Punktar

Fríhöfn á Vellinum

Punktar

Framsóknarmenn geta haft góðar hugmyndir. Einn, sem ég þekki, mælir með, að Keflavíkurvelli verði breytt í fríhöfn upplýsingaiðnaðar eins og Shannon á Írlandi. Ég tel þar líka eiga að vera miðstöð innanlandsflugs, svo að við spörum okkur nýjan flugvöll upp á milljarða. Raunar ætti allt landið að vera fríhöfn. Tollar eru orðnir úreltir, því að flutningskostnaður til landsins er ígildi tolla. Það tekur mig klukkutíma að fara í tollpóstinn að sækja bók, sem kostar mig 600 kr í vask og kostar tollpóstinn meira en 600 krónur að afgreiða. Þetta er hrein og klár della á 21. öld.

Þeir eru reiðastir

Punktar

Herstöðvaandstæðingar eru ekki lengur reiðastir Bandaríkjunum. Reiðastir eru hernámssinnar, sem árum saman hafa varið erlendan her í landinu. Þeir hafa verið sviknir, svo sem sjá og heyra má á Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra, sem hefur allt á hornum sér vegna brottfarar hersins. Venjulega hafa Bandaríkin átt fullt af vinum hér á landi, en nú eiga þau engan vin, því að þau hafa sparkað í vinina. Þetta vináttuleysi lýsir sér á öðrum sviðum, því að alls enginn treystir sér til að verja aðrar gerðir Bandaríkjanna í utanríkismálum, svo sem í Írak.

Gera sig breiða

Punktar

Menn eru alltaf að hóta einhverju í alþjóðapólitík. Persum er hótað stríði, jafnvel atómstríði, ef þeir haldi áfram að þróa kjarnorku. Serbum er hótað, að þeir komist ekki í Evrópusambandið, ef þeir láti ekki Ratko Mladic stríðsglæpamann af hendi. Sjaldnast er tekið mark á slíkum hótunum, enda er almennt talið, að þær séu marklausar. Evrópusambandið er þekktast þeirra, sem hóta, án þess að vera reiðubúnir að standa við það, ef illa fer. Vont er að flagga innihaldslausum hótunum í heimsmálunum. Menn eiga að láta sér nægja að gorta af því, sem þeir geta staðið við.

Getulaus ríkisstjórn

Punktar

Í auknum mæli leggur ríkisstjórnin fram óskamál sín nokkrum vikum og dögum fyrir þinghlé og þinglok og reynir síðan að berja þau í gegn með offorsi gegn ræðugleði stjórnarandstæðinga. Vatnsréttur og fjölmiðlar eru frægustu dæmi vetrarins um þessa vanstjórn. Ráðherrar verða að gefa málum sínum svigrúm til að þau nái fram að ganga á eðlilegan hátt. Það er ekki vitræn stjórnsýsla að vera með allt niður um sig langt á eftir áætlun. Getuleysið er höfuðeinkenni þessarar þreyttu ríkisstjórnar, sem ætti fyrir löngu að vera farin frá völdum.

Valdabaráttan

Punktar

Fátæku ríkin felldu breytingar á rekstri Sameinuðu þjóðanna í gær, gegn atkvæðum Bandaríkjanna, Evrópu og Japans. Fátæku ríkin óttast, að hinir ríku ætli að ráðskast meira með samtökin. Atkvæðagreiðslan eykur líkur á, að Bandaríkin hætti aftur að greiða framlög til samtakanna. Hinar felldu breytingar miðuðu að skynsamlegri rekstri þeirra og fólu í sér sátt milli Bandaríkjanna og Evrópu. Þótt efnislega hafi þær að flestu leyti verið til bóta, töldu fátæku ríkin rétt að sýna, hverjir hafa meirihluta. Úrslitin voru innlegg í valdabaráttu heimsmálanna.

Evrópa er sek

Punktar

Stjórnvöld í Evrópu sáu gegnum fingur við Bandaríkin í rúmlega þúsund millilendingum CIA í fangaflugi. Stjórnvöld í Evrópu styðja Bandaríkin í ógnunum í garð Persíu, þótt þær ógnanir feli í sér hótun um bandarískt atómstríð. Stjórnvöld í Evrópu taka þátt í hernámi Afganistans, sem hefur leitt til stórflóðs fíkniefna í Evrópu. Stjórnvöld í Evrópu standa með Bandaríkjunum þversum gegn kröfu þriðja heimsins um tollalausa búvöru. Stjórnvöld í Evrópu hunza álit almennings og flaðra upp um heimsveldi, sem stríðir gegn vestrænni siðmenningu.

Auðvæðing kosninga

Punktar

Auglýsingar í pólitík eru margfalt meiri og dýrari núna en þær voru fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Gjafmildir leynigestir hafa gert flokkum kleift að reka kosningabaráttu, sem senn byrjar að minna á Bandaríkin, þar sem auðræði hefur leyst lýðræði af hólmi. Fremst í auðvæðingu íslenzkra kosninga fer Framsókn, sem ævinlega hefur verið spilltust flokkanna. Stofnanir og fyrirtæki semja í leyni við flokka um hagsmuni, af því að hér skortir gegnsæi í fjármálum stjórnmálanna. Það er séríslenzkur vandi, að stjórnarflokkarnir hafa brugðið fæti fyrir tillögur um gegnsæi.

