Krónan er ekki of há

Greinar

Farðu til Kaupmannahafnar og reyndu að borga fyrir hótel eða veitingahús. Þú kemst að raun um, að gengi krónunnar er ein dönsk á móti tíu eins og það hefur lengst af verið. Farðu til London og þú kemst að raun um, að pundið er 113 krónur og hefur oft verið ódýrara. Gengi krónunnar er ekki of hátt.

Félagslegur rétttrúnaður í þjóðfélaginu segir um þessar mundir, að gengi krónunnar sé of hátt. Þetta er raunar æpt í síbylju. Hagsmunaaðilar á borð við sjávarútveginn væla eins og þeir hafa vælt síðan elztu menn muna. Allir, sem selja afurðir til útlanda, eru að reyna að tala krónugengið niður.

Þið eigið ekki að láta hagsmunaaðila ljúga að ykkur. Ekki Seðlabankann heldur eða greiningardeildir bakanna. Danska krónan kostar samt tíkall og pundið kostar samt miklu meira en hundraðkall, hvað sem allir þessir sérfræðingar segja. Heilbrigð skynsemi segir þér, að þeir hafi rangt fyrir sér.

Þú sérð, að gengi krónunnar er orðið of hátt, ef þér finnst allt vera skyndilega orðið ódýrt, þegar þú ert á ferðinni í einhverri evrópskri borg. Meðan allt er eins og það hefur oftast verið og danska krónan er tíkall, geturðu óhræddur sagt við sjálfan þig, að rétttrúnaðurinn fer með rangt mál.

Allur þorri viðskipta okkar er við Evrópu, þar sem gengi krónunnar er reiknað í evrum, pundum og norrænum krónum. Gengisskráning allra þessara mynta er í kunnuglegum tölum. Ekkert nýtt eða óvænt hefur gerzt, frjálsa markaðshagkerfið sér um að halda krónunni á nokkurn veginn réttu gengi.

Þjóðfélagið er fullt af félagslegum rétttrúnaði, síbylju hagsmunaaðila, sem vilja spara þér ómakið af að hugsa sjálfur. Það er líka verið að segja okkur, að hér eigi að vera fjölmenningarþjóðfélag og ríkisútvarp og að undir yfirskyni persónuverndar skuli ekki birtar mannamyndir.

Hagsmunaaðilar lækkunar á krónugengi eru í rauninni að reyna að telja þér trú um, að launin þín séu orðin of há. Þetta er söngurinn frá síðari hluta tuttugustu aldar: Fólk er komið með svo hátt kaup, að krónan þarf að lækka með handafli, strax í dag. Þessir aðilar hafa þó sjálfir samið um laun.

Sama er, hversu oft félagslegur rétttrúnaður er endurtekinn, hann verður ekki sannari. Og ferðamenn streyma til landsins, þrátt fyrir síbyljuna um, að allt sé hér orðið svo dýrt.

DV