7. Búðir – South Molton Street

Borgarrölt
South Molton Street, London

South Molton Street

Molton Brown

Við beygjum næst til vinstri vestur Brook Street og síðan til hægri norður South Molton Street, fjörlega göngugötu með smáverzlunum og útikaffihúsum. Á nr. 58, hægra megin götunnar, verður fyrir okkur hárgreiðslustofan Molton Brown, ein mesta tízkustofa borgarinnar, innréttuð í aldamótastíl.

Higgins

Aðeins lengra, sömu megin, á nr. 42, er Higgins, ein fremsta kaffibúðin í borginni, geislandi af kopar og angandi af baunum frá öllum heimshornum, þar á meðal frá eigin ökrum í hlíðum Kilimanjaro. Hér fást yfirleitt um 30 tegundir í andrúmslofti fyrri tíma. Gaman er að skoða vogirnar miklu.

Prestat

Nokkurn veginn við hliðina, á nr. 40, er kunnasta konfektgerð borgarinnar, Prestat. Þar á staðnum er konfekt handunnið og selt ferskt yfir fornlegan diskinn. Upprunalega var búðin í París, en flutti hingað upp úr aldamótum. Án efa er þetta borgarinnar bezta konfekt, einkum “truffles”-kúlur og kirsuberjabrandí.

Næstu skref
Prestat

Prestat

6. Búðir – Bond Street

Borgarrölt
Asprey, London 2

Asprey

Asprey

Nú skiptir gatan um nafn og heitir hér eftir New Bond Street. Hinum megin hennar komum við brátt, á nr. 167, að Asprey, einum þekktasta gullsmið borgarinnar, með mörgum vænum gluggum út að götu. Og auðvitað er hann konunglegur hirðgullsmiður.

Holland & Holland

Áfram höldum við norður New Bond Street og tökum smákrók inn í Bruton Street, þar sem byssusmiðirnir Holland & Holland eru á nr. 33. Þar getum við, eins og hertoginn af Edinborg, fengið afar dýrar veiðibyssur með hálfs fjórða árs afgreiðslufresti. Um leið getum við litið yfir götuna og virt fyrir okkur, hversu mjög hin gamla krá Coach & Horses stingur í stúf við sviplaus nútímahúsin.

Wildenstein

Wildenstein, London

Wildenstein

Aftur förum við til New Bond Street og göngum hana áfram til norðurs. Hérna megin götunnar, rétt við hornið, á nr. 147, er einn allra frægasti fornmálverkasali heimsins, Wildenstein, sem veltir frægum nöfnum fyrir háar summur. Andspænis, á nr. 26, er Tessiers, ein elzta og þekktasta verzlun fornra gull- og silfurmuna.

Áhugafólki um forngripi skal bent á, að heila bók af þessari stærð mætti skrifa um einar sér hinar frægu forngripasölur í London.

Sotheby's, London

Sotheby’s

Sotheby´s

Hér aðeins ofar, hægra megin götunnar, á nr. 35, er Sotheby´s, annar af tveimur heimsfrægum uppboðshöldurum borgarinnar. Þessi er raunar eldri og stærri, heldur yfir 500 uppboð á ári og hélt uppboð á geirfuglinum og Flateyjarbók. Munirnir eru til sýnis í eina viku fyrir uppboð og sýningarskrár eru til mánuði fyrir þau. Mánudaga eru boðnar upp bækur, smávörur og gler, þriðjudaga bækur og postulín, miðvikudaga málverk, fimmtudaga silfur og skartgripir, föstudaga húsgögn og listmunir.

Smythson

Nú fer að fækka hinum gamalgrónu bezku verzlunum við götuna og að fjölga hinum alþjóðlegu, sem eru útibú frá París og Róm. Við erum senn komin að Grosvenor Street, þvergötu til vinstri, þar sem hundrað metrar eru að skrifstofu Flugleiða á nr. 73. Ef við hins vegar höldum New Bond Street áfram til norðurs, komum við strax að pappírsvörubúðinni Smythson hægra megin götunnar, á nr. 54. Þessi verzlun drottningarinnar sérhæfir sig í furðulegu og hugmyndaríku bréfsefni og jólakortum. Þar má finna marga skemmtilega gjafavöru.

