6. Dorsoduro – Jacopo Tintoretto

Borgarrölt

 

Accademia: Tintoretto, Feneyjar

Accademia: Tintoretto

Annar höfuðmálari í Accademia er Tintoretto.

Hann var uppi 1518-1594, helzti málari Feneyja á fægistíls-blómaskeiði endurreisnartímans. Hann notaði mikið dimma myndfleti með lýstum flötum, sterka liti og litaandstæður. Málverk hans eru flest trúarleg.

Í Accademia eru nokkur málverk hans, en heillegast safn þeirra er í Scuola Grande di San Rocco. Risaverk hans um Paradís og nokkur fleiri eru í veizlusal hertogahallarinnar. Verk hans eru víða í kirkjum hverfisins Cannaergio, þar sem hann var búsettur.

Næstu skref

5. Dorsoduro – Vittore Carpaccio

Borgarrölt
Accademia: Carpaccio, Feneyjar

Accademia: Carpaccio

Við staðnæmumst hér einkum við verk eftir snemm-endurreisnarmanninn Carpaccio, síð-endurreisnarmanninn Tintoretto og hlaðstílsmanninn Veronese. Við tökum þá í tímaröð.

Carpaccio var uppi 1486-1525, kom sem málari í kjölfar Bellini-feðga, notaði skarpa teikningu og milda liti, svo og mikla nákvæmni í útfærslu. Málverkið í safninu frá Canal Grande hefur mikið sagnfræðilegt gildi fyrir utan það listræna, því að hann málaði meira að segja texta skiltanna á húsunum nákvæmlega. Þar má líka sjá Rialto-brú eins og hún var á blómaskeiði Feneyja.

Verk hans má meðal annars einnig sjá í safninu í Ca’d’Oro og í Museo Correr.

Næstu skref

4. Dorsoduro – Accademia

Borgarrölt
Santa Maria della Carita, Feneyjar

Accademia er í klaustri Santa Maria della Carita

Við göngum eftir skurðbakkanum og síðan beint áfram eftir Calle della Chiesa og Piscina Fornier, framhjá listasafninu Collezione Cini, sem er stundum opið og oftast ekki, og áfram eftir Calle Nuova Sant’Agnese að vesturhlið Accademia, alls rúmlega 300 metra leið. Við göngum norður fyrir safnið til að komast að inngangi Accademia.

Helzta og stærsta listasafn borgarinnar er til húsa í klaustri og klausturkirkjunni Santa Maria della Carità. Það sýnir þróun feneyskrar málaralistar frá býzönsku og gotnesku upphafi til endurreisnar og hlaðstíls. Þar sem feneysk málaralist skipar eitt fremsta sætið í listasögu þessara tímabila, er Accademia með merkustu málverkasöfnum veraldar.

Merkustu verkin úr aflögðum kirkjum og klaustrum borgarinnar hafa verið flutt hingað, svo og ýmis helztu einkennisverk feneyskrar listasögu. Uppsetningin er í tímaröð, svo að auðvelt er að átta sig á þróun feneyskrar málaralistar. Rúmt er um málverkin, svo að tiltölulega auðvelt er að njóta þeirra, einkum þó á vel björtum degi.

Safnið stækkaði við brottflutning akademíunnar sjálfrar, Accademia di Belle Arti, svo að unnt er að sýna verk, sem áður lágu í geymslum. Hér eru verk eftir hina býzönsku Paolo Veneziano og Lorenzo Veneziano, endurreisnarmennina Jacopo Bellini, Gentile Bellini og Giovanni Bellini, Palma og Tiziano, svo og hlaðstílsmálarana Giambattista Tiepolo og Giandomenico Tiepolo.

Næstu skref

 

3. Dorsoduro – Collezione Peggy Guggenheim

Borgarrölt

Collezione Peggy Guggenheim

Guggenheim: Marini, Feneyjar

Guggenheim: Marino Marini

Við göngum meðfram kirkjunni eftir Calle Abazia og Calle Bastion, yfir brú og áfram Calle San Cristoforo að Guggenheim safninu, alls um 300 metra leið. 

