Byltingin er í tölvuvæddri blaðamennsku, ekki aðeins í stórum rannsóknum, heldur líka í hversdagsfréttum. Ný tæki og ný tækni hafa gert blaðamönnum kleift að grafa upp mikilvægar upplýsingar í tímahraki og bæta við þær dýpt og samhengi.
Embættismenn vænta, að þú biðjir um þúsundir síðna og bíðir marga mánuði eftir því, að þeir striki út leynileg atriði. Þeir hyggjast senda þér reikning upp á þúsundir dollara. Í ljós kemur, að það kostar hundrað dollara að laga bankann.
Að morgni dags tekur þú tölvudiskinn á skrifstofu þeirra og um kvöldið ertu með tilbúna frétt um, að fátækt fólk er látið borga hærra lausnargjald en ríkt fólk og verður því að sitja inni meðan mál þess er til rannsóknar.
Viltu vita um öryggi á næsta alþjóðaflugvelli? Þú tekur niður gagnabankann af heimasíðu Flugmálastjórnar (í Ameríku) eða biður Samtök tölvublaðamanna að senda þér allan gagnabanka stofnunarinnar, sem þau eiga jafnan í nýjustu útgáfu.
Um kvöldið ertu búinn að finna út fjölda öryggisbrota á þessum flugvelli síðustu árin og í hverju þau voru fólgin. Þú ert búinn að tala við starfsmenn vallarins, flugfélaga og Flugmálastjórnar og lesa skýrslu stjórnvalda, sem er á vefnum.
Svona vinna er orðin hversdagsleg í Bandaríkjunum. Blaðamenn nota þessar leiðir og aðrar til segja fréttir, sem koma til greina til Pulitzer-verðlauna. Enginn blaðamaður getur verið án þess að kunna að nota tölvur til að grafa upp mál.
Hæfni blaðamanns felst núna í að geta hlaðið niður gagnabönkum, geta rannsakað gögnin, geta hugsað á gagnrýninn hátt, leitað að öðrum upplýsingum á vefnum, svo að hann geti skrifað fréttir með dýpt og samhengi, sem skipta máli í nútímanum.
Bandaríski blaðamaðurinn, sem byrjar að skrifa frétt með 150.000 dómsmál í tölvu sinni er ekkert sambærilegur við íslenska blaðakontóristann, sem tekur við tilkynningum og umskrifar þær eða tekur viðtöl við félagslegt rétttrúnaðarfólk.
Við höfum hins vegar dómstóla, Úrskurðarnefnd um upplýsingalög og Persónuvernd, sem passa, að íslenzkir blaðamenn geri ekkert af viti.