Punktar

Kristinn er meinið

Punktar

Hjálmar Árnason er risinn úr rekkju með sérstæðar skoðanir. Þingmaðurinn telur ófarir Framsóknar í skoðanakönnunum vera Kristni H. Gunnarssyni kollega að kenna. Er þó Kristinn ekki í borgarstjórn í Reykjavík né í öðrum sveitarfélögum, þar sem fylgið hefur hrunið. Hjálmar telur, að mál stæðu skár, ef allir Framsóknarmenn töluðu einum rómi. Líklegra er þó, að margt sé að í stjórn Framsóknar á landi og borg, sem geri flokkinn svona óvinsælan. Til dæmis þykist Framsókn nú síðast koma nýfædd af fjöllum, þegar mál borgarinnar eru á borðinu.

Markaðsfræði

Punktar

Framsókn hefur slegið upp kosningaloforðum og sjónvarpsauglýsingum, sem gera ráð fyrir, að kjósendur viti ekki, að Framsókn hefur lengi verið í ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta í Reykjavík og ber því fulla ábyrgð á verkum og verkleysum á hvorum stað. Loforðin og auglýsingarnar gefa í skyn, að Framsókn komi af fjöllum og hafi verið alveg ókunnugt um landstjórn og borgarstjórn í nokkur kjörtímabil. En tilfellið er, að markaðsfræðingar telja, að fólk sé mjög vitlaust og hafi þriggja vikna minni í pólitík. Framsókn treystir á heimskuna.

Halldór laug

Punktar

Það voru ekki fjölmiðlar, sem tóku við sér, þegar forsætisráðherra sagði á þingi fyrir rúmri viku, að frostið í forsætisnefnd væri ekki stjórnarsinnum að kenna. Eftir viku þögn þjóðfélagsins hefur Jóhanna Sigurðardóttir þingmaður upplýst málið. Ég túlka orð Jóhönnu þannig, að andstaðan vilji ekki styðja lélega breytingu á Davíðslögum og að stjórnin noti það til að halda eftirlaunamálinu í frosti. Halldór Ásgrímsson fór því með rangt mál. Það er hann, sem gætir þess, að Davíð geti í senn verið Seðlabankastjóri og uppgjafaráðherra á tvöföldum launum.

Spyrjið Frakka

Punktar

Engin vitræn umræða hefur verið hér um menningarframtíðina. Flokkarnir hafa ekki upplýst, hvað þeir ætla að gera við nýbúa. Vilja þeir koma hér upp skuggahverfum að hætti stórborga Evrópu og hyggjast þeir margfalda glæpatíðnina? Ætla þeir að bera ábyrgð á, að eigið viljaleysi leiði til eflingar flokks þjóðernissinna, sem nærist á mistökum af þessu tagi? Verður þetta afskekkta land vettvangur styrjaldar menningarheima eða vettvangur hefðbundinnar styrjaldar lögreglunnar við fátækt fólk, sem ekki nær að laga sig að umhverfinu. Spyrjið Dani og Frakka, þeir hafa reynsluna.

Götuóeirðir

Punktar

Fimm prósent þjóðarinnar eru nýbúar. Ef marka má reynslu nágrannaríkjanna verða nýbúar orðnir hér fimmti hver maður eftir nokkur ár og vandamálin orðin óleysanleg. Upp mun rísa flokkur þjóðernissinna með 20-25% fylgi. Við sjáum forskriftina allt í kringum okkur, en fljótum samt sofandi að feigðarósi. Ríkisstjórnin er meðvitundarlaus og virðist staðráðin í að endurtaka nákvæmlega öll mistök annarra ríkja, sem lentu fyrr í þessari sprengingu. Ef ráðherrar ætla að búa hér til fjölmenningu í stað götuóeirða að hætti Parísar verða þeir að vakna umsvifalaust.

Púðurtunnuhverfi

Punktar

Eftir 1. maí í vor munu myndast púðurtunnuhverfi fátækra nýbúa hér á landi eins og í öðrum löndum Vestur-Evrópu. Þann dag nær Evrópska efnahagssvæðið til ríkja Austur-Evrópu. Eftir það mega menn koma þaðan til Íslands án þess að hafa atvinnu eða atvinnuleyfi. Ríkisstjórnin hefur ekki hugmynd um þetta vandamál. Hún hefur ekki gert ráðstafanir til að bæta aðlögun þeirra nýbúa, sem þegar eru komnir til landsins. Eftir 1. maí getur hún ekki einu sinni skyldað útlendinga til að læra íslenzku. Við fáum því holskeflu útlendinga, sem búa í glæpahverfum og fara á sósíalinn.

Límið bilar

Punktar

Kenneth Rogoff prófessor við Harvard í Bandaríkjunum segir í viðtali við Spiegel um helgina, að liðinn sé sá tími, að laun voru fastur hluti af landsframleiðslu. Í nokkur ár hafi hlutur launa lækkað. Lífskjör hinna lægst launuðu hafi raunar rýrnað. Hann segir þetta stafa af óheftu auðvaldi og græðgi forstjóra, sem með annarri hendi reki þúsundir úr vinnu og taki með hinni milljónir dala í eigin vasa. Hann segir þetta ekki vera sjálfbært kerfi og að spár Karls Marx séu að rætast seint og um síðir. Eins og margir aðrir telur hann, að límið sé nú að hverfa úr vestrænu samfélagi.