Næstu skref

5. Búðir – Arcades

Borgarrölt

Burlington Arcade

Burlington Arcade, London

Burlington Arcade

Áfram liggur leiðin eftir Piccadilly. Við lítum aðeins inn í Piccadilly Arcade, fallegt verzlanasund, sem liggur eins og Princess Arcade yfir til Jermyn Street. Síðan förum við yfir Piccadilly, þar sem nokkurn veginn andspænis er Burlington Arcade, fegursta og frægasta búðasund borgarinnar, frá 1815-19. Hugsaðu þér bara, ef Laugavegurinn liti svona út. Hér er mikill fjöldi þekktra smáverzlana í einstaklega notalegu og furðanlega rólegu umhverfi. Ekki dugir okkur minna en að ganga sundið fram og til baka.

Charbonnel et Walker

Royal Arcade, London

Royal Arcade

Komin úr Burlington Arcade göngum við enn nokkur skref suðvestur Piccadilly. Þar komum við að Old Bond Street og beygjum til hægri. Hérna megin götunnar á nr. 7 er diskó-klúbburinn Embassy (bls. 55). Aðeins lengra hinum megin, á nr. 28, er ein þekktasta konfektbúðin í borginni, Charbonnel et Walker, þar sem viðskiptavinir geta látið setja fangamark sitt á konfektmolana. Við verzlunina er enn eitt búðasundið, Royal Arcade.

Næstu skref

4. Búðir – Piccadilly

Borgarrölt

Hatchards

Hatchard's, London

Hatchards

Við förum nú yfir götuna og göngum stuttan spöl til baka, unz við komum að sundinu Princess Arcade, sem liggur út á Piccadilly. Þetta er eitt af mörgum göngusundum smáverzlana í borginni. Úti á Piccadilly beygjum við til vinstri og komum strax, á nr. 187, að Hatchards, elztu bókabúð borgarinnar, á þessum stað frá 1767. Hér eru yfir 350 þúsund bókatitlar á fjórum hæðum. Andrúmsloftið er einkar notalegt fyrir bókaorma, sem hafa nógan tíma.

Fortnum & Mason, London 2

Fortnum & Mason

Fortnum & Mason

Við höldum áfram nokkur skref suðvestur Piccadilly og staðnæmumst við Fortnum & Mason á nr. 181. Það er hin hefðbundna sælkerabúð borgarinnar og matvöruverzlun drottningarinnar. Sérgrein staðarins er alls konar niðurlagður og -soðinn matur í krukkum og dósum, þar á meðal ótal sultur. Í rauninni stenzt verzlunin engan samjöfnuð við Harrods, en er heimsóknar virði, af því að andrúmsloftið er óviðjafnanlegt í þessari verzlun frá átjándu öld, þar sem afgreiðslumenn klæðast enn kjólfötum. Á efri hæð er annar varningur en matur.

Næstu skref

Ógn eða tækifæri

Punktar

Ritskoðun veraldarvefsins í Íran tekur á sig ýmsar myndir. Þar takast á þeir harðsoðnu og hinir frjálslyndari. Annars vegar saksóknarar klerkanna og hins vegar nýr og frjálslyndari forseti. Hassan Rouhani forseti segir netið vera „tækifæri, en ekki ógn“. Fésbók og tíst eru lokuð þar í landi. En klerkar vilja bæta við lokun á WhatsUp, Viber og Tango. Þá er lokað fyrir valda einstaklinga í bloggi, til dæmis dr. Gunna okkar. Ungt fólk er sótt til saka fyrir að fara kringum lokanir. Sumir hafa sætt illri meðferð í fangelsi. Klerkar óttast mest guðlast, klám og mótþróa gegn klerkum. Stjórnin hyggst friða klerkana með því að reyna að sía burt ullabjakk og dr. Gunna fremur en að loka á heilu forritin.

