Ekki lengur óvinir bænda

Greinar

Viðbrögð landbúnaðarráðherra eru mildari en í gamla daga, þegar menn voru kallaðir óvinir bænda og drullusokkar fyrir að leggja fram reikningsdæmi, sem sýndu, að milljarðar króna fóru á hverju ári frá skattgreiðendum og neytendum til að borga niðurgreiðslur, uppbætur og styrki í landbúnaði.

Flestir aðrir tala á svipuðum nótum og áður. Enn eru komnar skýrslur, ein úr Háskóla Íslands, sem sýnir, að ruglið er enn mikið, þótt það hafi minnkað. Önnur skýrsla kom frá útlöndum og sýnir, að ruglið er meira á Íslandi en annars staðar, þótt það hafi minnkað örlítið síðustu áratugina.

Nýr formaður Sjálfstæðisflokksins situr viðskiptaþing úti í Hong Kong, þar sem Ísland er talið til G-10 hópsins, sem nær yfir þau ríki, sem róttækast verja landbúnað sinn gegn breyttri heimsmynd. Hann segir þar, að íslenzkur landbúnaður verði “að búa sig undir meiri samkeppni og breytta tíma”.

Allt er þetta kunnuglegt, ennfremur væg viðbrögð samtaka launþega, sem alltaf hafa verið treg til að taka upp málstað neytenda gegn landbúnaðarkerfinu. Þau vilja heldur flækja málið með því að ræða hugsanlega aðild stórverzlana að of háu verði á landbúnaði. Sannleikurinn er þó öllum ljós.

Guðni Ágústsson fer með löndum og nefnir fá mótrök, vill þó, að “þjóðin brauðfæði sig”, þótt hér sé ekki kornrækt. Enda mundu stríð og hörmungar erlendis leiða í ljós, að Ísland getur aðeins framleitt 50% af matarþörf og ekki framleitt eldsneyti á vélar landbúnaðarins. Við erum ekki sjálfbær.

Guðni vill líka benda á hollustu íslenzkrar búvöru. Ef við viðurkennum hana og að gott sé að framleiða búvöru af öryggisástæðum, komumst við samt ekki að þeirri niðurstöðu, að við þurfum á friðartímum að halda uppi 100% af mjólk og kjöti. Það nægir alveg að framleiða helming af því.

Aðlögun landbúnaðar okkar að veruleikanum gengur allt of hægt. Við þurfum að stefna að tollfrjálsum innflutningi allrar búvöru, einnig á mjólkurvörum og kjöti. Við getum svo borgað á móti búsetustyrki til bænda, en ekki neitt á borð við milljarðana, sem nú fara árlega í veður og vind.

Ísland er alls ekki kornland og er lélegt kvikfjárland. Við eigum að láta aðrar þjóðir sem mest um slíkt og halla okkur frekar að verðmætum, sem dýrast eru seld hverju sinni.

DV