New York hertekin

Punktar

Rauðu Michelin-leiðsögubækurnar um hótel og matsali hafa loksins numið land í New York, þar sem tæplega 40 matsalir fengu stjörnur, svipað og í London og einn tíundi af því, sem er í París. Þessi volduga biblía hafði áður hertekið Austur-Evrópu og þar með alla Evrópu fyrir utan Ísland og Tyrkland. Hér fengi eitt hús eina stjörnu í Michelin, Grillið á Sögu. Í New York eru það einkum franskir staðir, sem fá stjörnur, en nokkur ítölsk og bandarísk hús slæðast með. Veitingafróðir Bandaríkjamenn telja, að gestir muni áfram halla sér að meðmælum hjá New York Times og Zagat.