Merkilegt nútímalistasafn í garði og höll, sem aldrei varð nema jarðhæðin ein. Þar eru verk eftir Jackson Pollock, Pablo Picasso, Joan Miró, Constantin Brancusi, Max Ernst, Wassily Kandinsky, Piet Mondrian, Giorgio de Chirico, Kasimir Malevich og Marino Marini.

Peggy Guggenheim var mikill listvinur og framúrstefnukona, þegar hún safnaði verkum málaranna, sem síðar urðu einkennismálarar síðari hluta 20. aldar. Það er hressandi að skoða safn hennar, þegar maður er orðinn þreyttur á ald
agamalli list, sem hvarvetna verður á vegi manns í borginni.

Rio della Torreselle, Feneyjar

Rio della Torreselle

Ráðgert er að flytja hluta safnsins í gömlu tollbúðina, Dogana di Mare, við Salute kirkjuna. Þá verður unnt að sýna mun fleiri verk, sem nú eru í geymslum þess.

Rio della Torreselle

Við höldum áfram frá safninu nokkur skref út á Fondamenta Venier.

Rio della Torreselle er friðsæll skurður á gönguleiðinni milli Salute og Accademia.

Við skurðinn er veitingahúsið Ai Gondolieri. Í nágrenninu er hótelið og veitingahúsið Agli Alboretti.

Næstu skref

 

2. Dorsoduro – Santa Maria della Salute

Borgarrölt
Santa Maria della Salute, Feneyjar 3

Bænastund í Santa Maria della Salute

Santa Maria della Salute

Santa Maria della Salute er skrautleg hlaðstílsterta úr hvítum kalksteini, hönnuð af Baldassare Longhena, reist 1631-1687. Hún stendur á bezta stað, við austurodda Dorsoduro hverfis, þar sem Canal Grande mætir Feneyjalóni, og blasir við úr öllum áttum. Hún er áttstrend og ofhlaðin skrauti, með sextán risavöxnum bókrollustoðum á þaki.

San Gregorio, Feneyjar

San Gregorio

Að innanverðu er kirkjan hófsamlegri. Hún hefur að geyma altaristöflu og loftmálverk eftir Tiziano og verk eftir fleiri kunna listamenn, svo sem Jacopo Tintoretto. Steinfellugólfið er óvenjulega fallegt, með ýmsum tilbrigðum í hringlaga mynztri.

Baldassare Longhena var einn helzti hlaðstílsarkitekt F
eneyja á 17. öld. Hann hannaði líka höllina Ca’Pesaro og byrjaði á Ca’Rezzonico.

San Gregorio

Við göngum beint inn í hverfið vestan við kirkjuna. Af kirkjutorginu förum við á trébrú milli San Gregorio kirkju og klausturs.

San Gregorio eru leifar voldugs klausturs heilags Gregoríusar, sem lagt var niður fyrir löngu. Kirkjan er einföld og látlaus múrsteinskirkja í gotneskum stíl.

Næstu skref

Hrekur fólk úr landi

Punktar

Ríkisstjórnin heldur með fjárlagafrumvarpinu áfram að höggva velferðina. Lækkar hlutdeild hennar í ríkisbúskapnum, enda þarf hún fé til að mæta lækkun gjalda á handhafa kvóta. Samneyzlan lækkar úr 28% í 25%. Felur í sér mikla rýrnun liða, sem skipta fátæka mestu máli, svo sem heilbrigðismál, tryggingar og skóla. Hægt og sígandi byltir ríkisstjórnin kerfinu að hætti Bandaríkjanna og Bretlands, magnar stéttaskiptinguna. Æ fleira miðstéttarfólk sígur niður í undirstétt skulda og örvinglunar. Þetta er hörð frjálshyggjustjórn hinna ríku í þágu hinna ríku. Hún gerir fólk landflótta, hrekur það til hins mjúka hagkerfis í Noregi.

