Punktar

Hættulegasta ofstækið

Punktar

Trúarofstækismenn hafa farið hamförum undanfarin misseri. Í Bandaríkjunum brenna þeir vísindarit og reka eðlisfræðikennara. Í Afganistan eru menn dæmdir til dauða fyrir að vera kristnir. Harðlínuklerkar hafa tekið völd í Íran og eru að ná völdum í Írak. Sádi-Arabíu er stjórnað af ofstæki aftan úr miðöldum. Sértrúarsöfnuðir hafa náð fótfestu á Íslandi og áhrifum í Framsóknarflokknum, en mildir nýguðfræðingar eru horfnir. Bush og Blair tala við guð á hverjum degi og guð hefur nýlega sagt Bush að sprengja Íran með atómbombum. Trú er orðin að hættulegasta ofstæki nútímans.

Þeir séu þar, við hér

Punktar

Flóttafólki frá þriðja heiminum hefur meira eða minna tekizt að ná fótfestu á Vesturlöndum. Austur-Asíufólki vegnar vel í Bandaríkjunum og Indverjum og Pakistönum vegnar vel í Bretlandi. Trúaðir múslimar eru hinir einu, sem ekki geta lagað sig að vestrænum aðstæðum. Þeir gera kröfu um að fá að halda þjóðskipulagi sínu, þótt það stríði í mikilvægum atriðum gegn lögum og siðum á Vesturlöndum. Eins fáránlegt og það er, að Vesturlönd abbist upp á ríki múslima, þá er það enn fáránlegra að grípa ekki til gagnaðgerða, þegar múslimar vilja verða ríki í ríkinu á Vesturlöndum. Þá á að reka burt.

Íslam hafnar lýðræði

Punktar

Lýðræði hefur ekki aukizt í löndum múslima síðustu misserin og allra sízt í stuðningsríkjum Vesturlanda. Tyrkland er enn að hefja ofsóknir gegn Kúrdum. tilburðir til lýðræðis í Egyptalandi, Jórdaníu og Sádi-Arabíu hafa farið út um þúfur. Aðeins í Palestínu hafa verið frjálsar kosningar, en Bandaríkin og Evrópusambandið hafna úrslitunum samkvæmt máltækinu um, að kosningar séu þá aðeins góðar, ef mínir menn vinna þær. Trúarofstæki hefur aukizt í Íran og Írak og Pakistan. Hvarvetna eru vestræn sjónarmið á flótta, enda hefur aldrei gefizt vel að troða hugmyndum upp á þjóðir með vestrænu ofbeldi.

Norrænn rétttrúnaður

Punktar

Bandaríkjamenn eru hluti af menningarheimi, sem gerir ráð fyrir, að menn séu illir, einkum ef þeir hafa völd. Íslendingar eru hins vegar hluti af norrænum menningarheimi, sem gerir ráð fyrir, að menn séu góðir, einkum ef þeir hafa völd. Þess vegna höfum við afhent fjöregg frelsisins í hendur blýantsnagara, sem vaka yfir því, að ekkert af viti leki úr kerfinu inn í fjölmiðlana. Yfir þessu kerfi tróna Úrskurðarnefnd um upplýsingamál og Persónuvernd, sem passa, að sé eitthvað í ólagi í kerfinu, þá sé það samt allt í lagi, af því að það komist þó ekki í blöðin.

Við erum úti að aka

Punktar

Byltingin er í tölvuvæddri blaðamennsku, ekki aðeins í stórum rannsóknum, heldur líka í hversdagsfréttum. Ný tæki og ný tækni hafa gert blaðamönnum kleift að grafa upp mikilvægar upplýsingar í tímahraki og bæta við þær dýpt og samhengi.

Embættismenn vænta, að þú biðjir um þúsundir síðna og bíðir marga mánuði eftir því, að þeir striki út leynileg atriði. Þeir hyggjast senda þér reikning upp á þúsundir dollara. Í ljós kemur, að það kostar hundrað dollara að laga bankann.

Að morgni dags tekur þú tölvudiskinn á skrifstofu þeirra og um kvöldið ertu með tilbúna frétt um, að fátækt fólk er látið borga hærra lausnargjald en ríkt fólk og verður því að sitja inni meðan mál þess er til rannsóknar.

Viltu vita um öryggi á næsta alþjóðaflugvelli? Þú tekur niður gagnabankann af heimasíðu Flugmálastjórnar (í Ameríku) eða biður Samtök tölvublaðamanna að senda þér allan gagnabanka stofnunarinnar, sem þau eiga jafnan í nýjustu útgáfu.