3. Búðir – Jermyn Street

Borgarrölt
Christie, London

Christie

Christie´s

Hér beygjum við til hægri inn King Street. Þar á nr. 8 er annað af tveimur heimsþekktum uppboðsfyrirtækjum í London, Christie´s. Á mánudögum eru yfirleitt seldir leirmunir og postulín, á þriðjudögum teikningar, mynt, gler og forngripir, á miðvikudögum skartgripir, bækur og vopn, á fimmtudögum húsmunir og vín og á föstudögum málverk. Uppboðin byrja yfirleitt kl. 11. Munirnir eru oftast til sýnis í tvo daga á undan.

Turnbull & Asser

Turnbull & Asser, London

Turnbull & Asser

Við snúum til baka og förum til hægri Bury Street upp að Jermyn Street, sem er aðalgata karlabúða í borginni. Þar á horninu er vinstra megin Turnbull & Asser á nr. 71 og hægra megin Hilditch & Key, báðar skyrtubúðir, hin síðarnefnda einnig fyrir konur. Turnbull & Asser selur bæði tilbúnar og sérskornar skyrtur, sem þá þarf að bíða eftir í sex vikur. Búðin tollir vel í tízkunni, þótt hún sé síðan 1885. Bæði þjónusta og verð er uppi í skýjunum.

 

 

 

Floris

Floris, London

Floris

Við göngum austur Jermyn Street og komum fljótlega að Floris á nr. 89, hægra megin götunnar. Það er meira en 250 ára gömul ilmvatnabúð frá 1730. Allir hafa efni á að kaupa hér baðsalt til að nota tækifærið til að svipast um í einni frægustu ilmvatnabúð heims. Mundu, að Chanel og aðrir frá París eru bara nýgræðingar frá 19. og 20. öld. Þetta er notaleg og auðvitað sérstaklega ilmþrungin verzlun.

 

 

 

 

Paxton & Whitfield

Paxton & Whitfield, London

Paxton & Whitfield

Aðeins fjær og sömu megin götunnar, á nr. 93, er Paxton & Whitfield, frægasta og skemmtilegasta ostabúð borgarinnar, starfrækt frá lokum átjándu aldar. Hér fást beztu brezku ostarnir, bæði stilton og cheddar, auk 300 annarra tegunda úr öllum heimshornum. Þeir selja ostinn bæði í stórum skömmtum og litlum sneiðum. Viðskiptavinir eru hvattir til að smakka. Ef þeir eiga ekki umbeðinn ost, útvega þeir hann innan tíu daga.

Næstu skref

2. Búðir – St James´s

Borgarrölt

1. gönguferð:

House of Hardy, London

House of Hardy

Hefjum gönguferðina við St James´s höll, á horni Pall Mall og St James´s Street.

Hardy

Berry Brothers, London 4

Berry Brothers  & Rudd

& Rudd

Pall Mall megin við hornið, á nr. 61, er Hardy, ein frægasta sportveiðiverzlun heims. Þar fást dýrustu veiðihjól í heimi, auðvitað sérsmíðuð fyrir verzlunina eins og annað, er þar fæst, svo sem stengur úr trefjagleri og kolefnisþráðum.
Nálægt hinum enda Pall Mall, rétt við Haymarket, er hin fræga sportveiðibúðin, Farlow, á nr. 56, sem hefur það fram yfir að vera konungleg hirðverzlun á þessu sviði.

