Punktar

Skortur á mannasiðum

Punktar

Öll þessi #MeToo bréf á samfélagsmiðum hafa skekið Vesturlönd, ekki síður Ísland en önnur lönd, jafnvel meira. Á Stéttinni í gærmorgun fékk ég að heyra nákvæmar sögur af köllum, sem ég þekki. Mér hafði ekki dottið í hug að til væri þvílíkt áreiti. Það stangast á við allt, sem ég hef lesið um siði og framkomu fólks. Ég hef lengi talið, að taka þurfi upp kennslu í rökfræði í menntaskólum, til dæmis í tíu algengustu rökvillum, sem taka yfir hálfa fésbókina. Nú sé ég, að ekki er síður þörf á kennslu í siðfræði í menntaskólum. Kennslu í mannasiðum, hvernig fólk hagar sér í samskiptum við annað fólk, einkum þó og sér í lagi við konur.

Tugþúsundir í ruglinu

Punktar

Mörgum finnst fréttnæmt, að Sjálfstæðis sé kominn niður fyrir 20% í fylgi. Mér finnst merkara, að 40.000 manns ætli að kjósa bófaflokkinn. Þrátt fyrir allt, sem gengið hefur á. Fréttir um leynireikninga Bjarna formanns í skattaskjóli á aflandseyjum og margs konar brask hans í beinu sambandi við glæpabanka á síðustu stundu fyrir hrun. Í evrópskum alvörulöndum sæti hann í fangelsi, misheppnaður fjárglæframaður með pólitískt öryggisnet. Eins finnst mér merkilegt, að annar fjárglæfrakall og spraðurbassi skuli eiga slíka reikninga í skattaskjóli og vera aðili að hrægammasjóðum. 20.000 ætla að kjósa Sigmund, sem ætti líka að sitja inni.

Sparkið bófum út

Punktar

Öryggisstofnun Evrópu hefur óskað eftir, að íslenzk stjórnvöld aflétti lögbanni hins pólitíska sýslumanns á birtingu efnis um fjárglæfra Bjarna Benediktssonar. Ríkisstjórnin er þannig orðin að vandræðabarni evrópskra siðaregla. Eins og við séum eins konar Kenía eða Egyptaland. Bjarni hefur ekki lyft litla fingri til að fá banninu aflétt, þótt hann segi það vera árás á sig. Bófarnir eru ekki í vanda við að hrópa: Ekki ég. Og kenna öðrum um. Þetta er eins og Mafían á Sikiley og á Möltu. Hér eru þó ekki blaðamenn sprengdir upp. En ljóst má vera, að fyrir þroska lýðræðis er Sjálfstæðis algert eitur, sem kjósendur einir geta sparkað út.

Tunnan valt og úr henni allt

Punktar

Nú fer að koma tími til að spá í skoðanakannanir. MMR kannaði í gær og í dag og komst að athygliverðum niðurstöðum. Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn eru komin niður fyrir 20%. Merkilegt er þó, að sá síðarnefndi tapar bara rúmu 1% á lögbannsmáli flokksins. Hér eftir verður erfitt að skafa meira utan af honum. Þá er bara eftir árleg minnkun vegna andláts aldraðra. Fylgishrunið er mest hjá Flokki fólksins, sem missir kjósendur í allar áttir. Mest til flokks Sigmundar Davíðs Panamagreifa, sem lengi hefur verið ófyrirleitnasti sölumaður snákaolíu. Samfylkingin og Píratar eru á uppleið, ánægjuefni fyrir miðjuna í pólitíkinni.

Bófar tala í kross

Punktar

Kosningastríð bófaflokksins er að fara í gang í dag efir að hafa verið truflað af tveimur stórmálum. Annað eru frásagnir fjölda kvenna, innlendra og erlendra, af kynferðislegri áreitni. Þær hafa runnið saman við stuðning föður forsætis við uppreist æru barnaníðings. Hitt er lögbann við birtingu frétta um fjárglæfra forsætis og efasamdir um, að hann kunni með fé að fara. Í dag fóru samtök atvinnurekenda af stað með nýja röð af lygagröfum um kostnað við skattahækkanir. Sama dag fer forsætis allt einu að tala jákvætt um auðlindarentu. Hagsmunirnir og bófaflokkur þeirra tala í kross í þessari síðbúnu bylgju kosningaáróðurs.

