Sýn á loforð

Punktar

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra lofar stundum hinum og þessum aðgerðum, þegar hann mætir á fundi hagsmunaaðila úti í bæ. Menn hafa hingað til orðið ósköp glaðir, þegar Jón dreifir um sig loforðum, en nú eru að renna á menn tvær grímur. Það hefur nefnilega komið í ljós, að Jón ráðherra lítur öðrum augum á loforð en almenningur í landinu. Fleiri stjórnmálamenn eru haldnir þessum misskilningi í túlkun á eigin orðum. Þeir líta á loforð sem einhverja nauðsyn í daglegum störfum, sem ekki beri að efna, svo framarlega, sem þeir geti sýnt fram á, að þeir hafi gert eitthvað í málinu.