Berry Brothers & Rudd

Handan hornsins, á St James´s Street nr. 3, er Berry Brothers & Rudd, elzta vínbúð í London, frá átjándu öld. Innréttingar eru forgamlar og gólfinu hallar til allra átta. Fræg er vogin, sem mælir þyngd þekktra viðskiptavina. Tvennt annað er merkilegt við verzlunina, að vínið er allt á lager í kjallaranum og að það er ódýrara en í flestum vínbúðum borgarinnar. Síðast kostaði Chateau Langloa-Barton 1971 ekki nema GBP 15 og Kiedricher Sandgrub 1976 ekki nema GBP 9.

James Lock

Lock, London 2

James Lock

Lobb, London 2

John Lobb

Nánast við hliðina, á nr. 6, er hattabúðin James Lock, frá 1765. Þar er frammi forgamalt áhald, sem minnir á gamla ritvél, notað til að máta höfuðlag og -stærð viðskiptavina. Eftir mælingu er hæfilegur hattur hitaður og síðan mótaður í form, sem fellur að viðskiptavininum. Á þessum stað var hannaður fyrsti harðkúluhattur í heimi. En nútildags eru einnig seldir sixpensara
r. Í búðinni er fágætt safn gamalla höfuðfata.

John Lobb

Nokkrum skrefum ofar við St James´s Street, á nr. 9, er John Lobb, sem hefur áratugum saman skóað brezku konungsfjölskylduna. Í búðarholunni er indæl leðurlykt og skóarar eru sýnilegir við vinnuna. Gert er trémót af fótum viðskiptavina og síðan eru skórnir auðvitað handunnir. Það kostar minnst GBP 150 á parið og tekur sex mánuði. En skórnir eiga líka að endast í áratug með réttu viðhaldi.

Næstu skref

Kæra hver annan

Punktar

Harkan í þjóðfélaginu er slík, að einn embættismaður kærir úrskurði annars. Í stað diplómatíu er kominn legalismi, sem eitrar samfélagið. Til dæmis rukkar Lánasjóður námsmanna erfingja manns, sem fyrir áratugum skrifaði upp á víxil. Sú rukkun er geðveiki. Vegamálastjóri er annar, ólíkur fyrirrennurum sínum, sem beittu diplómatíu í erfiðu hlutverki. Sá núverandi kann enga mannasiði, ræðst af hörku á þjóðargersemina Ómar Ragnarsson. Kærir Skipulagsstjóra fyrir óþægan úrskurð um Teigaskóg. Áður voru slík smámál leyst friðsamlega. En embættismenn nútímans kunna ekki mannleg samskipti og geggjast upp af gráðugum lagatæknum.

Urrað til málamynda

Punktar

Kosningar til þings Alþýðusambandsins eru í vændum. Yfirmenn þessarar deildar atvinnurekenda telja rétt að urra pínulítið. Vilja komast klakklaust gegnum þessar kosningar til að halda áfram að þjóna undir eigendur Íslands. Það eru atvinnurekendur, einkum kvótagreifar, sem reka tvo stjórnmálaflokka, þá sem nú mynda ríkisstjórn. Vinnslustöðvagreifar eiga svo hlut í öðrum þeirra, Framsókn. Kjaraviðræður Alþýðusambandsins við þessa aðila eru sýndarmennska, Forseti ASÍ deilir heimssýn með bófunum. Samstarfið er síðan grunnmúrað í lífeyrissjóðum og fjárfestingarfélögum þeirra. Urrið í ASÍ þessa dagana er helber sýndarmennska.

Vigdís hjólar í Sigurð

Punktar

Vigdís Hauksdóttir ætlar sér meiri hlut í pólitíkinni. Árásin á Sigurð Inga Jóhannsson samflokksráðherra er hennar stríðsyfirlýsing. Sigurður er haltrandi ráðherra, klúðraði ráðuneytisádrepu, síðan makríldeilu, svo Nærabergsmáli og loks núna Fiskistofumáli. Hann kann bara eitt, að tuddast áfram með hausinn niðri. Vígreif Vigdís telur tímabært að skipta út ráðherrum og fá konu inn, auðvitað hana sjálfa. Líklega hefur Sigmundur Davíð tjáð henni, að á því verði enn nokkur bið. Vigdís hefur því ákveðið að taka ofan silkihanzkana og fara að gera sig breiðari innanflokks. Hún ræður alveg við dýralækninn yfirgangssama.