Um kvöldið ertu búinn að finna út fjölda öryggisbrota á þessum flugvelli síðustu árin og í hverju þau voru fólgin. Þú ert búinn að tala við starfsmenn vallarins, flugfélaga og Flugmálastjórnar og lesa skýrslu stjórnvalda, sem er á vefnum.

Svona vinna er orðin hversdagsleg í Bandaríkjunum. Blaðamenn nota þessar leiðir og aðrar til segja fréttir, sem koma til greina til Pulitzer-verðlauna. Enginn blaðamaður getur verið án þess að kunna að nota tölvur til að grafa upp mál.

Hæfni blaðamanns felst núna í að geta hlaðið niður gagnabönkum, geta rannsakað gögnin, geta hugsað á gagnrýninn hátt, leitað að öðrum upplýsingum á vefnum, svo að hann geti skrifað fréttir með dýpt og samhengi, sem skipta máli í nútímanum.

Bandaríski blaðamaðurinn, sem byrjar að skrifa frétt með 150.000 dómsmál í tölvu sinni er ekkert sambærilegur við íslenska blaðakontóristann, sem tekur við tilkynningum og umskrifar þær eða tekur viðtöl við félagslegt rétttrúnaðarfólk.

Við höfum hins vegar dómstóla, Úrskurðarnefnd um upplýsingalög og Persónuvernd, sem passa, að íslenzkir blaðamenn geri ekkert af viti.

Miklir menn erum við

Punktar

Í skjóli íslenzkra hermanna blómstrar framleiðsla eiturlyfja í Afganistan meira en nokkru sinni fyrr. Barónar stjórnvalda lifa lúxuslífi innan um almenna örbirgð, enda er útflutningurinn talinn nema tæpum 200 milljörðum íslenzkra króna á ári. Frægastir eru Haji Adam og herstjórinn Muhammad Daud, sem er innanríkisráðherra. Þar kemur líka við sögu bróðir forsetans, Walid Karzai. Samkvæmt síðustu talningu lifa 17 þingmenn í Afganistan á sölu eiturlyfja. Það er ekki ónýtt fyrir okkur að hafa vopnaða pilta í Afganistan til að vernda höfðingjana, sem flytja gróðann til Dubai.

Hvergi er friður

Punktar

Nú er Windows komið á Makkann mér til mikillar skelfingar. Er hvergi friður fyrir þessu stýrikerfi, sem veldur náunganum ólýsanlegum hörmungum með veirum og ormum, sem valda mannkyninu milljarðatjóni á hverju ári? Á sama tíma hef ég fengið að vera í friði fyrir öllum ófögnuði í minni Paradís, eini maðurinn á Vesturlöndum, sem aldrei hefur þurft að nota Excel eða Word eða Office eða annað ullabjakk. Á ég nú að fá þann illræmda ormagarð í hausinn, af því að Windows læðist gegnum Intel-kubb inn í paradísina með ormétið epli? Er þessum Jobs ekkert heilagt?

Guðspjall Júdasar

Punktar

Júdasarguðspjallið er ekki fyrsta ritið af því tagi utan biblíunnar. Við misjafnan fögnuð voru áður fundin Tómasarguðspjall og Filipusarguðspjall, þar sem Jesús var sagður hafa kvænst Maríu Magdalenu. Guðspjöllinn eru því orðin sjö, fyrir utan fimm ófundna lærisveina og ýmsan texta, sem páfinn klippti úr biblíunni snemma á öldum í samræmi við rétttrúnað þess tíma, þegar villutrú var glæpa verst. Þá var sértrú um allar álfur og predikaði hver sitt afbrigði af hörku, sem jafnan einkennir trúarágreining. Guðspjall Júdasar kemur sem ljúfasta gluggaveður ofan í almennt dálæti á daVinci lykilbókinni, þar sem Páfagarður er talinn vera hið versta fól.

Atómstríð undirbúið

Punktar

Verst við fréttina um fyrirhugaða kjarnorkuárás Bandaríkjanna á Íran er, að hún kemur frá Seymour Hersh, þekktasta rannsóknablaðamanni heims. Hann kom upp um fjöldamorð Bandaríkjahers í My Lai í Víetnam, svindl blaðakóngsins Robert Maxwell og pyndingar Bandaríkjahers í Abu Gharib. Hann skrifar í The New Yorker, hefur frábær sambönd í bandaríska stjórnkerfinu og hefur fengið Pulitzer-verðlaun fyrir skúbb. Þess vegna trúa menn honum. Skelfilegt er að búast við, að vitfirringarnir, sem stjórna Bandaríkjunum, séu að undirbúa atómstríð.

