nýja passa, sem fullnægja bandarískum kröfum um slíka passa.

STARFSBRÆÐUR BJÖRNS á Norðurlöndum hafa farið aðra leið. Þeir hafa sent ljósmyndurum skilgreiningar á þörfinni og þannig gert einkaframtakinu kleift að útvega sér tækjabúnað til að taka fullnægjandi ljósmyndir.

BJÖRN ER EKKI maður einkaframtaks, heldur ríkisforsjár. Hugmyndafræði frjálshyggjunnar er honum til dæmis lokuð bók. Hann er fyrst og fremst embættismaður í hugsun. Honum finnst ríkið bezt og að það hafi ævinlega rétt fyrir sér, 100%.

BJÖRN ER ALINN UPP í Sjálfstæðisflokknum. Það er flokkur, sem einkum hefur verið stjórnað af embættismönnum og öðrum ríkisstarfsmönnum. Flokkurinn er hvorki frjálshyggju- né frjálslyndisflokkur, heldur embættismannaflokkur.

ÞÓTT FLOKKURINN komi stundum fram sem markaðshyggjuflokkur, stafar það bara af hagsmunum sjávarútvegsmanna og heildsala, sem ætíð hafa stutt flokkinn. Flokkurinn styður einkavæðingu til dæmis því aðeins, að hún komi vel svonefndum kolkrabba.

BJÖRN ER HORNSTEINN embættismannahyggju flokksins. Honum finnst bezt, að ríkið sjái um ljósmyndir í vegabréf, meðan starfsbræðrum hans á Norðurlöndum, þar á meðal krötunum, finnst bezt, að einkaframtakið sjái um slíkar ljósmyndir.

ÞVÍ ER EKKI FURÐA, þótt Björn sé óvinsælasti ráðherra Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir, meira að segja óvinsælli en Sturla Böðvarsson og Sigríður Anna Þórðardóttir, sem ekki eru hátt skrifuð í almenningsálitinu.

DV

Upphaf endalokanna

Punktar

Þegar þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna tók við forræði samninga við íslenzka utanríkisráðuneytið um landvarnir Íslands og rekstur Keflavíkurvallar, for forræðið frá þeim aðila, sem hefur gælt við gott samband við Ísland, í hendur froðufellandi hægri manns, sem hafnar, að Bandaríkin hendi peningum í erlend sníkjudýr. Því ber nú svo mikið á milli í viðræðunum, að Albert Jónsson og félagar urðu að flýja frá Washington um daginn. Nú dugir ekki að væla í Washington. Herinn fer, af því að Bandaríkin vilja losna við Ísland.

Feta er grískur

Punktar

Feta er grískt orð yfir geitaost. Evrópusambandið hefur nú bannað öðrum ríkjum, til dæmis Dönum, að nota þetta orð yfir annan ost en grískan feta. Þetta minnir okkur á, að hér á landi hefur lengi verið til siðs að stela útlendum nöfnum á ostum og nota á íslenzkar eftirlíkingar. Þannig er til íslenzkur camembert, brie, gouda, maribo, havarti, port salut, mozzarella og auðvitað íslezkur feta. Allt er þetta lélegur þjófnaður einokunarfyrirtækis á erlendu hugviti. Enginn þessara íslenzku osta líkist frummyndinni. Til dæmis er íslenzkur feta ekki einu sinni úr geita- eða kindamjólk.