Pútín sigurvegari

Punktar

Vopnahléð í suðausturhluta Úkraínu er nánast til málamynda, þótt það haldi enn að þessu sinni. Rússar geta hvenær sem er aukið þrýstinginn og sigrað. Fyrir Pútín er freistandi að ná strandlengjunni frá Rússlandi til Krímskaga, sem hann hertók í upphafi. Hann gortar af því að geta verið í Kænugarði eftir tveggja vikna herferð. Svo veikur er her Úkraínu. Niðurstaðan verður án efa, að Rússar halda þeim skákum, er þeir hafa náð á sitt vald í suðausturhorni landsins. Munu stofna þar leppríki eins og þeir gerðu áður í norðvesturhorni Georgíu. Pútín heillar kjósendur með því að berja stríðsbumbur og það eitt skiptir hann máli.

A. Feneyjar

Borgarrölt, Feneyjar
San Marco & Palazzo Ducale, Feneyjar 5

San Marco & Palazzo Ducale

Feneyjar eru einstæðar. Helzta umferðaræðin er stórfljót með röðum glæsihalla á bakkanum. Bátar eru farartæki allra vöruflutninga og almenningssamgangna. Að öðru leyti er umferðin fótgangandi. Engin hávaða- eða loftmengun er frá bílum, sem engir eru. Hressandi sjávarloftið í borginni fyllist ölduniði náttúrunnar og orðaniði mannlífsins. Streita nútímans á hér hvergi heima.

Þótt borgin sé orðin að safni um stórveldistíma liðinna alda, búa þar enn tugir þúsunda, um helmingur af því, sem mest var. Annað eins kemur af fólki af landi til starfa á morgnana og hverfur heim til sín á kvöldin. Þar við bætast ferðamennirnir. Feneyjar eru lifandi borg, þótt henni hafi hnignað á síðustu öldum. En hún er ekki fjörug, heldur bæði morgunsvæf og kvöldsvæf.

Borgin er samfellt listaverk og samfelld listasaga. Hver kirkja er full af dýrgripum gömlu meistaranna. Sumar gömlu hallirnar eru orðnar að listasöfnum og önnur að hótelum. Hún er full af veitingahúsum, sem bjóða gott sjávarfang úr Adríahafi. Hún er full af bátum, allt frá einærum gondólum yfir í hraðskreiða leigubáta. Hún er menningarsinnuðum ferðamanni samfelld slökun.

Sjá meira

Fækkar um Frosta

Punktar

Heldur fækkar í frækinni lest þingmanna Framsóknar, sem enn vill láta reisa ríkisvædda áburðarverksmiðju til að blása ungu fólki „von í brjósti“. Eins og segir í baráttuljóðinu: „Fram unga fólk undir Framsóknar merki, hér á þjóðin örugga von“. Fabrikkan á að kosta 120 milljarða og útvega 200 manns starf undir Framsóknar merki. Framlag þingmanna Framsóknar til atvinnumyndunar. Telja ríkið + skattgreiðendur svo ríka, að þeir geti kastað 600 milljónum á sérhvert starf. Verður dýrasta atvinnumyndun heims, eitt af heimsmetum Sigmundar Davíðs. En nú hefur Frosti Sigurjónsson séð ljósið og hlaupizt undan þessu Framsóknar merki.

13. Danmörk – Sórey & Ringsted

Borgarrölt
Sorø klosterkirke, Sjælland

Sorø klosterkirke

Við snúum til baka til Slagelse og finnum þar A1/E66, sem liggur til Kaupmannahafnar, um bæina Sórey og Ringsted. Fyrsti hlutinn, til Sórey, er 15 km. Við stönzum í borgarmiðju á Torvet, við hlið nunnuklaustursins og förum yfir götuna til að fá okkur síðbúið hádegissnarl í bakaríinu.

