Blaðamennska 101

Greinar

Ef blaðamennska væri í boði við háskóla hér á landi, mundi fyrsti áfangi hennar heita 101. Í þeim áfanga er ekki kennt neitt annað en setningin: “Hver, hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna, hvað svo.” Þetta er raunar svo þróað námsefni, að bara helmingur íslenzkra blaðamanna kann það.

Um allan hinn vestræna heim, þar sem menn hafa mætur á lýðræði og gegnsæi, þýðir fyrsta orðið í setningunni að birta skuli nöfn og myndir fólks. Annars yrðu vestræn blöð eins og Morgunblaðið og förunautar þess hér á landi, íslenzkar útgáfur af kaþólskum dagblöðum sunnan Rómar.

Þá væru allar fréttir í þessum stíl: “Maður á miðjum aldri er í lífshættu eftir að maður á þrítugsaldri ók á hann á Bíldudal.” Ekkert væri sagt nánar um mennina, sízt um nöfn þeirra, og ekki birtar myndir af þeim. Slíkt kæmi bara fram í símaslúðri, þar sem fólk reyndi að geta í fréttaeyður.

Næsti áfangi væri nr. 201 og hljóðaði svo: “Reyndu að birta báðar/allar afstöður til máls, ef til eru fleiri en ein.” Þessi setning er nóg námsefni í áfanganum, enda er sennilega aðeins fjórðungur starfandi íslenzkra blaðamanna, sem kann sjálfa undirstöðuregluna gegn kranablaðamennskunni.

Við höfum nýtt dæmi um þetta. DV sagði frá, að Ágúst Helgason, sem leigir hjá Ástþóri Magnússyni, hafi kært heimsókn átta handrukkara á vegum Ástþórs. Daginn eftir sögðu allir fjölmiðlar, að Ástþór segðist kæra DV fyrir hreina lygi. En alls enginn fjölmiðill talaði við Ágúst.

Nokkrum dögum síðar bætti Fréttablaðið um betur og hafði eftir mér, að blaðið stæði við fréttina, enda hefðu viðtöl út af henni verið tekin upp á band. En í þessari annarri tilraun láðist Fréttablaðinu samt að tala við hornstein fréttarinnar, manninn, sem upphaflega kærði dólga Ástþórs.

Þriðji áfangi náms í blaðamennsku væri væntanlega nr. 301. Hann varar blaðamenn við röngum spurningum félagslegs rétttrúnaðar utan úr bæ, ávísunum á skálkaskjól, svo sem: “Var NAUÐSYNLEGT að birta þetta. Var það í samræmi við ALMANNAHEILL. Var ekki verið að valda persónu SÁRSAUKA.”

Þegar menn hafa náð áföngunum þremur eru þeir komnir á plan í faginu, sem er hærra en hjá níu af hverjum tíu blaða- og fréttamönnum landsins og hærra en hjá siðanefnd blaðamanna.

DV