Bófar hristi sýslumann sinn

Punktar

Jæja, þá eru ráðherrar bófaflokksins hver á fætur öðrum búnir að lýsa furðu sinni á lögbanni sýslumanns bófanna. Þar á meðal forsætis. Næst að láta gerðir fylgja orðum. Þeir gangi á fund sýslumanns síns og segi honum þá meiningu sína, að hann sé glórulaust fífl. Þeir semji á fundinum afturköllun lögbannsins og láti sýslumann sinn undirrita. Annars eru orð þeirra einskis virði. Ljóst er, að ekki einu sinni gamlingjar flokksins taka að sér að verja sýslumann sinn. Létt er að fórna einum skjalfestum brotamanni flokksins til að létta á formannsstrák, sem á sér langa harmsögu fjárglæfra í skjóli pólitískrar aðstöðu og ætternis.

Laskað lýðræði

Punktar

Sýslumaður bófaflokksins var látinn reyna að stöðva fréttir fjölmiðla af Bjarna Benediktssyni, fjárglæfrum hans, forréttindum og aðkomu pabbans að ýmsum málum stráksins. Dómarar bófaflokksins munu gæta þess, að úrskurður komi ekki fyrr en eftir kosningar. Lýðræði er hér að færast í sömu átt og í Venezúela. Bófarnir grípa hvert hálmstráið á fætur öðru í lygum og þöggun. Mogginn spilar í dag ekki með bófaflokknum, hvað sem síðar verður. Aðeins Viðskiptablaðið hlýðir flokknum. Nú getur fólk farið á opna fundi bófaflokksins og spurt, hvers vegna flokkurinn hætti ekki afskiptum af pólitík. Skrípó bófanna er gengið út fyrir allar öfgar.

Umræðan er stjórnlaus

Punktar

Nokkur mál hafa ekki náð nægri umfjöllun og teljast tæplega kosningamál. Þar er fremst Stjórnarskráin, sem bara Píratar fjalla um. Næst kemur uppboð veiðileyfa, auðlindarentan, sem jafnvel Píratar eru hættir að fjalla um. Selja væntanlega ekki nógu vel. Önnur mál hafa fengið töluverða umfjöllun. Sjálfstæðisflokknum hefur aldrei þessu vant mistekizt að stýra umræðunni. Forusta Viðskiptablaðsins hefur gefizt illa. Fölsuðu gröfin um stöðu Íslands í umheiminum hafa jafnóðum verið sprengd upp. Misskipting ríkra og fátækra hefur raunar aukizt um langan tíma. En við bíðum enn eftir stóru bombunni, sem ruglar allar fyrri kannanir.

Ei má birta um bófann

Punktar

Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur fallizt á lögbannskröfu þrotabús Glitnis gegn Stundinni og Reykjavík Media. Gögnin, sem ekki má birta, fjalla að mestu leyti um fjárglæfra Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Ekkert lögbann hefur verið sett á Guardian, sem er þriðji útgefandi þessarar sorgarsögu. Fyrsti kaflinn var birtur í Stundinni um síðustu helgi og von var á næsta kafla í þessari viku. Enginn veit, hvort þjóðin fær frekari upplýsingar um, hvers vegna Bjarni Ben er óhæfur um að vera í pólitík, hvað þá að vera forsætisráðherra. Honum ber að segja af sér. Nú þegar. Við getum ekki lengur verið athlægi nágrannaþjóða.

Þrír flokkar telja

Punktar

Furðulegt er, að sumt fólk vilji kjósa flokka undir forustu Panama-greifa, sem hugsa eingöngu um sjálfa sig, bófaflokkinn eða Sigmund. Furðulegt er, að sumt fólk vilji kjósa eins manns flokka með varhugaverða undirsáta, Flokk fólksins eða Sigmund. Skynsamlegt er af þessum ástæðum að hafna Sjálfstæðisflokknum, Miðflokknum og Flokki fólksins. Tveir flokkar eru komnir niður fyrir 5% og munu ekki fá kjörna þingmenn. Rétt er því að hafna hækjum bófanna, Bjartri framtíð, Viðreisn og nokkrum örflokkum öðrum. Eftir standa þá Vinstri græn, Píratar og Samfylkingin. Þeir eru líklegir til að geta myndað stjórn um hag almennings.

