Hvar er vetnislandið?

Greinar

Hlegið var að Kvennalistanum fyrir rúmlega tuttugu árum, þegar hann vildi vetnisvæða landið. Þáverandi pólitíkusum þótti það fyndin hugmynd. Menn hlógu minna, þegar árin liðu. Og árið 1999 ákváðu stjórnvöld hér á landi, að Ísland skyldi verða fyrsta algerlega vetnisvædda hagkerfið í heiminum.

Síðan hafa Daimler Benz, Strætó, Skeljungur, Orkuveitan og nokkrir fleiri aðilar rekið eina vetnisstöð í Reykjavík og nokkra strætisvagna, sem hafa nú gengið fyrir vetni í tæp þrjú ár. Þótt ekkert hafi komið fyrir í þeim rekstri, er orðin nokkur bið á næsta skrefi í vetnisvæðingu landsins.

Aðrir hafa ekki sofið á verðinum. Evrópusambandið ákvað fyrir þremur árum að verða vetnisveldi heimsins á skömmum tíma, enda sjá menn, að senn verða olíulindir aðeins til í Miðausturlöndum. Menn sigla skipum og fljúga flugvélum án benzíns með því að nota vetni og efnarafala eins og Strætó.

Vetni er algengasta frumefni jarðarinnar og tryggir framtíð siðmenningar í heiminum, þótt olían sé á hveranda hveli. Gífurlegar verðhækkanir eru fyrirsjáanlegar á olíu á næsta áratug, svo að menn eru komnir í tímahrak með vetnið, þótt enginn tæknivandi sé lengur í vegi fyrir notkun þess.

Ríkisstjórnin, sem ætlaði að vetnisvæða landið fyrir rúmum sex árum, sólundar ódýrustu vatnsorku landsins í niðurgreitt rafmagn fyrir erlend álver í stað þess að eiga ódýra orku fyrir efnarafala vetnishreyflana. Hún er tvísaga, þykist vilja vetnisvæða, en er blikkföst í úreltum heimi olíunnar.

Ekki eru nema fimmtán ár þangað til Ísland átti að vera endanlega vetnisvætt samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar frá 1999. Hætt er við, að einhverjar tafir verði á því og að við þurfum að borga olíu dýru verði fyrir rest, ef ríkisstjórnin vaknar ekki til lífsins og rifjar vetnismálið upp að nýju.

Ekkert hefur komið upp á, sem á að tefja framgang þessa mesta framfaramáls þjóðarinnar á öldinni. Ekki er beðið eftir neinum uppgötvunum. Það vantar aðeins hagkvæmni fjöldaframleiðslunnar til að ná niður verði á vetnisnotkun. Hvar koma íslenzk stjórnvöld að slíkri vinnu? Hvergi.

Ætlar ríkið, sem fyrir sex árum vildi verða fyrsta vetnisríki Evrópu, að verða síðasta vetnisríkið? Það verða aum endalok á ferli ríkisstjórnarinnar á vordögum 2007.

DV