Lýðskrumi lokið

Punktar

Lýðskrumari Evrópu lokar augunum fyrir því, að hann er fallinn og getur ekki lengur beitt pólitík og ríkisútvarpi til að forða sér og fyrirtækjum sínum undan lögum og rétti. Samherjarnir leggja fast að Silvio Berlusconi að viðurkenna ósigur sinn, en hann getur það ekki, því að þá er lokið sjónhverfingunum hans. Hann hvetur nú til þjóðstjórnar á Ítalíu til að halda nægum völdum til að verja braskið. Engar líkur eru á, að honum takist það. Lengi töldu fátækir Ítalir, að Berlusconi mundi gera þá ríka eins og sjálfan sig, en þeir eru að byrja að vakna af vondum draumi.

Ónýtt dulargervi

Punktar

Einn frægasti blaðamaður Bretlands hefur ekki lengur skjól í dulargervi sínu sem auðugur kaupsýslu-arabi. Myndir af Mazher Mahmood hjá News of the World hafa birzt á vefnum að undirlagi George Galloway, hataðasta þingmanns Bretlands. Nú geta menn forðast örlög Göran Eriksson landsliðsþjálfara og fleiri nafnkunnra manna, sem létu blekkjast og töluðu af sér í viðtölum við Mahmood. Galloway þingmaður er hins vegar lífsreyndur, kom fyrir myndavél og ljóstraði upp um blaðamanninn, sem reyndi árangurslaust að fá Galloway til að þiggja mútur og tala illa um gyðinga.

Laskaður róttæklingur

Punktar

Þeir eru nú orðnir sjö hershöfðingjarnir fyrrverandi, sem hafa lagt til, að Donald Rumsfeld stríðsráðherra verði rekinn fyrir að tapa Írak. Þeir vilja ekki, að hernum verði kennt um tapið, heldur vilja þeir, að sá fjúki, sem tók ekki neitt mark á reynslu hersins og keyrði ruglið áfram af óbilandi bjartsýni róttæklingsins. Rumsfeld er tákn hins stjórnlausa og sigurvissa hroka, sem einkennir “nýja íhaldið” í Bandaríkjunum. Eftir loftárásir hershöfðingjanna sjö segir Bloomberg.com í morgun, að hann sé varanlega laskaður.

Borgarastríðið magnast

Punktar

Sjítar hafa ákveðið að sameinast um, að flokkur Ibrahim al-Jaafari velji nýjan forsætisráðherra, ef ekki næst samstaða við súnníta og kúrda um, að hann haldi stólnum áfram. Áfram stjórna tveir klerkar sjítum að tjaldabaki, Sadr og Sistani, báðir hallir undir Persíu. Meðan þæft er í pólitíkinni um nýja leppstjórn magnast stjórnleysið á götum úti. Borgarastríðið magnast viku frá viku og Bandaríkin fá ekki við neitt ráðið. Enda töldu þau á sínum tíma, að fólkið í Írak mundi strá blómum á bandaríska herinn í innrásinni. Engir vita eins lítið um aðrar þjóðir og Bandaríkjamenn.

Nú vantar Saddam Hussein

Punktar

Hernám Íraks hefur leitt til samkeppni milli sjíta og súnníta í hatri á Bandaríkjunum. Leppríkið, sem búið var til í frjálsum kosningum, hefur snúist gegn höfundinum. Bandaríkin neita auðvitað að viðurkenna lýðræðið, nákvæmlega eins og í eftirleik kosninganna í Palestínu. Þau hafa grafið undan forsætisráðherranum Ibrahim al-Jaafari og reynt að troða inn leppum, sem sjítar fyrirlíta. Sjítar eru of fjölmennir og hafa of lengi beðið eftir völdum til að fara nú að gefa þau eftir. Á endanum neyðast Bandaríkin til að þurrka rykið af gömlum vini, Saddam Hussein.

Þægindavottun

Punktar

Ráðherra og hagsmunasamtök sjávarútvegs gamna sér núna við hugmyndir um ríkisvottun, sem staðfesti, að íslenzkur sjávarútvegur sé umhverfisvænn. Sama stefna hefur í nokkur ár verið í landbúnaði, þar sem ríkisvottun segir hann vera umhverfisvænan. Hvoru tveggja er beint gegn fjölþjóðlegri vottun, sem er strangari. Opinberir aðilar hafa barist gegn lífrænni vottun í landbúnaði og sjávarútvegurinn óttast vottun um sjálfbærni í sjávarútvegi. Útvegurinn þarf þó að selja vöruna til útlanda, þar sem neytendur taka ekki mark á þægindavottun stjórnvalda og neita bara að kaupa. Því miður.

Skrípavarnir

Punktar

Við þykjumst vera með varnir gegn fuglaflensu á hinum og þessum stigum áhættu. Varnirnar felast í, að við fáum ekki að vita samdægurs um, hvort dauður fugl sé með fuglaflensu. Við verðum að senda sýnið til Svíþjóðar, þaðan sem við fáum svar eftir viku. Það er að segja, ef ekki eru páskar og vikan verður að tveimur vikum, eins og raunin hefur orðið. Fáránlegt er að reyna að róa fólk með því að tala um varnir gegn fuglaflensu, þegar þessar varnir reynast vera skrípaleikur einn. Fólk trúir ekki slíkum vörnum og á ekki að trúa þeim. Því miður.

Benzín er ódýrt

Punktar

Benzín hækkar óhjákvæmilega í verði til langs tíma. Eftir nokkra áratugi verður það orðið að skortvöru eins og ekta kavíar úr Kaspíahafinu. Þetta er vara, sem á að vera dýrt sköttuð, svo að fólk spari hana. Sama gildir um flugvélabenzín og farseðlana, sem borga það. Ríkisstjórnin má ekki verða við kröfum um að bæta veika krónu með lægri opinberum gjöldum á benzíni. Hins vegar á hún einnig að skatta flugvélabenzín eins og Frakkar gerðu fyrir stuttu. Miðað við framtíðarhorfur er benzín of ódýrt, þrátt fyrir hækkanir síðustu daga. Því miður.