Trúverðugar kannanir

Fjölmiðlun

Ábyrgar og vísindalegar skoðanakannanir helztu aðila síðustu daga hafa allar sýnt svipaða stöðu. Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar eru 29% flokkar, Vinstri græn eru 18% flokkur, Framsókn og Samfylkingin eru 8% flokkar og Björt framtíð úr leik með 4%. Tölurnar hafa sveiflast um ± tvö prósentustig í þessum mánuði. Fylgi lekur frá Framsókn yfir til Sjálfstæðis og frá Pírötum yfir til Vinstri grænna. Allt hefur það sínar skýringar. Sigmundur Davíð fór verr en Bjarni Benediktsson út úr skattaskjólsmálum aflendinga. Píratar lentu í innra kífi við sérvitra Ögmunda sína eins og Vinstri grænir gerðu í tíð fyrri ríkisstjórnar.