Vilhjálmur verður borgarstjóri

Punktar

ÞAÐ FÓR Í TAUGAR mér, að kosningaskrifstofa Gísla Marteins skyldi tromma upp á ögurstund með atkvæðagreiðslu á vefnum og kalla skoðanakönnun. Þetta var svindl, sem átti að eyða áhrifum fyrri kannana, en náði sem betur fer ekki árangri.

SÁTT ER MEÐAL fræðimanna um, að það eitt sé skoðanakönnun, er hinir spurðu velja sig ekki sjálfir, heldur óhlutdrægur framkvæmdaaðili. Hitt er atkvæðagreiðsla, algengt fyrirbæri á vefnum. Við skulum halda þessu tvennu aðgreindu.

VILHJÁLMUR VERÐUR borgarstjóri í vor. Svo einfalt er það. Það stafar ekki af því, að hann sé betri en einhver annar, sem þér eða mér gæti dottið í hug. Það stafar bara af því, að arftakar Reykjavíkurlistans hafa spilað sig út.

VIÐ ERUM HÓPUM saman orðin gáttuð á Reykjavíkurlistanum, andúð hans á mislægum gatnamótum og einkabílisma, loforði hans um ókeypis leikskóla á sama tíma og hann getur ekki mannað leikskólana og einkum þó á hroka oddamanna listans.

ÞAR SEM BORGARMÁL eru að minnsta kosti 80% tæknileg og aðeins 20% pólitísk, er ágætt að fá Vilhjálm sem borgarstjóra í vor. Reykjavíkurlistinn er búinn að vera nógu lengi við völd. Nú er kominn tími til að skipta.

VILHJÁLMUR ER búinn að vera lengi í borgarstjórn og þreyja þorrann síðan Reykjavíkurlistinn komst til valda. Prófaðar hafa verið ýmsar hetjur í stað Vilhjálms, svo sem síðast Björn Bjarnason og nú Gísli Marteinn. Enginn hefur dugað.

VILHJÁLMUR ER dæmi um, að spretthlaup er ekki alltaf bezt til árangurs. Langhlauparar með úthaldi geta líka sigrað.

DV