5. Castello – Arsenale

Borgarrölt

Arsenale, Feneyjar

Úr suðurenda torgsins göngum við tæpra 100 metra leið á Calle del Dose til Riva degli Schiavoni, þar sem við beygjum til vinstri eftir lónsbakkanum. Við göngum eftir bakkanum yfir tvær brýr, samtals tæplega 400 metra leið, unz við komum að skurðinum Rio dell’Arsenale, sem liggur að herskipasmíðastöðinni gömlu. Við getum tekið krók með skurðinum til að skoða inngang stöðvarinnar.

Turnarnir tveir við innganginn að Arsenale eru frá 16. öld. Þeir eru hluti virkisveggs með skotraufum. Við komumst ekki inn í stöðina sjálfa, því að hún er ennþá talin vera hernaðarsvæði, þótt hún sé í eyði. Við getum hins vegar siglt um hana endilanga með því að taka okkur far með 23. eða 52. leið áætlunarbáta borgarinnar.

Herskipasmíðastöðin var hornsteinn sjóveldis Feneyinga, stofnuð á 12. öld. Hún varð stærsta skipasmíðastöð veraldar, með 16.000 manna starfsliði. Hún var fyrsta færibandaverksmiðja Evrópu og gat árið 1574 fullsmíðað galeiðu á meðan Hinrik III af Frakklandi var í borginni í matarveizlu, sem tók 24 klukkustundir.

Ef við nennum ekki að taka krókinn að Arsenale, getum við farið yfir brúna á lónsbakkanum og skoðað safnið í húsinu á horninu handan brúarinnar. Það er flotasögusafnið Museo Storico Navale, opið mánudaga-laugardaga 9-13. Þar má sjá fróðlega skipasmíðasögu Feneyinga.

Næstu skref