Óbærilegar kosningar

Punktar

Óbærilegt er, að tveir stjórnmálaflokkar snúist um skattaparadísar-prinsa frá aflandseyjum. Óbærilegt er að annar flokkurinn einbeiti sér að ráni á eigum landsmanna með einkavinavæðingu. Óbærilegt er, að hinn sé hinum megin við borð í liði með hræfuglasjóðum. Óbærilegt er að hugsa til þess, að þúsundir Íslendinga muni kjósa þessa tvo bófa, sem hafa leikið samfélagið grátt og munu gera það áfram. Þar að auki er óbærilegt, að svonefndur fjórflokkur skuli enn fá atkvæði meirihluta kjósenda. Eins er óbærilegt, að hundruð kjósenda trúi, að flóttafólk geti borgað brýna lagfæringu á kjörum aldraðra, öryrkja og húsnæðislausra.

Hér vantar „Sparkasse“

Punktar

Ríkið þarf að reka einn samfélagsbanka, til dæmis Landsbankann. Sá verði utan við allt brask, eingöngu rekinn fyrir almenning. Bezt reynsla af samfélagsbönkum er í Þýzkalandi, þar sem hvert land hefur sinn Sparkasse. Gott væri að senda nokkrar persónur þangað til að kynna sér mismun á Sparkasse og bönkum. Síðan þarf ríkið að semja við lífeyrissjóði um fjármögnun slíks banka. Og semja við Seðlabankann um lægri grunnvexti. Ríkið gæti spýtt nokkrum milljörðum í slíkan banka. Markmiðið er, að lántakendur njóti 2% vaxta, sem er ærið nóg. Eini flokkurinn, sem er líklegur til að halda Sparkasse til streitu, eru Píratar.

Loksins horft til framtíðar

Punktar

Áratugum saman, í hálfa öld, hef ég umgengist stjórnmálamenn og flokka af varúð. Þetta lið hefur flest svarta áru, er siðblint, hugsar um eigin hag og lýgur af miklum móð fyrir kosningar. Til dæmis er Sjálfstæðisflokkur hreinn bófaflokkur og aðrir flokkar meira eða minna undirförulir gagnvart kjósendum. Píratar komu inn á þennan vettvang, meira eða minna ungir og áttavilltir. Hafa á nokkrum árum þroskazt upp í heildstæðan flokk með vel hugsaða stefnu í þágu almennings. Flokk með lausnir fyrir húsnæðislaus ungmenni og fyrir auralausa aldraða og öryrkja. Flokk, sem horfir til framtíðar, þar sem tæknin hefur umturnað lífi almennings.

Heima er bezt

Punktar

Kjósendur yfirgáfu Samfylkinguna og Vinstri græn um skeið í könnunum og döðruðu við Pírata. Eru nú á leið til baka í gömlu flokkana sína. Hafa fyrirgefið þeim hreingerningar á tíma Jóhönnu og Steingríms. Telja Katrínu og Loga ekki munu svíkja mikið að þessu sinni. Á sama tíma gerðu Píratar ýmis mistök, skiluðu auðu á alþingi og misstu Birgittu. Hafa að vísu fengið frábæra Þórhildi Sunnu sem ígildi formanns, en flagga henni ekki nándar nærri nóg. Þau hafa beztu stefnuna og hafa ekki svikið neitt, en hafa of mikla óbeit á foringjaræði. Þau munu verða samstarfsfús um stjórnarmyndun, en tími endurræsingar virðist ekki vera kominn.

Deyjandi bófaflokkur

Punktar

Í fyrsta sinn í langan tíma hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki haft tök á slagnum. Er dottinn í 23% fylgi og lyftir sér ekki upp. Tvær vikur til stefnu og góð ráð dýr. Hörðustu baráttusveitirnar eru atvinnurekendafélagið og Viðskiptablaðið, en Mogginn rambar stundum í átt til Wintris. Gömlu lygarnar og lummurnar virka ekki lengur. Fjölmiðlar og hagsmunasamtök hafa glatað miklu af áhrifavaldi sínu. Í staðinn hafa aukizt áhrif samfélagsmiðla og þeir hafa mótað slaginn að þessu sinni. Ekki er lengur minnst á Flokkinn sem hornstein hverrar ríkisstjórnar. Og fólk er farið að fyrirgefa hreingerninguna Vinstri grænum og Samfylkingunni.