Punktar

Ríkir fá eftirgjöf

Punktar

Fasteignagjöld eru mikilvægari gjaldstofn í Bandaríkjunum en hér á landi, viðurkennd aðferð við að nota peninga hinna vel stæðu til að borga aðstoð við almenning. Þau fela þó í sér óbeina tvísköttun, þar sem fyrst eru skattlagðar tekjur og síðan eignir. Því hafa róttækir hægri menn óbeit á þessum skatti og vilja leggja hann niður. Fyrsta skrefið er að leggja niður fasteignagjöld aldraðra í Garðabæ og Árborg án tillits til efnahags þeirra. Aldraðir eru auðvitað fjölmennastir í hópi eigenda húsnæðis og margir hverjir vel stæðir. Réttlæti afnámsins er vafasamt.

Húsnæði lækkar

Punktar

Sveiflulögmálið hefur tekið við sér og verð á húsnæði er farið að lækka. Þeir, sem keyptu sér íbúð um efni fram, af því að bankarnir lánuðu 90-100% verðsins, skulda nú margir meira en þeir eiga. Vextir fara hækkandi vegna aukinnar verðbólgu og greiðslubyrðin fer því vaxandi. Þetta stefnir að gjaldþroti hjá sumum þeim ungu fjölskyldum, sem djarfast hafa teflt í uppsveiflunni. Þær sækja í auknum mæli ráð hjá Ráðgjafarstofu heimilanna og vænta þess, að opinberir aðilar grípi í taumana. Erfitt er að sjá, að slíkt sé hlutverk annarra en bankanna, sem lánuðu 90-100%.

Persónuvernd

Punktar

Persónuvernd vill ekki, að opinberir aðilar keyri saman gagnabanka um erlenda starfsmenn. Persónuvernd hefur aldrei viljað, að gögn séu samkeyrð í tölvum. Þá kemur nefnilega í ljós nýr sannleikur. Persónuvernd hefur að leiðarljósi, að alltaf skuli satt kyrrt liggja. Í Bandaríkjunum hefur margs konar stórkostlegur sannleikur komið í ljós við samkeyrslu gagnabanka, sem öllum eru opnir lögum samkvæmt. Þar er talið, að gegnsæi auki lýðræði, en hér er gegnsæi talið skaðlegt. Hér er talið, að almenningur eigi sem minnst að vita um gangverkið í þjóðfélaginu.

Árbær í útlegð

Punktar

Lóða- og fasteignabraskarar vilja flytja Árbæjarsafn út í Viðey, svo að þeir fái land safnsins undir lóðir. Næst heimta þeir, að Húsdýragarðurinn verði fluttur út í Viðey til að fá land garðsins undir lóðir. Þeir vilja taka á sig að borga 1,5 milljarð fyrir flutning Árbæjarsafns. Úti í Viðey getur safnið síðan verið týnt og tröllum gefið. Nú hafa frambjóðendur til borgarstjórnar tækifæri til að lofa Reykvíkingum, að hvorki Árbæjarsafn né Húsdýragarðurinn né neitt annað aðdráttarafl helgarbíltúra verði flutt í útlegð til að rýma fyrir steinsteypu.

Actavis okrar

Punktar

Actavis selur lyf tíu sinnum dýrar hér á landi en í Danmörku. Fyrirtækið skiptir um nafn á lyfjunum til að fela glæpinn. Þannig heitir lyf Sivacor á Íslandi og kostar 6624 krónur, en heitir Simvastatin í Danmörku og kostar 645 krónur. Það er alþjóðlegur vandi, að lyfjafyrirtæki eru fyrirbæri, sem verja meiru í áróður og mútur en í rannsóknir. Hér er síður en svo frambærilegt eftirlit með okri á lyfjum. Heilbrigðisráðuneytið er samsekt og hefur ekki gripið í taumana, en Einar Magnússon, eftirlitsmaður þess, er með ódýra útúrsnúninga til verndar Actavis.

Oft má satt …

Punktar

Gaman er að viðbrögðum við frétt af skemmdum og ofbeldi unglinga við Hólagarð. Kaupsýslumanni þar var nóg boðið og skýrði frá. Þá reis lögreglan til varnar og sagði þetta ýkt, alveg eins og lögreglan flaggaði dæmalaust vitlausri skýrslu um, að ofbeldi hafi minnkað í Reykjavík. Aðrir kaupsýslumenn í Hólagarði óttast, að fólk þori ekki að koma að verzla af ótta við vargana. Lögreglan hefur ekki unnið skyldu sína og þarf að grípa í taumana. Vargarnir hafa verið að verki í allan vetur, meðan menn sefja sig á íslenzku firrunni um, að oft megi satt kyrrt liggja.

Byssuáróður

Punktar

Áróðurslykt er af fréttum um, að lögreglumenn eigi bágt og þurfi kannski að bera byssur. Við eigum öll bágt og eigum kannski að bera byssur. Okkur er ógnað og sum okkar eru barin, af því að löggæzla er lítil. Það eru engar fréttir, að lögreglumönnum sé ógnað, en sjaldan hafa þeir verið barðir. Lögreglan í Bretlandi glímir við verri vanda en lögreglan á Íslandi og ber hún þó ekki vopn. Það róar mig ekki, að danska lögreglan hafi aðeins skotið fólk 15 sinnum á ári að meðaltali. Hér má ekki búa til vítahring ofbeldis með aðild byssuglaðra loögreglumanna.

