Jólasveinninn er ekki til

Greinar

Séra Flóki Kristinsson á Hvanneyri á heiður skilið fyrir að reyna að segja börnum í sunnudagaskóla, að jólasveinninn sé ekki til. Foreldrar andmæla Flóka og segja augljóst, að hann hafi ekki fengið í skóinn um langt árabil. Samt eiga allir að vita, að foreldrar gefa í skóinn, ekki jólasveinninn.

Jólasveinninn í eintölu í rauðum búningi er blaðurfulltrúi, ættaður frá Kóka Kóla, upprunninn frá heilögum Nikulási, sem sagður er hafa verið góður við börn. Hann er talinn gefa börnum jólagjafir í Bandaríkjunum, en hér á landi er enn talið, að foreldrar og ættingjar gefi börnum jólagjafir.

Starfsfólk leikskóla hefur samt komið því inn hjá smábörnum, að jólasveinninn gefi þeim í skóinn á hverri nóttu alla jólaföstuna. Þess vegna eru foreldrar eins og útspýtt hundskinn að útvega sér ódýrt dót til að setja í skóinn barnanna í desember. Kenna ber leikskólum um þá vitleysu.

Jólasveinninn er ekki til í kristinni trú, svo að eðlilegt er, að klerkur þjóðkirkjunnar veki athygli barnanna á, að þau séu höfð að fífli. Raunar má segja, að jólin sjálf séu tæplega kristin, því að þau eru hundheiðin hátíð hækkandi sólar, sem kristnin tók yfir til að afla sér vinsælda.

Jólasveinarnir í fleirtölu eru allt annað mál. Þar er ekki á ferðinni tilbúningur úr leikskólum, heldur gamla þjóðtrú um fremur illa innrætta karla af vondu fólki ofan af fjöllum. Deila má um, hvort þeir séu til, en þjóðtrú hefur lengi verið talin gild fyrir hvern þann, sem vill taka hana gilda.

Við eigum semsagt þjóðlega jólasveina, sem deila má um, hvort séu til. Við höfum ekki enn fallizt á, að Kóka kóla jólasveinninn gefi jólagjafirnar. Við höfum hins vegar fallið í þá gryfju og firru leikskólanna, að sá jólasveinn gefi börnunum gjafir á hverjum degi alla jólaföstuna.

Verið getur, að sá jólasveinn spari starfsfólki leikskóla góðar hugmyndir við að hafa ofan af fyrir börnunum á jólaföstunni. En vitleysan gengur of langt, þegar foreldrar eru farnir að gefa börnum gjöf á hverjum degi í fjórar vikur. Þá er kominn tími til, að séra Flóki segi stopp.

Hvort sem íslenzku jólasveinarnir eru til eða ekki, þá er öruggt, að rauðklæddi jólasveinninn er alveg laus við að vera til. Og börnin eiga heimtingu á að fá að vita það.

DV