8. Castello – La Pietà

Borgarrölt

La Pietà

Við göngum úr görðunum út á lónsbakkann og förum hann langleiðina til baka til hertogahallarinnar, um hálfs annars kílómetra leið. Milli skurðanna Rio della Pietà og Rio dei Greci komum við að framhlið kirkju. Við getum líka sleppt því að skoða þessa kirkju og tekið almenningsbát beint frá bátastöðinni Giardini við vesturenda garðanna.

Endurreist 1745-1760, með framhlið frá 1906, upprunalega kirkja munaðarleysingjahælis, en núna einkum notuð fyrir tónleika, sem haldnir eru að minnsta kosti mánudaga og fimmtudaga árið um kring.

Hælið varð frægt fyrir kóra og frægast fyrir kórstjórann Antonio Vivaldi, sem samdi hér ótal óratóríur, kantötur og önnur verk fyrir kóra. Kirkjan er raunar stundum kölluð Chiesa di Vivaldi eftir honum, enda skipa verk hans heiðursess í dagskránni.

Riva degli Schiavoni, Feneyjar

Riva degli Schiavoni

Vivaldi var frægasti tónsnillingur Feneyja, uppi 1678-1741. Hann lærði til prests og starfaði fyrri hluta ævinnar sem kórstjóri Pietà munaðarleysingja-hælisins. Hann samdi rúmlega 770 tónverk, þar á meðal 46 óperur, flestar þeirra frumfluttar í Feneyjum. Uppáhalds-hljóðfæri hans var fiðlan. Hann notaði hana mikið sem einleikshljóðfæri í verkum sínum.

Við ljúkum þessari gönguferð með því að fara tæplega 300 metra leið eftir bakkanum frá kirkjunni til Palazzo Ducale.

Næst förum við í göngu um hverfin Dorsoduro og San Polo.

Dorsoduro

7. Castello – San Pietro di Castello

Borgarrölt

San Pietro di Castello

San Pietro di Castello, Feneyjar

San Pietro di Castello

Við göngum norður eftir bakkanum Calle drio il Campanile til kirkjunnar, um 300 metra leið.

Hér var einna fyrst byggð í Feneyjum og erkibiskupssetur allan sjálfstæðistíma borgarinnar. Kirkjan var dómkirkja Feneyja frá upphafi til 1807, þegar Markúsarkirkja tók við. Núverandi kirkja er frá miðri 16. öld, en skakki turninn eftir Mauro Coducci er eldri, frá 1482-1488.

Gamla erkibiskupshöllin er milli kirkju og turns.

Canale di San Pietro, Feneyjar

Canale di San Pietro

Giardini Pubblici

Við förum til baka suður með bakkanum, yfir brúna Ponte de Quintavalle og áfram eftir Fondamenta Sant’Anna unz við komum að Calle Tiepolo, sem við göngum suður að skurðinum Rio di San Giuseppe. Við beygjum þar til hægri, förum yfir næstu brú og göngum suður að görðunum, þar sem alþjóðlegi bíennalinn er haldinn. Alls er þetta um kílómetra löng ganga.

Garðarnir eru víðáttumiklir beggja vegna Rio dei Giardini. Hérna megin heita þeir Giardini Pubblici og þar er bíennalinn til húsa. Hinum megin heita þeir Parco delle Rimembranze.

Næstu skref

 

 

 

6. Castello – Ca’ Giovanni Caboto

Borgarrölt

Ca’ Giovanni Caboto

Ca Giovanni Caboto, Feneyjar

Ca Giovanni Caboto

Ef við höfum ekki mikinn tíma, getum við látið þessa skoðun nægja, snúið hér við og gengið lónsbakkann til hertogahallarinnar. Að öðrum kosti höldum við áfram eftir lónsbakkanum, yfir næstu brú og komum þar að mjóu hornhúsi milli Riva degli Sette Martiri og Via Garibaldi. Alls er þetta um 200 metra leið.

Hornhúsið Ca’ Giovanni Caboto var heimili feðganna Sebastian og Giovanni Caboto, sem fundu Labrador 1497 í upphafi landafundatímans. Þeir voru þá í þjónustu Englandskonungs.