Styður róttæklinginn

Punktar

Risafyrirtækið Coca Cola heldur peningalega uppi virkasta róttæklingi Bandaríkjanna. Með stuðningi þess segir Rick Berman á vefnum og víðar, að tóbak sé hollt, að lágmarkslaun séu vond, að ekki skuli hafa eftirlit með gæðum matvæla, að verkalýðsfélög séu á vegum Fidel Castro, að Mæður Gegn Ölvun Við Akstur séu skelfilegar kerlingar og að ekki sé of mikið af merkúríum-málmi í fiski. Gott er að þurfa ekki að styðja Coca Cola til að hjálpa Berman til að heilaþvo fólkið. Raunar eru stórfyrirtæki að baki margs þess, sem sjúklegast er í bandarískri þjóðmálaumræðu.

Jarðsögulegir dagar

Punktar

Þegar ég var fermdur, skýrði séra Jón Þorsteinsson fyrir okkur, að ekki bæri að taka biblíuna bókstaflega. Þar sem skráð væri, að guð hafi skapað heiminn á sjö dögum, væri átt við jarðsögulegar aldir, en ekki daga. Hann sagði, að þannig hugsað væri ekki ósamræmi milli sköpunartilgátunnar í Biblíunni og þróunarkenningarinnar, sem er hornsteinn lífríkisvísinda nútímans. Mér fannst Jón afgreiða þetta deilumál snyrtilega fyrir meira en hálfri öld. Líklega eru börn þó ekki fermd upp á býti Jóns á þessum síðustu og verstu árum vestan hafs.

Týndur hlekkur fannst

Punktar

Vísindamenn hafa fundið enn einn týnda hlekkinn í þróunarsögunni. Í grein í nýjasta tölublaði Nature er fjallað um dýr, sem fannst steingert á Ellesmere eyju í Kanada og var mitt á milli fisks og landdýrs. Áður hafa fundizt ýmsir týndir hlekkir milli manns og apa. Allir þessir fundir staðfesta þróunarkenninguna. Engar rannsóknir staðfesta hins vegar sköpunartilgátuna, sem þó sækir fram á vegum róttækt kirkjusinnaðra skólanefnda í Bandaríkjunum, með bókabrennum og brottrekstri eins og á miðöldum í Evrópu.

Stafkarlinn

Punktar

Atvinnumál á Suðurnesjum er ekki frambærileg forsenda fyrir sífelldu væli stjórnvalda okkar um, að Bandaríkin verði að standa við gerða samninga um úreltar varnir frá þeim tíma, þegar Rússar voru líklegir til alls. Kominn er tími til, að íslenzkir landsfeður gerist sjálfstæðir í utanríkismálum og komi hér upp vörnum gegn innflutningi hryðjuverkamanna í farþegaflugi. Allir vita, að bandaríska varnarliðið er gagnslaust til slíks, hvort sem það hefur hér eina flugvél eða enga, einn hermann eða engan. Við verðum að losna úr þessu leiða hlutverki stafkarlsins.

Hryðjuverkin

Punktar

Alvöruvarnir á Íslandi hljóta einkum að beinast að leiðum hryðjuverkamanna inn í landið, einkum í flugi, en einnig með skipum. Til þess þarf engar orrustuþotur. Koma þarf upp virkara eftirliti með komu fólks og vera í góðu sambandi við hryðjuverkavarnir vestrænna ríkja, annarra en Bandaríkjanna, sem aðeins vilja einhliða samstarf. Varnir Íslands geta verið í samráði við Evrópusambandið og Norðurlönd, en Bandaríkin verða ekki samstarfsaðili í vörnum gegn hryðjuverkum hér á landi frekar en annars staðar. Þau hafa illt orð á sér og það óorð flytzt yfir á okkur í varnarsamstarfi.

Við gefumst upp

Punktar

Ísland þarf ekki hefðbundnar varnir. Ef Rússar vilja kasta sprengjum á okkur, getum við farið eftir tillögu Glistrups í Danmörku, sem lagðí til, að í landvarnaráðuneytinu yrði settur upp símsvari, er segði í sífellu: “Við gefumst upp”. Núverandi varnir landsins duga ekki gegn hefðbundinni árás, enda vill enginn ráðast á okkur. Varnarliðið er óhæft til hvers kyns varna í nútímanum, einnig gegn innstreymi skæruliða, sem vilja framkalla hryðjuverk til að skemmta sér eða vekja athygli á kennisetningum sínum. Í stað þess að væla í Bandaríkjunum eiga landsfeður okkar að setja upp varnir.