Gjá í Atlantshafi

Greinar

“Mér sýnist, að ekki hefði verið svo erfitt að fá heimildir” sagði Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra, um ólögmætar hleranir stjórnvalda á símtölum fólks til útlanda og frá þeim. Honum finnst í lagi að hlera leyfislaust, ef leyfið hefði líklega fengizt, hefði löglega verið unnið.

Sjónarmið Powell sýnir í hnotskurn muninn á Bandaríkjunum og Evrópu. Honum finnst í lagi að brjóta lög, ef hann getur talið sér trú um, að leyfi hefði hvort sem er fengizt. Margt fleira er skrítið í Bandaríkjunum. Þar leyfa menn til dæmis pyndingar með því að skíra þær nýjum nöfnum út í loftið.

Bandaríkjamenn búa við ríkisstjórn, þar sem forsetinn telur sig ekki bundinn af neinum reglum, til dæmis um þrískiptingu valdsins. Hann lítur á sig sem forstjóra stórfyrirtækis, sem er í senn dómari, löggjafi og framkvæmdastjóri. Hann lítur þar á ofan á sjálfan sig sem útsendara guðs á jörðinni.

Að baki framkomu Bandaríkjanna gagnvart útlöndum eru meira eða minna geðveikir menn. Til dæmis Ralph Peters, sem segir í sjónvarpinu að bezti árangur loftárása á borgina Falluja í Írak sé, að “allir verði drepnir”. Eða Thomas Barnett, sem segir bandaríska herinn í Írak vera “afl hins góða.”

Þessir ráðgjafar forsetans og ýmsir kristilegir ofstækismenn beina reiði sinni að Evrópu, þar sem menn eru að reyna að hemja stríðsstefnu Bandaríkjanna. Kringum Bush forseta eru menn, sem þjást af vænisýki og stórmennsku, trúa heimspeki Thomas Hobbes og Levi Strauss og ættu að leita sér lækninga.

Álitsgjafar spá aukinni spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu. Evrópumenn eru fjandsamlegri Bandaríkjunum en nokkru sinni fyrr og neita alveg að lúta forustu þeirra. Evrópskir stjórnmálamenn, sem hafa verið hallir undir Bandaríkin, eru hættir að þora að taka til máls. Sambúðin versnar stöðugt.

Evrópumenn styðja diplómatískar leiðir, alþjóðalög, Sameinuðu þjóðirnar, fjölþjóðasamninga, en Bandaríkjamenn telja sig verða að sjá um sig sjálfir sem þjóð, er geti farið sínu fram að eigin vilja. Himinn og haf eru milli bandarískra og evrópskra sjónarmiða í alþjóðamálum.

Ofan á allt þetta kemur svo ágreiningurinn um tilvist mannkyns á jörðinni, þar sem Evrópa eflir umhverfismál, en Bandaríkin vilja fá frið til að spilla vistkerfi jarðar.

DV