Via Garibaldi er ein fárra breiðgatna í borginni, mynduð 1808 með því að fylla skurð.

Garibaldi

Benvenuti: Garibaldi, Feneyjar

Benvenuti: Garibaldi

Við göngum Via Garibaldi á enda, tæplega 500 metra leið, þar sem langur garður liggur suður frá götunni.

Í enda garðsins hér við götuna er minnisvarði ítölsku frelsishetjunnar Garibaldi eftir listamanninn Augusto Benvenuti frá 1895.

Ponte de Quintavalle

Við göngum áfram Via Garibaldi að skurðinum Rio di Sant’Anna, förum sunnan hans í beina stefnu á brúna Ponte de Quintavalle, um 500 metra leið.

Frá brúnni er ágætt útsýni um breiðan og rólegan Canale di San Piero og skakkan turn kirkjunnar að baki hans.

Næstu skref

5. Castello – Arsenale

Borgarrölt

Arsenale, Feneyjar

Úr suðurenda torgsins göngum við tæpra 100 metra leið á Calle del Dose til Riva degli Schiavoni, þar sem við beygjum til vinstri eftir lónsbakkanum. Við göngum eftir bakkanum yfir tvær brýr, samtals tæplega 400 metra leið, unz við komum að skurðinum Rio dell’Arsenale, sem liggur að herskipasmíðastöðinni gömlu. Við getum tekið krók með skurðinum til að skoða inngang stöðvarinnar.

Turnarnir tveir við innganginn að Arsenale eru frá 16. öld. Þeir eru hluti virkisveggs með skotraufum. Við komumst ekki inn í stöðina sjálfa, því að hún er ennþá talin vera hernaðarsvæði, þótt hún sé í eyði. Við getum hins vegar siglt um hana endilanga með því að taka okkur far með 23. eða 52. leið áætlunarbáta borgarinnar.

Herskipasmíðastöðin var hornsteinn sjóveldis Feneyinga, stofnuð á 12. öld. Hún varð stærsta skipasmíðastöð veraldar, með 16.000 manna starfsliði. Hún var fyrsta færibandaverksmiðja Evrópu og gat árið 1574 fullsmíðað galeiðu á meðan Hinrik III af Frakklandi var í borginni í matarveizlu, sem tók 24 klukkustundir.

Ef við nennum ekki að taka krókinn að Arsenale, getum við farið yfir brúna á lónsbakkanum og skoðað safnið í húsinu á horninu handan brúarinnar. Það er flotasögusafnið Museo Storico Navale, opið mánudaga-laugardaga 9-13. Þar má sjá fróðlega skipasmíðasögu Feneyinga.

Næstu skref

4. Castello – San Giorgio dei Greci

Borgarrölt
San Giorgio dei Greci, Feneyjar

San Giorgio dei Greci

San Giorgio dei Greci

Við förum vestur eftir norðurenda torgsins og beygjum síðan til hægri eftir Campo San Provolo og Fondamenta dell’Osmarin. Þar komum við að skurði, sem við förum yfir á tveimur brúm. Samtals er þetta tæplega 300 metra leið. Með bakkanum handan síðari brúarinnar liggur leið að kirkju með óvenjulega skökkum turni.

San Giorgio dei Greci er 16. aldar kirkja með afar höllum turni. Hún er grísk rétttrúnaðarkirkja með innri kvennasvölum og íkonabrík milli kórs og kirkjuskips.

Í þessu hverfi var veitingahúsið Arcimboldo.

San Giovanni in Bragora

San Giovanni in Bragora, Feneyjar

San Giovanni in Bragora

Við förum til baka út að brúnum tveim, sem við fórum yfir, beygjum þar til hægri og förum eftir Calle della Madonna og Salizzada dei Greci yfir brú og áfram meðfram kirkjunni San Antonio eftir Salizzada Sant’Antonin að torginu Campo Bandera e Moro, að Bragora kirkjunni, samtals um 400 metra leið.

San Giovanni in Bragora er einföld gotnesk kirkja frá 1475-1479.