Finna ekki banka

Punktar

Evrópusambandið á erfitt með að koma peningum til Palestínu af því að Bandaríkin hóta bönkum, sem taka þátt í millifærslunni. Vegna viðskipta í Bandaríkjunum þora bankar ekki að taka þátt. Sambandið hyggst bæta Palestínu upp skatta og tolla, sem Ísrael stelur af ríkinu í krafti hernámsins. Það hyggst fara framhjá stjórn Hamas með því að láta féð í hendur Abbas forseta og fjölþjóðasamtaka, sem starfa að mannúðarmálum í Palestínu. Enn hefur þó ekki fundist banki til að taka þátt í þessu. Það sýnir, hvílík heljartök Bandaríkin hafa á heimsmálunum.

Faðmar alla nema Rússa

Punktar

Hinn skotglaði Dick Cheney talar í fyrirsögnum á ferð sinni um Austur-Evrópu. Einkum ögrar hann Sovétríkjunum, sem undir stjórn Pútíns forseta eru því miður á hraðri leið frá lýðræði. Cheney kýlir á ögrunina með því að hrósa nágrannaríkjunum Sovétríkjanna. Í gær sagði hann, að Albanía, Króatía og Makedónía eigi að ganga í Atlantshafsbandalagið. Það er eins vafasamt og að Serbía, Búlgaría og Rúmenía gangi í Evrópusambandið. Ríki verða í alvöru að reyna að líkja eftir vestrænum stjórnarháttum til að komast í vestrænt samfélag. Og þessi ríki hafa enn ekki sýnt það.

Kjarnyrt blaðakona

Punktar

Edna Buchanan, blaðakona hjá Miami Herald, er uppáhalds blaðamaður minn. Hún skrifaði: “Maðurinn, sem hún elskaði, sló hana utan undir. Hún snöggreiddist og sagði: “Gerðu þetta aldrei, aldrei aftur”. “Hvað ætlarðu að gera í því, drepa mig,” spurði hann og rétti henni byssu, “gerðu svo vel”. Það gerði hún.” Buchanan sagði frá manni, sem ruddist fram í biðröð eftir kjúklingum og lenti í ryskingum við öryggisvörð: “Gary Robinson dó svangur.” Um smyglara sem var með innvortis eiturlyf sagði hún “Síðasta máltíðin kostaði 30.000 dollara og drap hann.”

Terroristarnir

Punktar

Vonandi hefur tekizt að stöðva glæpi ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar í Þjórsárverum, en hætturnar eru fleiri. Landsvirkjun er farin að undirbúa eyðileggingu Fögrufjalla og Langasjávar og talar um Gullfoss eins og krana, sem skrúfað verði frá um helgar á sumrin. Þessir villimenn eru óstöðvandi í eindregnum brotavilja og verða ekki stöðvaðir, fyrr en til valda kemur ríkisstjórn, sem stöðvar þá með handafli. Það verður vonandi stóra málið í næstu kosningum að losna við Friðrik Sófusson og Valgerði Sverrisdóttur, helztu terrorista landsins.

Sósíalistastjórn

Punktar

Ég skil vel, að Framsókn styðji ríkisframtak blýantsnagara, en flóknara er að átta sig á dálæti Íhaldsins á sósíalisma orkubúskapar og áliðnaðar hér á landi. Þessi þáttur hagkerfisins byggist á eindregnum stuðningi ríkisins við ríkisfyrirtækið Landsvirkjun. Meðan frjálst atvinnulíf er án afskipta ríkisins og án evrunnar að ryðjast til áhrifa erlendis, er ríkisstjórnin á kafi í fornri ríkisdýrkun að hætti Rússa og Kínverja, sem felst í að leyfa Landsvirkjun að níðast á landinu til að útvega litla atvinnu og okra á orku til annarra greina atvinnulífsins.

Tapað stríð

Punktar

Ríkisstjórnin og Landsvirkjun hafa tapað málefnastríðinu um álver. Aðilar að útþenslu íslenzkrar kaupsýslu til útlanda hafa lagt hönd á plóginn með andstæðingum álvera. Þeir hafa furðað sig á, að ríkið styðji gamaldags grein, sem gefur litla vinnu og lítið fé, í stað þess að styðja greinar nútímans, sem gefa mikla vinnu og mikið fé. Ný metsölubók spyr spurninga, sem álvinir geta ekki svarað. Álvinnsla er dýrasta byggðastefna í heimi, brennimark þorpsómaga, sem sjá sér þann einn kost til bjargar að fá vinnu við færibandið.

Kæruleysi upplýst

Punktar

Stjórnvöld hafa játað sig sek eftir gagnrýni á kæruleysi í innflutningi á útlendingum. Félagsmálaráðherra hefur skipað nefnd, enda hefur Framsókn tröllatrú á nefndum. Forstjóri Alþjóðahúss telur kosta 70 milljónir á ári að gefa út texta á 15-20 málum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Ekki er upplýst, hvað kosti að gera nýbúum kleift að tala og lesa á íslenzku, en það er forsenda þess, að vel takist að taka við þeim. Ráðamenn ættu að blaðra minna um útlendingahatur gagnrýnenda og fara heldur að undirbúa aðlögun nýbúa.

Tuttugu milljarðar

Punktar

Að beztu manna yfirsýn kostar flugvöllur á Lönguskerjum 20 milljarða og flugvöllur í Hólmsheiði kostar 10 milljarða, en flugvöllur í Reykjavík eða Keflavík kostar ekkert, núll milljarða. Bezt er að nota þá aðstöðu, sem fyrir er, annað hvort í Reykjavík eða Keflavík. Til meiri þæginda fyrir Reykvíkinga er Keflavíkurvöllur og þar af leiðandi betri kostur fyrir þá, sem greiða atkvæði í kosningunum í borginni. Flugvöllur úti á Lönguskerjum er bara bull, settur fram af fólki, sem hefur ekkert vit á peningum og náttúruhamförum.