Vinur Framsóknar

Greinar

Ofsagt er, að forustukreppa sé hjá Samfylkingunni, þótt heldur hafi sigið á ógæfuhliðina í skoðanakönnunum. Össur og Mörður standa sig vel í blogginu á opinberum vettvangi. Og Ingibjörg Sólrún hefur ekki gert neitt sérstakt af sér í þetta hálfa ár, sem hún hefur verið flokksformaðurinn.

Mitt á milli þingkosninga er ekki mikið að gerast í pólitík. Það ber ekki heldur mikið á Geir Haarde þessa dagana. Ekki er hægt að vera af skyldurækni uppi á háa séi vetur eftir haust eftir sumar eftir vor. En hitt er rétt, að framtak Samfylkingarinnar þessa daga felst bara í Össuri og Merði.

Svo er óneitanlega dálítið af óprenthæfu fólki í þingsveit Samfylkingarinnar, gamaldags hagsmunapólitíkusum fyrir Siglufjörð og Kárahnjúka, sem rýra í raun álit flokksins. Mikilvægt er, að forustan reyni að haga málum á þann veg, að sem minnst beri á slíku ómagaliði í pólitísku umræðunni.

Í ádeilunni á Samfylkinguna er það helzt rétt, að Ingibjörg Sólrún kom ekki hlaupandi út á völlinn eftir sigurinn í formannsslagnum. Hún hefur af og til tekið til máls um frekar virðuleg mál og haft lítinn hljómgrunn, því að fólk hefur hvorki skilið mál né málflutning eða þá leiðist bara.

Af gömlum vana hefur Steingrímur Joð verið öflugri í póltík en Ingibjörg Sólrún. Hann er sífellt tilbúinn til að rífa kjaft út af öllu, meðan hún hefur valið sér of fín efni til að tala um. Ég held, að kjósendur vilji, að hún verði kjaftforari. Ríkisstjórnin gefur næg tilefni til þess.

Ingibjörg Sólrún þarf að koma oftar fram og einkum að koma fram af öðru tilefni en þessari hefðbundnu póltík, sem er utan við veruleika venjulegra kjósenda. Hún þarf til dæmis að tala skýrt og afdráttarlaust um gamalt fólk, öryrkja og aðra þá, sem ríkisstjórnin hefur lengi verið að níðast á.

Heftin í málflutningi Ingibjargar Sólrúnar stafar sumpart af misheppnaðri kænsku við að halda samgönguleiðum opnum til ríkisstjórnar með Framsóknarflokknum eftir næstu kosningar. Ef eitthvert mál er til þess fallið að rústa Samfylkingunni eru það grunsemdir kjósenda um einmitt það fúla samstarf.

Ingibjörg Sólrún á þátt í lægð flokksins undanfarna mánuði, af því að hún er að reyna að vera allra vinur, jafnvel Framsóknar. Slík kurteisi selur alls ekki Samfylkinguna.

DV