Hún er búin mörgum listaverkum frá síðgotneskum tíma og frá upphafi endurreisnar. Þar á meðal er gotneskt guðsmóðuraltari eftir Bartolomeo Vivarini og endurreisnarmálverk við háaltari eftir Cima da Conegliano af skírn Krists.

Rétt hjá kirkjunni er veitingahúsið Corte Sconta.

Næstu skref

 

3. Castello – San Zaccaria

Borgarrölt

San Zaccaria

San Zaccaria, Feneyjar 2

San Zaccaria

Við förum nokkur skref til baka og inn í sund vinstra megin við Paganelli hótelið. Eftir 100 metra leið komum við þar inn á lítið torg framan við Zaccaria kirkjuna.

San Zaccaria, Feneyjar

San Zaccaria

Hún var byggð 1444-1515 í blöndu síðgotnesks stíls og endurreisnarstíls við nunnuklaustur af reglu Benedikts. Antonio Gambello hóf gerð framhliðarinnar í síðgotneskum stíl og Mauro Coducci lauk henni í endurreisnarstíl.

Að innanverðu eru veggir kirkjunnar þétt skipaðir málverkum. Í
nyrðra hliðarskipi er guðsmóðurmynd eftir Giovanni Bellini.

Næstu skref

 

2. Castello – Vittorio Emanuele II

Borgarrölt

Vittorio Emanuele II

Riva degli Schiavoni, Feneyjar 2

Vittorio Emanuele II, Riva degli Schiavoni

Við göngum framhjá Danieli hótelinu, þar sem veitingahúsið Rivetta er að hallarbaki, förum áfram bakkann yfir brú og framhjá Paganelli hótelinu að Londra hótelinu. Fyrir framan það er riddarastytta.

Engin borg á Ítalíu er borg með borgum án þess að þar sé riddarastytta af Vittorio Emanuele II, fyrsta konungi sameinaðrar Ítalíu. Hér fyrir framan Londra hótelið er feneyska útgáfan. Hana gerði Ettore Ferrari árið 1887.

Irarrazabal: Mano á Riva degli Schiavoni, Feneyjar

Irarrazabal: Mano, á Riva degli Schiavoni

Síðari árin hefur þarna á bakkanum verið komið upp nútímalegri listaverkum, eins og þessu hér eftir Mario Irarrazabal frá Chile.

Næstu skref

 

Þjóðernissinnar eflast

Punktar

Gengi þjóðernissinna og rasista eflist víða um Evrópu. Í Frakklandi eru taldar nokkrar líkur á, að Marine Le Pen verði næsti forseti landsins. Sums staðar eru þessi öfl komin í stjórn, einkum í Danmörku og Noregi. Hefðbundin stjórnmál eiga erfitt með að höndla þjóðrembuna. Menn rífa hár sitt í örvæntingu. Betra er að átta sig á, að almenningur hefur ýmsar gildar ástæður til stuðnings við slíka flokka. Samþætting fjölþjóða í einnar þjóðar kerfum hefur sumpart gengið illa. Múslimar eiga erfitt með að laga sig að vestrinu. Að banna slæður er engin lausn. En kerfin þurfa að eiga svar við kröfunni um bann við nýbúum.

15. San Marco – Fondazione Querini Stampalia

Borgarrölt
Querini Stampali, Feneyjar

Querini Stampalia

Við förum kringum kirkjuna að austanverðu og göngum yfir brú að dyrum Stampalia-safnsins.

Höllin var hönnuð og reist á 16. öld.

Þar er núna málverka- og bókasafn Querini-ættarinnar, meðal annars verk eftir Giovanni Bellini og Giambattista Tiepolo.

Við förum yfir brúna til baka og tökum næstu brú til vinstri, förum meðfram Rio del Rimedio, beygjum til hægri í Calle del Rimedio og síðan til vinstri í Calle dell’Angelo og loks til hægri í Calle Canonica, sem leiðir okkur til Markúsartorgs, samtals tæplega 500 metra leið. 

Þessari gönguferð er lokið

Næstu skref