Síðan förum við um hliðið inn í stærstu nunnuklausturkirkju Danmerkur. Það er sistersíanskt og stofnað 1160-70 að undirlagi þjóðhetjunnar og erkibiskupsins Absalons, sem er grafinn að kórbaki eins og önnur þjóðhetja, Valdemar Atterdag, og nokkrir aðrir konungar.

Við röltum líka niður að vatninu í fögru umhverfi, sem hentar til gönguferða. Hluti garðsins, nálægt vatninu vinstra megin, er í enskum stíl.

Ringsted kirke, Sjælland

Ringsted kirke

Frá Sórey eru um 16 km sama veg til Ringsted. Þar ökum við til bæjarmiðju, þar sem Benedikts-reglu-kirkjan, helguð Sankt Bendt, leynir sér ekki. Hún er í rómönskum stíl, eitt allra fyrstu múrsteinshúsa Danmerkur. Gotneska ívafinu var bætt við eftir eldsvoða 1241. Í kirkjunni eru yfir 20 konungagrafir.

Nú snúum við bílnum síðustu 60 km til höfuðborgarinnar, Kaupmannahafnar, þar sem við hófum þessa ferð um sveitir, garða, þorp, bæi, kirkjur, söfn, hallir og kastala Danmerkur, um sögu hennar, rómantík hennar, “huggu” hennar.

Við erum reiðubúin að fara í aðra slíka ferð. Og við skiljum bókarefnið, Kaupmannahöfn, betur en áður.

Úti er ævintýri.

12. Danmörk – Kalundborg

Borgarrölt
Kalundborg kirke, Jylland

Kalundborg kirke

Næsta morgun förum við snemma á fætur til að ná 8-ferjunni frá höfninni til Kalundborg á Sjálandi. Við getum sleppt morgunverði á hótelinu, af því að við getum snætt hann í þriggja tíma rólegheitum um borð í ferjunni. Ef við eigum bókað, nægir okkur að leggja af stað frá hótelinu 7:30.

Sjáland

Þegar við erum komin í land í Kalundborg, ökum við beint upp hæðina að kirkjunni, þar sem við leggjum bílnum í Adelgade og virðum fyrir okkur gömlu húsin og kirkjuna við torgið. Kirkjan er býzönsk, reist 1170 í mynd fimm turna, sem hafa grískan kross að grunnplani. Þessi kirkja er byggingarlistalega séð einstök í sinni röð í Danmörku.

Trelleborg, Sjælland

Trelleborg

Á leiðinni úr bænum til Slagelse sýnir vegvísir leiðina til hægri, 4 km til hallarinnar Lerchenborg. Það er hlaðstíls-höll frá 1743-53 í stórum garði 20.000 rósa og fleiri blóma og trjáa.

Við höldum aftur út á aðalveginn og ökum áfram 38 km til Slagelse. Þegar þangað er komið, finnum við Korsör-veginn frá bæjarmiðju og skyggnumst um eftir vegvísi til hægri að Trelleborg. Þangað er 5 km krókur að afar undarlegu víkingavirki frá 1000-50.

Trelleborg er síki og aðalvirki, umlukt háum, hringlaga vegg. Á veggnum eru fjögur hlið, sem snúa til höfuðáttanna. Inni í virkinu eru minjar um sextán hús, reist eftir ströngu, flatarmálsfræðilegu mynztri. Fyrir utan hefur verið reist eftirlíking eins þessara húsa.

Ef menn telja víkinga ekki hafa orðið fyrir áhrifum rómverskrar verkfræði og nákvæmni, geta þeir skipt um skoðun hér. Eini munurinn er, að hin rómversku castra voru rétthyrnd, en Trelleborg er hringlaga.

Næstu skref