Fylgisleysi og fé

Punktar

Nú þarf að fylgjast með, hve miklum peningum fylgislausi flokkurinn eyðir í kosningabaráttuna. Framsókn er eini flokkurinn, sem mánuði fyrir kjördag er kominn í grimma sjónvarpsherferð. Um leið þvælist hann fyrir gegnsæi í fjármálum flokka. Hann vill sízt allra flokka vestrænar leikreglur í pólitískum fjármálum. Hann hefur um margra ára skeið haft mest kosningafé allra flokka, meira en sjálft Íhaldið. Öllum má ljóst vera, að óheiðarlegt framsóknarsamband er milli peninga og flokks. Þótt kjósendur viti ekki, hvert þetta samband er, eiga þeir að sjá af herferðinni, að það er gerspillt.

Krónan er of lítil

Punktar

Þeim fjölgar, sem sjá óhagræði við lítinn gjaldmiðil í ólgusjó fjármála heimsins. Nú síðast hefur Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, látið í ljós efa um, að krónan henti Íslandi lengur, þegar hnattvæðingin magnast. Veltingur krónunnar hefur magnast síðustu vikur. Erlendir gengisbraskarar hafa spekúlerað með gengi hennar. Hún er of lítil til að standast slíkan aðsúg. Þótt hún haldi verðgildi sínu til lengdar, er óþægilegt, að hún velti upp og niður frá degi til dags. Og braskið þýðir líka, að vextir í landinu eru mun hærri en ella.

Handafl í Frans

Punktar

Jacques Chirac Frakklandsforseti hefur tilkynnt fransk-þýzka leitarvél, Quaero, sem á að keppa við Google og leita í senn að texta, tali og myndum. Önnur ráðagerð er að koma upp farsímum með sjónvarpi. Alls eru sex sóknarfæri, sem ráðgjafar Chirac vilja styðja með handafli. Áður hefur Frökkum gengið vel með Airbus og hraðlestir, en miður með sumt annað. Frakkland er síðasti sósíalismi Evrópu, þar sem ríkið hlúir með handafli að sérvöldum einkafyrirtækjum. Í haust byrjar fréttasjónvarpið CII, sem er franska svarið við CNN.

Lítill umhverfisáhugi

Punktar

Skoðanakönnun í Bandaríkjunum sýnir, að bandaríska þjóðin hefur ekki séð gegnum þær fullyrðingar róttækra hægri manna, að allt sé með felldu í umhverfismálum. Fréttir af hitnun jarðar og umsvifamiklum breytingum á veðurfari, þar með taldir fellibyljir, hafa ekki sett umhverfismál á oddinn í Bandaríkjunum eins og gerzt hefur í Evrópu. Raunar telja ofsatrúarmenn þar vestra, að Kristur sé í þann veginn að ganga aftur og óþarfi sé að passa upp á umhverfið í fyrirsjáanlegum Ragnarökum. Betra sé að magna stríð við trúvillinga Múhameðs spámanns.

Hnattvæðing í ógöngum

Punktar

Sebastian Mallaby segir í Washington Post, að hnattvæðingin hafi lent í ógöngum. Út um þúfur hafa farið fjölþjóðlegir samningar um aukið frjálsræði í viðskiptum. Áhugi hefur minnkað í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu, síðan þriðji heimurinn fór að heimta, að ríku löndin legðu meira af mörkum, opnuðu til dæmis markað fyrir búvöru. Samskipti þjóða heims fara í auknum mæli framhjá Heimsviðskiptastofnuninni, Alþjóðabankanum og Alþjóðlega gjaldeyrissjóðnum, sem hingað til hafa einkum gætt hagsmuna Vesturlanda. Það, sem í rauninni amar að hnattvæðingunni, er óeining Vesturlanda.

Vinstri grænir fyrstir

Punktar

Ég er orðinn einn af þessum Íslendingum með þriggja vikna minnið, sem ég hef talað yfirlætislega um nokkrum sinnum. Um daginn hrósaði ég Steinunni Valdísi Óskarsdóttir fyrir að koma snemma í vetur með tillögu um ókeypis leikskóla í áföngum. Ég var þá búinn að gleyma, að þetta hefur árum saman verið eitt af stóru málunum hjá vinstri grænum á Alþingi og í borgarstjórn. Steinunn Valdís og Samfylkingin eru númer tvö. Hitt er svo rétt, að Framsókn og Íhald hafa málið á stefnuskrá í kosningunum, lofa hverju sem er án þess að hafa lyft litla fingri áður.

Kóngurinn í Nepal

Punktar

Gyanendra kóngur er einræðisherra í Nepal og sigar byssusveitum á fólkið í landinu. Hann er studdur af Bandaríkjunum, sem rægja andstæðinga kóngsins og kalla þá Maóista. Í rauninni hafa sjö stjórnmálaflokkar risið gegn kónginum og vilja koma á lýðræði í landinu. Þekktustu borgarar landsins sitja í fangelsi. Undanfarin ár hafa bandarískir terroristar frá CIA kennt kónginum, hvernig eigi að kúga fólk á útifundum. Kóngurinn er tímaskekkja, einn af “okkar tíkarsonum”, sem hafa verið vinsælir í utanríkisstefnu Bandaríkjanna í hundrað ár.

Reglan er rugl

Punktar

Ef gott er, að menn eigi bara fjórðung í fjölmiðli með þriðjungs hlutdeild í markaði, hlýtur að vera gott, að ríkið eigi bara fjórðung í Ríkisútvarpi. Einnig hlýtur að vera gott, að enginn eigi nema fjórðung í hvaða fyrirtæki, sem er, ef það er með þriðjungs markaðshlutdeild. Ekki ber að undanskilja Ríkisútvarpið þessari góðsemi þverpólitískrar sáttar. Ekki ber heldur að undanskilja annað atvinnulíf frá vísdómi sáttar í nefnd. Fjölmiðlareglan er rugl, en gaman er þó, ef pólitíkusar geta sameinazt um töfratölur. En svo virðist samstaðan hafa brostið á lokasprettinum.